Fiðrildavöktun 2021 á Suðausturlandi

Náttúrustofan rekur fjórar fiðrildagildur í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands og Fuglaathugunarstöð Suðausturlands. Gildurnar eru á Mýrum í Álftaveri, í Mörtungu á Síðu og tvær í Einarslundi við Hornafjörð. Þær eru settar upp um miðjan apríl og teknar niður í byrjun nóvember ár hvert en tæmdar vikulega. Í gildrurnar við Einarslund komu þetta árið 2.447 fiðrildi og 475 vorflugur í aðra gildruna og 2.945 fiðrildi og 881 vorflugur í hina. Það er töluverð aukning frá fyrr ári og hefur heildarfjöldi veiddra fiðrilda í Einarslundi aldrei verið hærri. Heildarfjöldi fiðrildategunda var 29 og heildarfjöldi vorflugutegunda var 9. Þar var barrvefari (Zeiraphera griseana) algengasta fiðrildategundin og sitrubytta (Limnephilus sparsus) algengasta vorflugan. Í Mörtungu veiddust í heildina 2.231 fiðrildi og 198 vorflugur. Gífurleg fækkun var á heildarfjölda fiðrilda frá árinu á undan (13.544) en tölur þessa árs eru í ágætum takti við fyrri mælingar. Heildarfjöldi fiðrildategunda í Mörtungu var 30 og heildarfjöldi vorflugu tegunda var 8. Þar var jarðygla algengasta fiðrildategundin en sitrubytta algengasta vorflugan líkt og í Einarslundi. Rekstur fiðrildagildrunnar á Mýrum gekk  brösuglega síðastliðið ár vegna rafmagns- og ljósaperu vandamála. Lesa meira

Þolmarkarannsókn á Breiðamerkursandi

Náttúrustofa Suðausturlands og Nýheimar Þekkingarsetur vinna nú að rannsókn á þolmörkum við Jökulsárlón og á Breiðamerkursandi. Er þetta samstarfsverkefni unnið fyrir Vatnajökulsþjóðgarð með aðkomu Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði, annarra fagstofnana og sérfræðinga Vatnajökulsþjóðgarðs. Verkefnið hófst í ágúst 2021 og hefur verið unnið að gagnaöflum og samráði við sérfræðinga. Áætluð verklok eru lok árs 2022 með skýrsluskrifum og þar verður sett fram aðgerðaráætlun. Verkefnastjóri er Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir. Lesa meira

Helsingjaungi á Mýrum

Helsingjamerkingar 2021 – gæs og gassi nefnd í höfuð Kvískerjasystkina

Um miðjan júli tók Náttúrustofa Suðausturlands þátt í helsingjamerkingum í Vestur- og Austur-Skaftafellssýslum, en verkefninu er sem áður stýrt af Arnóri Þóri Sigfússyni dýravistfræðingi hjá Verkís.

Þetta er fimmta árið í röð sem helsingjar eru merktir á starfsvæði stofunnar og líkt og síðasta ár voru sett staðsetningatæki á nokkra fugla. Það gerir rannsakendum kleift að fylgjast nákvæmlega með ferðum fuglana og fá betri innsýn í hvernig þeir haga lífi sínu. Settir voru GSM/GPS-sendar á fjóra helsingja, tvo á Breiðamerkursandi í Austur-Skaftafellssýslu (gæsin Guðrún eldri og gassinn Hálfdán) og tvo á Álftaversafrétti í Vestur-Skaftafellssýslu (gassarnir Laki og Hallmundur). Sendarnir eru nokkuð dýrir og því var leitað styrkja til að fjármagna þá sérstaklega. Kvískerjsjóður veitti styrk fyrir tveimur sendum sem settir voru á fugla sem náðust nærri Kvískerjum og ákveðið var að nefna fuglana tvo eftir þeim systkinum Guðrúnu eldri og Hálfdáni. Skaftárhreppur styrkti kaup á einum sendi og hlaut fuglinn sem fékk hann nafnið Laki. Síðasti sendirinn var styrktur af einkaaðila og fékk sá að launum að fuglinn sem ber hann er nefndur Hallmundur í höfuð viðkomandi. Allir sem koma að merkingunum kunna styrktaraðilum hinar bestu þakkir fyrir.

Arnór með annan GPS merkta helsingjann

Mynd 1 – Arnór Þórir Sigfússon með gæsina Guðrúnu eldri að nýlokinni ásetningu staðsetningarbúnaðs. Þau voru þó ekki að hittast í fyrsta sinn því hann merkti hana fyrir tveimur árum sem sagði okkur það að hún væri reynslubolti (búin að ná að lifa af í alla vega þrjú ár) og því vænlegt að setja á hana sendi. Sendirinn sem hún fékk var styrktur af Kvískerjasjóði en hún heitir einmitt í höfuðið á Guðrúnu eldri frá Kvískerjum.

Elín Erla með annan GPS merktan helsingja.

Mynd 2 – Elín Erla Káradóttir, starfsmaður stofunnar, með gassann Hálfdán sem nýbúinn var að fá staðsetningartæki. Glöggir taka eftir að hann fékk litmerkið O-HB (O fyrir appelsínugulan og HB fyrir Hálfdán Björnsson). Við vonum að Hálfdáni farnist vel í komandi ævintýrum.

 

Ferðir Háldáns fyrst eftir merkingu.

Mynd 3 – Hér má sjá hvernig Hálfdán ferðaðist fyrstu dagana eftir merkingu.

Bættist þá í hóp fugla með staðsetningartæki en síðastliðið sumar fengu fuglarnir Guðmundur, Guðrún, Stefanía, Eivör og Sæmundur senda um hálsa sína. Þann 29. júlí í sumar komu hins vegar í ljós sterkar vísbendingar að helsinginn Sæmundur væri allur þar sem hann var hafði verið kyrr á sama stað í nokkurn tíma. Sendur var út leitarflokkur sem staðfesti grunsemdirnar, ekki er fullljóst hvað varð honum að aldurtila en skúmur og tófa liggja bæði undir grun. Sendirinn hefur þó ekki lokið hlutverki sínu heldur verður hann endurnýttur á Sæmund II næsta sumar.

Sæmundur allur

Mynd 5 – Hinsti hvílustaður Sæmundar (reyndar er það ekki rétt því leifar hans voru teknar til rannsókna) nærri Breiðabólsstaðarlóni.

Við merkingarnar er fuglunum smalað saman í rétt og merktir með litmerki og stálmerki á fæturna. Litmerkin í ár voru gul og appelsínugul. Það er frekar auðvelt að smala fuglum á þeim tíma sumarsins þegar þeir eru í sárum, en það er þegar þeir  skipta þeir út gömlum flugfjöðrum fyrir nýjar. Í sumar voru fyrsta sinn fuglar merktir á Mýrum sem er talsvert austar en merkt hefur verið hingað til. Það verður spennandi að sjá hvort fuglar sem verpa austar sýni aðra hegðun en þeir sem eru vestar. Alls voru merktir um 625 helsingjar í ár á öllu Suðausturlandi og verður spennandi að sjá hvar þeir koma fram í vetur og næsta sumar. Við hvetjum fólk sem sér merkta fugla, eða veiðimenn, að senda upplýsingar um hvar og hvenær fuglinn sást til Náttúrufræðistofnunnar á netfangið fuglamerki@ni.is.

Merkingarnar í sumar gengu einkar vel enda hópurinn sem kemur að þeim orðinn þrautþjálfaður. Við þökkum öllum þeim sem aðstoðuðu við merkingarnar, bæði sjálfboðaliðum sem og starfsfólki Vatnajökulsþjóðgarðar og hlökkum til næsta árs.

Merkingarhópurinn einn daginn í sumar.

Mynd 6 – Helsingjamerkingarhópurinn glaðbeittur við Stemmulón eftir vel heppnaðar veiðar þann 12. júlí 2021.

Helsingjaungi vorið 2020

Varpútbreiðsla helsingja á Suðausturlandi 2019 og 2020

Nú eru komin á netið tvö minnisblöð frá kortlagningu varpútbreiðslu helsingja síðustu tveggja sumra. Helsingi er tiltölulega nýr varpfugl á Íslandi og er aðalvarpútbreiðsla hans í Skaftafellssýslum og höfum við á Náttúrustofunni lagt áherslu á að fylgjast náið með framvindunni. Heildstæð hreiðurtalning fór fram í fyrsta skipti árið 2019 sem var samstarfsverkefni Náttúrustofu Suðausturlands og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Verkefnið var styrkt af Vinum Vatnajökuls og kunnum við samtökunum bestu þakkir. Alls fundust 2051 helsingjahreiður í úttektinni, 1760 hreiður í Austur-Skaftafellssýslu og 292 í Vestur-Skaftafellssýslu.

Sumarið 2020 var kortlagningin unnin í tengslum við AEWA (African – Eurasian Migratory Waterbird Agreement) og EGMIWG (European Goose Management International Working Group) en verkefnið er í samvinna við Breta og Íra um vöktun íslenska varpstofnsins og þess grænlenska. Samkvæmt rannsóknaáætlun á að meta íslenska varpstofninn sömu ár og heildartalning fer fram á vetrarstöðvum á Bretlandseyjum, þ.e. 2020, 2023 og 2026. Sumarið 2020 fundust í heild 2493 helsingjahreiður í Skaftafellssýslum, 421 í Vestur-Skaftafellssýslu og 2072 í Austur-Skaftafellssýslu. Vitað er að helsingjastofninn verpur víðar í litlum mæli og því er stofnmat helsingja á Íslandi 2500 varpör vorið 2020, auk geldfugla. Fjöldi geldfugla er áætlaður frá hlutfalli geldfugla í vörpum þar sem heildartalning er möguleg. Út frá því og fjölda varppara er metið að stofnstærð íslenskra helsingja árið 2019 hafi verið um 9000 fuglar (geldfugl 54,3%) og 2020 um 11.600 fuglar (geldfugl 57,4%). Heildartalning Grænlandsstofns (þ.m.t. íslenski varpstofninn) á vetrarstöðvum í mars 2020 gaf 73.391 fugl en ef marka má heildarstofnmat á Íslandi sama vor þá er hlutdeild íslenskra helsingja orðin 15,8% (var um 12,5% 2019).

Þetta og meira má lesa í minnisblöðunum sem finna má hér fyrir árið 2019 og hér fyrir árið 2020.

Farvegir Jökulsár á Breiðamerkursandi

Í nýjasta hefti Jökuls (nr 70), ársriti Jöklarannsóknafélags Íslands, er grein eftir Snævarr Guðmundsson á Náttúrustofu Suðausturlands og Helga Björnsson jöklafræðing á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, þar sem dreginn er saman fróðleikur um farvegi Jökulsár á Breiðamerkursandi og kynnt kort sem sýnir hvar áin rann á ýmsum tímum á 19. og 20. öld. Jökulsá á Breiðamerkursandi er á meðal vatnsmestu vatnsfalla á Íslandi, og á meðan sandar á Suðausturlandi voru einungis reiðfærir og stórvötn öll óbrúuð, þótti hún á meðal illfærustu straumvatna landsins. Áður en áin gróf sig í stöðugan stokk á fjórða áratug 20. aldar átti hún til að flæmast um á sandinum, ýmist í mörgum álum eða falla fram í fáum straummiklum kvíslum. Sumir hinna gömlu farvega sjást enn báðum megin við núverandi farveg Jökulsár. Með nákvæmum kortum af Breiðamerkursandi má rekja legu þeirra víða um sandinn og út frá rituðum heimildum hvenær áin rann í þeim. Ágrip af greininni má sjá hér.

 

Varpútbreiðsla skúms í Ingólfshöfða, Salthöfða og á Skeiðarársandi sumarið 2019

Nú er kominn út önnur skýrsla á skömmum tíma um skúm út hjá Náttúrustofunni en þessi skýrsla segir frá varpútbreiðslu skúms í Ingólfshöfða, Salthöfða og á Skeiðarársandi sumarið 2019. Í kjölfar kortlagningar á varpútbreiðslu skúms á Breiðamerkursandi sumarið 2018 sem unnin var við stofuna í samstarfi við Fuglaathugunarstöð Suðausturlands og sýndi fram á mikla fækkun var ákveðið að skoða önnur skúmsvörp á nálægum svæðum. Kortlagningin sumarið 2019 sýndi fram á að fjöldabreyting á varppörum er breytileg á milli svæða, talsverð fækkun hefur átt sér stað á Skeiðarársandi en hins vegar fjölgun í Ingólfshöfða. Nánari upplýsingar má lesa í skýrslunni hérna.

 

Varpárangur skúms á Breiðamerkursandi og í Öræfum sumarið 2019

Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands sem greinir frá mælingum á varpárangri skúms á Breiðamerkursandi og í Öræfum sumarið 2019. Skúmi hefur verið að fækka á Íslandi og taldar líkur á að slæmur varpárangur eigi að hluta til þátt í því. Metinn var varpárangur 30 hreiðra á Breiðamerkursandi og í Öræfum og af þeim hreiðrum klöktust egg úr 24 og ungar lifðu í alla vega 18 daga úr 14 hreiðrum. Þetta gaf að í heild voru 49% líkur á að skúmur næði að klekja eggi og unginn lifði að minnsta kosti í 18 daga. Samanborið við rannsóknir á klakárangri í Noregi og Skotlandi er árangurinn á Breiðamerkursandi og í Öræfum nokkuð verri en þegar lifun unga er borin við tölur frá Noregi eru lífslíkur svipaðar. En í ljósi þess að aðstæður til varps eru breytilegar á milli ára og þekkt sé að sjófuglar geti sleppt úr árum í varpi er nauðsynlegt að fylgjast með varpárangri í fleiri ár til að fá betri upplýsingar. Náttúrustofan hyggur á áframhaldandi athuganir á varpárangri skúms og verður fróðlegt að sjá niðurstöður þeirra vinnu í framtíðinni.

Hér má sjá skýrsluna.

Fyrir áhugasama má benda á eldri skýrslu sem segir frá kortlagningu skúmshreiðra á Breiðamerkursandi 2018.

 

Rör fyrir mælingar

Nýsköpunarverkefni á vegum Náttúrustofu Suðausturlands fékk 8.5 milljóna styrk

Fyrir nokkru úthlutaði Loftslagssjóður styrkjum í verkefni ársins 2021 en hlutverk sjóðsins er að styðja við verkefni sem lúta nýsköpun á sviði loftslagsmála og kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga. Þetta er í annað sinn sem úthlutað er úr sjóðnum, en hann heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðherra.

Nýtt verkefni

Eitt þeirra nýsköpunarverkefna sem fékk styrk var verkefnið „Kolefnisforði og CO2 flæði úr jarðvegi – samstarfsverkefni um vöktun á völdum landgerðum“. Umsækjandi verkefnisins er Náttúrustofa Suðausturlands og meðumsækjandi er Landgræðslan. Aðrir samstarfsaðilar verkefnisins eru: Ólafur S. Andrésson sem hefur undanfarin misseri hannað og þróað smíði á smátæki sem mælir losun CO2 úr jarðvegi, sveitarfélagið Skaftárhreppur, Mor-nefndin -samstarfsnefnd Skaftárhrepps, Landgræðslunnar og Skógræktarinnar og Sveitarfélagið Hornafjörður.

Verkefnastjóri

Verkefnið er unnið til eins árs og verkefnisstjóri er Rannveig Ólafsdóttir, sérfræðingur hjá Náttúrustofu Suðausturlands, búsett og starfandi í Skaftárhreppi. Markmið verkefnisins er að mæla kolefnisforða á fjórum stöðum, ásamt CO2 flæði úr þurrlendisjarðvegi í Skaftárhreppi og þannig er hægt að áætla heildarlosun eða bindingu úr völdum vistgerðum með nokkuð góðri vissu.

Hugmyndin

Hugmyndin að verkefninu kviknaði eftir að íslensk stjórnvöld gáfu út aðgerðaáætlun sína í loftslagsmálum. Þar eru sett markmið um að minnsta kosti 40% samdrátt á losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030, og kolefnishlutleysi árið 2040. Jafnframt er stefnt á gríðarlega aukna bindingu kolefnis vegna landnotkunar eða um +515% aukningu frá 2005 til 2030. Landnotkun (e.Land Use, Land Use Change and Forestry, skammstafað LULUCF) er einn stærsti losunarþáttur gróðurhúsalofttegunda sem standa þarf skil á gagnvart Parísarsamningnum en rekja má um fjórðung allrar losunar á heimsvísu til landnotkunar. Þessi þáttur er jafnvel enn mikilvægari á Íslandi, þar sem um 65% losun gróðurhúsalofttegunda á landsvísu er rakin til landnotkunar og um 86% losunar fyrir Suðurland. Losunarbókhald vegna landnotkunar og skógræktar er skemmra á veg komið en fyrir aðrar uppsprettur eins og til dæmis losun frá jarðefnaeldsneyti og iðnaðarferlum enda er um flókna vistfræðilega ferla að ræða og mikinn breytileika eftir aðstæðum.

Því þarf að gera stórauknar kröfur um mælingar á losun CO2 frá jarðvegi til að hafa árreiðanlegar upplýsingar í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum. Fjölga þarf mælingum og í fjölbreyttari landgerðum en gert hefur verið hingað til.

Búnaðurinn sem verður notaður

Náttúrustofa Suðausturlands hefur fjárfest í alþjóðlega vottuðum dýrum mælibúnaði frá PP systems sem mælir bæði bindingu og losun CO2 úr jarðvegi. Hefur slíkur búnaður verið prófaður og notaður með góðum árangri hjá Landgræðslunni. Samhliða mælingum á CO2 úr jarðvegi verður notast við nýjan íslenskan tækjabúnað sem hefur verið þróaður með styrk frá Loftslagssjóði á síðasta ári. Íslenski ódýrari búnaðurinn er talinn tilbúinn til almennrar notkunar en hefur ekki verið prófaður við skipulagðar mælingar eða staðlaður með annarskonar mælingum. Hér gefst því kostur á að prófa fýsileika þessa nýja búnaðar og fá samanburð við mælingar gerðar með viðurkenndum búnaði.

Markmið

Markmiðið er að gögn og niðurstöður sem safnast með verkefninu nýtist m.a. sveitarfélaginu Skaftárhreppi til að ná árangri í loftslagsmálum í gegnum skipulagsgerð. Skaftárhreppur er annað landstærsta sveitarfélag landsins og um þessar mundir er verið að vinna í nýju aðalskipulagi sem tekur mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og eru þar aðgerðir í loftslagsmálum sérstaklega dregnar fram. Að draga úr kolefnislosun og auka kolefnisbindingu hjá sveitarfélagi sem byggir að stórum hluta afkomu sína á hefðbundnum landbúnaði er mikil áskorun. Með niðurstöðum sem fást úr verkefninu verða til gögn um kolefnisbúskap landflokka og þannig hægt að kortleggja hvar jarðvegur er að tapa kolefni og hvar það bindst. Með þær niðurstöður er hægt að hefja samræður um hvar best væri að auka útbreiðslu náttúruskóga, endurheimta votlendi, hefja skógrækt, friða fyrir beit o.s.frv. Niðurstöður fyrir hvern undirflokk sem mældur er mun einnig nýtast öðrum sveitarfélögum á landsvísu eða landeigendum með sambærilegar vistgerðir til að meta kolefnisbúskap sinna landgerða og gera áætlanir fyrir breytta landnotkun með það að markmiði að draga úr losun eða auka bindingu.

Ný þekking og bætt loftslagsbókhald

Síðast en ekki síst skapast þekking og störf í heimabyggð og reynsla fæst í samstarfi ólíkra aðila um vöktunarmælingar á kolefnisforða lands og breytingum þar á, sem myndi nýtast til að setja upp og þróa sambærilegt samstarf á landsvísu. Verður verkefnið liður í mikilvægu framlagi til að afla betri þekkingar á losun CO2 frá mismunandi landgerðum á Íslandi sem bætir loftslagsbókhald Íslands.

Allir aðstandendur og starfsmenn Náttúrustofu Suðausturlands eru ánægðir og þakklátir fyrir styrkinn sem fékkst í þetta verkefni.

Rannveig Ólafsdóttir og Kristín Hermannsdóttir

Samstarfsaðilar setja niður mælireiti

Á myndinni eru talið frá vinstri; Elín Erla Káradóttir sumarstarfsmaður hjá Náttúrustofu Suðausturlands, Rannveig Ólafsdóttir Náttúrustofu Suðausturlands, og Jóhann Þórsson frá Landgræðslunni. Verið er að setja niður mælirör í jarðveginn 21. apríl 2021.

Rör fyrir mælingar

Rörin eru sett niður í mismunandi landgerðum í Skaftárhreppi. Þannig er hægt að mæla losun og bindingu á hverjum stað.

Þurrlendi í Landbroti

Frá Landbroti í Skaftárhreppi (Mynd Náttúrustofa Suðausturlands 21. April 2021)

Dr. Lilja Jóhannesdóttir sérfræðingur hjá Náttúrustofu Suðausturlands flytur erindi sitt um Skarðsfjörð á vinnustofum um mögulega friðlýsingu.

Náttúruvernd og efling byggða: Skarðsfjörður og Núpsstaðarskógar.

Náttúrustofa Suðausturlands lauk nú í desember við verkefni sem unnið hefur verið að frá haustinu 2019. Verkefnið snerist um framtíð Skarðsfjarðar og Núpsstaðarskóga. Það var unnið að frumkvæði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og er hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar um sérstakt átak í friðlýsingum en verkefnið er einnig hluti aðgerða byggðaáætlunar (hluti C-9). Óskað var eftir greiningu á tækifærum og mögulegum ávinningi í héraði af þjónustu sem byggist á nýtingu og umsjón friðlýstra svæða, svo sem í náttúrutengdri ferðaþjónustu.

Vorið 2019 gerðu Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) og umhverfis- og auðlindaráðuneytið verksamning um verkefnið og auglýsti SASS eftir þátttakendum og sóttist Náttúrustofan eftir þátttöku og fékk. Síðari hluta sama árs var gerður samningur milli SASS og Náttúrustofu Suðausturlands þar sem úthlutað var styrk til að vinna verkefni um tvö svæði, Skarðsfjörð og Núpsstaðarskóga. Verkefnastjóri beggja verkefna var forstöðumaður Náttúrustofu Suðausturlands en verkið var unnið af sérfræðingum stofunnar á Höfn og á Kirkjubæjarklaustri.

Verkefninu var skipt niður í þrjá hluta; í fyrsta hluta verkefnisins var greint frá þeim náttúruverndarsvæðum tekin voru fyrir, annars vegar Skarðsfjörður sem liggur austan Hafnar í Hornafirði og hins vegar Núpsstaðarskógar í Skaftárhreppi. Í öðrum verkhluta var sjónum beint að því hvaða hagrænu áhrif friðlýst svæði hafa á nærsvæði og birtar mismunandi sviðsmyndir af hvoru svæði, til að leggja mat á möguleg hagræn áhrif ef svæðin eru friðlýst eða verndun þeirra aukin og út frá mismunandi þróun í fjölda ferðamanna. Í þriðja verkhluta voru haldnar vinnustofur þar sem ógnir og tækifærir hvors svæðis fyrir sig voru greindar. Vinnustofurnar voru opnar öllum áhugasömum og í kjölfarið unnin skýrsla út frá því sem fram kom.

Eitt af því sem er áberandi í lok verkefnis er hvernig stofnanir í heimabyggð, eins og til dæmis náttúrustofur, geta þjónað sem hlutlaus tengiliður á milli hagaðila og stjórnsýslunnar. Með slíkum verkefnum færist þátttaka og ábyrgð meira heim í hérað sem við teljum jákvætt. Einnig má velta vöngum um hvort að mögulega séu íbúar svæðisins séu líklegri til að bera traust til stofnunar sem það þekkir betur til heldur en stofunun sem er þeim fjær. Skýrslum úr verkhlutunum þremur var öllum skilað til SASS við lok verkhluta og eru nú aðgengilegar á vef Náttúrustofu Suðausturlands undir útgefið efni.

Múlagljúfur

Vöktun náttúruverndarsvæða

Náttúrustofa Suðausturlands tekur þátt í stóru samstarfsverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ), náttúrustofa á landinu, Umhverfisstofnunar og þjóðgarða um vöktun náttúrufars á ákveðnum ferðamannastöðum. Verkefnið er unnið af frumkvæði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins en NÍ heldur utanum verkefnið og er ábyrgðaraðili þess. Markmiðið er að vakta friðlýst svæði og aðra viðkvæma staði sem eru fjölsóttir og undir miklu álagi vegna ágangs ferðamanna og er áhersla á að skoða áhrif mannsins á vistgerðir og plöntur, jarðminjar, fugla og spendýr.

Áhrif fólks á náttúru eru þekkt víða og birtast með ýmsum hætti. Algeng neikvæð áhrif vegna umferðar ferðamanna eru m.a. gróðurskemmdir, gróður- og jarðvegseyðing, skemmdir á jarðminjum, mengun, skerðing búsvæða og truflun á dýralífi með margvíslegum afleiðingum fyrir viðkomandi tegundir. Hve mikil áhrifin verða fer eftir fjölda gesta, en einnig hegðun þeirra og dreifingu í tíma og rúmi, ásamt þeim innviðum og stýringu sem er til staðar á svæðunum. Ein helsta áskorun verkefnisins núna er að greina þá þætti sem mæla áhrifin af álagi ferðamanna sem best.

Á Suðausturlandi eru fjöldi vinsælla ferðamannastaða og eru sumir þeirra friðlýst náttúruvætti, aðrir innan þjóðgarðs og enn aðrir á einkalandi. Einnig eru staðir á svæðinu sem eru líklegir til að verða vinsælir áfangastaðir ferðamanna. Slíkir staðir eru enn óspilltir og því er mikilvægt að fylgjast með áhrifum ferðamanna á náttúrufar þeirra staða frá upphafi.

Undirbúningur, gagnaöflun og þróun aðferða hófst árið 2019, en sjálf vöktunin vorið 2020. Unnið var eftir samræmdum aðferðum um allt land, allt eftir viðfangsefni vöktunar á hverjum stað. En notast er m.a. við endurtekna ljósmyndun, flugmyndatökur, lengdarmælingar og gert var mat á gróðurþekju og jarðvegi auk bergmyndana, GPS hnitun, talningar og fleira.

Náttúrustofan sinnti vöktun á nokkrum svæðum á Suðausturlandi sumarið 2020. Staðir sem voru vaktaðir eru á Breiðamerkursandi, við Múlagljúfur og í Eldhrauni. Einnig var gert ástandsmat við Fjaðrárgljúfur og Dverghamra. Á Breiðamerkursandi hefur umferð ferðamanna og ferðaþjónustunnar aukist síðustu ár og vegir og slóðar vaðist út á köflum. Áhyggjuefni er hvaða áhrif þetta hefur á dýr sem eiga búsvæði á sandinum. Skúmar, kríur og helsingjar voru vaktaðir nærri Jökulsárlóni og selir voru taldir við látur á Breiðamerkursandi. Einnig voru stígar á og við jökulöldur nærri Jökulsá á Breiðmerkursandi skoðaðir og myndaðir. Við Múlagljúfur voru stígar og fuglar skoðaðir, en í Eldhrauni hentistígar og traðk.

Verkefninu verður fram haldið næstu árin og munu einhverjir staðir bætast við og vöktun þeirra staða sem voru heimsóttir í sumar endurskoðuð. Næstu skref í verkefninu er að leggja mat á árangur af vinnu sumarsins með öðrum stofnunum, vinna úr niðurstöðum og í framhaldinu skerpa á einstökum aðferðum og verkefnum fyrir vöktun næsta árs og ára. Þegar vöktunin hefur staðið í nokkur ár, verður væntanlega hægt að sjá áhrifin til lengri tíma og bregðast við því sem þarf að bæta. Verkefninu fylgja mikið samskipti milli stofnana sem er jákvætt því þannig miðlast þekking á milli rannsóknaraðila og styrkir samstarf til framtíðar.    

Hér má sjá nokkrar myndir frá verkefnum sumarsins 2020.

Skúmapar á Breiðamerkursandi, en þar voru hreiður á ákveðnu svæði kortlögð. Í allt fundust 33 hreiður og af þeim misfórust 8 vörp árið 2020. Þörf er á að vakta skúmsvarpið við Jökulsárlón næstu árin, til að fylgjast með þróuninni.
Slóðar og traðk við eitt af útskotum í Eldhrauni. Þar er mikið álag á þunnt gróðurlag og einnig myndast „hentistígar“ (þegar fólk styttir sér leið) víða út frá fyrri slóðum við tiltölulega litla gangandi umferð.
Göngustígur að Hangandifossi í Múlagljúfri. Stígurinn var dæmigerður kindaslóði og ekki breiður en hefur með aukinni umferð vaðist út á köflum. Margir kjósa að ganga frekar á mjúkum mosa og gróðri meðfram stígnum, en á grófu grjóti og möl, sé þess kostur.
Skipulagður stígur við Fjaðrárgljúfur. Hann er lagður mottum að miklum hluta, en hentistígar liggja sums staðar utan hans út á brúnir gljúfursins.

Slóðar á nýju landi upp við Breiðamerkurjökul, vestanmegin. Landið breytist mikið ár frá ári og því ber að vakta vegi og slóða á þessu svæði.  
Slóðar, traðk og ferðamenn á jökulöldu við Jökulsárlón. Svæðið ber umtalsverð merki um þann fjölda ferðamanna sem sækja staðinn heim.
Myndir teknar við Dverghamra, báðar teknar á sama stað, sú efri í júní og sú neðri í september 2020. Í millitíðinni voru stígar lagfærðir á svæðinu.
Myndir teknar við Dverghamra, báðar teknar á sama stað, sú efri í júní og sú neðri í september 2020. Í millitíðinni voru stígar lagfærðir á svæðinu.