Opnun jöklavefsjár

Náttúrustofan tók þátt í að útbúa nýja og glæsilega jöklavefsjá en sunnudaginn 20. mars verður hún kynnt í stjörnuveri Perlunnar í Reykjavík og hvetjum við áhugasama að kíkja við. Helgi Björnsson og Oddur Sigurðsson jöklafræðingar munu opna vefsjána en auk þeirra munu sérfræðingar Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar Háskólans og Landsvirkjunar fjalla um jöklamælingar, sýna ljósmyndir af jöklum og fara yfir virkni vefsjárinnar og gögn sem hún sýnir. Að kynningum loknum mun Hilmar Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands bjóða gestum á sýningu safnsins, Vatnið í náttúru Íslands, og sérsýningu um sögu Jöklarannsóknafélagsins.

Lesa meira

Ársskýrsla Náttúrustofu Suðausturlands 2020 og upptökur frá ársfundi

Ársskýrsla Náttúrustofu Suðausturlands fyrir árið 2020 er komin á netið.  Hægt er að nálgast skýrsluna hér.

Ársfundur stofunnar var haldinn með rafrænum hætti að kvöldi 21. apríl og voru erindi sem þar voru flutt tekin upp.

Hér er hægt að sjá erindin þrjú sem voru flutt að loknum venjubundnum fundi og einnig upptöku af ársfundinum.

Pálína Pálsdóttir sagði frá verkefninu  Grógos – geta gróðurs til að þola ágang gosefna

Rannveig Ólafsdóttir kynni verkefnið – Kolefnisforði og CO2 flæði úr jarðvegi

og Lilja Jóhannesdóttir sagði frá verkefninu – Náttúruvernd og byggðaþróun.

Rögnvaldur Ólafsson flutti skýrslu stjórnar og Kristín Hermannsdóttir fór yfir reikninga, verkefni stofunnar og starfsáætlun ársins 2021.

 

Náttúruvernd og efling byggðar – vinnustofur um Skarðsfjörð og Núpsstaðarskóga – Netfundir

Náttúrustofa Suðausturlands boðar til vinnustofa um framtíð Skarðsfjarðar og Núpsstaðarskóga, en svæðin eru tilnefnd til að fara á B-hluta Náttúruminjaskrár sem þýðir að skoða eigi mögulega friðlýsingu þeirra á næstu 5 árum. Vinnan er hluti verkefnisins Náttúruvernd og efling byggða sem er liður í byggðaáætlun stjórnvalda sem standa fyrir sérstöku átaki í friðlýsingum.

Á fundunum verða skoðaðar ólíkar sviðsmyndir eftir því hvort svæðin verða friðlýst eður ei og rætt um möguleg tækifæri og ógnir.

Vegna Covid-19 fara fundirnir fram á netinu í gegnum Teams og til að tengjast þeim er smellt á hlekkinn við viðkomandi fund, 5-10 mínútum fyrir fundartíma.

Fundurinn um Skarðsfjörð verður haldinn þriðjudaginn 27. október frá 13:30-16:00 og er opinn öllum og hvetjum við sem flesta til að taka þátt. Ekki þarf að hafa aðgang að Teams né hlaða niður neinu forriti og slóðin á fundinn er

Fundurinn um Núpsstaðarskóga verður haldinn miðvikudaginn 28. október frá kl. 13:30- 16:00 og er opinn öllum og hvetjum við sem flesta til að taka þátt. Ekki þarf að hafa aðgang að Teams né hlaða niður neinu forriti og slóðin á fundinn er

Fundirnir eru einnig aulýstir á fésbók Náttúrustofu Suðausturlands og þar er hægt að tilkynna þátttöku.

Fjólublár litur markar svæðin sem mögulega stendur til að friðlýsa samkvæmt kortasjá Náttúrufræðistofnunnar Íslands.

Sky news fjalla um loftslagsbreytingar frá Breiðamerkurjökli

Innslag bresku fréttastofunnar Sky news þann 10. september 2020 fjallaði um loftslagsmál og afleiðingar hnattrænnar hlýnunar. Í brennidepli var bráðnun jökla og var fjallað um hana frá Breiðamerkurjökli. Rætt var við fimm Íslendinga um áhrif bráðnunar jökla, í eftirfarandi röð; Snævarr Guðmundsson hjá Náttúrustofu Suðausturlands, Hauk Inga Einarsson leiðsögumann hjá Glacier Adventures, Andra Gunnarsson hjá Landsvirkjun, Kristján Davíðsson hjá sjávarútvegsfyrirtækinu Brim og Guðmund Inga Guðbrandsson umhverfisráðherra. Hér má sjá innslagið en það er 7:45 mín langt. Fréttin var látin ganga allan daginn (nálgast má fréttina hér) og um kvöldið var um klukkustundar langur umræðuþáttur um loftslagsbreytingar þar sem fréttin frá Breiðamerkurjökli var inngangskafli. Verður ekki annað sagt en að Ísland og Breiðamerkurjökull hafi fengið gríðargóða kynningu í þetta sinn.

Breiðamerkurjökull, 8. sept. 2020. Ljósm. Snævarr Guðmundsson.
Fréttaskots aflað á jökli en skammt frá fossar vatn úr ísgöngum. LJósm. SNævarr Guðmundsson, 8. sept 2020.

Ársfundur Náttúrustofu Suðausturlands 2020

Ársfundur Náttúrustofu Suðausturlands ses. verður haldinn í Nýheimum á Höfn þriðjudaginn 17. mars 2020  kl. 20:00

Að loknum venjubundnum fundarstörfum halda starfsmenn stofunnar tvö erindi úr starfinu.

  • Jaðarlón við sunnaverðan Vatnajökul: Snævarr Guðmundsson.
  • Staða skúmsins á Suðausturlandi: Lilja Jóhannesdóttir.

Kaffi, te og veitingar í hléi.

Allir velkomnir og hvattir til að mæta, en einnig er stefnt af því að streyma frá fundinum á fésbók stofunnar.                                            

Stjórnin

Náttúruvernd og efling byggðar – vinnustofur um Núpsstaðarskóga og Skarðsfjörð

Náttúrustofa Suðausturlands boðar til vinnustofa um framtíð Skarðsfjarðar og Núpsstaðarskóga, en svæðin eru á B-hluta Náttúruminjaskrár sem þýðir að skoða eiga mögulega friðlýsingu þeirra á næstu 5 árum. Vinnan er hluti verkefnisins Náttúruvernd og efling byggða sem er liður í byggðaáætlun stjórnvalda sem standa fyrir sérstöku átaki í friðlýsingum.

Á fundunum verða skoðaðar ólíkar sviðsmyndir eftir því hvort svæðin verða friðlýst eður ei og rætt um möguleg tækifæri og ógnir.

Fundurinn um Núpsstaðarskóga fer fram á Kirkjubæjarstofu frá 13:30-16:00 mánudaginn 23. mars 2020.

Fundurinn um Skarðsfjörð fer fram í Nýheimum frá 13:30-16:00 þriðjudaginn 24. mars 2020.

Fundirnir eru opnir öllum og skráning fer fram á netfanginu kristin@nattsa.is eða í síma 863 4473 til og með mánudeginum 16. mars.


Fjólublár litur markar svæðin sem mögulega stendur til að friðlýsa samkvæmt kortasjá Náttúrufræðistofnunnar Íslands.

Tjarnarsýn – ljósmyndasýning

Föstudaginn 10. janúar opnar ljósmyndasýning í bókasafni Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar sem haldin er á vegum Náttúrustofu Suðausturlands og er að hluta styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurlands. Sýningin er hliðarafurð rannsóknar sem farið fram hefur síðustu tvö ár á fuglalífi á og við tjarnir í Sveitarfélaginu Hornafirði en myndirnar eru allar teknar með flygildi.

Tjarnir og vötn eru sérstök búsvæði og mynda oft keðju af lífríkum svæðum frá fjöru til fjalla. Talið er að á Íslandi séu um 7000 smávötn og tjarnir á stærðarbilinu 1-10 ha og 1841 stærri en 10 ha. Dýralíf tjarna og smávatna er oft mjög auðugt og  vaxtartímabil lífvera þar er oft stutt. Því fer stærstur hluti framleiðslu slíkra búsvæða fram á stuttu tímabili yfir sumarið sem endurspeglast í miklum fjölda dýra á þeim tíma. Tjarnir, vötn og votlendi eru mikilvæg búsvæði fyrir stóran hluta íslenskra fuglategunda en um 70% varptegunda nýta ferskvatnsvotlendi og tjarnir að einhverju marki og 40% eru algerlega bundnar slíkum svæðum til varps eða fæðuöflunar á varptíma. Víða í Sveitarfélaginu Hornafirði má finna vötn og tjarnir enda votlendi víða. Tjarnir og smávötn eru nátengd votlendi og í sameiningu hafa þessi tvö búsvæði mikil áhrif á viðstöðu og hringrás vatns, uppsöfnun og losun næringarefna og eru því mikilvæg fyrir aðliggjandi búsvæði sem uppspretta orku og næringarefna.

Umhverfi og útlit tjarna og vatna eru margbreytileg. Eðlisþættir svo sem dýpi, næringargildi, tærleiki, sýrustig og fleira hefur áhrif á gerð tjarna og vatna og mótar lífríkið sem þar þrífst. Einnig hafa aðliggjandi búsvæði, lengd frá sjó, ákoma næringarefna, landsvæði og fleira mikil áhrif. Þessari sýningu er ætlað að fanga þennan breytileika. Tjarnir eru ekki eilífar og breytast með tímanum út frá grunnvatnsstöðu, áfoki, írennsli og afrennsli auk annarra lífrænna og ólífrænna þátta. Þessu verkefni var ætlað að skrásetja stöðuna sumarið 2019. Með tímanum má endurtaka verkefnið og sjá myndrænt þær breytingar sem verða á næstu áratugum.

Við bjóðum alla hjartanlega velkomna á opnun sýningarinnar klukkan 16:00 næstkomandi föstudag. Í boði verða léttar veitingar. Sýningin, sem er sölusýning, mun verða uppi næstu 6 vikur og hægt að sjá hana á opnunartíma bókasafnsins. Myndirnar á sýningunni eru teknar af dr. Lilju Jóhannesdóttur, vistfræðings Náttúrustofunnar.

 Lítil tjörn rétt við Eskey á Mýrum. Er myndin hluti af sýningunni.
Lítil tjörn rétt við Eskey á Mýrum. Er myndin hluti af sýningunni.