Snævarr – heiðursfélagi í Alþjóðasambandi stjarnfræðinga
Þann 14. ágúst 2024 var starfsmaður Náttúrustofu Suðausturlands, Snævarr Guðmundsson, einn þeirra fimmtán sem samþykktir voru sem heiðursfélagar í Alþjóðasambandi stjarnfræðinga (IAU: International Astronomical Union). Hann er nú í hópi 35 einstaklinga hvaðan af úr heiminum sem hafa hlotið þessa viðurkenningu. IAU hóf fyrst árið 2018 að heiðra einstaklinga sem ekki uppfylla skilyrði sem menntaðir stjörnufræðingar en hafa lagt sitt af mörkum til stjarnfræðilegra rannsóknar og menningu í sínu landi. Heiðursfélagar geta einungis þeir orðið sem eru tilnefndir af landsnefndum aðildarþjóða IAU. Landsnefnd Stjarnvísindafélags Íslands tilnefndi Snævarr sem heiðursfélaga í IAU og er hann fyrsti Íslendingurinn til að hljóta þennan heiður.
Snævarr er jöklafræðingur en hefur fylgst með stjörnum í frítíma sínum í hátt í fjóra áratugi. Hann var útnefndur heiðursfélagi vegna ljósmælinga á breytistjörnum, myrkvatvístirnum og þvergöngum fjarreikistjarna, frá Íslandi, og framlagi hans í að kynna almenningi stjörnufræði.
Formleg tilkynning var birt á heimasíðu IAU í síðasta mánuði (ágúst) auk þess sem morgunþátturinn „Ísland í bítið“ á Bylgjunni og netmiðillinn Vísir birtu nýlega viðtal við Snævarr. Náttúrustofa Suðausturlands óskar honum innilega til hamingju með viðurkenninguna.