Nýr starfsmaður Náttúrustofu Suðausturlands
Um áramótin tók til starfa nýr starfsmaður hjá Náttúrustofunni, Álfur Birkir Bjarnason. Álfur er með B.Sc. gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands og í tölvunarstærðfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Álfur kemur inn í 50% stöðu til að byrja með en samhliða henni vinnur hann sem verkefnastjóri hjá Vatnajökulsþjóðgarði. Áður hefur Álfur m.a. starfað sem stundakennari hjá Háskólanum í Reykjavík, sem gagnavísindamaður hjá Meniga og sinnt landvörslu fyrir Vatnajökulsþjóðagarð. Álfur er mikill útivistarmaður og náttúrubarn og var kjörinn formaður Samtakanna ‘78 síðasta vor. Rannsóknaráherslur hans snúa helst að plöntuvistfræði og gróðri en auk þeirra mun hann sinna fjölbreyttum verkefnum hjá stofunni. Álfur verður með aðsetur á Kirkjubæjarklaustri og bjóðum við hann hjartanlega velkomin til starfa.