Varpárangur skúms á Breiðamerkursandi og í Öræfum sumarið 2019
Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands sem greinir frá mælingum á varpárangri skúms á Breiðamerkursandi og í Öræfum sumarið 2019. Skúmi hefur verið að fækka á Íslandi og taldar líkur á að slæmur varpárangur eigi að hluta til þátt í því. Metinn var varpárangur 30 hreiðra á Breiðamerkursandi og í Öræfum og af þeim hreiðrum klöktust egg úr 24 og ungar lifðu í alla vega 18 daga úr 14 hreiðrum. Þetta gaf að í heild voru 49% líkur á að skúmur næði að klekja eggi og unginn lifði að minnsta kosti í 18 daga. Samanborið við rannsóknir á klakárangri í Noregi og Skotlandi er árangurinn á Breiðamerkursandi og í Öræfum nokkuð verri en þegar lifun unga er borin við tölur frá Noregi eru lífslíkur svipaðar. En í ljósi þess að aðstæður til varps eru breytilegar á milli ára og þekkt sé að sjófuglar geti sleppt úr árum í varpi er nauðsynlegt að fylgjast með varpárangri í fleiri ár til að fá betri upplýsingar. Náttúrustofan hyggur á áframhaldandi athuganir á varpárangri skúms og verður fróðlegt að sjá niðurstöður þeirra vinnu í framtíðinni.
Hér má sjá skýrsluna.
Fyrir áhugasama má benda á eldri skýrslu sem segir frá kortlagningu skúmshreiðra á Breiðamerkursandi 2018.