Minning – Dr. Rögnvaldur Ólafsson
Í dag kveðjum við máttarstólpa í sögu Náttúrustofu Suðausturlands þegar Rögnvaldur Ólafsson verður jarðsunginn frá Neskirkju. Rögnvaldur var hvatamaður að stofnun Náttúrustofunnar og sat hann sem formaður í stjórn hennar allt frá upphafi árið 2013 fram á mitt ár 2022 þegar þrekið var farið að þverra um of. Engu fyrr var hann reiðubúinn að kveðja okkur hér á stofunni. Rögnvaldur hafði alla tíð óbilandi trú á starfi okkar og var ávallt hvetjandi og bjartsýnn. Hann sýndi okkur starfsfólkinu einlægan áhuga og hvatti til dáða, bæði sem vísindamenn en einnig sem manneskjur. Rögnvaldur sinnti formennsku við stjórn stofunnar af elju, var bóngóður og fór gjarnan erinda okkar í borginni þegar á reyndi. Því fór fjarri að Náttúrustofan væri eina stofnunin sem nyti góðs af kröftum hans en Rögnvaldur sat í stjórn fjölda þekkingasetra á landsbyggðinni og stýrði uppbyggingu Rannsóknasetra Háskóla Íslands víða um land. Rögnvaldur hafði skýra sýn á mikilvægi þess að vísindi væru unnin um allt land með afburða vísindafólki og lét verkin tala. Það sést glöggt þegar litið yfir glæstan feril hans.
Ég kynntist fyrst Rögnvaldi sem meistaranemi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi og strax við fyrstu kynni fékk maður að finna fyrir einlægum áhuga hans á störfum manns og hvatningu til góðra verka. Þegar ég kvaddi svo rannsóknasetrið til að koma að vinna við Náttúrustofu Suðausturlands var ég svo ótrúlega lánsöm að fá að njóta nærveru hans áfram. Vil ég fyrir hönd allra starfsmanna stofunnar fyrr og síðar þakka Rögnvaldi fyrir góða fylgd og hans góðu störf. Blessuð sé minning hans.
Lilja Jóhannesdóttir, forstöðumaður