Vöktun náttúruverndarsvæða sumarið 2023

Starfsmenn Náttúrustofu Suðausturlands hafa vaktað náttúruverndarsvæði með ýmsu móti í sumar. Vöktun náttúruverndarsvæða er samstarfsverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands, náttúrustofa landsins, Umhverfisstofnunar og þjóðgarða. Verkefnið gengur út á að vakta náttúru til lengri tíma og þær breytingar sem hún verður fyrir. Áhersla er lögð á að greina áhrif ferðamanna á náttúruverndarsvæðum og að rannsaka náttúrulegan fjölbreytileika. Sú vöktun sem Náttúrustofa Suðausturlands sinnir nær yfir gróður, dýralíf og jarðminjar. Með vöktun á dýralífi, gróðri og jarðminjum er hægt að skrásetja þær breytingar sem eiga sér stað í náttúrunni. Lesa meira

Kolefnismælingar 2023

Nú er þriðja ár kolefnismælinga á Náttúrustofu Suðausturlands komið á fullt skrið. Náttúrustofan hefur síðan í apríl 2021 mælt ljóstillífun og öndun jarðvegs í þremur ólíkum landgerðum í Skaftárhreppi og í ár var fjórða svæðinu bætt við í heiðagróðurlendi sem er einkennandi fyrir Skaftárhrepp. Verkefnið er unnið í samstarfi við Landgræðsluna vegna kolefnisbókhalds stjórnvalda en upplýsingar um flæði kolefnis í gróðri og jarðvegi nýtast til að meta ástand vistkerfa og þær breytingar sem geta átt sér stað innan þeirra.   Lesa meira

Ársskýrsla Náttúrustofu Suðausturlands 2022

Ársskýrsla Náttúrustofu Suðausturlands fyrir árið 2022 er komin á netið og hægt er að nálgast hana hér. Í ársskýrslunni eru verkefnum síðasta árs gerð nokkur skil en einnig má finna greinar og skýrslur síðasta árs hér á síðunni undir „útgefið efni“.

 

Nýr starfsmaður Náttúrustofu Suðausturlands

Um áramótin tók til starfa nýr starfsmaður hjá Náttúrustofunni, Álfur Birkir Bjarnason. Álfur er með B.Sc. gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands og í tölvunarstærðfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Álfur kemur inn í 50% stöðu til að byrja með en samhliða henni vinnur hann sem verkefnastjóri hjá Vatnajökulsþjóðgarði. Áður hefur Álfur m.a. starfað sem stundakennari hjá Háskólanum í Reykjavík, sem gagnavísindamaður hjá Meniga og sinnt landvörslu fyrir Vatnajökulsþjóðagarð. Álfur er mikill útivistarmaður og náttúrubarn og var kjörinn formaður Samtakanna ‘78 síðasta vor. Rannsóknaráherslur hans snúa helst að plöntuvistfræði og gróðri en auk þeirra mun hann sinna fjölbreyttum verkefnum hjá stofunni. Álfur verður með aðsetur á Kirkjubæjarklaustri og bjóðum við hann hjartanlega velkomin til starfa.

Tröllasmiður

Útbreiðsla tröllasmiðs í Sveitarfélaginu Hornafirði 2022

Út er komin skýrsla verkefnisins: Útbreiðsla tröllasmiðs í Sveitarfélaginu Hornafirði 2022. Verkefnið hófst sumarið 2021 en áhersluþunginn var í sumar þegar lagðar voru út fallgildrur til að greina betur útbreiðslu hans. Tröllasmiður (Carabus problematicus) er eitt stærsta skordýr Íslands og finnst aðeins á litlu svæði í Sveitarfélaginu Hornafirði, af öllum heiminum, frá Hoffelli og austur að Almannaskarði. Íslenski tröllasmiðurinn er undirtegund (C.p. islandicus) en hann hefur ekki verið mikið rannsakaður á Íslandi og byggist þekking á útbreiðslu hans á gömlum heimildum og tilviljanakenndum athugunum. Í þessari rannsókn var notast við upplýsingar frá almenning og fallgildrur til þess að kortleggja útbreiðslu tröllasmiðs á þekktum fundarstöðum og svæðum sem sést hefur til hans auk þess sem fjöldi var skrásettur. Alls bárust 19 tilkynningar um tröllasmiði frá almenning og náðust 12 tröllasmiðir í gildrur. Einn tröllasmiður náðist í gildru í austur Almannaskarði sem er austar en áður hefur verið staðfest með rannsóknum. Þetta gæti bent til þess að útbreiðsla tröllasmiðs hafi færst austar frá rannsóknum á um miðja síðustu öld. Lesa meira

Jólakveðja og annáll Náttúrustofu Suðausturlands 2022

Náttúrustofa Suðausturlands var stofnuð árið 2013 og fagnar því 10 ára afmæli á næsta ári. Stofan hefur aðsetur á Höfn í Hornafirði en einnig á Kirkjubæjarklaustri. Breyting varð í brúnni núna í ár en Kristín Hermannsdóttir, sem hefur verið við stjórnvölinn frá stofnun stofunnar, lét af störfum og við forstöðumannsstöðunni tók Lilja Jóhannesdóttir sem hefur starfað hjá stofunni frá árinu 2018. Við þökkum Kristínu fyrir samstarfið og óskum henni velfarnaðar á nýjum vettvangi. Lesa meira

Breiðamerkursandur og Jökulsárlón 15. september 2020. Mynd: Lilja Jóhannesdóttir

Nýtt landmótunarkort af Breiðamerkursandi

Á dögunum birtist vísindagrein í sænska landfræðiritinu ‘Geografiska Annaler’ þar sem kynnt er nýtt landmótunarkort af Breiðamerkursandi. Ásamt því er framvinda hörfunar Breiðamerkurjökuls og landmótun, frá því að hann var í hámarksstöðu í lok 19. aldar til ársins 2018, rakin mun nákvæmar en áður hefur verið gert. Greinina rita Snævarr Guðmundsson, hjá Náttúrustofu Suðausturlands og David J.A. Evans hjá Durham háskóla í Norðhumbrulandi á Englandi. Greinin sem er á ensku heitir: „Geomorphological map of Breiðamerkursandur 2018: the historical evolution of an active temperate glacier foreland“. Á Breiðamerkursandi hafa landslagsbreytingar verið afar hraðar og þar birtast öll helstu auðkenni landmótunar sem finnst framan við jökla. Lesa meira

Náttúrustofa Suðausturlands leitar að náttúrufræðingi  

 

Náttúrufræðingur

Náttúrustofa Suðausturlands óskar eftir náttúrufræðing til starfa. Um er að ræða fullt starf sem fer fram bæði í vettvangsrannsóknum og við úrvinnslu gagna og skýrsluskrif. Starfið mótast af sérþekkingu umsækjanda og getur m.a. snúið að þróun nýrra verkefna á sviði náttúrurannsókna. Náttúrustofa Suðausturlands sinnir fjölbreyttum náttúrufarsrannsóknum, t.d. á fuglum, gróðri, kolefnisflæði, jöklum og landformum.

Lesa meira

Skúmur hrellir helsingja í Skúmey vorið 2020

Ársskýrsla Náttúrustofu Suðausturlands 2021

Ársskýrsla Náttúrustofu Suðausturlands fyrir árið 2021 er komin á netið.  Hægt er að nálgast skýrsluna hér.

Ársfundur stofunnar var haldinn 24. mars og var honum streymt á fésbók stofunnar. Fyrir þá sem vilja skoða fundinn má sjá hann hér – en sjálfur fundurinn byrjar þegar 10 mínútur eru liðnar af streyminu.

 

Nýr forstöðumaður Náttúrustofu Suðausturlands

Stjórn Náttúrustofu Suðausturlands hefur ráðið Lilju Jóhannesdóttur í starf forstöðumanns Náttúrustofu Suðausturlands frá og með 1. apríl n.k. Lilja er með doktorspróf í líffræði frá Háskóla Íslands og með M.Sc. og B.Sc. gráðu í náttúru- og umhverfisfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Hún hefur starfað hjá stofunni s.l. 4 ár, en var áður hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurlandi. Störf hennar hjá Náttúrustofu Suðausturlands hafa mestmegnis tengst vistfræði- og fuglarannsóknum en hún hefur einnig komið að öðrum fjölbreyttum störfum og lagt metnað sinn í að kynna rannsóknir og viðfangsefni stofunnar á opinberum vettvangi. Lilja þekkir vel til starfsemi Náttúrustofunnar og hefur víðtæka reynslu af náttúrufræðirannsóknum og styrkumsóknum. Framtíðarsýn Lilju rímar vel við þá framtíðarsýn sem stjórn hefur varðandi rekstur Náttúrustofunnar og treystir stjórn henni fyrir því að leiða þá vinnu.