Vöktun náttúruverndarsvæða sumarið 2023

Starfsmenn Náttúrustofu Suðausturlands hafa vaktað náttúruverndarsvæði með ýmsu móti í sumar. Vöktun náttúruverndarsvæða er samstarfsverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands, náttúrustofa landsins, Umhverfisstofnunar og þjóðgarða. Verkefnið gengur út á að vakta náttúru til lengri tíma og þær breytingar sem hún verður fyrir. Áhersla er lögð á að greina áhrif ferðamanna á náttúruverndarsvæðum og að rannsaka náttúrulegan fjölbreytileika. Sú vöktun sem Náttúrustofa Suðausturlands sinnir nær yfir gróður, dýralíf og jarðminjar. Með vöktun á dýralífi, gróðri og jarðminjum er hægt að skrásetja þær breytingar sem eiga sér stað í náttúrunni.

Af dýralífi í ár hefur þéttleiki skúms og mófugla verið vaktaður. Auk þess hefur varpárangur skúms verið sérstaklega vaktaður en undanfarin ár hefur skúmi fækkað á Íslandi. Staða skúmsstofnsins á Íslandi er því viðkvæm og hefur vöktun á varpárangri verið sett í forgang í verkefninu.

Við mófuglavöktun þarf að fylgjast með atferli fuglanna og athuga hvort þeir séu varplegir. Foreldrar þessara hrossagauksunga voru afar varplegir.

Vöktun vegna ágangs ferðamanna heldur áfram við Múlagljúfur og Hvalnes . Vinsældir Múlagljúfurs og Hvalness sem ferðamannastaða hafa aukist gífurlega undanfarin ár. Mikill munur sést því á stígamyndunum á milli ára og gróður lætur á sjá vegna traðks.

Gróður var vaktaður í gróðursniðum í Faxasundum á Skaftártunguafrétti og vistgerð metin. Gróðurmælingar voru endurteknar í sniðum sem voru upphaflega mæld af Náttúrufræðistofnun Íslands árið 2001. Jarðminjar eru auk þess vaktaðar en mikilvægt er að vakta fjölbreyttar jarðmyndanir og landslag sem geta gefið yfirlit af jarð- og menningarsögu landsins.

Gögnum sem safnað er við vöktun eru svo skráð í gagnagrunn Náttúrufræðistofnunar Íslands. Samantekt um vöktun náttúruverndarsvæða frá liðnu ári má finna hér: Vöktun Nátturuverndarsvæða – Samantekt Náttúrustofu Suðausturlands 2022

Gróðurmælingar teknar í sniði í áreyravistgerð við bakka Tungnaár. Þarna leynast 14 tegundir æðplantna í næringarsnauðum sandi ásamt mosategundinni melagambra.