Þolmarkarannsókn á Breiðamerkursandi

Náttúrustofa Suðausturlands og Nýheimar Þekkingarsetur vinna nú að rannsókn á þolmörkum við Jökulsárlón og á Breiðamerkursandi. Er þetta samstarfsverkefni unnið fyrir Vatnajökulsþjóðgarð með aðkomu Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði, annarra fagstofnana og sérfræðinga Vatnajökulsþjóðgarðs. Verkefnið hófst í ágúst 2021 og hefur verið unnið að gagnaöflum og samráði við sérfræðinga. Áætluð verklok eru lok árs 2022 með skýrsluskrifum og þar verður sett fram aðgerðaráætlun. Verkefnastjóri er Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir. Lesa meira

Jólakveðja 2021

Jólakveðja 2021 frá Náttúrustofu Suðausturlands

Verkefni í þágu náttúrunnar 2021

Náttúrustofa Suðausturlands er nú á níunda starfsári sínu og heldur áfram að eflast og stækka. Starfsmenn hafa aldrei verið fleiri en mest voru tíu manns við stofuna í sumar og eðli málsins samkvæmt var því talsverð fjölbreytni í verkefnum ársins. Nokkur fjöldi verkefna stofunnar eru langtímaverkefni og byggja á viðvarandi fjámögnun stofunnar, sem dæmi um það eru vöktunarverkefnin okkar svo sem fiðrilda- og pödduvöktun, jöklamælingar og nýjasta langtímaverkefnið sem er Vöktun náttúruverndarsvæða. Mestur fjöldi verkefna okkar eru þó stök verkefni sem eru fjármögnuð með sértekjum sem sóttar eru í ólíka sjóði. Sum verkefnanna reka þó óvænt á borð okkar og í ár stendur klárlega upp úr heimsókn rostungsins Valla á Höfn upp úr sem eitt það eftirminnilegasta frá starfsárinu enda vakti hún heimsathygli. Lesa meira

Helsingjaungi á Mýrum

Helsingjamerkingar 2021 – gæs og gassi nefnd í höfuð Kvískerjasystkina

Um miðjan júli tók Náttúrustofa Suðausturlands þátt í helsingjamerkingum í Vestur- og Austur-Skaftafellssýslum, en verkefninu er sem áður stýrt af Arnóri Þóri Sigfússyni dýravistfræðingi hjá Verkís.

Þetta er fimmta árið í röð sem helsingjar eru merktir á starfsvæði stofunnar og líkt og síðasta ár voru sett staðsetningatæki á nokkra fugla. Það gerir rannsakendum kleift að fylgjast nákvæmlega með ferðum fuglana og fá betri innsýn í hvernig þeir haga lífi sínu. Settir voru GSM/GPS-sendar á fjóra helsingja, tvo á Breiðamerkursandi í Austur-Skaftafellssýslu (gæsin Guðrún eldri og gassinn Hálfdán) og tvo á Álftaversafrétti í Vestur-Skaftafellssýslu (gassarnir Laki og Hallmundur). Sendarnir eru nokkuð dýrir og því var leitað styrkja til að fjármagna þá sérstaklega. Kvískerjsjóður veitti styrk fyrir tveimur sendum sem settir voru á fugla sem náðust nærri Kvískerjum og ákveðið var að nefna fuglana tvo eftir þeim systkinum Guðrúnu eldri og Hálfdáni. Skaftárhreppur styrkti kaup á einum sendi og hlaut fuglinn sem fékk hann nafnið Laki. Síðasti sendirinn var styrktur af einkaaðila og fékk sá að launum að fuglinn sem ber hann er nefndur Hallmundur í höfuð viðkomandi. Allir sem koma að merkingunum kunna styrktaraðilum hinar bestu þakkir fyrir.

Arnór með annan GPS merkta helsingjann

Mynd 1 – Arnór Þórir Sigfússon með gæsina Guðrúnu eldri að nýlokinni ásetningu staðsetningarbúnaðs. Þau voru þó ekki að hittast í fyrsta sinn því hann merkti hana fyrir tveimur árum sem sagði okkur það að hún væri reynslubolti (búin að ná að lifa af í alla vega þrjú ár) og því vænlegt að setja á hana sendi. Sendirinn sem hún fékk var styrktur af Kvískerjasjóði en hún heitir einmitt í höfuðið á Guðrúnu eldri frá Kvískerjum.

Elín Erla með annan GPS merktan helsingja.

Mynd 2 – Elín Erla Káradóttir, starfsmaður stofunnar, með gassann Hálfdán sem nýbúinn var að fá staðsetningartæki. Glöggir taka eftir að hann fékk litmerkið O-HB (O fyrir appelsínugulan og HB fyrir Hálfdán Björnsson). Við vonum að Hálfdáni farnist vel í komandi ævintýrum.

 

Ferðir Háldáns fyrst eftir merkingu.

Mynd 3 – Hér má sjá hvernig Hálfdán ferðaðist fyrstu dagana eftir merkingu.

Bættist þá í hóp fugla með staðsetningartæki en síðastliðið sumar fengu fuglarnir Guðmundur, Guðrún, Stefanía, Eivör og Sæmundur senda um hálsa sína. Þann 29. júlí í sumar komu hins vegar í ljós sterkar vísbendingar að helsinginn Sæmundur væri allur þar sem hann var hafði verið kyrr á sama stað í nokkurn tíma. Sendur var út leitarflokkur sem staðfesti grunsemdirnar, ekki er fullljóst hvað varð honum að aldurtila en skúmur og tófa liggja bæði undir grun. Sendirinn hefur þó ekki lokið hlutverki sínu heldur verður hann endurnýttur á Sæmund II næsta sumar.

Sæmundur allur

Mynd 5 – Hinsti hvílustaður Sæmundar (reyndar er það ekki rétt því leifar hans voru teknar til rannsókna) nærri Breiðabólsstaðarlóni.

Við merkingarnar er fuglunum smalað saman í rétt og merktir með litmerki og stálmerki á fæturna. Litmerkin í ár voru gul og appelsínugul. Það er frekar auðvelt að smala fuglum á þeim tíma sumarsins þegar þeir eru í sárum, en það er þegar þeir  skipta þeir út gömlum flugfjöðrum fyrir nýjar. Í sumar voru fyrsta sinn fuglar merktir á Mýrum sem er talsvert austar en merkt hefur verið hingað til. Það verður spennandi að sjá hvort fuglar sem verpa austar sýni aðra hegðun en þeir sem eru vestar. Alls voru merktir um 625 helsingjar í ár á öllu Suðausturlandi og verður spennandi að sjá hvar þeir koma fram í vetur og næsta sumar. Við hvetjum fólk sem sér merkta fugla, eða veiðimenn, að senda upplýsingar um hvar og hvenær fuglinn sást til Náttúrufræðistofnunnar á netfangið fuglamerki@ni.is.

Merkingarnar í sumar gengu einkar vel enda hópurinn sem kemur að þeim orðinn þrautþjálfaður. Við þökkum öllum þeim sem aðstoðuðu við merkingarnar, bæði sjálfboðaliðum sem og starfsfólki Vatnajökulsþjóðgarðar og hlökkum til næsta árs.

Merkingarhópurinn einn daginn í sumar.

Mynd 6 – Helsingjamerkingarhópurinn glaðbeittur við Stemmulón eftir vel heppnaðar veiðar þann 12. júlí 2021.

Myrkvar valinna myrkvastjarna og þvergöngur fjarrreikistjarna – Yfirlit 2020.

 

Út er komin rafræn skýrsla þar sem greint er frá ljósmælingum á völdum myrkvatvístirnum og fjarreikistjörnum, sem flestar voru gerðar frá Hornafirði árið 2020. Höfundur hennar er Snævarr Guðmundsson hjá Náttúrustofu Suðausturlands. Þar er sagt frá myrkvatvístirnunum HX UMa, V 523 Cas, V 477 Peg, V 549 And, V 705 And og V 473 Cam. Eitt markmiða er að tímasetja myrkvana og bera saman við viðurkennda spátíma. Í þéttstæðum kerfum getur lotulengd breyst, m.a. vegna massaflutnings á milli stjarnanna. Athuganirnar nýtast því til að ákvarða stöðugleika myrkvatvístirnanna og gera líkön af þeim. Í tveim tilfellum eru birt líkön af stjörnukerfunum þar sem stærðarsamanburður er gerður við sólina.

Næst er greint frá mælingum á þvergöngum fjarreikistjarnanna WASP 10b, HAT-P-51b, TrES 5b, Qatar 4b, HAT-P-16b, HAT-P-19b, HAT-P-52b, K2-30b, XO-6b, HAT-P-32b, Qatar 1b og WASP 33b. Þær mælingar upplýsa myrkvadýpt, lengd þvergöngu og tímafrávik. Vöktun á þessum stjörnum gerir kleift að meta tímafrávik sem benda til óreglu í umferðartíma eða eru vísbendingar um áhrif óséðra massa á kerfin. Niðurstöður á myrkvastjörnum og þvergöngum fjarreikistjarna eru sendar í alþjóðlegan gagnagrunn stjörnufræðifélags Tékklands þar sem að þau eru aðgengileg stjarnvísindasamfélaginu, ásamt mæligögnum annarra stjörnufræðinga og stjörnuáhugamanna.

Þetta er fimmta skýrslan um stjarnfræðilegar mælingar sem Náttúrustofa Suðausturlands gefur út. Fyrri skýrslur komu út árin 2016, 2018, 2019 og 2020. Þær eru aðgengilegar á https://nattsa.is/utgefid-efni/. Markmið útgáfunnar er að birta stjarnfræðilegar mælingar sem eru að öllu leyti framkvæmdar hér á landi. Hægt er að nálgast skýrsluna á rafrænu formi hér.

Yfirlit um íslenska jökla 2020

Fréttabréf, vegna verkefnisins „Hörfandi jöklar“, er komið út. Það upplýsir um jöklabreytingar og niðurstöður mælinga á stöðu jökulsporða árið 2020. Þar kemur fram að afkoma íslenskra jökla var lítillega neikvæð það ár, og þó að flestir sporðar hafi hopað tugi metra hafi orðið vart við að nokkrir brattir skriðjöklar hafi sigið svolítið fram. Mest hopaði Breiðamerkurjökull um 100-250 metra. „Hörfandi jöklar“ er samvinnuverkefni sem Náttúrustofa Suðausturlands kemur að ásamt Veðurstofu Íslands, Jöklahópi Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands og Vatnajökulsþjóðgarði, og er fjármagnað af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Ýtarlegri fréttaskýringu er að finna á vef Veðurstofunnar og tengill á fréttabréfið er hér. RÚV sagði einnig frá fréttabréfinu, sjá hér.

Að fóstra jökul

Í nýjasta hefti Jökuls (nr 70), ársriti Jöklarannsóknafélags Íslands, er grein þar sem stiklað er á stóru í sögu jökulsporðamælinga hér á landi og greint frá aðferðum og vöktun sem sjálfboðaliðar Jöklarannsóknafélags Íslands sinna. Mælingar á breytingum jökulsporða hófust árið 1930, þegar Jón Eyþórsson veðurfræðingur hóf kerfisbundnar mælingar. Fékk hann í lið með sér heimafólk, oftast bændur, til þess að annast mælingarnar en í seinni tíð fer fólk úr ýmsum starfsstéttum til mælinga. Sumir jöklanna hafa verið vaktaðir í 90 ár og því eru hér til gagnmerkar tímaraðir sporðabreytinga. Mælingarnar sýna skýr tengsl veðurfars- og jöklabreytinga en þessar tímaraðir geyma einnig upplýsingar um framhlaup margra jökla. Í greininni, sem er eftir Hrafnhildi Hannesdóttur, Odd Sigurðsson og Berg Einarsson á Veðurstofu Íslands og Snævarr Guðmundsson hjá Náttúrustofu Suðausturlands, eru kort sem sýna mælingastaði við jöklana, bæði þar sem mælingar eru stundaðar og þar sem þeim hefur verið hætt. Ágrip að greininni er hér.

Helsingjaungi vorið 2020

Varpútbreiðsla helsingja á Suðausturlandi 2019 og 2020

Nú eru komin á netið tvö minnisblöð frá kortlagningu varpútbreiðslu helsingja síðustu tveggja sumra. Helsingi er tiltölulega nýr varpfugl á Íslandi og er aðalvarpútbreiðsla hans í Skaftafellssýslum og höfum við á Náttúrustofunni lagt áherslu á að fylgjast náið með framvindunni. Heildstæð hreiðurtalning fór fram í fyrsta skipti árið 2019 sem var samstarfsverkefni Náttúrustofu Suðausturlands og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Verkefnið var styrkt af Vinum Vatnajökuls og kunnum við samtökunum bestu þakkir. Alls fundust 2051 helsingjahreiður í úttektinni, 1760 hreiður í Austur-Skaftafellssýslu og 292 í Vestur-Skaftafellssýslu.

Sumarið 2020 var kortlagningin unnin í tengslum við AEWA (African – Eurasian Migratory Waterbird Agreement) og EGMIWG (European Goose Management International Working Group) en verkefnið er í samvinna við Breta og Íra um vöktun íslenska varpstofnsins og þess grænlenska. Samkvæmt rannsóknaáætlun á að meta íslenska varpstofninn sömu ár og heildartalning fer fram á vetrarstöðvum á Bretlandseyjum, þ.e. 2020, 2023 og 2026. Sumarið 2020 fundust í heild 2493 helsingjahreiður í Skaftafellssýslum, 421 í Vestur-Skaftafellssýslu og 2072 í Austur-Skaftafellssýslu. Vitað er að helsingjastofninn verpur víðar í litlum mæli og því er stofnmat helsingja á Íslandi 2500 varpör vorið 2020, auk geldfugla. Fjöldi geldfugla er áætlaður frá hlutfalli geldfugla í vörpum þar sem heildartalning er möguleg. Út frá því og fjölda varppara er metið að stofnstærð íslenskra helsingja árið 2019 hafi verið um 9000 fuglar (geldfugl 54,3%) og 2020 um 11.600 fuglar (geldfugl 57,4%). Heildartalning Grænlandsstofns (þ.m.t. íslenski varpstofninn) á vetrarstöðvum í mars 2020 gaf 73.391 fugl en ef marka má heildarstofnmat á Íslandi sama vor þá er hlutdeild íslenskra helsingja orðin 15,8% (var um 12,5% 2019).

Þetta og meira má lesa í minnisblöðunum sem finna má hér fyrir árið 2019 og hér fyrir árið 2020.

Farvegir Jökulsár á Breiðamerkursandi

Í nýjasta hefti Jökuls (nr 70), ársriti Jöklarannsóknafélags Íslands, er grein eftir Snævarr Guðmundsson á Náttúrustofu Suðausturlands og Helga Björnsson jöklafræðing á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, þar sem dreginn er saman fróðleikur um farvegi Jökulsár á Breiðamerkursandi og kynnt kort sem sýnir hvar áin rann á ýmsum tímum á 19. og 20. öld. Jökulsá á Breiðamerkursandi er á meðal vatnsmestu vatnsfalla á Íslandi, og á meðan sandar á Suðausturlandi voru einungis reiðfærir og stórvötn öll óbrúuð, þótti hún á meðal illfærustu straumvatna landsins. Áður en áin gróf sig í stöðugan stokk á fjórða áratug 20. aldar átti hún til að flæmast um á sandinum, ýmist í mörgum álum eða falla fram í fáum straummiklum kvíslum. Sumir hinna gömlu farvega sjást enn báðum megin við núverandi farveg Jökulsár. Með nákvæmum kortum af Breiðamerkursandi má rekja legu þeirra víða um sandinn og út frá rituðum heimildum hvenær áin rann í þeim. Ágrip af greininni má sjá hér.