Tveir styrkir úr Atvinnu- og rannsóknasjóði Sveitarfélagsins Hornafjarðar árið 2024
Þann 8. mars hlaut Náttúrustofa Suðausturlands tvo styrki úr Atvinnu- og rannsóknasjóði Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Annars vegar 325.000 kr. til frekari rannsókna á klettafrú og hins vegar 325.000 kr. til að hefja reglulegar talningar á landsel í Hornafirði og Skarðsfirði.
Klettafrúrrannsóknir halda áfram
Náttúrustofan hóf rannsóknir á klettafrú sumarið 2023 í umsjón Álfs Birkis og hlaut þá einnig styrk úr sjóðnum. Verkefnið snýr að lífsferli klettafrúr en hún er fjölær og einæxla sem þýðir að æviskeiði hennar má skipta í tvennt, nokkurra ára vaxtarfasa og stakan æxlunarfasa. Frumniðurstöður verkefnisins frá 2023 benda til þess að vaxtarfasinn spanni að jafnaði 12 til 20 ár. Á þeim tíma leggur plantan allar sínar auðlindir í að vaxa og safna forða. Þegar plantan hefur vaxið í nokkur ár og náð ákveðnum stærðarþröskuldi hefst æxlunarfasinn. Þá er allur uppsafnaður forði plöntunnar nýttur í einn stakan æxlunarviðburð, plantan blómstrar allt að 300 blómum á einu sumri og deyr að blómgun lokinni. Á Íslandi er því mikilvægt fyrir hverja klettafrú að hitta á gott sumar því ef blómgunarskilyrði eru slæm það ár sem plantan blómgast er allt unnið fyrir gýg. Auk klettafrúr hafa aðeins sex íslenskar plöntur sambærilegan lífsferil.
Hvað eru landselirnir að gera í Hornafirði og Skarðsfirði?
Talningar á landsel í Hornafirði og Skarðsfirði er nýtt verkefni hjá Náttúrustofunni. Verkefnið byggir á reglulegum talningum til að meta fjölda sela í látrum í Hornafirði og Skarðsfirði. Breytingar á fjölda sela yfir árið gefa hugmynd um hvenær þeir nýta mismunandi svæði og þar með mikilvægi svæðanna vegna ákveðinna nytja. Að undantöldu heildarstofnmati sem nær yfir allt Ísland hefur landselurinn ekki verið rannsakaður í Hornafirði og Skarðsfirði. Fjöldi sela í stofnstæðarmötum síðustu ára hefur auk þess verið afar breytilegur, allt frá sex selum árið 2011 upp í rúmlega fjörutíu seli árið 2020. Þessari rannsókn er ætlað að varpa betur ljósi á fjölda sela í Hornafirði og Skarðsfirði, og hvernig þeir nýta sér svæðið með tilliti til mismunandi lífsþátta, svo sem kæpingar, háraskipta og/eða fæðuöflunar. Hólmfríður Jakobsdóttir hefur umsjón með verkefninu og er það unnið í samstarfi við Selasetur Íslands og Hafrannsóknarstofnun.
Mikilvægur stuðningur sem skilar sér aftur til samfélagsins
Náttúrustofa Suðausturlands hefur áður hlotið fjölmarga styrki úr Atvinnu- og rannsóknasjóði. Þar má nefna styrki vegna aldursgreiningar á fornum birkileifum sem fannst við norðanvert Jökulsárlón árið 2018, vöktunar vaðfugla á leirunum í Skarðsfirði 2020 og dýptarmælingar jökullóna árið 2021. Náttúrustofan er afar þakklát fyrir þann stuðning sem sjóðurinn hefur veitt henni til mikilvægra náttúrurannsókna í Sveitarfélaginu Hornafirði. Rannsóknir sem þessar eru til þess fallnar að byggja undir sérstöðu svæðisins, dýpka þekkingu íbúa á svæðinu og auka samheldni samfélagsins. Styrkir ársins 2024 eru engin undantekning þar á.