Ársskýrsla Náttúrustofu Suðausturlands fyrir árið 2019 er komin á netið. Hægt er að nálgast skýrsluna hér og myndrænni framsetningu má sjá hér.
Ársfundur stofunnar var haldinn í Nýheimum á Höfn að kvöldi 17. mars og í ljósi samkomubanns var ákveðið að streyma fundinum einnig inn á Facebook stofunnar.
Þar má nú sjá ársfundinn og erindin tvö sem voru flutt að loknum venjubundnum fundi. Erindi Snævarrs Guðmundssonar og Lilju Jóhannesdóttur má sjá hér og ársfundarerindi Matthildar Ásmundardóttur og Kristínar Hermannsdóttur er að finna hér.
Tekin hefur verið ákvörðun um að fresta fyrirhuguðum vinnufundum um Núpsstaðaskóga og Skarðsfjörð sem áttu að fara fram 23. og 24. mars. Ekki er talið forsvaranlegt að kalla fólk saman til skrafs og ráðagerða á þeim tímum sem varað er við samkomum og samvistum með mikilli nálægð. Fundirnir verða auglýstir á ný, um leið og tækifæri gefst.
Ársfundur Náttúrustofu Suðausturlands verður þó haldinn, þriðjudaginn 17. mars kl. 20:00 í Nýheimum á Höfn, en slíkur fundur fellur ekki undir varúrðarreglur yfirvalda, því hægt er að halda tveggja metra fjarlægð þar. Fundinum verður streymt á Facebook síðu stofunnar og verður því aðgengilegur öllum sem vilja.
https://nattsa.is/wp-content/uploads/2020/03/Frestun.jpg1074814Kristín Hermannsdóttirhttps://nattsa.is/wp-content/uploads/2013/09/Logo-Nattsa.pngKristín Hermannsdóttir2020-03-13 14:24:022020-03-13 14:24:04Breytingar á fyrirhuguðum fundum vegna Covid-19
Náttúrustofa Suðausturlands boðar til vinnustofa um framtíð Skarðsfjarðar og Núpsstaðarskóga, en svæðin eru á B-hluta Náttúruminjaskrár sem þýðir að skoða eiga mögulega friðlýsingu þeirra á næstu 5 árum. Vinnan er hluti verkefnisins Náttúruvernd og efling byggða sem er liður í byggðaáætlun stjórnvalda sem standa fyrir sérstöku átaki í friðlýsingum.
Á fundunum
verða skoðaðar ólíkar sviðsmyndir eftir
því hvort svæðin verða friðlýst eður ei og rætt um möguleg
tækifæri og ógnir.
Fundurinn um Núpsstaðarskóga fer fram á Kirkjubæjarstofu frá 13:30-16:00 mánudaginn 23. mars 2020.
Fundurinn um Skarðsfjörð fer fram í Nýheimum frá 13:30-16:00 þriðjudaginn 24. mars 2020.
Fundirnir eru opnir öllum og skráning fer fram á netfanginu kristin@nattsa.is eða í síma 863 4473 til og með mánudeginum 16. mars.
Fjólublár litur markar svæðin sem mögulega stendur til að friðlýsa samkvæmt kortasjá Náttúrufræðistofnunnar Íslands.
https://nattsa.is/wp-content/uploads/2020/03/Skard-nups.jpg8841818Kristín Hermannsdóttirhttps://nattsa.is/wp-content/uploads/2013/09/Logo-Nattsa.pngKristín Hermannsdóttir2020-03-10 11:40:452020-03-10 16:08:44Náttúruvernd og efling byggðar – vinnustofur um Núpsstaðarskóga og Skarðsfjörð
Við Náttúrustíginn, þ.e. göngustíginn sem liggur frá Óslandshæð og inn að
golfvelli, á Höfn í Hornafirði, hefur verið settur upp „steinagarður“. Steinarnir
eru staðsettir á túninu vestan við Nýheima. Steinagarður er e.k. kynningarreitur
fyrir jarðfræði svæðisins, og þar eru kynntar nokkrar bergtegundir
Suðausturlands með hressilega stórum grjóthnullungum og grettistökum. Steinarnir
koma frá völdum stöðum í sveitarfélaginu og eru dæmi um helstu einkennisbergtegundir
á þessum slóðum. Kynningarskilti lýsar hvernig bergið hefur myndast og hvaðan
steinarnir koma. Á hverjum steini eru upplýsingar um bergtegundina og hve þungt
þeir vega.
Náttúrustígurinn var fyrst settur upp árið 2014 fyrir tilstuðlan Náttúrustofu Suðausturlands, með stuðningi Sveitarfélagsins og Vina Vatnajökuls. Tilgangurinn var að glæða lífi göngustíginn vestan við bæinn, sem heimafólk þekkir vel til og hefur notað sér til heilsubótar í mun lengri tíma. Markmiðið með þessu verki var fræðsla um náttúruna, frá því stóra til hins smærra, frá sólkerfinu til bergtegunda í sveitarfélaginu og jafnvel fleira. Styrkur stígsins felst þó ekki síður í hinu fallega útsýni yfir fjörðinn til Vatnajökuls og eru Hornfirðingar öfundsverðir fyrir að hafa slíkan stíg.
Inni í Nýheimum hafa verið settir upp nokkrir steinar og steingervingar úr
steinasafni Þorleifs Einarssonar jarðfræðings. Hann gaf Rannsóknarsetri Háskóla
Íslands á Hornafirði hluta af bergsýnasafni sínu. Það er núna hýst hjá
Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu (FAS). Valin voru nokkur eintök til
sýningar í sýningarborð sem er staðsett á vesturgangi á neðri hæð Nýheima og í
glerskápum á efri hæð, rétt ofan við stigann.
Með tilkomu steinagarðsins var kynningarblöðungur um Náttúrustíginn og sólkerfið endurnýjaður. Hann verður sendur inn á öll heimili í Sveitarfélaginu Hornafirði og dreift til ferðaþjónustuaðila sem geta miðlað þeim áfram til gesta sem heimsækja okkur í hérað. Fólk er hvatt til að koma, eða bjóða gestum sínum að fræðast um steinana í steinagarðinum eða steingervingana í Nýheimum, sér til fræðslu og ánægju.
Einnig hafa skilti við sólkerfið verið endurnýjuð og má finna nýtt efni frá nemendum Grunnskóla Hornafjarðar á þeim flestöllum. Viðhald við Náttúrustíginn er á lokametrunum og stutt í að búið verði að lagfæra nokkrar reikistjörnur og setja upp nýjan „Satúrnus“ við Ránarslóð en honum var stolið fyrir nokkru. Við vonum að líkanið fái að standa óskemmt áfram enda er það óyggjandi mikil prýði fyrir bæjarfélagið að geta boðið gestum sínum og öðrum gangandi upp á slíka afþreyingu sem Náttúrustígnum er ætlað að vera.
Skilti á einum steinanna í steinagarðinum. Þessi steinn var sóttur á Breiðamerkursand og er úr fínkorna gabbrói. Hann vegur u.þ.b. 1800 kg og hefur færst með jöklinum úr fjallgarðinum og fram á sandinn. Mynd: Kristín Hermannsdóttir 6. desember 2019. Tveir steinar við stíginn, sá sem er nær er frá Borgarhafnarheiði og sá sem er fjær er frá Litlahorni. Mynd: Kristín Hermannsdóttir 8. október 2018
https://nattsa.is/wp-content/uploads/2020/01/79513881_2391744877709663_7131181406981455872_n.jpg8641152Kristín Hermannsdóttirhttps://nattsa.is/wp-content/uploads/2013/09/Logo-Nattsa.pngKristín Hermannsdóttir2020-02-06 08:00:002020-02-06 08:26:53Steinagarður við Náttúrustíg á Hornafirði
Föstudaginn 10. janúar opnar ljósmyndasýning í bókasafni Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar sem haldin er á vegum Náttúrustofu Suðausturlands og er að hluta styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurlands. Sýningin er hliðarafurð rannsóknar sem farið fram hefur síðustu tvö ár á fuglalífi á og við tjarnir í Sveitarfélaginu Hornafirði en myndirnar eru allar teknar með flygildi.
Tjarnir og vötn eru sérstök búsvæði og mynda oft keðju af lífríkum svæðum frá fjöru til fjalla. Talið er að á Íslandi séu um 7000 smávötn og tjarnir á stærðarbilinu 1-10 ha og 1841 stærri en 10 ha. Dýralíf tjarna og smávatna er oft mjög auðugt og vaxtartímabil lífvera þar er oft stutt. Því fer stærstur hluti framleiðslu slíkra búsvæða fram á stuttu tímabili yfir sumarið sem endurspeglast í miklum fjölda dýra á þeim tíma. Tjarnir, vötn og votlendi eru mikilvæg búsvæði fyrir stóran hluta íslenskra fuglategunda en um 70% varptegunda nýta ferskvatnsvotlendi og tjarnir að einhverju marki og 40% eru algerlega bundnar slíkum svæðum til varps eða fæðuöflunar á varptíma. Víða í Sveitarfélaginu Hornafirði má finna vötn og tjarnir enda votlendi víða. Tjarnir og smávötn eru nátengd votlendi og í sameiningu hafa þessi tvö búsvæði mikil áhrif á viðstöðu og hringrás vatns, uppsöfnun og losun næringarefna og eru því mikilvæg fyrir aðliggjandi búsvæði sem uppspretta orku og næringarefna.
Umhverfi og útlit tjarna og vatna eru margbreytileg. Eðlisþættir
svo sem dýpi, næringargildi, tærleiki, sýrustig og fleira hefur áhrif á gerð
tjarna og vatna og mótar lífríkið sem þar þrífst. Einnig hafa aðliggjandi
búsvæði, lengd frá sjó, ákoma næringarefna, landsvæði og fleira mikil áhrif.
Þessari sýningu er ætlað að fanga þennan breytileika. Tjarnir eru ekki eilífar
og breytast með tímanum út frá grunnvatnsstöðu, áfoki, írennsli og afrennsli
auk annarra lífrænna og ólífrænna þátta. Þessu verkefni var ætlað að skrásetja
stöðuna sumarið 2019. Með tímanum má endurtaka verkefnið og sjá myndrænt þær
breytingar sem verða á næstu áratugum.
Við bjóðum alla hjartanlega velkomna á opnun sýningarinnar klukkan 16:00 næstkomandi föstudag. Í boði verða léttar veitingar. Sýningin, sem er sölusýning, mun verða uppi næstu 6 vikur og hægt að sjá hana á opnunartíma bókasafnsins. Myndirnar á sýningunni eru teknar af dr. Lilju Jóhannesdóttur, vistfræðings Náttúrustofunnar.
Lítil tjörn rétt við Eskey á Mýrum. Er myndin hluti af sýningunni.
Á Suðausturlandi er náttúran einstök, jafnvel á heimsvísu. Óvíða er jafn gott aðgengi að jöklum, hér er auðugt fuglalíf árið um kring og nokkrar dýrategundir eru nánast eingöngu bundnar við þennan landshluta. Það eru til dæmis tröllasmiður, helsingi (í varpi) og hreindýr, sem reyndar dreifast um austanvert landið. Jarðfræðin hér er einkar fjölbreytt, enda landið byggt upp af eldsumbrotum fyrir milljónum árum síðan sem jöklar hafa svo mótað í stórfenglegt landslag. Það má því með sanni segja að starfsmenn Náttúrustofu Suðausturlands búi við einstök tækifæri til rannsókna. Hjá stofunni starfa náttúrufræðingar með víðtæka þekkingu á veðri og loftslagsbreytingum, jöklum og jöklabreytingum, fuglum og vistkerfum svæðisins.
Viðfangsefnin sem við sinnum eru fjölbreytt vegna síkvikrar
náttúru. Veðrið ræður miklu og með hlýnandi loftslagi og öfgum í veðri þurfum
við að aðlaga hegðun og skipulag að þeim breytingum sem eiga sér stað í
umhverfi okkar. Á síðustu tveim árum hefur Náttúrustofan, ásamt
Vatnajökulsþjóðgarði, tekið þátt í fjölþjóðlegu verkefni um aðlögun að
loftslagsbreytingum á norðurslóðum. Lokaráðstefna verkefnisins CLIMATE var haldin
í Hoffelli í lok nóvember. Þátttaka okkar í slíku starfi er ekki tilviljun því segja
má að við séum stödd í lifandi kennslustofu um loftslagsbreytingar allt árið um
kring. Jöklarnir breytast ört og hopa og er ein afleiðing þess að framan við skriðjökla
myndast jökullón sem stækka sífellt. Snævarr Guðmundsson, jöklafræðingur
stofunnar, hefur verið að skoða hve hratt þau stækka og breytast en niðurstöður
mælinga hans munu birtast í næsta ársriti Jöklarannsóknafélags Íslands, Jökli.
Samhliða hopi jökla verða breytingar á farvegum jökulánna og
framburði. Árkvíslum fækkar og eftir að jökulvötnin taka að renna úr lónum
myndast stöðugri farvegir. Í gömlum árfarvegum er hins vegar skráð atburðarás
sem er í raun saga jökulvatnanna, hvar árnar runnu tímabundið, hvar jökuljaðrar
lágu og hvernig vatnsföllin hafa mótað
landið. Á Náttúrustofunni hefur verið unnið að kortlagningu á farvegum
Jökulsár á Breiðamerkursandi. Nú hefur verið lokið við að skrá flestalla þekkta
farvegi árinnar á kort, en slíkt nýtist meðal annars við gerð stjórnunar- og
verndaráætlunar Breiðamerkursands og skipulagsvinnu við Jökulsárlón sem unnið
er að í augnablikinu.
Jöklarnir eru stórvirkir í að rjúfa og móta landið á margan
hátt og ber allt Suðausturland þess merkis. Rof jökla skilur eftir opnur að
djúpbergi, en slíkt berg hefur storknað á miklu dýpi í jarðskorpunni. Annað sem
fylgir jöklum eru grettistök en það eru m.a. stórgrýti sem berast með jökli
langt frá upprunastað. Nú hefur verið lokið við gerð steinagarðs við náttúrustíginn
á Höfn en í honum eru átta stórgrýti víðs vegar að úr sveitarfélaginu. Markmið
garðsins er að kynna algengar bergtegundir sem hér finnast, en á hverjum steini
eru upplýsingar um uppruna og þyngd.
Nábýli við jöklana olli íbúum oft miklum skakkaföllum, allt
fram á miðja 20. öld. Þó að jöklarnir hafi minnkað og minni ógn stafi af þeim
geta þeir enn í dag valdið miklum skaða. Dæmi um það eru jökulhlaup en eitt af
verkefnum stofunnar sem lokið var við á þessu ári var skýrsla fyrir umhverfis-
og auðlindaráðuneytið. Í henni eru teknar saman allar fáanlegar upplýsingar um
jökulvötn og -hlaup í Skaftárhreppi. Þar er bæði rýnt í áhrif jökulvatna á
náttúruna og samfélagið. Skýrslan var unnin af starfsmönnum stofunnar á
Kirkjubæjarklaustri. Önnur vá sem er afleiðing af hopi jöklana eru skriðuföll.
Yfirvofandi skriðuhætta er nú í Svínafellsheiði, ofan við Svínafellsjökul. Vel
er fylgst með þessu af sérfræðingum Háskóla Íslands og Veðurstofu Íslands, en starfsfólk
Náttúrustofunnar kemur einnig að því samstarfi.
Suðausturland er í heild sinni paradís fyrir fugla en samkvæmt
alþjóðlegu fuglaverndarsamtökunum (e. BirdLife) er nánast allt svæðið
skilgreint sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Sem dæmi um mikilvægið má nefna
að um 75% íslenska skúmsstofnsins verpur á söndunum sunnan jökla. Rannsóknir starfsmanna
Náttúrustofunnar hafa þó sýnt að skúm hefur fækkað verulega undangengin ár og í
kjölfar þeirra niðurstaðna var skúmurinn færður á válista
Náttúrufræðistofnunnar Íslands árið 2018. Fækkunin stafar líklegast af lélegum
varpárangri sem er afleiðing breytinga í fæðuframboði, ekki hvað síst vegna hruns
sandsílisstofnsins sem rakið hefur verið til loftslagsbreytinga. Nú í sumar var
unnið að rannsókn um varpárangur skúms á Breiðamerkursandi og verður unnið úr
þeim gögnum nú á vordögum. En Suðausturland er ekki einungis höfuðvígi skúmsins
heldur hefur íslenski helsingjavarpstofninn kosið að verpa nær einungis í
þessum landshluta. Varpstofninn hefur vaxið hratt á undanförnum árum og
Náttúrustofan hefur í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands og
Fuglaathugunarstöð Suðausturlands fylgst grannt með því. Á næsta ári munu
erlendir sérfræðingar koma til landsins til helsingjarannsókna í samstarfi við
stofuna.
Varpstofnar bæði skúms og helsingja hafa tekið miklum
breytingum á skömmum tíma en þeir varpstofnar eru afmarkaðir við lítil svæði og
því er nokkuð auðvelt að mæla stofnstærðarbreytingar. Hins vegar er afar erfitt
að mæla slíkar breytingar hjá tegundum sem verpa í úthaga um landið allt, dæmi
um slíkar tegundir eru mófuglarnir okkar, til dæmis heiðlóa, hrossagaukur,
tjaldur og spói. Til að meta stofnstærðarbreytingar slíkra tegunda er
nauðsynlegt að beita öðrum aðferðum, t.d. með að vakta svæði þar sem fuglarnir
safnast saman, oft við fæðuöflun. Við hjá Náttúrustofunni höfum verið við slíka
vinnu hér umhverfis Höfn þar sem fjöldi vaðfugla á leirunum, bæði í Skarðsfirði
og Hornafirði, hefur verið vaktaður frá því sumarið 2018. Reglulegar og
staðlaðar mælingar yfir lengra tímabil eru besta leiðin til að greina
stofnstærðarbreytingar tegunda sem dreifast yfir stór svæði. Vöktunartölur
verða gefnar út árið 2020.
Ein ástæða þess hversu auðugt fuglalíf er að finna hér um
slóðir eru ríkuleg votlendi og vatnasvæði. Síðastliðin tvö sumur hefur stofan
skoðað fuglalíf við tjarnir í Sveitarfélaginu Hornafirði en vantað hefur upp á
upplýsingar um slíkt. Hluti þeirra gagna sem safnað eru myndir af tjörnunum sem
teknar voru með flygildi stofunnar. Þann 10. janúar 2020 verður opnuð sýningin
Tjarnarsýn í bókasafninu á Höfn með hluta þessara mynda sem Lilja
Jóhannesdóttir tók.
Samkvæmt lögum um Náttúrustofur ber okkur að fræða og miðla
þekkingu. Við á Náttúrustofu Suðausturlands tökum þessu hlutverki okkar
alvarlega og nýtum þau tækifæri sem okkur gefast. Í ár, sem önnur ár, höfum við
hitt skólahópa bæði frá Grunnskóla Hornafjarðar og Framhaldsskólanum í
Austur-Skaftafellssýslu, en líka fengið til okkar skólahópa bæði frá Landgræðsluskóla
og Jafnréttisskóla Sameinuðu þjóðanna og frá Kanadískum háskóla, svo fátt eitt
sé nefnt. Einnig tókum við á móti tveimur nemum í starfskynningu frá Grunnskóla
Hornafjarðar.
Í sumar heimsótti Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og
auðlindaráðherra Náttúrustofu Suðausturlands á Höfn og var ánægjulegt að fá
hann og samstarfsfólk hans til okkar. Starfsmenn stofunnar áttu góðan fund með
gestunum um málefni og verkefni stofunnar og að honum loknum var haldið út á
Jökulsárlón þar Vatnajökulsþjóðgarður vígði fræðslustíg þar sem sjá má skilti
um náttúru svæðisins. Náttúrustofa Suðausturlands vann efni á fjögur skilti og
við hvetjum alla að staldra við á leið sinni um Suðausturland og skoða
fræðslustíginn og umhverfið við Jökulsárlón.
Náttúrustofa Suðausturlands hefur nú verið starfrækt í sex ár hefur starfsemi hennar vaxið og dafnað. Í dag eru þrír starfsmenn á Höfn og tveir á Kirkjubæjarklaustri í hálfu starfi. Hver starfmaður á svona lítilli stofnun er mikilvægur og skiptir miklu að samspil menntunar og þekkingar starfsmanna sé gott því fjölbreyttur bakgrunnur eflir starf okkar til framtíðar. Við tökum því brosandi á móti nýju ári.
Bólstaðafoss og Fláajökull í vetrarbirtu – Ljósm.: Náttúrustofa Suðausturlands/Snævarr Guðmundsson 30. nóvember 2019.Nýklakinn skúmsungi bíður eftir systkini sínu á Breiðamerkursandi sumarið 2018. Ljósm.: Lilja Jóhannesdóttir.Ein tjarnanna sem fuglalíf var skoðað á, en hún er staðsett norðan við bæinn Volasel í Lóni. Ljósm. Náttúrustofa Suðausturlands/Lilja Jóhannesdóttir 6. júlí 2018. Hluti starfsfólks Náttúrustofu Suðausturlands með umhverfisráðherra við Jökulsárlón. Frá vinstri; Snævarr Guðmundsson, Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra, Kristín Hermannsdóttir og Lilja Jóhannesdóttir. Ljósm. Kristín Vala Þrastardóttir3. júlí 2019.
https://nattsa.is/wp-content/uploads/2019/12/Bolstadafoss_Flaajokull_2.jpg7152048Kristín Hermannsdóttirhttps://nattsa.is/wp-content/uploads/2013/09/Logo-Nattsa.pngKristín Hermannsdóttir2019-12-30 13:00:002020-01-02 11:03:31Stiklað á stóru í starfi Náttúrustofu Suðausturlands árið 2019
Þann 22. nóvember var
haldin lokaráðstefna CLIMATE, verkefnis sem Náttúrustofa Suðausturlands hefur
tekið þátt í undanfarin ár sem leitast við að finna lausnir til að takast á við
áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum.
CLIMATE leiðir saman
ólíka hagsmunaaðila frá átta Evrópulöndum með að sjónarmiði að vinna lausnir fyrir
mismunandi svæði. Þátttakendur verkefnisins eru fræðimenn, starfsmenn stofnana
og stefnumótendur sveitarfélaga og hefur verkefnið lagt áherslu á að miðla
þekkingu á milli landa.
Á ráðstefnunni, sem haldin var í Hoffelli í Hornafirði, var kynnt líkan sem er aðalafurð verkefnisins en líkanið nýtist sem leiðarvísir um hvernig best er aðlaga skipulag og viðbúnað vegna afleiðinga loftslagsbreytinga. Þær breytingar í veðurfari sem hafa átt sér stað og eru yfirvofandi snerta alla heimsbyggðina, t.d. ofsarigningar, þurrkar og hitabylgjur, en breytilegt er á milli svæða hverjar áskoranirnar eru, jafnvel á smáum skala líkt á milli sveitarfélaga á Íslandi. Þó að áskoranirnar séu ólíkar á milli landa og landsvæða þá nýtist líkanið stjórnvöldum alls staðar sem hjálpartæki til að aðlaga skipulag, þol opinberrar þjónustu og viðbrögð við loftslagsbreytingum.
Einfölduð mynd af líkaninu fyrir aðlögun að loftslagsbreytingum. Fyrst þarf að skoða hvað ógnar (hvaða veðurþættir) og hvað er í hættu á hverjum stað. Því næst að leita leiða til að mæta ógninni og forgangsraða mótvægisaðgerðum, framkvæma þær og að síðustu að meta árangur og endurskoða áætlanir. Ferlinu lýkur þó ekki þarna heldur þarf reglulega nota líkanið fyrir alla veðurþætti sem geta haft áhrif á hverjum stað, því slíkt getur breyst með tíma. Á vefsvæði verkefnisins sem verður aðgengilegt snemma árs 2020 verða mun ítarlegri upplýsingar um hvert skref fyrir sig, með gátlistum og aðferðum, aðlagað að mismunandi sviðmyndum.
Á ráðstefnunni var einnig
fjallað um staðbundin áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi og hvernig þurfi að
bregðast við þeim. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur flutti erindi um
loftslagsbreytingar á Íslandi, Snævarr Guðmundsson náttúrulandfræðingur
fjallaði um jöklabreytingar og Steinunn Hödd Harðardóttir starfsmaður
Vatnajökulsþjóðgarðs sagði frá þjóðgarðinum og áhrifum loftslagsbreytinga á
starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs. Fundinum stýrði Helga Árnadóttir,
þjóðgarðsvörður á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs, og var mæting góð og var
aðstaðan í Hoffelli til fyrirmyndar.
Ríkisútvarpið fjallaði um ráðstefnuna í hádegisfréttum þann 22.11.2019 og tekið var viðtal við Kristínu Hermannsdóttur, forstöðumann Náttúrustofu Suðausturlands en hún hefur leitt verkefnið fyrir hönd Íslands (viðtalið hefst á elleftu mínútu): RUV-hádegisfréttir.
Í þættinum Samfélagið á Rás 1 þann 25. nóvember var viðtal við Kristínu H. um CLIMATE-verkefnið og fleira tengt Náttúrustofunn (viðtalið hefst á 23 mínútu): RÁS1-Samfélagið.
Fjallað var um ráðstefnuna í Eystrahorni í 42. tölublaði 2019 og á vef blaðsins.
Ráðstefnugestir í Hoffelli, í baksýn má sjá Hoffellsjökul, en hann hefur minnkað ört síðustu áratugi. Ljósm. Michelle Coll.Snævarr Guðmundsson flytur erindi um jöklabreytingar á ráðstefnunni. Ljósm. Kristín Hermannsdóttir.Ráðstefnugestir hlýða á erindi Jennie Sandström í Hoffelli á CLIMATE ráðstefnu 22. nóvember 2019. Ljósm. Lilja Jóhannesdóttir.Verkefnahópurinn í heimsókn á Bessastöðum, hjá Hr. Guðna Th. Jóhannessyni forseta. Ljósm. Michelle Coll.
https://nattsa.is/wp-content/uploads/2019/11/Climate_logo.jpg4721063Kristín Hermannsdóttirhttps://nattsa.is/wp-content/uploads/2013/09/Logo-Nattsa.pngKristín Hermannsdóttir2019-11-29 14:28:382019-11-29 14:28:40Ráðstefna í Hornafirði um aðlögun að loftslagsbreytingum – CLIMATE
Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands um Jökulvötn
í Skaftárhreppi. Er hún afrakstur samnings
sem gerður var milli Náttúrustofu Suðausturlands og umhverfis- og
auðlindaráðuneytis, en einn liður í þeim samningi var að gera skipulega
samantekt (skýrslu) á fyrirliggjandi gögnum um jökulvötn í Skaftárhreppi og
áhrif þeirra.
Höfundar skýrslunnar eru Pálína Pálsdóttir og Rannveig
Ólafsdóttir, báðar búsettar í Skaftárhreppi. Leitað var fanga á ýmsum sviðum og
í samstarfi við margar stofnanir og einstaklinga og þannig reynt að fá sem
heilstæðasta mynd af jökulvötnunum og áhrifum þeirra.
Í skýrslunni er greint frá jökulvötnum í Skaftárhreppi og
áhrifum þeirra á náttúru og samfélag, en þar á sér stað talsvert gróður- og
landrof af völdum jökulvatna. Í byrjun október árið 2015 hljóp úr eystri
Skaftárkatli í Vatnajökli og reyndist það vera rennslismesta Skaftárhlaup síðan
mælingar hófust árið 1951 eða um 3.000 m3/sek. Þar sem um var að ræða stærri
atburð en áður hafði sést var ráðist í gerð þessarar skýrslu að beiðni umhverfis-
og auðlindaráðuneytisins.
Einnig er sagt frá áhrifum loftslagsbreytinga á jökulvötn og
nýtingu vatnsafls ásamt því hvernig hægt er að aðlagast breytingum þeim
tengdum. Farið er yfir helstu viðbragðsaðila þegar kemur að náttúruhamförum og
hvernig megi að draga úr tjóni af þeirra völdum með skipulegri áhættustýringu
og viðbragðsáætlunum.
Skýrslan er vistuð á vef Náttúrstofu Suðausturlands (nattsa.is), en einnig verður hægt að finna eintök á héraðsbókasafni Skaftárhrepps, skrifstofu Skaftárhrepps, Kirkjubæjarstofu, hjá umhverfis- og auðlindaráðuneyti, höfundum og fleirum.