Stjörnuskoðun í kvöld – aflýst vegna skýja

Fyrirhugaðri stjörnuskoðun á vegum Náttúrustofu Suðasturlands, sem fara átti fram frá nýbyggðri stjörnuathugunarstöð í kvöld 1.april kl. 20:30-22:00, er aflýst vegna skýja.   Þetta er viðburður í tengslum við Leyndardóma Suðurlands og verður reynt á ný á fimmtudaginn 3.april. Áhugasamir geta fylgst með hér á vefnum eða á facebook síðu Náttúrustofu Suðausturlands.

Hlaup í Gígjukvísl

Hlaup í Gígjukvísl

Starfsmaður Jöklahóps Jarðvísindastofnunar varð þess sunnudaginn 23.mars 2014 að vatn var farið að leita úr Grímsvötnum og jökulhlaup væri að hefjast eða hafið. Taldi hann m.a. að íshellan gæti hafa sigið um 5-10 m í kjölfar þess að Grímsvötn væru að tæmast.

Þriðjudaginn 25.mars síðastliðinn (2014) fór starfsmaður Náttúrustofu Suðausturlands að Gígjukvísl á Skeiðarársandi til þess að kanna grunsemdir um rennslisvöxt vegna jökulhlaupsins. Talsvert vatn var í ánni við brúna yfir Gígjukvísl. Voru tekin sýni úr ánni til frekari staðfestingar á hlaupvatni.

Talið er að hlaupið verði svipað að magni og í nóvember 2012, nálægt 0,2 km3 og hámarksrennsli um 1000 rúmm/sek. Reiknað er með að það réni nærri helgi. Sjá nánar upplýsingar á Vatnafar á síðu Veðurstofu Íslands:

Stjörnustöð – heimsóknir á opið hús – póstlisti

Miðvikudaginn 19. febrúar 2014 hélt Náttúrustofa Suðausturlands „opið hús“ í nýju stjörnustöðinni sem sett var upp nærri Fjárhúsavík nú í vetur. Þar gafst bæjarbúum tækifæri til þess að skoða aðstöðuna og sjálft húsið sem er mikil völundarsmíð, með snúanlegu og opnanlegu þaki. Ekki var hægt að skoða stjörnur þetta kvöld því himinn var þungskýjaður. Gestir sem litu við nutu þess í stað leiðsagnar um bygginguna, markmið hennar auk annars spjalls og fengu með heitt kakó og piparkökur. Á staðnum var einnig listi sem fólk gat skráð á nafn, netfang og símanúmer. Ætlunin er að  þegar viðrar til stjörnuskoðunar á næstu vikum verði tilkynning send til þeirra og þeim boðið að kíkja.  Þeir sem ekki sáu sér fært að kíkja við síðastliðinn miðvikudag en vilja vera á slíkum póstlista geta sent póst á starfsmenn Náttúrustofu á info@nattsa.is, eða fyllt út í fyrirspurnar formið sem er neðst á heimasíðunni.
Umfjöllun erlendis
Það er víðar en á Höfn sem stjörnustöðin hefur fengið athygli.  Í  ástralska dagblaðinu Maitland Mercury, sem er gefið út í Maitland í Hunter – dal, Nýju South Wales birtist dálkagrein um stöðina skömmu fyrir áramót. Hér má sjá umfjöllunina:
Dagblaðið heldur úti blaðadálki um vísindi í víðum skilningi. Dálkahöfundurinn Col Maybury hefur nokkrum sinnum ritað um Ísland.
Frétt sem birtist í erlendu tímariti
Snævarr Guðmundsson og Kristín Hermannsdóttir framan við stjörnuathugunarstöð í Fjárhúsavík á Höfn

Opið hús í stjörnustöð

Byggður hefur verið stjörnuathugunarturn nærri Fjárhúsavík (leiðin út á Ægisíðu) og settur upp stjörnusjónauki. Hann á að nota til ljósmælinga en einnig í stjörnuskoðun. Áhugasömum er boðið í heimsókn til að skoða aðstöðuna miðvikudaginn 19. febrúar á milli kl 18:00 og 20:00 (þó enn sé óvisst hvort himinn verði stjörnubjartur). Einnig er stefnt á að mynda pósthóp og geta þeir sem vilja skráð sig þar. Þessir aðilar fá síðan tölvupóst frá Náttúrustofu þegar boðið verður til stjörnuskoðunar, vonandi við fyrsta tækifæri. Einnig geta áhugasamir sent póst í gegnum „fyrirspurn“  neðst á heimasíðu Náttúrustofu Suðausturlands til að komast í pósthópinn.

Kort sem sýnir staðsetningu stjörnustöðvarinnar

Kort sem sýnir staðsetningu stjörnustöðvarinnar

 

Snævarr Guðmundsson tók myndina

Veðrið á Höfn í nýliðnum janúar

Nýliðin janúar var óvenju hlýr og úrkomusamur.  Sökum þess hafa ræktuð tún í Hornafirði grænkað líkt og komið sé vor, ólíkt fréttum af kalskemmdum víða annars staðar á landinu. Sú spurning vaknar hvort hita- og úrkomumet voru slegin í janúarmánuði 2014 á Höfn?

Veðurathuganir hafa verið gerðar á Höfn frá 2007, en áður voru mælingar gerðar þar á árunum 1965-´85. Veðurskeytastöðin er í dag staðsett við Höfðaveg og eru veðurathugunarmenn Herdís Tryggvadóttir og Stephen Róbert Johnson . Í janúar 2014 mældu þau 369,7 mm af úrkomu, sem er mesta úrkoma sem mæld hefur verið á Höfn. Í samanburði mældust þar árið 2013 einungis 207,6 mm.  

Ef skoðaðar eru úrkomumælingar í janúar á Höfn, Hjarðarnesi (1985-1992) og Akurnesi (1992-2006) undanfarna áratugi sést að aðeins einu sinni hefur mælst meiri úrkoma á þessum þremur stöðvum, það var í Akurnesi árið 2002 þegar það komu 379,8 mm í úrkomumælinn. Því miður er engin mæling til fyrir Höfn frá 2002.

Þegar skoðaðir eru þeir janúarmánuðir þar sem mánaðarúrkoma hefur verið meiri en 200 mm á þessum þremur athugunarstöðvum má sjá að nýliðinn janúar er í öðru sæti hvað varðar úrkomumet, en í 11 sæti er janúar 2013.

Tafla sem sýnir 12 úrkomumestu janúarmánuði á Höfn, í Akurnesi og Hjarðarnesi. Nýliðinn janúar er í öðru sæti, en vinninginn hefur Akurnes árið 2002. Sé einungis horft á Höfn þá er nýliðinn janúarmánuður úrkomumetsmánuður.

solarhringsurkoma-jan-2014

Mynd sem sýnir sólarhringsúrkomu á Höfn í janúar 2013 og 2014. Árið 2013 voru tveir þurrir sólarhringar á Höfn í janúar en í heild mældist 207,6 mm úrkoma þann mánuð, mest 25 mm frá kl. 09 þann 1. janúar til kl. 09 þann 2. janúar. Árið 2014 voru þurrir sólarhringar fimm í janúar en úrkoman í heild mældist 369,7 mm. Úrkomumesta sólarhringinn, frá kl. 09 þann 15. janúar til kl. 09 þann 16. janúar, mældist 40,2 mm úrkoma.

Úrkoma-jan-2014

Línurit sem sýnir uppsafnaða úrkomu á Höfn í janúar 2014, heildarmagnið var 369,7 mm. Á sama tíma mældust einungis 64,2 mm í Reykjavík.

Meðalhitinn á Höfn í janúar var 4,1 stig og hefur meðalhiti aldrei orðið svo hár á Höfn – en mælingar þar hafa ekki verið samfelldar. Þetta er samt trúlega hlýjasti janúar í Hornafirði frá 1947 að telja.  Á Hvalnesi fór hiti lægst niður í +0,1 stig. Þar fraus því aldrei í janúar 2014, hvorki nótt né dag. Hvort þetta segir eitthvað um hvernig sumarið eða næstu mánuðir verða, skal ósagt látið.

 

Jólakveðja Náttúrustofu Suðausturlands

jol-2013

Snævarr Guðmundsson tók myndina

 

Náttúrustofa Suðausturlands sendir öllum vinum og velunnurum bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár

Myndina tók Róbert Róbertsson

Styrkir frá Vinum Vatnajökuls

Í gær tók Náttúrustofa Suðausturlands við tveimur styrkjum í verkefni sem stofan mun m.a. vinna að á nýju ári.

Annar styrkurinn er í verkefni sem kallast „Náttúrustígur“. Í lýsingu á verkefninu segir: Á göngustíg sem liggur vestanmegin við byggðina á Höfn í Hornafirði er ætlunin að koma fyrir upplýsingum um náttúruna í víðu samhengi. Frá stígnum er frábært útsýni til jökla og suðausturhluta Vatnajökulsþjóðgarðs. Fyrsta skrefið er að koma fyrir líkani að sólkerfinu í réttum hlutföllum, hvað varðar stærð og fjarlægðir.  

Hin styrkurinn er í verkefni sem kallast „Aldursgreining gróðurleifa við Breiðamerkurjökul“. Í lýsingu á því verkefni segir:  Nýverið fannst gróðurlag milli setlaga í jökulaur framan við Breiðamerkurjökul. Setlagaopnan er nýlega komin undan jökli (um 2009) og situr óhögguð á upprunalegum myndunarstað. Jökullinn skreið yfir þetta svæði fyrir árið 1700 en áður lagðist  jökulaur yfir gróðurlagið og varði það fyrir hnjaski. Venjulega eyða jöklar gróðri þegar þeir ganga yfir land og afmá þar með gróðurfarssögu í jarðlögum. Því er hér um einstakan fund að ræða. Í laginu er mór, mosi, birki, víðir og fleiri jurtategundir. Þessar lífrænu leifar þarf að aldursgreina til þess að finna aldur gróðursins og skýra hvenær gróðurlendi breyttist í Breiðamerkursand við kólnandi loftslag.

Alls hlutu 22 verkefni styrki og má lesa nánar um það á vef Vina Vatnajökuls  og fréttir af styrkveitingunni á mbl.is og ruv.is

Óskar Náttúrustofa Suðausturlands öðrum styrkþegum til hamingju með sína styrki.

 

 

Jöklar hopa

 

Náttúrustofa Suðausturlands hefur tekið að sér vöktun nokkurra skriðjökla í Öræfajökli. Verkefnið er unnið í samstarfi við Jöklarannsóknafélag Íslands og jöklahóp Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands. Starfsmaður Náttúrustofu fór 20. október og mældi sporðastöðu Breiðamerkurjökuls, Kvíárjökuls, Hrútárjökuls og Fjallsjökuls. Þann 3. nóvember var gengið með GPS  tæki meðfram sporði Fláajökuls á kafla (sjá mynd).

Frá árinu 2010 hafa jöklarnir rýrnað talsvert en hop þeirra er breytilegt. Á þessu tímabili hefur Breiðamerkurjökull hopað 200 – 300 m  upp af Nýgræðukvíslum, eða um 65 – 100 m/ári. Sporður Fláajökuls, austan Jökulfells hefur hopað um 40 – 100 m frá árinu 2010. Svipað hop átti stað á Hrútárjökli. Sá hluti Kvíárjökuls sem var mældur í þetta sinn hefur ýmist stað í stað eða gengið lítillega fram (~20 m) samanborið við sporðastöðu árið 2010.

14. nóvember fóru starfsmenn Náttúrustofu Suðausturlands að Heinabergsjökli ásamt nemendum og kennurum í Framhaldsskólanum í Austur Skaftafellssýslu (FAS) og fylgdust með  mælingum þeirra á jöklinum. Þær eru hluti af náttúrufarsrannsóknum sem kenndar eru og FAS sinnir. Sjá athuganir þeirra á slóðinni: http://nattura.fas.is/index.php/joklamaelingar.

 

Myndina tók Kristín Hermannsdóttir

Óvissuferð

Föstudaginn 1. nóvember var haldin ráðstefna á Hótel Höfn á vegum Ríkis Vatnajökuls sem nefnd var „Tilvist og tækifæri“. Þegar ráðstefnunni lauk tók við óvissuferð sem var í samvinnu við Náttúrustofu Suðausturlands.

Ferðin hófst í Óslandi þar sem kynnt var hugmynd að sólkerfislíkani sem Náttúrustofa  Suðausturlands hyggst koma upp. Í því er gert ráð fyrir að sólin sé staðsett á hæsta punkti í Óslandi en reikistjörnurnar verða í réttum stærðar og fjarlægðarhlutföllum meðfram göngustíg sem liggur vestanmegin við Höfn, alla leið að Silfurnesgolfvelli. Frá Sólinni var gengið að Merkúríus, Venus, Jörðinni, Mars, smástirninu Ceres, Júpiter og Satúrnus en bent var á hvar Úranus og Neptúnus yrðu staðsettar. Staldrað var við hverja reikistjörnu og viðstaddir fræddir um þær. Þar sem vindurinn var hvass og kalt í veðri, voru stoppin ekki löng á hverjum stað.  Að síðustu var stoppað á Leiðarhöfða þar sem ánægjulegri en vindasamri óvissuferð lauk.

 

Myrkurgæði – greinargerð

Út er komin greinargerð hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu um myrkurgæði og tillögur um hvernig sporna megi við ljósmengun á Íslandi, bæði í þéttbýli og dreifbýli.  Starfsmaður Náttúrustofu Suðausturlands, Snævarr Guðmundsson vann ásamt fleirum í starfshópi að þessari greinargerð, en starfshópurinn hefur starfað síðan í mars 2012 og var Mörður Árnason formaður hans.

Í tilefni af útgáfu greinargerðarinnar um Myrkurgæði á Íslandi verður haldið málþing um myrkurgæði og ljósmengun miðvikudaginn 23. október, kl. 10–12, í fundarsal Þjóðminjasafnsins. Sjá nánar í frétt um málþingið á vef umhverfisráðuneytisins.  http://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/2490

Greinargerði er gefin út rafrænt og má skoða hana eða sækja hér.

Hér má sjá auglysinguna .