Nýr starfsmaður Náttúrustofu Suðausturlands

Þann 13. janúar tók til starfa nýr starfsmaður hjá Náttúrustofunni, Róbert Ívar Arnarsson. Róbert er með B.Sc. gráðu í líffræði og er að ljúka við M.Sc. gráðu í landfræði frá Háskóla Íslands. Í námi sínu lagði hann áherslu á jarðvegs- og vistfræði með sérstöku tilliti til örverulífs og er lokaverkefni hans um áhrifaþætti umhverfis á virknisbreytileika örverusamfélaga í lífrænum jarðvegi. Róbert hefur áður starfað hjá Háskóla Íslands við mælingar á kolefnisforða ræktarlands og hjá Landgræðslunni við ýmis rannsóknartengd sumarstörf. Áherslusvið Róberts eru virkni vistkerfa og hvernig þau móta og eru mótuð af lífríkinu sem þar finnast, með sérstöku tilliti til jarðvegs og jarðvegslífs. Róbert verður með aðsetur á Kirkjubæjarklaustri og bjóðum við hann hjartanlega velkomin til starfa.

Náttúrustofa Suðausturlands leitar að náttúrufræðingi  

Náttúrustofa Suðausturlands óskar eftir öflugum náttúrufræðingi á starfstöð stofunnar í Skaftárhreppi. Um er að ræða fullt starf bæði við vettvangsrannsóknir og við úrvinnslu gagna og skýrslu- og greinaskrif. Starfið mótast af sérþekkingu umsækjanda og getur m.a. snúið að þróun nýrra verkefna á sviði náttúrurannsókna. Náttúrustofa Suðausturlands sinnir fjölbreyttum náttúrufarsrannsóknum, t.d. á fuglum, gróðri, jöklum og landformum.

 

Helsingjaungar í Skúmey

Varpútbreiðsla helsingja 2023

Nú er komið á netið minnisblað um helsingjavöktun á Íslandi árið 2023 sem Náttúrustofa Suðausturlands vann í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands. Aukning í íslenska varpstofninum heldur áfram en heildarfjöldi varppara var nú metinn 3121 pör, til samanburðar voru metin 2493 pör árið 2020 og 2052 pör árið 2019. Það er u.þ.b. 18% aukning milli áranna 2019 og 2020 og 20% aukning frá 2020 til 2023. Þegar árlegar talningar úr helsingjavarpinu í Skúmey í Jökulsárlóni er skoðaðar til samanburðar kemur í ljós fækkun í Skúmey árið 2023 miðað við tvö árin þar áður. Þetta er vísbending um að heildarstofn helsingja á Íslandi gæti hafa verið stærri árin 2021 og 2022 og fækkun í Skúmey endurspegli áhrif fuglaflensu á stofnstærðina. Við þessa úttekt var mestur fjöldi varppara í Skúmey en misjafnt er milli svæða hvort aukning eða fækkun hafi orðið í fjölda varppara. Árið 2023 var tekið út varp á tveimur nýjum svæðum; í Ölfusi og í austfirsku eyjunum Seley og Andey. Stefnt er að því að fylgjast áfram með þeim svæðum. Heildarstofnmat helsingja á Íslandi svipar mjög til síðasta mats en stofninn var talinn vera 11.349 fuglar árið 2023 en 11.600 árið 2020. Lesa má meira um helsingjavöktunina 2023 hér.

Áður voru gerðar heildarúttektir á varpi helsingja, árin 2019 og 2020. Í tengslum við AEWA (African – Eurasian Migratory Waterbird Agreement) og EGMIWG (European Goose Management International Working Group) hefur frá 2020 verið samstarf milli Íslands og Breta og Íra um helsingjavöktun, bæði íslenska og grænlenska varpstofnsins. Samkvæmt rannsóknaráætlun verkefnisins á íslenski varpstofninn að vera metin sömu árin og heildartalning á vetrarstöðvum í Bretlandi og Írlandi fer fram. Hefur það nú verið gert árin 2020 og 2023 en til stendur að næsta mat verði framkvæmt árið 2026.

Árið 2025 verður alþjóðaár jökla

 

Laugardaginn 17. ágúst 2024 var haldin viðburðaröð á vegum Rice háskóla, Jöklarannsóknafélags Íslands, Náttúruminjasafns Íslands, Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, Alþjóðlegu jöklavöktunarsamtakanna (World Glacier Monitoring Service, WGMS) og Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO), þar sem vakin var athygli á jöklum sem hafa horfið á undanförnum áratugum eða eru að hverfa. Viðburðaröðin helgast af því að Sameinuðu þjóðirnar ákváðu fyrir stuttu að árið 2025 yrði alþjóðaár jökla og að 21. mars verði eftirleiðis dagur jökla.

Hörfun jökla er að gerast alls staðar á jörðinni og birtist sem beisk táknmynd hinna hröðu loftslagsbreytinga sem nú eiga sér stað. Til þess að undirstrika hremmingarnar var á viðburðaröðinni settur upp eins konar „grafreitur“ þar sem að heiti 15 valinna jökla, sem eru horfnir eða á hverfanda hveli, voru skráð á legsteina úr ís. Þeir höfðu verið skornir út af myndhöggvaranum Ottó Magnússyni. Þessir jöklar eru staðsettir víðs vegar á jörðinni og er einn þeirra á Íslandi. Frásagnir og lýsingar á þessum völdu jöklum má finna á vefsíðunni Global Glacier Casualty List. Á meðal jökla á válista er Hofsjökull eystri á suðausturlandi. Frásögnin af honum var tekin saman og rituð af Snævari Guðmundssyni hjá Náttúrustofu Suðausturlands.

Þrándarjökull (fremst), Hofsjökull eystri (ofar til vinstri) og í fjarska er Vatnajökull. Ljósm. Snævarr Guðmundsson, 9. september, 2021.

Þrándarjökull (fremst), Hofsjökull eystri (ofar til vinstri) og í fjarska er Vatnajökull. Ljósm. Snævarr Guðmundsson, 9. september, 2021.

 

Stjörnustöðin sem Snævarr notar við mælingar sínar

Snævarr – heiðursfélagi í Alþjóðasambandi stjarnfræðinga

Þann 14. ágúst 2024 var starfsmaður Náttúrustofu Suðausturlands, Snævarr Guðmundsson, einn þeirra fimmtán sem samþykktir voru sem heiðursfélagar í Alþjóðasambandi stjarnfræðinga (IAU: International Astronomical Union). Hann er nú í hópi 35 einstaklinga hvaðan af úr heiminum sem hafa hlotið þessa viðurkenningu. IAU hóf fyrst árið 2018 að heiðra einstaklinga sem ekki uppfylla skilyrði sem menntaðir stjörnufræðingar en hafa lagt sitt af mörkum til stjarnfræðilegra rannsóknar og menningu í sínu landi. Heiðursfélagar geta einungis þeir orðið sem eru tilnefndir af landsnefndum aðildarþjóða IAU. Landsnefnd Stjarnvísindafélags Íslands tilnefndi Snævarr sem heiðursfélaga í IAU og er hann fyrsti Íslendingurinn til að hljóta þennan heiður.

Snævarr er jöklafræðingur en hefur fylgst með stjörnum í frítíma sínum í hátt í fjóra áratugi. Hann var útnefndur heiðursfélagi vegna ljósmælinga á breytistjörnum, myrkvatvístirnum og þvergöngum fjarreikistjarna, frá Íslandi, og framlagi hans í að kynna almenningi stjörnufræði.

Formleg tilkynning var birt á heimasíðu IAU í síðasta mánuði (ágúst) auk þess sem morgunþátturinn „Ísland í bítið“ á Bylgjunni og netmiðillinn Vísir birtu nýlega viðtal við Snævarr. Náttúrustofa Suðausturlands óskar honum innilega til hamingju með viðurkenninguna.

97. árbók Ferðafélags Íslands Sunnan Vatnajökuls – Frá Núpsstað til Suðursveitar kom út 2024.

Sunnan Vatnajökuls – Frá Núpsstað til Suðursveitar: Árbók FÍ 2024

Vorið 2024 kom út árbók Ferðafélags Íslands, og er það í 97. árið í röð sem það gerist. Árbókin 2024 heitir – Sunnan Vatnajökuls – Frá Núpsstað til Suðursveitar –   og eins og titillinn gefur til kynna fjallar hún um svæði sem nær frá Djúpá í Fljótshverfi austur í Steinadal í Suðursveit. Það markast í suðri af strandlengjunni og í norðri vatnaskilum Vatnajökuls. Allt svæðið er innan þeirra marka sem við á Náttúrustofu Suðausturlands skilgreinum okkar starfsvettvang í rannsóknum á náttúrufari.

Þrjár af árbókum Ferðafélags Íslands hafa áður fjallað um suðausturland með einum eða öðrum hætti. Sú fyrsta nefnist Austur-Skaftafellssýsla og hún kom út árið 1937. Jón Eyþórsson veðurfræðingur, forseti Ferðafélagsins og stofnandi Jöklarannsóknafélags Íslands tók hana saman. Hún lýsir landsháttum í sýslunni, frá Skeiðarárjökli í vestri og austur í Lónsöræfi. Árbókin 1979 – Öræfasveit – var rituð af Sigurði Björnssyni á Kvískerjum, og afmarkast við þá fallegu sveit. Á þeim tíma höfðu stórvötnin á Skeiðarársandi nýlega verið brúuð og breyttir samgönguhættir gert aðgengi í sýsluna betra en fyrr.  Þriðja árbókin kom svo út árið 1993. Sú heitir – Við rætur Vatnajökuls –  og lýsir frá Austur-Skaftafellssýslu, að stórum hluta. Bókin var rituð af Hjörleifi Guttormssyni náttúrufræðingi, sem er einn höfunda hinnar nýju árbókar. Ásamt Hjörleifi eru höfundar árbókarinnar 2024 þeir Snævarr Guðmundsson náttúrulandfræðingur hjá Náttúrustofu Suðausturlands og Oddur Sigurðsson jarðfræðingur. Langflestar ljósmyndir í bókinni eru eftir höfundana og jafnframt sá Snævarr um gerð korta og skýringarmynda.

Að vanda kynna árbækur Ferðafélagsins valin svæði í gegnum landlýsingu, jarðfræði og náttúrufar. Að auki er fjallað um söguna, samfélagið og  einstaklinga sem hafa verið áberandi þar. Sagt er frá stofnun Skaftajökulsþjóðgarðs, sem varð síðar hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Á þeim rúmu þrjátíu árum sem hafa liðið frá því að árbók fjallaði síðast þetta svæði hafa miklar breytingar orðið í þessum landsfjórðungi, bæði landslagi og jöklunum en einnig samfélaginu. Meira um bókina má sjá hér.

Viðtöl voru tekin við fjórar konur úr Skaftafellssýslum. Frá vinstri til hægri: Elínborg Pálsdóttir, Halla Bjarnadóttir, Ingibjörg Zophoníasdóttir og Laufey Lárusdóttir.

Fortíðarsamtal fyrir framtíðina

Á dögunum birtum við fjögur viðtöl á YouTube rás stofunnar sem Snævarr Guðmundsson og Kristín Hermannsdóttir tóku við eldri konur úr Skaftafellssýslum á árunum 2020 og 2021.

Rætt var við:

  • Elínborgu Pálsdóttur, fædd á Böðvarshólum í Vesturhópi 3. september 1923, en flutti síðar á Höfn. Viðtalið er tekið 3. september 2021
  • Höllu Bjarnadóttur, fædd á Holtum á Mýrum 24. febrúar 1930 en flutti síðar á Höfn. Viðtalið er tekið 21. september 2021
  • Ingibjörgu Zophoníasdóttur, fædd á Hóli í Svarfaðardal 22. ágúst 1923, en flutti síðar að Hala. Viðtalið er tekið 24. ágúst 2021
  • Laufeyju Lárusdóttur, fædd á Svínafelli í Öræfum 14. ágúst 1927, en bjó síðar í Skaftafelli. Viðtalið er tekið 30. júní 2020

Viðtölunum er ætlað að varðveita sögu þeirra og upplifun af umhverfisbreytingum, breyttum atvinnuháttum og tíðaranda. Á ævi sinni urðu þessar konur vitni af miklum breytingum á samfélagi, náttúru og tækni en saga kvenna hefur oft á tíðum ekki fengið eins mikla athygli og frásagnir karla.

Verkefnið fortíðarsamtal fyrir framtíðina er samstarfsverkefni milli Náttúrustofu Suðausturlands og Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar og var styrkt af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga (SASS). Viðtölin voru fyrst aðgengileg almenning á 20 ára afmælishátíð Nýheima sem haldin var í lok ágúst 2022 en nú hefur aðgengi að þeim verið aukið með birtingu á YouTube og vonum við að þið njótið vel. Allar konurnar gáfu leyfi sitt fyrir birtingu viðtalsins og má nálgast hvert og eitt viðtal með að smella á nafn viðkomandi konu hér að ofan. Rannveig Rögn Leifsdóttir vann viðtölin.

Rúmlega tuttugu manns komu í fræðslugöngu og gengu að Háuklettum í Botnum þar sem þessi mynd var tekin í þó nokkurri rigningu

Blautir Botnar í blómaskrúð

Síðastliðinn föstudag, 21. júní, stóð náttúrustofan fyrir fræðslugöngu um Botna í Meðallandi. Gangan var skipulögð í samstarfi við landeigendur, Vatnajökulsþjóðgarð og Ungmennafélagið ÁS í tilefni Dags hinna villtu blóma. Gengið var frá Botnabænum að Háuklettum, fram hjá Trjágróf og að lokum var boðið upp á kaffi í glæsilegum garðskála.

Dagur hinna villtu blóma er árlegur Norrænn viðburður þar sem boðið er upp á plöntuskoðunarferðir. Dagurinn er í reynd þann 16. júní en við ákváðum að halda upp á hann föstudaginn 21. júní og sameina skemmtigöngum sem Ungmennafélagið ÁS stendur fyrir á föstudögum í sumar.

Bæjarstæðið Í Botnum er um margt sérstakt en þar mætast þrjú hraunlög. Það elsta og syðsta er Botnahraunið sem rann úr Hálsagígum fyrir um 5.300 árum síðan. Ofan á því liggur þykkur hraunbunki sem upprunninn er úr Eldgjárgosinu um 934-940. Þetta hraun er það mesta sem runnið hefur á Íslandi, og heiminum öllum, frá landnámi og hefur verið gríðarlegur hörmungaatburður. Í dag er hraunið vel gróið móa og birkikjarri og undan því spretta fjölmargar lindir sem renna í Eldvatn í Meðallandi. Í Skaftáreldum árið 1783 rann svo þriðja hraunið á þessu svæði. Það kom úr Lakagígum og er það næstmesta frá landnámi Íslands. Eldhraunið úr Skaftáreldum rann yfir gamla bæinn í Botnum en stöðvaðist á sandöldu og hér má því sjá þessi þrjú hraun mætast og lindirnar spretta undan hverju og einu þeirra. Skaftáreldahraunið er frábrugðið hinum hraununum að því leyti að það er hulið þykkri, mjúkri mosamottu en hin hraunin vaxin móagróðri.

Rúmlega tuttugu manns mættu í fræðslugönguna í Botnum og veltu fyrir sér sögunni, hraunlögum, gróðri og lindarvatni. Við þökkum kærlega fyrir góða þátttöku og skemmtilega samveru þrátt fyrir vætu. Sérstaklega viljum við þakka landeigendum í Botnum fyrir að taka á móti okkur og Vatnajökulsþjóðgarði fyrir gott kaffi að göngu lokinni.

Landselur liggur á sandbakka við Fjallsá og klórar sér í andlitinu

Tveir styrkir úr Atvinnu- og rannsóknasjóði Sveitarfélagsins Hornafjarðar árið 2024

Þann 8. mars hlaut Náttúrustofa Suðausturlands tvo styrki úr Atvinnu- og rannsóknasjóði Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Annars vegar 325.000 kr. til frekari rannsókna á klettafrú og hins vegar 325.000 kr. til að hefja reglulegar talningar á landsel í Hornafirði og Skarðsfirði.

Lesa meira

Snævarr Guðmundsson, Kristín Hermannsdóttir og Rögnvaldur Ólafsson njóta veitinga fyrir ársfund Náttúrustofu Suðausturlands í febrúar 2018

Minning – Dr. Rögnvaldur Ólafsson

Í dag kveðjum við máttarstólpa í sögu Náttúrustofu Suðausturlands þegar Rögnvaldur Ólafsson verður jarðsunginn frá Neskirkju. Rögnvaldur var hvatamaður að stofnun Náttúrustofunnar og sat hann sem formaður í stjórn hennar allt frá upphafi árið 2013 fram á mitt ár 2022 þegar þrekið var farið að þverra um of. Engu fyrr var hann reiðubúinn að kveðja okkur hér á stofunni. Rögnvaldur hafði alla tíð óbilandi trú á starfi okkar og var ávallt hvetjandi og bjartsýnn. Hann sýndi okkur starfsfólkinu einlægan áhuga og hvatti til dáða, bæði sem vísindamenn en einnig sem manneskjur. Rögnvaldur sinnti formennsku við stjórn stofunnar af elju, var bóngóður og fór gjarnan erinda okkar í borginni þegar á reyndi. Því fór fjarri að Náttúrustofan væri eina stofnunin sem nyti góðs af kröftum hans en Rögnvaldur sat í stjórn fjölda þekkingasetra á landsbyggðinni og stýrði uppbyggingu Rannsóknasetra Háskóla Íslands víða um land. Rögnvaldur hafði skýra sýn á mikilvægi þess að vísindi væru unnin um allt land með afburða vísindafólki og lét verkin tala. Það sést glöggt þegar litið yfir glæstan feril hans.

Ég kynntist fyrst Rögnvaldi sem meistaranemi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi og strax við fyrstu kynni fékk maður að finna fyrir einlægum áhuga hans á störfum manns og hvatningu til góðra verka. Þegar ég kvaddi svo rannsóknasetrið til að koma að vinna við Náttúrustofu Suðausturlands var ég svo ótrúlega lánsöm að fá að njóta nærveru hans áfram. Vil ég fyrir hönd allra starfsmanna stofunnar fyrr og síðar þakka Rögnvaldi fyrir góða fylgd og hans góðu störf. Blessuð sé minning hans.

Lilja Jóhannesdóttir, forstöðumaður