Stjörnustöðin sem Snævarr notar við mælingar sínar

Snævarr – heiðursfélagi í Alþjóðasambandi stjarnfræðinga

Þann 14. ágúst 2024 var starfsmaður Náttúrustofu Suðausturlands, Snævarr Guðmundsson, einn þeirra fimmtán sem samþykktir voru sem heiðursfélagar í Alþjóðasambandi stjarnfræðinga (IAU: International Astronomical Union). Hann er nú í hópi 35 einstaklinga hvaðan af úr heiminum sem hafa hlotið þessa viðurkenningu. IAU hóf fyrst árið 2018 að heiðra einstaklinga sem ekki uppfylla skilyrði sem menntaðir stjörnufræðingar en hafa lagt sitt af mörkum til stjarnfræðilegra rannsóknar og menningu í sínu landi. Heiðursfélagar geta einungis þeir orðið sem eru tilnefndir af landsnefndum aðildarþjóða IAU. Landsnefnd Stjarnvísindafélags Íslands tilnefndi Snævarr sem heiðursfélaga í IAU og er hann fyrsti Íslendingurinn til að hljóta þennan heiður.

Snævarr er jöklafræðingur en hefur fylgst með stjörnum í frítíma sínum í hátt í fjóra áratugi. Hann var útnefndur heiðursfélagi vegna ljósmælinga á breytistjörnum, myrkvatvístirnum og þvergöngum fjarreikistjarna, frá Íslandi, og framlagi hans í að kynna almenningi stjörnufræði.

Formleg tilkynning var birt á heimasíðu IAU í síðasta mánuði (ágúst) auk þess sem morgunþátturinn „Ísland í bítið“ á Bylgjunni og netmiðillinn Vísir birtu nýlega viðtal við Snævarr. Náttúrustofa Suðausturlands óskar honum innilega til hamingju með viðurkenninguna.

97. árbók Ferðafélags Íslands Sunnan Vatnajökuls – Frá Núpsstað til Suðursveitar kom út 2024.

Sunnan Vatnajökuls – Frá Núpsstað til Suðursveitar: Árbók FÍ 2024

Vorið 2024 kom út árbók Ferðafélags Íslands, og er það í 97. árið í röð sem það gerist. Árbókin 2024 heitir – Sunnan Vatnajökuls – Frá Núpsstað til Suðursveitar –   og eins og titillinn gefur til kynna fjallar hún um svæði sem nær frá Djúpá í Fljótshverfi austur í Steinadal í Suðursveit. Það markast í suðri af strandlengjunni og í norðri vatnaskilum Vatnajökuls. Allt svæðið er innan þeirra marka sem við á Náttúrustofu Suðausturlands skilgreinum okkar starfsvettvang í rannsóknum á náttúrufari.

Þrjár af árbókum Ferðafélags Íslands hafa áður fjallað um suðausturland með einum eða öðrum hætti. Sú fyrsta nefnist Austur-Skaftafellssýsla og hún kom út árið 1937. Jón Eyþórsson veðurfræðingur, forseti Ferðafélagsins og stofnandi Jöklarannsóknafélags Íslands tók hana saman. Hún lýsir landsháttum í sýslunni, frá Skeiðarárjökli í vestri og austur í Lónsöræfi. Árbókin 1979 – Öræfasveit – var rituð af Sigurði Björnssyni á Kvískerjum, og afmarkast við þá fallegu sveit. Á þeim tíma höfðu stórvötnin á Skeiðarársandi nýlega verið brúuð og breyttir samgönguhættir gert aðgengi í sýsluna betra en fyrr.  Þriðja árbókin kom svo út árið 1993. Sú heitir – Við rætur Vatnajökuls –  og lýsir frá Austur-Skaftafellssýslu, að stórum hluta. Bókin var rituð af Hjörleifi Guttormssyni náttúrufræðingi, sem er einn höfunda hinnar nýju árbókar. Ásamt Hjörleifi eru höfundar árbókarinnar 2024 þeir Snævarr Guðmundsson náttúrulandfræðingur hjá Náttúrustofu Suðausturlands og Oddur Sigurðsson jarðfræðingur. Langflestar ljósmyndir í bókinni eru eftir höfundana og jafnframt sá Snævarr um gerð korta og skýringarmynda.

Að vanda kynna árbækur Ferðafélagsins valin svæði í gegnum landlýsingu, jarðfræði og náttúrufar. Að auki er fjallað um söguna, samfélagið og  einstaklinga sem hafa verið áberandi þar. Sagt er frá stofnun Skaftajökulsþjóðgarðs, sem varð síðar hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Á þeim rúmu þrjátíu árum sem hafa liðið frá því að árbók fjallaði síðast þetta svæði hafa miklar breytingar orðið í þessum landsfjórðungi, bæði landslagi og jöklunum en einnig samfélaginu. Meira um bókina má sjá hér.

Viðtöl voru tekin við fjórar konur úr Skaftafellssýslum. Frá vinstri til hægri: Elínborg Pálsdóttir, Halla Bjarnadóttir, Ingibjörg Zophoníasdóttir og Laufey Lárusdóttir.

Fortíðarsamtal fyrir framtíðina

Á dögunum birtum við fjögur viðtöl á YouTube rás stofunnar sem Snævarr Guðmundsson og Kristín Hermannsdóttir tóku við eldri konur úr Skaftafellssýslum á árunum 2020 og 2021.

Rætt var við:

  • Elínborgu Pálsdóttur, fædd á Böðvarshólum í Vesturhópi 3. september 1923, en flutti síðar á Höfn. Viðtalið er tekið 3. september 2021
  • Höllu Bjarnadóttur, fædd á Holtum á Mýrum 24. febrúar 1930 en flutti síðar á Höfn. Viðtalið er tekið 21. september 2021
  • Ingibjörgu Zophoníasdóttur, fædd á Hóli í Svarfaðardal 22. ágúst 1923, en flutti síðar að Hala. Viðtalið er tekið 24. ágúst 2021
  • Laufeyju Lárusdóttur, fædd á Svínafelli í Öræfum 14. ágúst 1927, en bjó síðar í Skaftafelli. Viðtalið er tekið 30. júní 2020

Viðtölunum er ætlað að varðveita sögu þeirra og upplifun af umhverfisbreytingum, breyttum atvinnuháttum og tíðaranda. Á ævi sinni urðu þessar konur vitni af miklum breytingum á samfélagi, náttúru og tækni en saga kvenna hefur oft á tíðum ekki fengið eins mikla athygli og frásagnir karla.

Verkefnið fortíðarsamtal fyrir framtíðina er samstarfsverkefni milli Náttúrustofu Suðausturlands og Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar og var styrkt af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga (SASS). Viðtölin voru fyrst aðgengileg almenning á 20 ára afmælishátíð Nýheima sem haldin var í lok ágúst 2022 en nú hefur aðgengi að þeim verið aukið með birtingu á YouTube og vonum við að þið njótið vel. Allar konurnar gáfu leyfi sitt fyrir birtingu viðtalsins og má nálgast hvert og eitt viðtal með að smella á nafn viðkomandi konu hér að ofan. Rannveig Rögn Leifsdóttir vann viðtölin.

Rúmlega tuttugu manns komu í fræðslugöngu og gengu að Háuklettum í Botnum þar sem þessi mynd var tekin í þó nokkurri rigningu

Blautir Botnar í blómaskrúð

Síðastliðinn föstudag, 21. júní, stóð náttúrustofan fyrir fræðslugöngu um Botna í Meðallandi. Gangan var skipulögð í samstarfi við landeigendur, Vatnajökulsþjóðgarð og Ungmennafélagið ÁS í tilefni Dags hinna villtu blóma. Gengið var frá Botnabænum að Háuklettum, fram hjá Trjágróf og að lokum var boðið upp á kaffi í glæsilegum garðskála.

Dagur hinna villtu blóma er árlegur Norrænn viðburður þar sem boðið er upp á plöntuskoðunarferðir. Dagurinn er í reynd þann 16. júní en við ákváðum að halda upp á hann föstudaginn 21. júní og sameina skemmtigöngum sem Ungmennafélagið ÁS stendur fyrir á föstudögum í sumar.

Bæjarstæðið Í Botnum er um margt sérstakt en þar mætast þrjú hraunlög. Það elsta og syðsta er Botnahraunið sem rann úr Hálsagígum fyrir um 5.300 árum síðan. Ofan á því liggur þykkur hraunbunki sem upprunninn er úr Eldgjárgosinu um 934-940. Þetta hraun er það mesta sem runnið hefur á Íslandi, og heiminum öllum, frá landnámi og hefur verið gríðarlegur hörmungaatburður. Í dag er hraunið vel gróið móa og birkikjarri og undan því spretta fjölmargar lindir sem renna í Eldvatn í Meðallandi. Í Skaftáreldum árið 1783 rann svo þriðja hraunið á þessu svæði. Það kom úr Lakagígum og er það næstmesta frá landnámi Íslands. Eldhraunið úr Skaftáreldum rann yfir gamla bæinn í Botnum en stöðvaðist á sandöldu og hér má því sjá þessi þrjú hraun mætast og lindirnar spretta undan hverju og einu þeirra. Skaftáreldahraunið er frábrugðið hinum hraununum að því leyti að það er hulið þykkri, mjúkri mosamottu en hin hraunin vaxin móagróðri.

Rúmlega tuttugu manns mættu í fræðslugönguna í Botnum og veltu fyrir sér sögunni, hraunlögum, gróðri og lindarvatni. Við þökkum kærlega fyrir góða þátttöku og skemmtilega samveru þrátt fyrir vætu. Sérstaklega viljum við þakka landeigendum í Botnum fyrir að taka á móti okkur og Vatnajökulsþjóðgarði fyrir gott kaffi að göngu lokinni.

Landselur liggur á sandbakka við Fjallsá og klórar sér í andlitinu

Tveir styrkir úr Atvinnu- og rannsóknasjóði Sveitarfélagsins Hornafjarðar árið 2024

Þann 8. mars hlaut Náttúrustofa Suðausturlands tvo styrki úr Atvinnu- og rannsóknasjóði Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Annars vegar 325.000 kr. til frekari rannsókna á klettafrú og hins vegar 325.000 kr. til að hefja reglulegar talningar á landsel í Hornafirði og Skarðsfirði.

Lesa meira

Snævarr Guðmundsson, Kristín Hermannsdóttir og Rögnvaldur Ólafsson njóta veitinga fyrir ársfund Náttúrustofu Suðausturlands í febrúar 2018

Minning – Dr. Rögnvaldur Ólafsson

Í dag kveðjum við máttarstólpa í sögu Náttúrustofu Suðausturlands þegar Rögnvaldur Ólafsson verður jarðsunginn frá Neskirkju. Rögnvaldur var hvatamaður að stofnun Náttúrustofunnar og sat hann sem formaður í stjórn hennar allt frá upphafi árið 2013 fram á mitt ár 2022 þegar þrekið var farið að þverra um of. Engu fyrr var hann reiðubúinn að kveðja okkur hér á stofunni. Rögnvaldur hafði alla tíð óbilandi trú á starfi okkar og var ávallt hvetjandi og bjartsýnn. Hann sýndi okkur starfsfólkinu einlægan áhuga og hvatti til dáða, bæði sem vísindamenn en einnig sem manneskjur. Rögnvaldur sinnti formennsku við stjórn stofunnar af elju, var bóngóður og fór gjarnan erinda okkar í borginni þegar á reyndi. Því fór fjarri að Náttúrustofan væri eina stofnunin sem nyti góðs af kröftum hans en Rögnvaldur sat í stjórn fjölda þekkingasetra á landsbyggðinni og stýrði uppbyggingu Rannsóknasetra Háskóla Íslands víða um land. Rögnvaldur hafði skýra sýn á mikilvægi þess að vísindi væru unnin um allt land með afburða vísindafólki og lét verkin tala. Það sést glöggt þegar litið yfir glæstan feril hans.

Ég kynntist fyrst Rögnvaldi sem meistaranemi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi og strax við fyrstu kynni fékk maður að finna fyrir einlægum áhuga hans á störfum manns og hvatningu til góðra verka. Þegar ég kvaddi svo rannsóknasetrið til að koma að vinna við Náttúrustofu Suðausturlands var ég svo ótrúlega lánsöm að fá að njóta nærveru hans áfram. Vil ég fyrir hönd allra starfsmanna stofunnar fyrr og síðar þakka Rögnvaldi fyrir góða fylgd og hans góðu störf. Blessuð sé minning hans.

Lilja Jóhannesdóttir, forstöðumaður

Ársfundur Náttúrustofu Suðausturlands 2024

Síðastliðinn mánudag, 11. mars, var ársfundur Náttúrustofu Suðausturlands 2024 haldinn. Að þessu sinni var fundurinn haldinn í fyrirlestrasal Nýheima á Höfn í Hornafirði. Farið var yfir ársskýrslu og ársreikning stofunnar árið 2023 auk þess sem helstu verkefni síðastliðins árs voru kynnt. Auk venjubundinna fundarstarfa flutti starfsfólk stofunnar erindi úr starfi stofunnar. Álfur Birkir Bjarnason flutti erindið af afdrifaríkum æxlunartilþrifum klettafrúar og fræddi gesti um líf klettafrúar. Hólmfríður Jakobsdóttir flutti erindið rannsóknir frá fjalli til fjöru sem fjallaði um rannsóknir á tröllasmið og selatalningar sem náttúrustofan hóf í byrjun árs. Snævarr Guðmundsson flutti erindið Breiðamerkurjökull- birtingarmyndir jökulbreytinga þar sem hann fór yfir hvernig ný jökulsker eru að koma í ljós og jökulrendur að breytast í takt við hop Breiðamerkurjökuls.

Ársfundur Náttúrustofu Suðausturlands 2024 var vel sóttur en auk gesta í sal fylgdust einnig nokkrir með fundnum í streymi á netinu.

Ársskýrslu Náttúrustofu Suðausturlands 2023 má sjá hér.

Upptöku af yfirferð ársreiknings og starfi stofunnar 2023 má sjá hér.

Orkurannsóknasjóður styrkir rannsóknir á klettafrú

Náttúrustofa Suðausturlands hefur hlotið 1,5 milljón króna styrk frá Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar til rannsókna á lífsferli klettafrúar í Skaftárhreppi og Sveitarfélaginu Hornafirði. Verkefninu er stýrt af Álfi Birkir Bjarnasyni, starfsmanni náttúrustofunnar, og miðar að því að afla þekkingar á lykilþáttum lífsferils klettafrúar á Íslandi.

Lesa meira

Breiðamerkursandur – Mat á náttúru, menningarminjum og innviðum

Árið 2023 lögðu Náttúrustofa Suðausturlands og Nýheimar Þekkingarsetur lokahönd á mat á náttúru, menningarminjum og innviðum á Breiðamerkursandi fyrir Vatnajökulþjóðgarð. Að verkefninu komu einnig Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Hornafirði, Menningarmiðstöð Hornafjarðar, Efla og Náttúrustofa Austurlands. Lesa meira

Nýr starfsmaður

Í janúar tók til starfa nýr starfsmaður hjá Náttúrustofunni, Hólmfríður Jakobsdóttir. Hólmfríður er með M.Sc. gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands. Hólmfríður kemur í fullt starf tímabundið en hún hefur áður starfað í eitt sumar sem sumarstafsmaður hjá stofunni. Hólmfríður hefur alltaf haft mikinn áhuga á dýralífi og náttúrunni en hún kemur til með að sinna fjölbreyttum verkefnum hjá stofunni. Í gegnum nám sitt hefur Hólmfríður öðlast reynslu af tölfræði og líkanagerð en hennar helstu rannsóknaráherslur eru vistfræði og atferli dýra. Hólmfríður vann B.Sc. verkefni um hóphegðun andanefja (Hyperoodon ampullatus) og M.Sc. verkefni um áhrif ferðamanna og annara umhverfisþátta á fjölda landsels (Phoca vitulina) í látri. Hólmfríður verður með aðsetur á Höfn og bjóðum við hana hjartanlega velkomna til starfa.