Farvegir Jökulsár á Breiðamerkursandi

Í nýjasta hefti Jökuls (nr 70), ársriti Jöklarannsóknafélags Íslands, er grein eftir Snævarr Guðmundsson á Náttúrustofu Suðausturlands og Helga Björnsson jöklafræðing á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, þar sem dreginn er saman fróðleikur um farvegi Jökulsár á Breiðamerkursandi og kynnt kort sem sýnir hvar áin rann á ýmsum tímum á 19. og 20. öld. Jökulsá á Breiðamerkursandi er á meðal vatnsmestu vatnsfalla á Íslandi, og á meðan sandar á Suðausturlandi voru einungis reiðfærir og stórvötn öll óbrúuð, þótti hún á meðal illfærustu straumvatna landsins. Áður en áin gróf sig í stöðugan stokk á fjórða áratug 20. aldar átti hún til að flæmast um á sandinum, ýmist í mörgum álum eða falla fram í fáum straummiklum kvíslum. Sumir hinna gömlu farvega sjást enn báðum megin við núverandi farveg Jökulsár. Með nákvæmum kortum af Breiðamerkursandi má rekja legu þeirra víða um sandinn og út frá rituðum heimildum hvenær áin rann í þeim. Ágrip af greininni má sjá hér.