Furðufiskur í grennd

Í dag kl. 14 verður opnuð sýning á vegum Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar í samstarfi við Náttúrustofu Suðausturlands í Nýheimum. Þar má sjá ýmsa furðufiska sem hafa veiðst af hornfiskum skipum og/eða í grennd við Hornafjörð. Hafa þessir fiskar verið varðveittir í safni Menningarmiðstöðvarinnar um langa hríð og er kominn tími til að koma þeim fyrir sjónir almennings. Verður sýningin opin í Gallerý Nýheimum frá 05.07-05.08.2019.

Á opnunardegi verður einnig hægt að sjá og snerta ferska fiska í boði Fiskbúðar Gunnhildar á Höfn. Verður sú sýning utan við Nýheima og eru allir boðnir velkomnir á viðburðinn.

Umhverfisráðherra heimsækir Náttúrustofu Suðausturlands

Miðvikudaginn 3. júlí 2019 heimsótti Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra Náttúrustofu Suðausturlands, en stofan starfar samkvæmt rekstrarsamningi milli umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Sveitarfélagsins Hornafjarðar og Skaftárhrepps. Auk þess vinnur hún að samningsbundnum verkefnum á vegum ráðuneytisins og verkefnum sem hljóta styrki úr samkeppnissjóðum. Ánægjulegt var að fá Guðmund Inga ráðherra, Orra Pál Jóhannsson aðstoðarmann hans, Guðríði Þorvarðardóttur og Jón Geir Pétursson samstarfsfólk þeirra úr ráðuneytinu í heimsókn á Höfn. Starfsmenn stofunnar áttu góðan fund með gestunum um málefni og verkefni stofunnar. Margt var rætt á fundinum og meðal annars kom fram mikilvægi þess að hafa fólk með sérþekkingu nærri viðfangsefnum, slíkt er fjárhagslega hagkvæmt og einnig eflir starfsemi fjölbreyttra stofnana innan þekkingarmiðstöðva samfélagið og ýtir undir samstarf milli stofnana.  

Að loknum fundi var haldið út á Jökulsárlón þar Vatnajökulsþjóðgarður vígði fræðslustíg sem er afrakstur góðs samstarf fjölda stofnanna og einstaklinga og var styrktur af Vinum Vatnajökuls. Á fræðslustígnum má sjá skilti um náttúru svæðisins. Náttúrustofa Suðausturlands vann efni á fjögur skilti; um loftslagsbreytingar, myndun jökullóna, liti ísjaka og einkennisfugla svæðisins. Við hvetjum alla  að staldra við á leið sinni um Suðausturland og skoða fræðslustíginn og umhverfið við Jökulsárlón.

Hluti starfsfólks Náttúrustofu Suðausturlands með umhverfisráðherra við Jökulsárlón.  Frá vinstri; Snævarr Guðmundsson, Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra, Kristín Hermannsdóttir og Lilja Jóhannesdóttir.  Ljósm. Kristín Vala Þrastardóttir. 
Lilja Jóhannesdóttir við skilti með upplýsingum um einkennisfugla svæðisins, en efni skiltisins var unnið af starfsfólki Náttúrustofu Sauðausturlands. Ljósm. Kristín Hermannsdóttir
Sigurlaug Gissurardóttir ferðaþjónustubóndi og Snævarr Guðmundsson náttúrulandfræðingur á Náttúrustofu Suðausturlands, sem bæði eru meðlimir í svæðisráði suðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs, Kristín Vala Þrastardóttir verkefnastjóri Nýheimum þekkingarsetri, Lilja Jóhannesdóttir vistfræðingur á Náttúrustofu Suðausturlands og Sigrún Sigurgeirsdóttir starfsmaður Vatnajökulsþjóðgarðs við eitt skiltanna við Jökulsárlón. Ljósm. Kristín Hermannsdóttir.

Grein um Breiðamerkursand og hop Breiðamerkurjökuls á 20. öld í Geografiska Annaler.

Breiðamerkursandur og hop Breiðamerkurjökuls eru höfuðviðfangsefnið í ritrýndri grein sem birtist í alþjóðlega vísindaritinu Geografiska Annaler: Series A, Physical Geography, í lok júní 2019. Í greininni „Testing lichenometric techniques in the production of a new growth-rate (curve) for the Breiðamerkurjökull foreland, Iceland, and the analysis of potential climatic drivers of glacier recession“ er m.a. gerður samanburður á þrem aðferðum í fléttumælingum (lichenometry) til þess að kanna trúverðugleika þeirra. Fléttumælingar hafa verið notaðar til þess að aldursgreina misgamla jökulgarða og þ.a.l. meta hophraða jökla, sérstaklega á norðlægum breiddarbaugum og fjalllendi. Niðurstöður úr slíkum mælingum hér á landi hafa ekki sannfært jarðfræðinga um hvort treysta megi þessum aðferðum, vegna ósamsvörunar í vaxtarhraða á milli svæða. Í þessari grein eru niðurstöður stærðarmælinga á fléttunni Rhizocarbon geographicum borin við þekkta stöðu jökuljaðarsins á 20. öld, til þess að ákvarða vaxtarferil (growth curve) hennar á vestanverðum Breiðamerkursandi. Engin skýr tengsl við veðurfarssveifluna, sem nefnd er Norður-Atlantshafssveiflan (North Atlantic Oscillation = NOA), komu fram en samanburður loftslagssveiflna á 20. öld og rýrnun Breiðamerkurjökuls benda til þess að lofthiti, þá sérstaklega á sumrin, sé helsti hvatinn í hve hratt hann hefur hopað.

Höfundar greinarinnar eru David J. A. Evans, prófessor við Durham háskóla á Englandi, Snævarr Guðmundsson hjá Náttúrustofu Suðausturlands og Jonathan L. Vautrey, KateFernyough & W. Gerard Southworth, sem voru nemendur D. Evans þegar þetta verkefni var unnið.

Greinina í heild sinni má finna hér.

Vestanverður Breiðamerkursandur, með Skúmey í forgrunni, Öræfajökull í baki. Ljósm.: Náttúrustofa Suðausturlands/Snævarr Guðmundsson.
Rhizocarpon geographicum
Mæling á fléttunni Rhizocarpon geographicum. Ljósm.: Snævarr Guðmundsson, 11.8.2012.
Helsingi sumarið 2018

Helsingjavarp á Suðausturlandi

Helsingja hefur fjölgað nokkuð hratt hér á suðausturhorninu á síðastliðnum árum eins og grafið hér að neðan sýnir en þar er þróun í fjölda helsingjahreiðra í Skúmey (í Jökulsárlóni) sýnd. Þessa dagana er Náttúrustofa Suðausturlands, ásamt Fuglaathugunarstöð Suðausturlands og Náttúrufræðistofnun Íslands að kortleggja varpútbreiðslu helsingjans og þiggjum við allar upplýsingar um hvar hann er að verpa. Ef þið vitið um helsingjahreiður vorið 2019, látið okkur endilega vita á fésbókarsíðu okkar, eða með öðrum mögulegum leiðum s.s. símtali eða tölvupósti. Bestu þakkir!

Spói í kjörlendi sínu - ljósmynd: Lilja Jóhannesdóttir

Yfirlitsgrein um mófugla á Íslandi

Á dögunum birtist ritrýnd vísindagrein í alþjóðlega vísindaritinu Wader Study sem dr. Lilja Jóhannesdóttir, starfsmaður Náttúrustofu Suðausturlands, vann ásamt félögum sínum við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi og við háskólana í Austur Anglíu í Bretlandi og í Aveiro í Portúgal. Greinin ber heitið “Icelandic meadow-breeding waders: status, threats and conservation challenges”, sem útleggst nokkurn veginn á íslensku sem svo: Íslenskir mófuglar: staða, ógnir og áskoranir við verndun.

Greinin er yfirlitsgrein um stöðu algengustu vaðfuglategunda sem verpa í úthaga á Íslandi. Farið er yfir stofnstærðir, lýðfræðilega þekkingu (þá litlu sem til er), stöðu verndar og helstu ógnir sem stafa að þessum tegundum. Hér á Íslandi höfum við ofurstóra vaðfuglastofna (samanborið við nágrannalönd okkar sem mörg hafa gengið alltof harkalega á búsvæði þeirra) sem við höfum skuldbundið okkur til að vernda með þáttöku okkar í fjölda alþjóðlega samninga. Mikilvægi Íslands í því samhengi er gríðarmikið, en til dæmis má nefna 34% heimsstofns heiðlóu og 27% spóans verpur hér á landi, og því mikilvægt að við umgöngumst þessar tegundir og búsvæði þeirra af virðingu. Ein helsta ógnin sem þessi fuglar búa við á Íslandi er búsvæðatap og loftslagsbreytingar. Það er því nauðsynlegt að við skipulag framkvæmda sé fylgt eftir ákvæðum alþjóðasamninga, tekið tillit þarfa fugla og að við Íslendingar gerum allt sem í okkar valdi stendur til að sporna við loftslagsbreytingum.

Myndin sýnir upplýsingar um algengustu vaðfuglategundir sem finnast í íslenskum úthaga. Sökum þess hversu hátt hlutfall af heimsstofni verpur hér berum við alþjóðlega ábyrgð á að vernda þessar tegundir.

Hér er hlekkur á greinina: https://www.waderstudygroup.org/article/12186/

Stjörnumælingar 2017 til 2018

Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands, þar sem greint er frá ljósmælingum á völdum myrkvatvístirnum og fjarreikistjörnum, sem flestar voru gerðar frá Hornafirði árin 2017 og 2018. Myrkvatvístirni eru tvær [sól]stjörnur bundnar sameiginlegri þungamiðju. Frá jörðu séð aðgreinast þær ekki í sjónaukum og  sést aðeins „stök” stjarna. Breytingar á birtustyrk leiða hins vegar í ljós raunverulegt eðli þeirra. Fjarreikistjörnur tilheyra fjarlægum sólkerfum. Þegar reikistjarna [þver]gengur fyrir móðurstjörnu sína hefur það áhrif á birtustyrkinn. Hægt er að nema breytinguna með nákvæmum ljósmælingum.

Að frátöldum athugunum 2017—2018 er sagt frá niðurstöðum fjarlægðarmælingar á nándarstjörnunni Ross 248 og athugunum á lausþyrpingunni NGC 7790 og breytistjörnum í nágrenni hennar. Markmið mælinganna á nándarstjörnu og lausþyrpingum var að meta fjarlægðir eða aðra eiginleika fyrirbæranna. Að lokum eru kynntar athuganir á litrófi nokkurra bjartra stjarna. Í samantektinni er sagt frá hverju viðfangsefni í sérköflum.

Skýrslan er sú þriðja yfir stjörnuathuganir sem gefin er út af Náttúrustofu Suðausturlands. Niðurstöður hafa verið sendar í alþjóðlegt gagnasafn þar sem þær, ásamt fjölda sambærilegra mæligagna frá stjörnuáhugamönnum, eru aðgengilegar stjarnvísindasamfélaginu. Hægt er að nálgast skýrsluna hér eða sækja hana og annað efni tengt stjarnmælingum inni á útgefið efni hjá Náttúrustofu Suðausturlands.


Í Tvíburunum eru lausþyrpingarnar M 35 (NGC 2168) og suðvestur af henni (neðst t.h.) hin þétta NGC 2158. M 35 talin í 2 660 ljósára fjarlægð en NGC 2158 í um 16 500 ljósára fjarlægð. Ljósmynd Snævarr Guðmundsson, 2019.

Helsingjar og skúmar 2018

Út eru komnar tvær skýrslur á vegum Náttúrustofu Suðausturlands.

Önnur skýrslan heitir „Fuglalíf í Skúmey á Jökulsárlóni á varptíma 2018“. Hún fjallar um talningar á hreiðrum og þá fyrst og fremst helsingjahreiðrum í Skúmey vorið 2018. Er það verkefni samstarfsverkefni Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands, Vatnajökulsþjóðgarðs/Suðursvæði og Ferðaþjónustuaðila á Jökulsárlóni.

Skúmey er lítil eyja í Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi. Eyjan kom undan Breiðamerkurjökli við lok 20. aldar og er í dag þéttbýlasti varpstaður helsingja á Íslandi. Helsingjahreiður í Skúmey voru fyrst talin árið 2014 og voru þá 361, árið 2017 voru þau 968 og árið 2018 voru þau 1119.

Skýrsluna í heild sinni má sjá á vef Náttúrustofu Suðausturlands nattsa.is undir útgefið efni eða hér.

Hin skýrslan heitir „Kortlagning skúmshreiðra á Breiðamerkursandi 2018“. Hún fjallar um fjölda verpandi skúma og er það verkefni samstarfsverkefni Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands, landeigenda á Kvískerjum og Vatanjökulsþjóðgarðs/Suðursvæðis.

Eitt af höfuðvígum skúms (Stercorarius skua) á Íslandi eru sandarnir við sunnanvert landið og þá helst Breiðamerkursandur. Þegar heildarstofn skúms var metinn um miðjan níunda áratug síðustu aldar var talið að rúmur helmingur para yrpi þar. Á síðustu árum hefur þó orðið vart fækkunar skúms á svæðinu og var því ráðist í að kortleggja hreiður á
Breiðamerkursandi sumarið 2018. Á svæðinu fundust 175 hreiður og því ljóst að mikil fækkun hefur orðið á skúm á síðustu þremur áratugum. Ekki er vitað hvað veldur þessari fækkun en í umræðum er komið inn á mögulegar ástæður þess.

Skýrsluna í heild sinni má sjá á vef Náttúrustofu Suðausturlands nattsa.is undir útgefið efni eða hér.

Fergin (Equisetum fluviatile) í Baulutjörn á Mýrum. Í baksýn er Fláajökull. Ljósm.: Lilja Jóhannesdóttir, 3. júlí 2018.

Ársskýrsla Náttúrustofu Suðausturlands 2018

Ársskýrsla Náttúrustofu Suðausturlands fyrir árið 2018 er komin á netið.  Hægt er að nálgast skýrsluna hér.

Kríuhreiður í túni við Hala 2018. Ljósmynd. Kristín Hermannsdóttir

Ársfundur Náttúrustofu Suðausturlands 2019

Ársfundur Náttúrustofu Suðausturlands ses. verður haldinn á Hótel Klaustri, Kirkjubæjarklaustri þriðjudaginn 26. mars 2019  kl. 19:30

Á eftir venjubundnum fundarstörfum verða haldin þrjú erindi á vegum Náttúrustofu Suðausturlands.

  • Jökulvötn í Skaftárhreppi: Pálína Pálsdóttir.
  • Myndun jökullóna við sunnanverðan Vatnajökul á 20. öld og breytingar á þeim: Snævarr Guðmundsson.
  • Hin Skaftfellska fuglaparadís : Lilja Jóhannesdóttir.

Kaffi, te og veitingar í hléi.

Allir velkomnir og hvattir til að mæta                                               

Stjórnin


Sendlingsungi í fuglaparadísinni á Suðausturlandi, miðvikudaginn ‎20‎. ‎júní‎ ‎2018. Ljósmynd: Lilja Jóhannesdóttir.

Föstudagshádegi í Nýheimum

Á morgun í hádeginu, föstudaginn 22. febrúar mun Dr. Lilja Jóhannesdóttir vistfræðingur hjá Náttúrustofu Suðausturlands flytja erindi í Nýheimum.

Fyrlesturinn kallast “Fuglaparadísin Austur-Skaftafellssýsla” og fjallar um sérstöðu svæðisins og mikilvægi þess fyrir fugla. Inn í fyrirlesturinn fléttast umfjöllun um fuglarannsóknir Náttúrustofu Suðasturlands og hvernig þær endurspegla þessa sérstöðu.

Erindið hefst kl. 12:30, en frá kl. 12:00 er hægt að koma í Nýheima og kaupa súpu, brauð og salat á 1500 kr. eða súpu og brauð á 1000 kr. (ath. ekki tekið við kortum).

Sjáumst sem flest – allir velkomnir