Vefur Náttúrustofu Suðausturlands

Vefur Náttúrustofu Suðausturlands hefur formlega verið settur í loftið. Hann var hannaður af Daníel Imsland  (dimms.is) sem einnig hannaði fyrirtækismerkið – logóið.

Á vefinn er fyrirhugað að setja inn fréttir, upplýsingar um verkefni, myndir og viðburði, en einnig er hægt að hafa samband við starfsmenn Náttúrustofu í gegnum fyrirspurnir.

Stjörnuverið á Höfn

Á degi íslenskrar náttúru  16.september bauð Náttúrustofa Suðausturlands upp á stjörnuskoðun í stjörnuveri sem komið var fyrir á bókasafninu í Nýheimum. Stjörnuver er sýndarheimur þar sem áhorfendur sitja eða liggja inni í kúlulaga hvelfingu og sérstakt sýningartæki varpar mynd af stjörnuhimninum á veggi hennar.

Tvær sýningar voru síðdegis á náttúrudeginum fyrir almenning og mættu samtals tæplega 40 manns á þær. Fyrr sama dag og daginn eftir bauð Grunnskóli Hornafjarðar nemendum sínum upp á 14 sýningar og komu þá tæplega 300 nemendur auk kennara í tjaldið. Á miðvikudagsmorgun komu svo um 30 krakkar á leikskólanum Lönguhólum á sýningu sem var sniðin að þeirra aldri.

stjornuverid

 

Stjörnuverið uppblásið á bókasafninu – tilbúið til sýningar.

stornuverid2

Nemendur úr Grunnskóla Hornafjarðar á leið inn í stjörnuverið.

Stjornuverid3

Nokkrir kakkar og starfsmenn á Lönguhólum bíða spennt eftir að þeirra sýning hefjist.

 

Dagur íslenskrar náttúru

Í tilefni af degi íslenskrar náttúru býður Náttúrustofa Suðausturlands, sem nýlega tók til starfa, til stjörnuskoðunar í stjörnuverinu. Stjörnuver er sýndarheimur þar sem áhorfendur sitja eða liggja inni í kúlulaga hvelfingu og sérstakt sýningartæki varpar mynd af stjörnuhimninum á veggi hennar.

Tvær sýningar verða í boði: kl. 16 og kl. 17 þann 16. september í Nýheimum.

Áhugasamir geta sótt miða í bókasafnið samdægurs, en einungis komast 25 manns á hverja sýningu.

Sjá nánar á www.hornafjordur.is  og http://natturumyndir.com/

Allar upplýsingar um ýmsa viðburði um allt land á degi íslenskrar náttúru má sjá á sérstökum vef Umhverfisráðuneytisins http://www.umhverfisraduneyti.is/dagur-islenskrar-natturu-2013/

Minnt er á að Grunnskóli Hornafjarðar mun bjóða öllum sínum nemendum í stjörnuverið en sýningarnar síðdegis eru hugsaðar fyrir alla.

Verið hjartanlega velkomin.

Rostungur við Jökulsárlón.

Á morgunblaðsvefnum frá 16.8.2013 er frétt um rostung við Jökulsárlón. MBL

Hann sást fyrst að morgni 16.ágúst og dvaldi á sandinum neðan við brúna yfir Jökulsá þann dag og fram á nótt. Morguninn eftir var hann á bak og burt.

Á vef Selaseturs Íslands á Hvammstanga er hægt að lesa sér til um rostunga.  Þeir eru mjög sjaldgæfir við Ísland, en síðast sást rostungur á Reyðarfirði um miðjan júlí.

Samkvæmt samanburði á þessum tveimur rostungum sést að þar er líklega um sama einstaklinginn að ræða, alla vega eru tennur jafn langar og sú vinstri aðeins styttri. Þetta sést þegar bornar eru saman myndir af moggavefnum og myndir sem Kristján Svavarsson tók af Reyðarfjarðarrostungnum.  (sjá á vef Náttúrustofu Austurlands).

Á mynd sem Þórhildur Magnúsdóttir  Landvörður í Vatnajökulsþjóðgarði tók fljótlega eftir hádegi má sjá að hann liggur afslappaður á sandinum og er svolítið rauðlitaður undir húðinni. Rauði liturinn stafar sennilega af því að honum hefur verið heitt og þar sem rostungar eru lítið hærðir sést blóðflæði undir húðinni vel.  Myndin sem hér birtist var tekin um kl. 16:30 af Sibylle von Löwis.