Færslur

Árið 2025 verður alþjóðaár jökla

 

Laugardaginn 17. ágúst 2024 var haldin viðburðaröð á vegum Rice háskóla, Jöklarannsóknafélags Íslands, Náttúruminjasafns Íslands, Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, Alþjóðlegu jöklavöktunarsamtakanna (World Glacier Monitoring Service, WGMS) og Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO), þar sem vakin var athygli á jöklum sem hafa horfið á undanförnum áratugum eða eru að hverfa. Viðburðaröðin helgast af því að Sameinuðu þjóðirnar ákváðu fyrir stuttu að árið 2025 yrði alþjóðaár jökla og að 21. mars verði eftirleiðis dagur jökla.

Hörfun jökla er að gerast alls staðar á jörðinni og birtist sem beisk táknmynd hinna hröðu loftslagsbreytinga sem nú eiga sér stað. Til þess að undirstrika hremmingarnar var á viðburðaröðinni settur upp eins konar „grafreitur“ þar sem að heiti 15 valinna jökla, sem eru horfnir eða á hverfanda hveli, voru skráð á legsteina úr ís. Þeir höfðu verið skornir út af myndhöggvaranum Ottó Magnússyni. Þessir jöklar eru staðsettir víðs vegar á jörðinni og er einn þeirra á Íslandi. Frásagnir og lýsingar á þessum völdu jöklum má finna á vefsíðunni Global Glacier Casualty List. Á meðal jökla á válista er Hofsjökull eystri á suðausturlandi. Frásögnin af honum var tekin saman og rituð af Snævari Guðmundssyni hjá Náttúrustofu Suðausturlands.

Þrándarjökull (fremst), Hofsjökull eystri (ofar til vinstri) og í fjarska er Vatnajökull. Ljósm. Snævarr Guðmundsson, 9. september, 2021.

Þrándarjökull (fremst), Hofsjökull eystri (ofar til vinstri) og í fjarska er Vatnajökull. Ljósm. Snævarr Guðmundsson, 9. september, 2021.

 

Þolmarkarannsókn á Breiðamerkursandi

Náttúrustofa Suðausturlands og Nýheimar Þekkingarsetur vinna nú að rannsókn á þolmörkum við Jökulsárlón og á Breiðamerkursandi. Er þetta samstarfsverkefni unnið fyrir Vatnajökulsþjóðgarð með aðkomu Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði, annarra fagstofnana og sérfræðinga Vatnajökulsþjóðgarðs. Verkefnið hófst í ágúst 2021 og hefur verið unnið að gagnaöflum og samráði við sérfræðinga. Áætluð verklok eru lok árs 2022 með skýrsluskrifum og þar verður sett fram aðgerðaráætlun. Verkefnastjóri er Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir. Lesa meira