Landselur liggur á sandbakka við Fjallsá og klórar sér í andlitinu

Tveir styrkir úr Atvinnu- og rannsóknasjóði Sveitarfélagsins Hornafjarðar árið 2024

Þann 8. mars hlaut Náttúrustofa Suðausturlands tvo styrki úr Atvinnu- og rannsóknasjóði Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Annars vegar 325.000 kr. til frekari rannsókna á klettafrú og hins vegar 325.000 kr. til að hefja reglulegar talningar á landsel í Hornafirði og Skarðsfirði.

Lesa meira

Snævarr Guðmundsson, Kristín Hermannsdóttir og Rögnvaldur Ólafsson njóta veitinga fyrir ársfund Náttúrustofu Suðausturlands í febrúar 2018

Minning – Dr. Rögnvaldur Ólafsson

Í dag kveðjum við máttarstólpa í sögu Náttúrustofu Suðausturlands þegar Rögnvaldur Ólafsson verður jarðsunginn frá Neskirkju. Rögnvaldur var hvatamaður að stofnun Náttúrustofunnar og sat hann sem formaður í stjórn hennar allt frá upphafi árið 2013 fram á mitt ár 2022 þegar þrekið var farið að þverra um of. Engu fyrr var hann reiðubúinn að kveðja okkur hér á stofunni. Rögnvaldur hafði alla tíð óbilandi trú á starfi okkar og var ávallt hvetjandi og bjartsýnn. Hann sýndi okkur starfsfólkinu einlægan áhuga og hvatti til dáða, bæði sem vísindamenn en einnig sem manneskjur. Rögnvaldur sinnti formennsku við stjórn stofunnar af elju, var bóngóður og fór gjarnan erinda okkar í borginni þegar á reyndi. Því fór fjarri að Náttúrustofan væri eina stofnunin sem nyti góðs af kröftum hans en Rögnvaldur sat í stjórn fjölda þekkingasetra á landsbyggðinni og stýrði uppbyggingu Rannsóknasetra Háskóla Íslands víða um land. Rögnvaldur hafði skýra sýn á mikilvægi þess að vísindi væru unnin um allt land með afburða vísindafólki og lét verkin tala. Það sést glöggt þegar litið yfir glæstan feril hans.

Ég kynntist fyrst Rögnvaldi sem meistaranemi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi og strax við fyrstu kynni fékk maður að finna fyrir einlægum áhuga hans á störfum manns og hvatningu til góðra verka. Þegar ég kvaddi svo rannsóknasetrið til að koma að vinna við Náttúrustofu Suðausturlands var ég svo ótrúlega lánsöm að fá að njóta nærveru hans áfram. Vil ég fyrir hönd allra starfsmanna stofunnar fyrr og síðar þakka Rögnvaldi fyrir góða fylgd og hans góðu störf. Blessuð sé minning hans.

Lilja Jóhannesdóttir, forstöðumaður

Ársfundur Náttúrustofu Suðausturlands 2024

Síðastliðinn mánudag, 11. mars, var ársfundur Náttúrustofu Suðausturlands 2024 haldinn. Að þessu sinni var fundurinn haldinn í fyrirlestrasal Nýheima á Höfn í Hornafirði. Farið var yfir ársskýrslu og ársreikning stofunnar árið 2023 auk þess sem helstu verkefni síðastliðins árs voru kynnt. Auk venjubundinna fundarstarfa flutti starfsfólk stofunnar erindi úr starfi stofunnar. Álfur Birkir Bjarnason flutti erindið af afdrifaríkum æxlunartilþrifum klettafrúar og fræddi gesti um líf klettafrúar. Hólmfríður Jakobsdóttir flutti erindið rannsóknir frá fjalli til fjöru sem fjallaði um rannsóknir á tröllasmið og selatalningar sem náttúrustofan hóf í byrjun árs. Snævarr Guðmundsson flutti erindið Breiðamerkurjökull- birtingarmyndir jökulbreytinga þar sem hann fór yfir hvernig ný jökulsker eru að koma í ljós og jökulrendur að breytast í takt við hop Breiðamerkurjökuls.

Ársfundur Náttúrustofu Suðausturlands 2024 var vel sóttur en auk gesta í sal fylgdust einnig nokkrir með fundnum í streymi á netinu.

Ársskýrslu Náttúrustofu Suðausturlands 2023 má sjá hér.

Upptöku af yfirferð ársreiknings og starfi stofunnar 2023 má sjá hér.

Orkurannsóknasjóður styrkir rannsóknir á klettafrú

Náttúrustofa Suðausturlands hefur hlotið 1,5 milljón króna styrk frá Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar til rannsókna á lífsferli klettafrúar í Skaftárhreppi og Sveitarfélaginu Hornafirði. Verkefninu er stýrt af Álfi Birkir Bjarnasyni, starfsmanni náttúrustofunnar, og miðar að því að afla þekkingar á lykilþáttum lífsferils klettafrúar á Íslandi.

Lesa meira

Breiðamerkursandur – Mat á náttúru, menningarminjum og innviðum

Árið 2023 lögðu Náttúrustofa Suðausturlands og Nýheimar Þekkingarsetur lokahönd á mat á náttúru, menningarminjum og innviðum á Breiðamerkursandi fyrir Vatnajökulþjóðgarð. Að verkefninu komu einnig Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Hornafirði, Menningarmiðstöð Hornafjarðar, Efla og Náttúrustofa Austurlands. Lesa meira

Nýr starfsmaður

Í janúar tók til starfa nýr starfsmaður hjá Náttúrustofunni, Hólmfríður Jakobsdóttir. Hólmfríður er með M.Sc. gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands. Hólmfríður kemur í fullt starf tímabundið en hún hefur áður starfað í eitt sumar sem sumarstafsmaður hjá stofunni. Hólmfríður hefur alltaf haft mikinn áhuga á dýralífi og náttúrunni en hún kemur til með að sinna fjölbreyttum verkefnum hjá stofunni. Í gegnum nám sitt hefur Hólmfríður öðlast reynslu af tölfræði og líkanagerð en hennar helstu rannsóknaráherslur eru vistfræði og atferli dýra. Hólmfríður vann B.Sc. verkefni um hóphegðun andanefja (Hyperoodon ampullatus) og M.Sc. verkefni um áhrif ferðamanna og annara umhverfisþátta á fjölda landsels (Phoca vitulina) í látri. Hólmfríður verður með aðsetur á Höfn og bjóðum við hana hjartanlega velkomna til starfa.  

 

Grógos – verkefni lokið

Á vormánuðum 2023 gáfu Náttúrustofa Suðausturlands og Landgræðslan út lokaskýrslu verkefnisins Grógos – Mat á áfallaþoli vistkerfa á áhrifasvæði Skaftárhlaupa gagnvart ákomu sets og fokefna. Markmið verkefnisins var að kortleggja áhrif Skaftárhlaupa á gróður við farveg Skaftár sunnan Skaftárdals og með því greina tegundir og búsvæði sem best þola álagið. Slík þekking gerir okkur fært að beita náttúrulegum lausnum til að bregðast við þeim vanda sem Skaftárhlaupin valda. Lesa meira

Dagur íslenskrar náttúru 2023

Vetur konungur knýr á dyr

Nú síðsumars tekur lífríki Íslands nokkrum breytingum. Farfuglar eru farnir að hugsa sér til hreyfings. Helsinginn sem Náttúrustofan hefur fylgst með í sumar undirbýr flug sitt til Bretlandseyja og skúmurinn heldur á haf út þar sem hann dvelur á veturnar. Í dag er dagur íslenskrar náttúru. Hann er haldinn ár hvert þann 16. september til heiðurs Ómari Ragnarssyni, afmælisbarni. Dagurinn er tileinkaður Ómari fyrir framlag hans til náttúruverndar og fræðslu um náttúru Íslands. Dagur íslenskrar náttúru fellur því alltaf síðsumars þegar vetrarundirbúningur er hafinn í náttúru Íslands. Það er því ekki úr vegi að nýta tækifærið og velta aðeins fyrir sér hvernig lífverur bregðast við breyttu tíðarfari. Lesa meira

Bændur græða landið sumarið 2023

Eins og fyrri ár sinnti Náttúrustofa Suðausturlands nú í sumar úttektum á uppgræðslum í verkefninu Bændur græða landið fyrir Landgræðsluna. Markmið verkefnisins, sem hófst árið 1990, er að styrkja landeigendur til landgræðslu á heimalöndum sínum. Þannig eru þau sem best þekkja til og mestan hag hafa hvött til að stöðva rof, þekja landið gróðri og gera það nýtingarhæft til landbúnaðar að nýju. Náttúrustofan gerir úttektir í Skaftárhreppi og í Sveitarfélaginu Hornafirði. Þátttakendur í ár voru 20 talsins og náðu aðgerðir þeirra til rúmlega 200 hektara. Lesa meira

Vöktun náttúruverndarsvæða sumarið 2023

Starfsmenn Náttúrustofu Suðausturlands hafa vaktað náttúruverndarsvæði með ýmsu móti í sumar. Vöktun náttúruverndarsvæða er samstarfsverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands, náttúrustofa landsins, Umhverfisstofnunar og þjóðgarða. Verkefnið gengur út á að vakta náttúru til lengri tíma og þær breytingar sem hún verður fyrir. Áhersla er lögð á að greina áhrif ferðamanna á náttúruverndarsvæðum og að rannsaka náttúrulegan fjölbreytileika. Sú vöktun sem Náttúrustofa Suðausturlands sinnir nær yfir gróður, dýralíf og jarðminjar. Með vöktun á dýralífi, gróðri og jarðminjum er hægt að skrásetja þær breytingar sem eiga sér stað í náttúrunni. Lesa meira