Náttúrustofuþing á Höfn – 8. april 2015 kl. 10:00 – 16:30

Náttúrustofuþing Samtaka Náttúrustofa (SNS) verður haldið á Höfn í Hornafirði miðvikudaginn 8. apríl 2015.  Gestgjafar þingsins að þessu sinni eru Náttúrustofa Suðausturlands í samvinnu við Samtök Náttúrustofa, Rannsóknasetur H.Í. á Hornafirði og Nýheima Þekkingarsetur.

Þema þingsins er fuglar, með sérstaka áherslu á samstarf áhuga- og fræðimanna sem sinna athugunum og rannsóknum á fuglum á Íslandi.

Þingið verður opið almenningi og gefst gestum tækifæri á að hlýða á fjölbreytt erindi starfsmanna náttúrustofa landsins og auk gestafyrirlesara.
Gert er ráð fyrir að þingið hefist kl.10 og að því ljúki kl. 16:30.

Eftir þinglok er gert ráð fyrir stuttri ferð að Hoffellsjökli og sameiginlegum kvöldverði á Hótel Höfn.

Ókeypis er inn á þingið en æskilegt er að þátttaka tilkynnist í netfangið kristin@nattsa.is fyrir 2. april svo gera megi ráðstafanir með hádegismat, kaffi og rútuferð.

Aðstandendur þingsins vonast til að sjá sem flesta á Höfn.

Hér fyrir neðan má sjá dagskrá þingsins.

Dagskrá náttúrustofuþings 2015

Dagskrá náttúrustofuþings 2015

 

Almyrkvi 29. mars 2006

Sólmyrkvinn 20. mars 2015

Deildarmyrkvi

Deildarmyrkvi. Ljósmynd Snævarr Guðmundsson

Sólmyrkvi verður sjáanlegur frá Íslandi, að morgni þann 20. mars 2015. Á þeim tíma á sér stað almyrkvi í hafinu austan Íslands, og sem verður sjáanlegur m.a. frá Færeyjum og Svalbarða. Eins og heitið gefur til kynna hylur tunglið sólina alla í almyrkva. Skugginn er hins vegar afmarkaður og utan hans sjá athugendur svonefndan deildarmyrkva. Þá hylst sólin ekki öll að baki tunglinu. Litlu munar þó og frá Hornafirði séð mun 99,4% sólar verða hulinn þegar myrkvinn nær hámarki. Greinargóðar skýringar á þessum atburði og sólmyrkvum almennt finnast í Almanaki Háskóla Íslands og vefsíðu þess, http://almanak.hi.is/myrk2015.html, og Stjörnufræðivefnum, http://www.stjornufraedi.is. Atburðarásin er sú, séð frá Höfn í Hornafirði, að kl. 8:39 fer tunglið að ganga inn á skífu sólar hægra megin. Myrkvinn er mestur um klukkustund síðar, kl. 09:40 og síðan lýkur myrkvanum um kl. 10:43.

Við hvetjum fólk til að fylgjast með. Búast má við nokkru rökkri um tíma, jafnvel þó myrkvinn sjáist ekki vegna skýja. Fólk er þó varað við að horfa beint á sólina án sérstakra gleraugna, vegna mikillar hættu á alvarlegum augnskaða. Í tilefni þessa atburðar ákvað Náttúrustofa Suðausturlands í samstarfi við Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnaness að gefa nemendum og öllu starfsfólki í Grunnskóla Hornafjarðar og Kirkjubæjarskóla svokölluð sólmyrkvagleraugu. Rafsuðugler er einnig nýtilegt eða filma en vissa þarf að vera fyrir að það hleypi ekki hættulegum geislum í gegn. Fyrir utan gleraugun sem allir í grunnskólunum fá er Náttúrustofa Suðausturlands með 50 gleraugu til sölu á 500 kr. stykkið. Áhugasamir geta komið og keypt gleraugu á Náttúrustofu Suðausturlands í Nýheimum 18. og 19. mars. Fyrstur kemur fyrstu fær. Svo vonum við öll að það verði léttskýjað þegar sólmyrkvinn á sér stað.

Sólmyrkvi. Ljósmynd Snævarr Guðmundsson

Almyrkvi 29. mars 2006. Sólkórónan og sólstrókar frá yfirborði sólar sjáanlegir. Ljósmynd Snævarr Guðmundsson.

Atburðarrás sólmyrkva 2006. Myndin er samsett til að sýna atburðarás sólmyrkva sem sást m.a. frá Tyrklandi 29. mars 2006. Tunglið fór að hylja sólina hægra megin frá svo horfa ætti á myndina frá frá hægri til vinstri. Meðan tunglið hylur einungis hluta af sólinni er myrkvinn svonefndur deildarmyrkvi. Í almyrkvanum sjálfum birtist sólkórónan og ýmis önnur fyrirbrigði. Í sólmyrkvanum 20. mars 2015, séð frá Höfn í Hornafirði hylst 99,4% sólar svo það munar einungis hársbreidd að um almyrkva sé að ræða. Ljósmyndir Snævarr Guðmundsson.

Líffræðingur – sumarstarf

Náttúrustofa Suðausturlands auglýsir sumarstarf á komandi sumri fyrir líffræðing, í M.Sc námi eða þriðja árs nema. Starfið felst í rannsóknum og úttekt á lífríki Skarðsfjarðar, sem er austan við Höfn í Hornafirði. Gagnasöfnun, úrvinnsla gagna og skýrslugerð, auk þátttöku í öðrum verkefnum Náttúrustofunnar. Starfshlutfallið er 100%, eða eftir samkomulagi. Starfsaðstaða er á Höfn í Hornafirði.

Starfsmaðurinn þarf að hafa góða íslensku- og tölvukunnáttu, vera skipulagður, sjálfstæður í vinnubrögðum og eiga gott með samstarf. Reynsla af rannsóknarstörfum er æskileg.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og hlutaðeigandi stéttarfélags.

Umsóknir með upplýsingum um starfsferil og menntun skulu berast Náttúrustofu Suðausturlands, Litlubrú 2, 780 Höfn eða á netfangið kristin@nattsa.is fyrir 25. mars.

Nánari upplýsingar veitir Kristín Hermannsdóttir forstöðumaður í síma 4708060

Líkan af jörðinni

„Sólin sprungin og jörðin horfin!“

Síðastliðið sumar var sett upp líkan af sólkerfinu á Höfn á vegum Náttúrustofu Suðausturlands. Það er við göngustíg sem liggur frá Óslandshæð að golfvelli. Sólin er staðsett í Óslandinu, en reikistjörnurnar raða sér svo í réttum hlutföllum hvað varðar stærð og fjarlægð, hér og þar við göngustíginn.

„Sólin“ sem sett var upp síðasta sumar var úr þunnu stáli og var kúlan fyllt með steypu, bæði til að halda henni á sínum stað og einnig til að stálið héldi lögun sinni.

Nú hefur það hins vegar komið í ljós að „sólin“ hefur ekki þolað veðrið og kuldann í vetur. Líklega hafa tveir samverkandi þættir átt hlut að máli. Steypan þanist lítið eitt út í frosti en stálið dregist einnig talsvert saman í frosti. Svo það kom sprunga á miðja kúluna og hún rifnaði í sundur.

Nú er búið að panta nýja og endurbætta kúlu sem verður sett upp í stað núverandi sólar á sama stað. Svo „sólin“ okkar verður betri en ný áður en langt um líður.

Um nýliðna helgi kom svo í ljós að einhver hefur tekið líkanið af jörðinni, annað hvort að gammni sínu eða til láns. Þetta líkan er rennd kúla á enda málmstangar og er kúlan álíka stór og baun en stöngin um 20 cm á lengd. Við skorum eindregið á þann sem tók jörðina að skila henni aftur, annað hvort í pósthólf Náttúrustofu Suðausturlands í Nýheimum eða á sinn stað.

 

Jörðin á sínum stað við Óslandshæð sumarið 2014

Jörðin á sínum stað við Óslandshæð sumarið 2014

Sólin sprungin um miðbaug í janúar 2015

Sólin sprungin um miðbaug í janúar 2015

 

 

Grasvefari

Fiðrildavöktun 2014 í Einarslundi

Sumarið 2014 var sett upp fiðrildagildra í Einarslundi við Hornafjörð. Þessi gildra var áður á Kvískerjum og fangaði fiðrildi þar undanfarna áratugi. Þann 16. april var kveikt á gildrunni og var það Hálfdán Björnsson frá Kvískerjum sem gerði það. Fyrstu fiðrildin komu í gildruna um miðjan mai en flest fiðrildi voru í henni við vitjun í lok ágúst, 117 stykki. Þann 12. nóvember var gildran tekin niður og verður sett upp að nýju í april á þessu ári. Umsjón með gildrunni er í höndum starfsmanna Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands og Náttúrustofu Suðausturlands.

Á meðfylgjandi mynd má sjá fjölda fiðrilda af sjö algengustu tegundunum sem komu í gildruna í sumar. Tegundargreindar hafa verið 17 tegundir sem komu í gildruna, en eftir er að tegundargreina 16 fiðrildi og gæti því fjöldi tegunda breyst frá því sem hér er sagt.  Heildarfjöldinn sem gildran fangaði yfir sumarið 541 fiðrildi.

Skoða má meiri upplýsingar um fiðrildi á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands.

fjoldi-i-viku-2014

Súlurit sem sýnir fjölda af algengustu tegundnum 2014

Súlurit sem sýnir fjölda af algengustu tegundnum 2014

Hálfdán Björnsson

Hálfdán Björnsson kveikir á ljósi fiðrildagildrunnar í apríl 2014.

Hálfdán, Björn og Helgi

Hálfdán Björnsson, Björn Gísli Arnarson og Helgi Björnsson við fiðrildagildruna í Einarslundi.

 

 

Sólarupprás í Óslandi 19. desember 2014

Jólakveðja frá Náttúrustofu Suðausturlands jólin 2014

Náttúrustofa Suðausturlands sendir öllum vinum og velunnurum bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár

Kristín Hermannsdóttir tók myndina

Styrkþegar á Hótel Natura 1.desember við móttöku á styrkjum

Styrkur frá Vinum Vatnajökuls

Í síðustu viku tók Náttúrustofa Suðausturlands við styrk í verkefni sem stofan mun vinna að á nýju ári. Styrkurinn er í verkefni sem kallast „Náttúrustígur – jarðfærði svæðisins kynnt“. Í lýsingu á verkefninu segir: Náttúrustofa Suðausturlands hefur með velvilja Sveitarfélagsins Hornafjarðar og í samstarfi við Grunnskóla Hornafjarðar hafið gerð fróðleiksstígs, allt frá himingeimnum (sólkerfinu) til jökla, jarðfræði og flóru svæðisins til þess að kynna samhengi þess stóra og smáa í náttúrunni. Á göngustígnum, vestanmegin við byggðina á Höfn í Hornafirði er ætlunin að koma fyrir upplýsingum um náttúruna í víðu samhengi. Frá stígnum, sem nú er auðkenndur sem Náttúrustígur, er frábært útsýni til jökla og suðausturhluta Vatnajökulsþjóðgarðs. Fyrsta skrefið í verkefninu var tekið sumarið 2014 þegar líkan af sólkerfinu í réttum stærðar- og fjarlægðahlutföllum var sett upp við stíginn. Næsti hluti sem gera skal skil á er jarðfræði og flóra suðaustanverðs Vatnajökulsþjóðgarðs. Stefnt er á að flytja stór grjót (grettistök) úr héraðinu að heppilegum stað/stöðum við stíginn ásamt jurtum úr flóru Vatnajökulsþjóðgarðs. Þar verða einnig sett upp viðeigandi fræðsluskilti.

Alls hlutu 24 verkefni styrki að þessu sinni og má lesa nánar um það á vef Vina Vatnajökuls: http://www.vinirvatnajokuls.is/styrkir/ og fréttir um styrkveitinguna á mbl.is.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/12/01/uthluta_taeplega_40_milljonum_i_styrki/

Gasmóða yfir Hornafirði?

Íbúar í Hornafirði urðu þess varir, síðdegis þann 23. september 2014, að óvenjuleg móðuský bárust inn yfir héraðið í heiðríkju. Var þetta í annað sinn á stuttum tíma sem það gerist en einnig varð vart blámóðu laugardaginn 20 september.  Slíks varð reyndar vart víða um land og á hálendinu (sjá mynd frá Eldgjá).  Í þetta sinn sást móðan þokast yfir fjalllendi við rætur Vatnajökuls og breiðast smám saman yfir láglendið í nokkurri hæð. Byrgði að nokkru sýn til sólar svo rauðleitri birtu sló yfir. Myndirnar, sem voru teknar frá Nesjum, sýna móðuna eftir að hún fór að skríða inn yfir fjöllin um kl 17:00. Ekki er hægt að fullyrða afdráttarlaust hvort um sé að ræða gasmóðu frá gosstöðvunum í Holuhrauni eða óvenjuleg skýjamyndun. Þetta sýnir hins vegar að mikilvægt er að fá mælitæki hingað á staðinn til þess að skera úr um það.

Blámóða í Eldgjá 20. 9. 2014. Ljósm. Snævarr Guðmundsson.

Blámóða sást víða á landinu laugardaginn 20. september 2014. Myndin er frá Eldgjá og tekin um kl 11:00. Má sjá að þar lá móða yfir. Ljósm. Snævarr Guðmundsson.

 

Gasmóða eða óvenjuleg ský?

Óvenjulegt ský eða gasmóða yfir Fláajökli. Myndin er tekin sunnan við Borgir í Nesjum. Ljósm. Snævarr Guðmundsson, kl 17:00 23. sept 2014

Óvenjulegt ský eða gasmóða? Myndin er tekin sunnan við Borgir í Nesjum. Ljósm. Snævarr Guðmundsson, kl 17:00 23. sept 2014.

Óvenjulegt ský eða gasmóða yfir fjallendi Hornafjarðar og Mýra. Myndin er tekin sunnan við Borgir í Nesjum. Ljósm. Snævarr Guðmundsson, kl 17:00 23. sept 2014.

 

 

Breiðamerkurjökull og Jökulsárlón. Ljósm. Snævarr Guðmundsson, 13. september 2014.

Jöklabreytingar á Breiðamerkurjökli

Frá lokum 19. aldar hafa miklar breytingar orðið á íslenskum jöklum og þeir hörfað og rýrnað vegna hlýnandi loftslags. Jöklarnir náðu mestu stærð á sögulegum tíma um 1890, eftir nokkurra alda kuldaskeið sem nefnt er litla ísöld. Í nýlegri M.Sc. ritgerð Snævars Guðmundssonar (2014), um Breiðamerkurjökul og Kotárjökul, kemur fram að frá ~1890 til 2010 hopaði sporður Breiðamerkurjökuls rúma 5 km að meðaltali og um 114 ferkm lands kom undan jökli. Jafnframt rýrnaði jökullinn um 69 rúmkm að vatnsgildi eða um 20%. Verkefnið er meðal fyrstu rannsókna sem Náttúrustofa Suðausturlands innir af hendi.

Meðfylgjandi myndir voru teknar 13. september 2014. Þær sýna Breiðamerkurjökul og Jökulsárlón. Ísinn kelfir af jökulsporðinum í lónið og brotnar upp í jaka. Ferlið flýtir fyrir rýrnun jökulsins og hann hopar hraðar. Ísinn rekur tímabundið um sem jakar á lóninu, ferðalöngum til ánægju, en bráðnar að lokum  og hverfur.

 

Vestur- og Miðarmur Breiðamerkurjökuls. Einnig sjást Máfabyggðir (uppi t. v.) og Esjufjöll (ofan við miðja mynd). Ljósm. Snævarr Guðmundsson, 13. september 2014.

Vestur- og Miðarmur Breiðamerkurjökuls. Einnig sjást Máfabyggðir (uppi t. v.) og Esjufjöll (ofan við miðja mynd). Ljósm. Snævarr Guðmundsson, 13. september 2014.

Breiðamerkurjökull kelfir í Jökulsárlón, þ. e. það brýtur af jöklinum og. Ísinn kelfir af jökulsporðunum í lónin og brotnar upp í jaka sem reka á lóninu, ferðalöngum til ánægju, uns þeir bráðna. Ljósm. Snævarr Guðmundsson, 13. september 2014.

Breiðamerkurjökull kelfir í Jökulsárlón, þ. e. það brýtur af jöklinum og. Ísinn kelfir af jökulsporðunum í lónin og brotnar upp í jaka sem reka á lóninu, ferðalöngum til ánægju, uns þeir bráðna. Ljósm. Snævarr Guðmundsson, 13. september 2014.

 

Eldgosið í Holuhrauni

Umbrotahrina í Bárðarbungu, sem hófst 16. ágúst 2014, og eldgosið í Holuhrauni hafa ekki farið fram hjá  landsmönnum. Starfsmaður Náttúrustofu Suðausturlands skoðaði gosstöðvarnar nýverið og tók meðfylgjandi myndir. Þær voru teknar frá Kverkfjöllum þann 7. september. Það var 10 dögum eftir að gos hófst (aðfaranótt 29. ágúst). Myndir voru síðan teknar á flugi þann 13. september, þær sýna eldsprunguna  sem fékk auknefnið Baugur og Baugsbörn.

Myndin er tekin frá Kverkfjöllum í 1760 m hæð, þann 7. september 2014, sama dag og hraunið náði í farveg Jökulsár á Fjöllum. Kvikustrókarnir frá Baugi náðu meira en 150 m hæð. Ljósm. Snævarr Guðmundsson.

Myndin er tekin frá Kverkfjöllum í 1760 m hæð, þann 7. september 2014, sama dag og hraunið náði í farveg Jökulsár á Fjöllum. Kvikustrókarnir frá Baugi náðu meira en 150 m hæð. Ljósm. Snævarr Guðmundsson.

 

Hraunið rann út í farveg við Jökulsá á Fjöllum þann 7.september. Áin færði sig til eftir því sem hraunjaðarinn skreið fram án gufusprenginga eða gervigígamyndana. Ljósm. Snævarr Guðmundsson.

Hraunbrúnin 13. september 2014. Hraunið rann út í farveg Jökulsá á Fjöllum þann 7. september. Áin færði sig til eftir því sem hraunjaðarinn skreið fram, þó án gufusprenginga eða gervigígamyndunar. Ljósm. Snævarr Guðmundsson.

Gígurinn Suðri spúði stöku hraunslettum en í botninu var mögnuð hrauntjörn. Ljósm. Snævarr Guðmundsson.

Gígurinn Suðri spúði stöku hraunslettum en í botninu var mögnuð hrauntjörn. Ljósm. Snævarr Guðmundsson.

Myndin sýnir virkasta hluta eldsprungunnar sem var miðsvæðis á henni og vísindamenn hafa auðkennt Baug og Baugsbörn. Suðvestanstrekkingur var á gossvæðinu og bar gufu og gas frá eldvarpinu til norðausturs. Ljósm. Snævarr Guðmundsson.

Myndin sýnir virkasta hluta eldsprungunnar sem var miðsvæðis á henni og vísindamenn hafa auðkennt Baug og Baugsbörn. Suðvestanstrekkingur var á gossvæðinu og bar gufu og gas frá eldvarpinu til norðausturs. Ljósm. Snævarr Guðmundsson.

Gígurinn Baugur og hraunelfur sem frá honum rennur. Ljósmynd Snævarr Guðmundsson.

Gígurinn Baugur og hraunelfur sem frá honum rennur. Ljósmynd Snævarr Guðmundsson.