Breiðamerkursandur og Jökulsárlón 15. september 2020. Mynd: Lilja Jóhannesdóttir

Nýtt landmótunarkort af Breiðamerkursandi

Á dögunum birtist vísindagrein í sænska landfræðiritinu ‘Geografiska Annaler’ þar sem kynnt er nýtt landmótunarkort af Breiðamerkursandi. Ásamt því er framvinda hörfunar Breiðamerkurjökuls og landmótun, frá því að hann var í hámarksstöðu í lok 19. aldar til ársins 2018, rakin mun nákvæmar en áður hefur verið gert. Greinina rita Snævarr Guðmundsson, hjá Náttúrustofu Suðausturlands og David J.A. Evans hjá Durham háskóla í Norðhumbrulandi á Englandi. Greinin sem er á ensku heitir: „Geomorphological map of Breiðamerkursandur 2018: the historical evolution of an active temperate glacier foreland“. Á Breiðamerkursandi hafa landslagsbreytingar verið afar hraðar og þar birtast öll helstu auðkenni landmótunar sem finnst framan við jökla.

 

Breiðamerkurjökull er á meðal þekktustu jökla á Íslandi og er Jökulsárlón, sem hefur myndast í kjölfar hörfunar hans, einn vinsælasti ferðamannastaður á Íslandi. Þangað komu meira en 800 þúsund ferðamenn á líðandi ári (2022), m.a. til þess að virða fyrir sér fjölbreytilega ísjaka sem ýmist fljóta á lóninu eða liggja í fjöruborði Fellsfjöru. Að ísjakar brotni stöðugt af jöklinum er afleiðing af hopandi jökli vegna loftslagshlýnunar sem staðið hefur yfir áratugum saman, og er svipmynd af loftslagssveiflum undangenginna alda. Lýsa má Breiðamerkursandi og Breiðamerkurjökli sem landsheild, þar sem jökullinn einn hefur ráðið hvernig umhorfs er á sandinum. Óvíst er hve margir gestanna átta sig á að jökullónin eru einhver stærstu ummerkin sem Breiðamerkurjökull hefur skilið við á Breiðamerkursandi, eftir að hann tók að hopa.

 

Talið er að við landnám hafi jöklar almennt verið mun minni en nú er. Á þeim tíma voru engin vötn svo stór sem nú er á Breiðamerkursandi. Á svölu tímabili sem tók við eftir um 1250 fóru jöklar hins vegar að stækka og ganga fram dali. Lengst fram á láglendið náðu þeir á 18. og 19. öld. Þá hafði Breiðamerkurjökull gengið í skrykkjum fram á fjöru og átti einungis ófarna um 230 m í sjó. Ef hann hefði náð því væru landshættir á Breiðamerkursandi sennilega allt aðrir en nú er og vísast til óbrúanlegur fjörður inn að jökli. Nálægt lokum 19. aldar snerist sveifin við og jöklar tóku að hopa. Breiðmerkurjökull hörfaði hægt í fyrstu en á síðustu áratugum hefur hann hopað mun hraðar en fyrr. Er þessari framvindu m.a. gerð skil í grein þeirra Snævars og Evans.

 

Í greininni er fyrst rakin aðdragandi kortlagningarinnar og fyrri rannsóknir. Vegna þess hve jökullinn er aðgengilegur hafa margar rannsóknir verið gerðar á honum og jökullónunum. Viðbrögð jökulsporðsins og yfirborðslækkun frá hámarksstöðu, nærri lokum litlu ísaldar og fram á 21. öldina, hafa áður verið rakin í greinum ýmissa jarðvísindamanna. Breiðamerkursandur hefur líka verið kortlagður nokkrum sinnum og í ljósi landmótunar jökla, er hann líklegast sá blettur á jörðinni sem oftast hefur verið rannsakaður. Fyrst skal nefna kortlagningu danska herforingjaráðsins (nú Geodetic Institute), á árunum 1903-4. Á kortum þeirra er í fyrsta sinn dregnar upp jökulmenjar, og þær vitna um að jökullinn var á þessum árum farinn að hopa frá fremstu stöðu. Þýski jarðfræðingurinn Emmy Todtmann kynnti árið 1960 kort af Breiðamerkursandi sem sýndi í grófum dráttum stöðu landmótunar á þriðja og fimmta áratugnum. Árið 1951 var ‘Sandurinn’ og Esjufjöll kortlagt með enn nútímalegri tækni en fyrr og meiri nákvæmni, af landfræðideild Glasgow-háskóla og síðar Durham-háskóla. Þessar kortlagningar voru byggðar á loftmyndum frá árunum 1945, 1965 og 1998. Með betri gögnum og tækniframförum urðu kortin sífellt nákvæmari og skýrari. Þau gáfu ekki aðeins yfirsýn á þá miklu landmótun sem hefur orðið á Breiðamerkursandi heldur hvers vegna ýmis landform mótast og af hvers völdum.

 

Kortlagningin að þessu sinni miðast við árið 2018, einum 20 árum eftir að síðasta kortlagning var gerð. Hún byggir m.a. á nýlegu afar nákvæmu landlíkani í hárri upplausn. Má líta á kortlagninguna sem framhald endurtekinna kannana á Breiðamerkursandi, en á milli sérhverra hafa ýmsar landbreytingar átt sér stað. Síðan 1998 hefur jökullinn hopað 0,6-0,4 km og um 29 ferkm lands orðið jökulvana. Endurtekin könnun, magngreining og greining á tímabundnum ferlum í myndun landforma skipta sköpum í að skilja í tímaröð staðbundna þróun landmótunar jökla. Hún skilar líka niðurstöðum sem nýtast sem hliðstæður á sambærilega ferla annars staðar og að afkóða vísbendingar um loftslagsbreytingar og landmótunarfræði fornra jökulsvæða. Í greininni eru raktir þessir landmótunarferlar og gerðar uppfærslur í ljósi landsins sem hefur komið undan jökli, nýrrar þekkingar og upplýsinga, ásamt því sem að nútímatækni í landupplýsingum (GIS), kortagerð og túlkun er notuð til þess að draga fram landform og þróun jökulsporðsins með skýrari hætti en fyrr.

 

Ein ástæða þess að jöklabreytingar og landmótun á Breiðamerkursandi hefur verið skráð yfir langt tímabil er að þjóðleiðin á milli Austurlands og Suðurlands lá yfir Breiðamerkursand og landið framan jökulsins því ætíð í sjónmáli. Ritheimildir varðveita lýsingar frá fyrri öldum um hreyfingar og framgang jökulsins sem ella hefðu ekki legið fyrir. Gögnin sem eru notuð til að draga framvindu hopsins spanna frá ritheimildum til gervitunglamynda. Þýðing þessara ólíku gagna gerir kleift að rekja hop Breiðamerkurjökuls nokkurn veginn eftir öllum sporðinum frá ári til árs síðan um 1890. Í stuttu máli verða heimildir um jökulinn óljósari eftir því sem farið er aftar í tíma. Lítið er af heimildum frá fyrri öldum en þær gefa samt mikilvægar upplýsingar um framrásina. Annað afar snautt tímabil heimilda átti sér stað eftir að dönsku mælingamennirnir kortlögðu svæðið 1903-4 þangað til að ameríski sjóherinn tók loftmyndir af öllu Íslandi árin 1945-6. Þetta tímabil má auðkenna sem hina myrku áratugi 20. aldar í landfræðilegri þekkingaröflun á Íslandi.

 

Heimildir sem varða þetta tímabil draga upp óljósa mynd af framvindu á Breiðamerkursandi og -jökli en er styrkt af nýrri gögnum ásamt fjölda ferða til þess að greina atburðarásina á vettvangi. Ritheimildir sem bræðurnir á Kvískerjum skráðu hafa nýst til að varpa ljósi á stöðu sporðsins og hreyfingar jökulsins á þessum tíma; á þróun jökulvatna og myndun jökullóna. Talsverðan tíma hefur tekið að púsla saman ýmsum lykilatriðum í frásögnum þeirra og tengja við ýmis landform sem nú eru vitnisburður um framvindu jöklabreytinga. Án framlags þeirra hefði seint verið kleift að draga saman þessa sögu jafn skilmerkilega fram og greint er frá. Einnig hafa nokkrar ljósmyndir frá þessum áratugum fyllt inn í myndina.

 

Á meðal þessara landforma má nefna hinn áberandi enda[jökul]garð sem liggur nánast óslitinn meira en 20 km þvert yfir Breiðamerkursand og markar hvar hin víðáttumikla ísrönd lá í lok 19. aldar. Var jökullinn svo þykkur að ekki sást af vegslóðum á Sandinum til Esjufjalla og Mávabyggða. Endagarðurinn tengist samsvarandi jökulgörðum framan við Fjallsjökul og Hrútárjökul og vitna um að í minnst 250 ár var samfelldur ísjaðar sem teygði sig 27 km leið á milli Heiði í Kvískerjalandi og Fellsfjalls í Suðursveit. Í heildina tók 60-70 ár að móta til þennan mikla endagarð. Þá má nefna kortlagningu árfarvega en flestir þeirra eru nú óvirkir en þeir sýna hvar jökulvötn runnu á ýmsum tímum þegar sporðurinn stóð framar en hann gerir í dag.

 

Eftir 1930 tóku heimamenn að mæla skriðjökla að ósk Jón Eyþórssonar veðurfræðings og stofnanda Jöklarannsóknafélagsins. Vegna þessarar framsýni eru nú til tímaraðir um jöklabreytingar yfir 90 ára skeið. Þessi gögn hjálpa til ásamt loftmyndum, sem Landmælingar Íslands og Loftmyndir ehf létu taka viss ár á seinni hluta 20. aldar, við að rekja framvindu jökulhopsins. Síðustu áratugina hafa síðan tekið við gervitunglamyndir sem gera mögulegt að fylgjast með breytingum á Breiðamerkurjökli og Breiðamerkursandi á hverju ári. Þessi gögn sýna jafnframt tengsl við veðurfarssveiflur. Með því að rekja breytingar á jökulsporðinum þar sem að hann liggur í Jökulsárlóni og kelfir í það birtist síðan ólík atburðarás samanborið við þar sem sporðurinn liggur á landi. Í ljós koma tímabil þar sem mun örari kelfing á sér stað en þess á milli. Eftir miðjan sjötta áratuginn var eitt slíkt tímabil þegar sporðurinn hopaði 1,6 km í vestanverðu lóninu, á nokkrum árum. Á árunum 1989-1994 hörfaði ísjaðarinn 1,5 km og loks á tímabilinu 2006-2011 hopaði hann aðra 2,35 km.

 

Snævarr Guðmundsson, 19.12.2022.