Rúmlega tuttugu manns komu í fræðslugöngu og gengu að Háuklettum í Botnum þar sem þessi mynd var tekin í þó nokkurri rigningu

Blautir Botnar í blómaskrúð

Síðastliðinn föstudag, 21. júní, stóð náttúrustofan fyrir fræðslugöngu um Botna í Meðallandi. Gangan var skipulögð í samstarfi við landeigendur, Vatnajökulsþjóðgarð og Ungmennafélagið ÁS í tilefni Dags hinna villtu blóma. Gengið var frá Botnabænum að Háuklettum, fram hjá Trjágróf og að lokum var boðið upp á kaffi í glæsilegum garðskála.

Dagur hinna villtu blóma er árlegur Norrænn viðburður þar sem boðið er upp á plöntuskoðunarferðir. Dagurinn er í reynd þann 16. júní en við ákváðum að halda upp á hann föstudaginn 21. júní og sameina skemmtigöngum sem Ungmennafélagið ÁS stendur fyrir á föstudögum í sumar.

Bæjarstæðið Í Botnum er um margt sérstakt en þar mætast þrjú hraunlög. Það elsta og syðsta er Botnahraunið sem rann úr Hálsagígum fyrir um 5.300 árum síðan. Ofan á því liggur þykkur hraunbunki sem upprunninn er úr Eldgjárgosinu um 934-940. Þetta hraun er það mesta sem runnið hefur á Íslandi, og heiminum öllum, frá landnámi og hefur verið gríðarlegur hörmungaatburður. Í dag er hraunið vel gróið móa og birkikjarri og undan því spretta fjölmargar lindir sem renna í Eldvatn í Meðallandi. Í Skaftáreldum árið 1783 rann svo þriðja hraunið á þessu svæði. Það kom úr Lakagígum og er það næstmesta frá landnámi Íslands. Eldhraunið úr Skaftáreldum rann yfir gamla bæinn í Botnum en stöðvaðist á sandöldu og hér má því sjá þessi þrjú hraun mætast og lindirnar spretta undan hverju og einu þeirra. Skaftáreldahraunið er frábrugðið hinum hraununum að því leyti að það er hulið þykkri, mjúkri mosamottu en hin hraunin vaxin móagróðri.

Rúmlega tuttugu manns mættu í fræðslugönguna í Botnum og veltu fyrir sér sögunni, hraunlögum, gróðri og lindarvatni. Við þökkum kærlega fyrir góða þátttöku og skemmtilega samveru þrátt fyrir vætu. Sérstaklega viljum við þakka landeigendum í Botnum fyrir að taka á móti okkur og Vatnajökulsþjóðgarði fyrir gott kaffi að göngu lokinni.