Jólakveðja frá Náttúrustofu Suðausturlands 2020
Náttúrustofa Suðausturlands sendir öllum samstarfsfélögum, vinum og velunnurum bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár.

Náttúrustofa Suðausturlands sendir öllum samstarfsfélögum, vinum og velunnurum bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár.
Náttúrustofa Suðausturlands boðar til vinnustofa um framtíð Skarðsfjarðar og Núpsstaðarskóga, en svæðin eru tilnefnd til að fara á B-hluta Náttúruminjaskrár sem þýðir að skoða eigi mögulega friðlýsingu þeirra á næstu 5 árum. Vinnan er hluti verkefnisins Náttúruvernd og efling byggða sem er liður í byggðaáætlun stjórnvalda sem standa fyrir sérstöku átaki í friðlýsingum.
Á fundunum verða skoðaðar ólíkar sviðsmyndir eftir því hvort svæðin verða friðlýst eður ei og rætt um möguleg tækifæri og ógnir.
Vegna Covid-19 fara fundirnir fram á netinu í gegnum Teams og til að tengjast þeim er smellt á hlekkinn við viðkomandi fund, 5-10 mínútum fyrir fundartíma.
Fundurinn um Skarðsfjörð verður haldinn þriðjudaginn 27. október frá 13:30-16:00 og er opinn öllum og hvetjum við sem flesta til að taka þátt. Ekki þarf að hafa aðgang að Teams né hlaða niður neinu forriti og slóðin á fundinn er
Fundurinn um Núpsstaðarskóga verður haldinn miðvikudaginn 28. október frá kl. 13:30- 16:00 og er opinn öllum og hvetjum við sem flesta til að taka þátt. Ekki þarf að hafa aðgang að Teams né hlaða niður neinu forriti og slóðin á fundinn er
Fundirnir eru einnig aulýstir á fésbók Náttúrustofu Suðausturlands og þar er hægt að tilkynna þátttöku.
Verkefninu bændur græða landið sumarið 2020 er lokið á Suðausturlandi, en það er samvinnuverkefni Landgræðslunnar og bænda um uppgræðslu heimalanda. Tilgangur þess er að styrkja bændur til landgræðslu á jörðum sínum, stöðva rof, þekja land gróðri og gera það nothæft á ný til landbúnaðar eða annarra nota. Starfsmaður á vegum Náttúrustofu Suðausturlands, Pálína Pálsdóttir, sem hefur aðsetur á Kirkjubæjarklaustri sá um verkefnið. Starfið fólst í heimsóknum til bænda í sveitarfélögunum Skaftárhreppi og Hornafirði en svæðið nær allt frá Mýrdalssandi og austur í Lón. Alls eru 35 bændur á svæðinu þátttakendur í verkefninu, 29 í Skaftárhreppi og 6 í Hornafirði.
Nánar má lesa sér til um verkefnið á landsvísu á vef Landgræðslunnar: https://land.is/baendur-graeda-landid/
Hér fyrir neðan má sjá myndir sem teknar á Hólmsáraurum en þar er unnið að uppgræðslu á vegum Landbótasjóðs og verkefnisins “Bændur græða landið”. Myndirnar eru teknar af Garðari Þorfinnssyni héraðsfulltrúa Landgræðslunnar.
Innslag bresku fréttastofunnar Sky news þann 10. september 2020 fjallaði um loftslagsmál og afleiðingar hnattrænnar hlýnunar. Í brennidepli var bráðnun jökla og var fjallað um hana frá Breiðamerkurjökli. Rætt var við fimm Íslendinga um áhrif bráðnunar jökla, í eftirfarandi röð; Snævarr Guðmundsson hjá Náttúrustofu Suðausturlands, Hauk Inga Einarsson leiðsögumann hjá Glacier Adventures, Andra Gunnarsson hjá Landsvirkjun, Kristján Davíðsson hjá sjávarútvegsfyrirtækinu Brim og Guðmund Inga Guðbrandsson umhverfisráðherra. Hér má sjá innslagið en það er 7:45 mín langt. Fréttin var látin ganga allan daginn (nálgast má fréttina hér) og um kvöldið var um klukkustundar langur umræðuþáttur um loftslagsbreytingar þar sem fréttin frá Breiðamerkurjökli var inngangskafli. Verður ekki annað sagt en að Ísland og Breiðamerkurjökull hafi fengið gríðargóða kynningu í þetta sinn.
Dagana 13.-15. júlí tók Náttúrustofa Suðausturlands þátt í helsingjamerkingum í Vestur- og Austur-Skaftafellssýslum, en verkefninu er stýrt af Arnóri Þóri Sigfússyni dýravistfræðingi hjá Verkís.
Þetta var fjórða sumarið í röð þar sem helsingjar eru merktir á Breiðamerkursandi en í ár voru í fyrsta skipti settir sendar á nokkra fugla sem gerir kleift að fylgjast nákvæmlega með ferðum þeirra. Settir voru GSM/GPS-sendar á fimm helsingja, einn á Álftaversafrétti í Vestur-Skaftafellssýslu (gassinn Guðmundur) og fjóra á Breiðamerkursandi í Austur-Skaftafellssýslu (þrjár gæsir: Eivör, Guðrún og Stefanía og einn gassi: Sæmundur). Sendarnir notast við símkerfi og berast upplýsingar um staðsetningu fuglanna tvisvar sinnum á sólarhring og veita því ítarlegar upplýsingar um ferðir þeirra. Slíkar upplýsingar eru því afar dýrmætar til að skilja betur lífshætti helsingja. Sendarnir eru nokkuð dýrir og nauðsynlegt að leita styrkja til að fjármagna sérstaklega slíkar rannsóknir. Náttúrustofan aðstoðaði við safna styrkjum og fékk styrk fyrir tveimur sendum, annan frá Búnaðarsambandi Austur-Skaftafellssýslu og hinn frá Sveitarfélaginu Hornafirði. Við hjá stofunni, sem og allir sem koma að merkingunum, kunnum þeim hinar bestu þakkir fyrir. Allir sem styrkja sendi fá að velja nafn fuglsins og völdu Búnaðarsamtökin nafnið Eivör og Sveitarfélagið valdi nafnið Sæmundur (sjá myndir).
Alls voru merktir um 370 helsingjar í ár. Hver fugl sem næst fær lítið stálmerki á vinstri fót með nokkurs konar kennitölu, en fullorðnir fuglar fengu einnig litmerki á hægri fót og voru merki ársins í ár gul með tveimur svörtum bókstöfum. Það sem einkennir litmerki sem sett eru á helsingja merkta á Íslandi frá helsingjum merktum annars staða er óbrotin lína sem aðgreinir stafina tvo. Við hvetjum fólk sem sér merkta fugla, eða veiðimenn, að senda upplýsingar um hvar og hvenær fuglinn sást til Náttúrufræðistofnunnar á netfangið fuglamerki@ni.is.
Vatnajökulsþjóðgarður lagði til starfsfólk og einnig komu sjálfboðar til merkinganna og fá allir þessir aðilar kærar þakkir fyrir vel unnið verk.
Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands um ástandsmat á beitarlandi á Kvískerjum í Öræfum 2018. Verkefnið var styrkt af Atvinnu- og rannsóknarsjóði Sveitarfélagins Hornafjarðar 2018 og samstarfsaðilar voru landeigendur á Kvískerjum. Var skýrslan unnin veturinn 2018-2019 og vorið 2020.
Helstu niðurstöður ástandsmatsins á Kvískerjum árið 2018 sýna að ástand gróðurs er sæmilegt. Á skalanum 0 til 5, þar sem 0 er best, er tíðasta einkunn allra matsvæða 2. Gróðurþekjan er nánast heil eða í jafnvægi. Jarðvegur frekar stöðugur og rofabörð ekki útbreidd, en þó til staðar á nokkrum stöðum. Sina er frekar lítil og uppskera er ekki mikil. Hafa skal í huga að landið ber augljós ummerki jöklalandslags. Framhlaup og hopun skriðjökla ásamt óbeisluðum jökulám hefur mótað landið síðustu árþúsund, sem útskýrir litla uppsöfnun jarðvegs. Með áframhaldandi frið frá náttúruöflum og hóflegri beit er landið líklegast í framför.
Skýrsluna í heild sinni má sjá á vef Náttúrustofu Suðausturlands nattsa.is undir útgefið efni eða hér.
Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands, þar sem greint er frá ljósmælingum á völdum myrkvatvístirnum og fjarreikistjörnum, sem flestar voru gerðar frá Hornafirði árið 2019. Á eftir inngangi til þess að útskýra bakgrunn mælinganna, er sagt frá ljósmælingum á myrkvatvístirnunum 473 Cam, OT UMa, GY Psc, V 801 And og V 712 And, auk þekktu myrkvastjörnunnar Algol. Í þessum verkefnum er eitt markmiða að tímasetja myrkvana og bera saman við viðurkennda spátíma. Mælingar og spátímar falla oft ekki saman. Í þéttstæðum kerfum getur lengd birtulotunnar breyst, m.a. vegna massaflutnings á milli stjarnanna. Athuganirnar nýtast því til að prófa viðurkennda birtulotu og viðmiðstíma, kanna stöðugleika myrkvatvístirnanna og gera líkön af þeim. Viðmiðstímar flestra þeirra sem voru kannaðar reyndust úreltir.
Næst er greint frá mælingum á þvergöngum fjarreikistjarnanna WASP 12b, HAT-P-9b, XO-6b, HAT-P-19b, Qatar 4b, Qatar 1b, HAT-P-53b, WASP 33b og HAT-P-38b. Þær mælingar upplýsa myrkvadýpt, lengd þvergöngu og tímafrávik. Niðurstöður á myrkvastjörnum og þvergöngum fjarreikistjarna eru sendar í alþjóðlegan gagnagrunn stjörnufræðifélags Tékklands þar sem að þau eru aðgengileg stjarnvísindasamfélaginu, ásamt mæligögnum annarra stjörnufræðinga og stjörnuáhugamanna. Vöktun á þessum stjörnum gerir kleift að meta tímafrávik sem benda til óreglu í umferðartíma eða eru vísbendingar um áhrif óséðra massa á kerfin.
Í þriðja hluta er kynnt fjarlægðarmæling á lausþyrpingunni NGC 7654 (Messier 52) og að lokum litrófsmælingar með rauflausum litrófsrita á nokkrum breytistjörnum. Að vanda er sagt sérstaklega frá hverju viðfangsefni, hvers eðlis það er, hvaða mæligagna var aflað, úrvinnslu og er niðurstöðum lýst.
Þetta er fjórða skýrslan um stjarnfræðilegar mælingar sem Náttúrustofa Suðausturlands gefur út. Fyrri skýrslur komu út árin 2016, 2018 og 2019. Þær eru aðgengilegar á https://nattsa.is/utgefid-efni/. Markmið þeirra er að birta stjarnfræðilegar mælingar sem eru að öllu leyti framkvæmdar hér á landi. Hægt er að nálgast skýrsluna hér.
Ársskýrsla Náttúrustofu Suðausturlands fyrir árið 2019 er komin á netið. Hægt er að nálgast skýrsluna hér og myndrænni framsetningu má sjá hér.
Ársfundur stofunnar var haldinn í Nýheimum á Höfn að kvöldi 17. mars og í ljósi samkomubanns var ákveðið að streyma fundinum einnig inn á Facebook stofunnar.
Þar má nú sjá ársfundinn og erindin tvö sem voru flutt að loknum venjubundnum fundi. Erindi Snævarrs Guðmundssonar og Lilju Jóhannesdóttur má sjá hér og ársfundarerindi Matthildar Ásmundardóttur og Kristínar Hermannsdóttur er að finna hér.
Tekin hefur verið ákvörðun um að fresta fyrirhuguðum vinnufundum um Núpsstaðaskóga og Skarðsfjörð sem áttu að fara fram 23. og 24. mars. Ekki er talið forsvaranlegt að kalla fólk saman til skrafs og ráðagerða á þeim tímum sem varað er við samkomum og samvistum með mikilli nálægð. Fundirnir verða auglýstir á ný, um leið og tækifæri gefst.
Ársfundur Náttúrustofu Suðausturlands verður þó haldinn, þriðjudaginn 17. mars kl. 20:00 í Nýheimum á Höfn, en slíkur fundur fellur ekki undir varúrðarreglur yfirvalda, því hægt er að halda tveggja metra fjarlægð þar. Fundinum verður streymt á Facebook síðu stofunnar og verður því aðgengilegur öllum sem vilja.
Hér er krækja á síðuna: https://www.facebook.com/natturustofasudausturlands/
Ársfundur Náttúrustofu Suðausturlands ses. verður haldinn í Nýheimum á Höfn þriðjudaginn 17. mars 2020 kl. 20:00
Að loknum venjubundnum fundarstörfum halda starfsmenn stofunnar tvö erindi úr starfinu.
Kaffi, te og veitingar í hléi.
Allir velkomnir og hvattir til að mæta, en einnig er stefnt af því að streyma frá fundinum á fésbók stofunnar.
Stjórnin
© 2021 Náttúrustofa Suðausturlands | KT: 440213-0490 | Litlubrú 2 | 780 Höfn í Hornafirði | Sími: 470 8060 | Netfang: info@nattsa.is | Vefur: DIMMS