Vetrarmánuðirnir eru tími íshellaskoðunar 2016

Starfsmenn Náttúrustofu Suðausturlands renndu á dögunum út á Breiðamerkursand í vísindalegum erindagjörðum en gafst engu að síður tími til að skoða íshelli í Breiðamerkurjökli sem gjarnan er auðkenndur sem „Kristalshellirinn“ af leiðsögumönnum á svæðinu. Það er skemmtileg upplifun að komast í hellinn sem þennan dag skartaði dulúðlegum bláma og sérkennilegum holum eða „vösum“ í ísinn. Íshellar í Breiðamerkurjökli hafa mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn en þangað sækja þeir flestir undir traustri leiðsögn. Myndirnar  eru teknar í íshellinum og á ströndinni við Jökulsárlón.

SG_20160120_

Kristín Hermannsdóttir í þrengsta hluta hellisins. SG, 20 janúar 2016.

SG_20160120__01

Innsti hluti íshellisins. Ljósm. SG, 20 janúar 2016.

20160112_132415

Óskar Arason ásamt ferðahópi í hellinum. Ljósmynd Kristín Hermannsdóttir, 20. janúar 2016.

20160112_132252

Ferðamenn í íshellinum. Ljósmynd Kristín Hermannsdóttir, 20. janúar 2016.

SG_20160120__04

Jakadreif í fjörunni við Jökulsárlón. SG, 20 janúar 2016.

SG_20160120__03

Strönduðu ísjakarnir taka oft á sig ótrúleg form, ísskúlptur af náttúrunnar hendi . SG, 20 janúar 2016.

 

 

Sjónvarpsútsending frá Breiðamerkurjökli 2016

Þann 6. janúar 2016 sýndi bandaríska sjónvarpsstöðin ABC innslag í þættinum „Good Morning America“ í beinni útsendingu frá Breiðamerkurjökli. Amerískur fréttamaður, Amy Robach, ræddi loftslagsbreytingar og bráðnun jökla sem er sterkur vitnisburður þeirra. Þetta var gert sem framhald umfjöllunar af loftslagsráðstefnunni í París.

Útsendingin fór fram á austanverðum Breiðamerkurjökli, inn í svonefndri Þröng við Fellsfjall. Töluvert var gert úr svokölluðum svelgjum, sem eru lóðréttir hringlaga vatnsfarvegir sem myndast í leysingjasvæðum jökla, og hvaða vísindalega þýðingu þeir hafa fyrir jöklarannsóknir. Ísklifrarar sigu niður í opinn 30 m djúpan jökulsvelg, sem er í jöklinum nærri mynni Fremri-Veðurárdals, og klifruðu upp úr honum. Á meðan var drónum flogið fram og aftur og frá þeim fengust stórkostleg myndskeið af jöklinum.

Amy ræddi m. a. við jöklafræðinginn Daniel J. Morgan um jökla, hnattræna hlýnun almennt og síðan Breiðamerkurjökul, kuðunga sem hafa fundist innan marka Jökulsárlóns og ýmislegt fleira. Það kom auðvitað ekki fram í umfjölluninni að Snævarr Guðmundsson hjá Náttúrustofu Suðausturlands sá um að safna efni og upplýsingum um Breiðamerkurjökul og leggja fram tillögur að efnistökum í þessum viðburði, sem mörg hver voru notuð.

Fjöldi starfsmanna kom að útsendingunni. Sjónvarpsstöðin var með 12 manna flokk sem vann að útsendingunni, auk þeirra voru nokkrir íslenskir klifrarar, leiðsögumenn og stjórnendur sem komu við sögu. Hægt er að lesa umfjöllun um þennan viðburð hér:

Good Morning America náði einstökum myndum á Breiðamerkurjökli

Magnaðar myndir frá Breiðamerkurjökli

Lærði að bera fram „Breiðamerkurjökull“

Myndirnar sem hér birtast tók Snævarr (SG) á Breiðamerkurjökli þegar á útsendingunni stóð.

SG_201601061_

Vettvangssvæði á jöklinum í Þröng. Eins og sést á spegluninni var jökullinn harður og glerháll. Ófær ef fólk er ekki á ísbroddum. Ljósm. SG, 6. janúar 2016.

SG_20160106__021

Dan J. Morgan og drónar sem voru notaðir til þess að mynda í útsendingunni. Ljósm. SG, 6. janúar 2016.

SG_20160106__04

Ísklifrarar undirbúa sig að síga ofan í svelginn. Hann var um 25-30 m djúpur 10-15 m í þvermál. Sjá má dróna á flugi hægra meginn við svelginn. Ljósm. SG, 6. janúar 2016.

SG_20160106__01

Drónar koma inn til lendingar. Þrír komu að stjórnun drónanna, tveir stýrðu flygildunum en sá þriðji réði hvaða myndskot voru í notkun. Ljósm. SG, 6. janúar 2016.

Uppskerutap vegna ágangs gæsa í ræktarlönd í Austur-Skaftafellssýslu 2015

Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands um uppskerutap vegna ágangs gæsa í ræktarlönd 2015. Verkefnið var samstarfsverkefni Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands, Búnaðarsambands Suðurlands og Landbúnaðarháskóla Íslands og styrkt af Framleiðnisjóði landbúnaðarins.

Skýrslan greinir frá verkefni sem unnið var árið 2015. Rannsókn var gerð í Austur-Skaftafellssýslu en þar var borin saman uppskera í friðuðum grasreitum við reiti sem fuglar komust að. Einnig voru skoðuð tengsl á milli fjölda fugla á ákveðnum túnum og rýrnun uppskeru. Markmiðið var að kanna áhrif gæsabeitar að vori og fram á sumar á uppskeru grass.

Niðurstöður sýna mismun á uppskeru af friðuðum reitum og viðmiðunarreitum, að meðaltali 985 kg af þurrefni á hektara. Þurrefnisuppskera var að meðaltali 33% minni þar sem fuglarnir komust um túnin. Á tilraunatúnunum töpuðust því 3,5 rúllur af þurrefnisuppskeru á hektara að meðaltali. Með kostnaðarútreikningum má sjá að mismunur í uppskeru kostaði að meðaltali 36.218 kr./ha. Einfalt fylgnipróf var framkvæmt til að sjá samhengi milli fjölda fugla og mismunar í uppskeru, en það sýndi enga fylgni. Ekki er hægt að alhæfa að talningatölurnar séu lýsandi fyrir fjöldann, en töluverðar líkur eru á að talningatölur sýni lágmarksfjölda fugla á hverjum stað.

Skýrsluna í heild sinni má sjá á vef Náttúrustofu Suðausturlands nattsa.is undir útgefið efni eða hér.

Uppskera úr tilraunareit 3. júlí 2015

Uppskorið úr tilraunareitum 3. júlí 2015. Kristín Hermannsdóttir, Grétar Már Þorkelsson og Jóhann Helgi Stefánsson

Uppskorið úr tilraunareit 3. júlí 2016. Jóhann Helgi Stefánsson og Grétar Már Þorkelsson.

Uppskorið úr tilraunareit 3. júlí 2016

 

 

Jólakveðja 2015

Jólakveðja frá Náttúrustofu Suðausturlands 2015

Náttúrustofa Suðausturlands sendir öllum vinum og velunnurum bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár

 

_SG_20140913_01-xmas2015

Helsingjahreiður í Skógey 27. maí 2014. Ljósmynd Björn Gísli Arnarson.

Helsingjar í Austur-Skaftafellssýslu – Stofnstærð og varpútbreiðsla 2014

Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands um helsingja í Austur-Skaftafellssýlus- stofnstærð og varpútbreiðsla 2014. Verkefnið var samvinnuverkefni með Fuglaathugunarstöð Suðausturlands og var styrkt af Veiðikortasjóði Umhverfis– og auðlindaráðuneytisins.
Sumarið 2014 var farið á nokkur svæði í Austur-Skaftafellssýslu sem álitið var að helsingjar kynnu að verpa. Hreiðurstæði voru hnitsett og talin á hverjum stað. Vitað var að árið 2009 voru um 40 helsingjahreiður í Austur-Skaftafellssýslu en fyrirfram talið að þeim hefði fjölgað nokkuð síðan þá. Talningin sumarið 2014 leiddi í ljós að hreiðrin voru að minnsta kosti 509. Fjölgun helsingjapara sem verpa á Suðausturlandi hefur því verið mjög hröð síðastliðin ár, eða meira en 1200% aukning á fimm árum.

Síðustu áratugi hefur veðurfar á Íslandi breyst, meðalárshiti hækkað og ársúrkoma aukist. Ef horft er til þess að helsingjar verpa að jafnaði á mun norðlægari stöðum kemur fjölgun helsingjavarpa nokkuð á óvart. Helsingjar hafa hingað til orpið á svölum stöðum s. s. á Grænlandi og Svalbarða. Því er ekki að sjá að skýra megi fjölgunina út frá veðurþáttum. Aðrir þættir líkt og fæðuframboð og landslag spila þar líklega inn í, bæði á Íslandi og öðrum varpstöðum.

Skýrsluna í heild sinni má sjá á vef Náttúrustofu Suðausturlands nattsa.is undir útgefið efni eða hér.

 

Helsingi í Skógey 27. maí 2014. Ljósmynd Björn Gísli Arnarson.

Helsingi í Skógey 27. maí 2014. Ljósmynd Björn Gísli Arnarson.

 

 

Stjörnuskoðun fimmtudaginn 26. nóvember

Náttúrustofa Suðausturlands býður áhugasömum í stjörnuskoðun á fimmtudagskvöld, 26. nóvember, við stjörnuturninn á Markúsarþýfishól (á leiðinni út á Ægissíðu). Stefnt er á að vera þar á milli kl 19:00 og 20:30. Spáð er björtu veðri en nokkrum vindi svo ráðlegast er að klæða sig vel. Takið endilega handkíkjana ykkar með, eða stjörnu- og fuglasjónauka. Þar sem bjart er af tungli þessa dagana verður áhersla lögð á að skoða tunglið og rekja stjörnumerki og bjartar stjörnur.

Þeir sem áhuga hafa á að vera á póstlista hjá Náttúrustofu Suðausturlands vegna stjörnuskoðunarviðburða geta sent póst á kristin@nattsa.is

Holuhraun 22. september 2014

Dagur íslenskrar náttúru 16. september 2015

Í tilefni dags íslenskrar náttúru hafa Náttúrustofa Suðausturlands og Gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs í Gömlubúð á Höfn ákveðið að standa fyrir viðburði á Höfn í Hornafirði.

Miðvikudaginn 16. september kl. 20 verða flutt tvö fræðsluerindi í Gömlubúð. Erindin tengjast bæði Holuhrauni, en rúmt ár er síðan þar hófst eldgos.

Fyrst flytur Guðrún Nína Petersen veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands erindi sem kallast: Áhrif landslags og veðurs á gasútbreiðslu úr Holuhrauni

Strax á eftir flytur Helga Árnadóttir sérfræðingur hjá Vatnajökulsþjóðgarði erindi sem kallast: Eldgos í þjóðgarði –landvarsla á umbrotatímum og í nýju landi

Enginn aðgangseyrir og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

 

Kl. 06 til kl. 12 þennan sama dag ætlar Fuglaathugunarstöð Suðausturlands að vera með opið í Einarslundi. Þar verður hægt að fylgjast með merkingum á fuglum.  Hér má sjá fésbókarsíðu Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands.

Allir velkomnir.

Víða um land verða haldnir viðburðir í tengslum við dag íslenskrar náttúru og má sjá upplýsingar um þá á vef Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

logo VÞ ISL logo-mjög-litid-i-lit VI_bottom_gradient_office_web_pos_rgb

 

Kóngasvarmi í Skaftafelli

Sunnudaginn 30. ágúst 2015 sást og náðist fiðrildi af tegundinni kóngasvarmi í Skaftafelli. Finnandi var Valdís Kjartansdóttir og kom hún með hann til Náttúrustofu Suðausturlands á Höfn. Samkvæmt upplýsingum frá Erling Ólafssyni á Náttúrufræðistofnun Íslands var þetta sjöundi kóngasvarminn sem finnst hér á landi í sumar, en sá fyrsti fannst vestur í Dölum 25. ágúst. Einnig náðu skipverjar á Sigurði VE einum fyrir austan land. Sjá hér.

Kóngasvarminn sem fannst í Skaftafelli um helgina.  Bolurinn er um 50 mm að lengd, en vænghafið mun meira. Ljósmynd Kristín Hermannsdóttir

Kóngasvarminn sem fannst í Skaftafelli um helgina. Bolurinn er um 50 mm að lengd, en vænghafið mun meira. Ljósmynd Kristín Hermannsdóttir

Kóngasvarmi er nánast árlegur flækingur til Íslands og stundum berst hingað nokkur fjöldi samtímis. Hann er eitt stærsta skordýr sem hingað berst, með vænghaf allt að 12 cm. Hann er þó fyrst og fremst á ferli í myrkri og getur þá farið huldu höfði. Kóngasvarmi hefur fundist hérlendis frá lokum júlí og nokkuð fram í október. Hann er auðþekktur á stærðinni og hefur stundum verið mistekinn fyrir fugl. Vængirnir eru gráir með flekkjum og beltum í mismunandi tónum og á afturbol erum hliðstæðir bleikir blettir á hverjum lið.
Nánar má lesa um kóngasvarma á vef Náttúrufæðistofnunar Íslands.

Mynd 1. Breiðamerkurjökull og Jökulsárlón, 10. október 2014. Esjufjallarönd á upptök frá Skálabjörgum, Esjubjörgum og Austurbjörgum í Esjufjöllum. Árið 2015 var lengd hans frá Skálabjörgum 15 km fram á sporð en 21 km frá Austurbjörgum. Ljósmynd Snævarr Guðmundsson.

Hlykkur á Esjufjallarönd ofan við Jökulsárlón

Í könnunarflugi yfir Breiðamerkurjökli, haustið 2014, sást að hraðar breytingar á jöklinum hafa valdið því að Esjufjallarönd hefur á nokkrum árum sveigst verulega til austurs upp af Jökulsárlóni (mynd 1). Esjufjallarönd er urðarrani sem liggur eftir jöklinum frá Esjufjöllum. Röndina myndar bergmulningur sem jöklarnir hafa sorfið af hlíðum Esjufjalla. Urðarraninn, þ. e. röndin, liggur á milli Esjufjallajökuls (miðarmur Breiðamerkurjökuls) og Norðlingalægðarjökuls (austurarmur). Norðlingalægðarjökull skríður niður rennu sem nær 200-300 m niður fyrir sjávarmál og er Jökulsárlón fremsti hluti hennar, en vestan við hana hvílir Esjufjallajökull á fremur flötu landi.

Esjufjallarönd hefur lengst af legið fram í Jökulsárlón, eftir að það tók að myndast upp úr 1930. Það gerðist í kjölfar þess að jökullinn tók að hopa. Ísjármælingar sem gerðar voru árið 1991 á Breiðamerkurjökli sýndu að lónið er í rauninni í mikilli rennu sem nær langleiðina  norður í Esjufjöll. Varð þá sýnt að við áframhaldandi hop Breiðamerkurjökuls myndi lónið halda áfram að stækka.  Jökullinn kelfir (brotnar) í lónið og myndar ísjaka sem eru ferðamönnum sem á leið um Breiðamerkursand mikið augnayndi.

Eftir 2007 fór að sjást í fast berg fremst við röndina, lónsmegin, og nú virðist fremsti hluti hennar hvíla á þurru landi (mynd 2).  Á sama tíma heldur kelfingin áfram og lækkun Norðlingalægðarjökuls upp af lóninu sem hefur smám saman valdið því að aukinn hluti Breiðamerkurjökuls er tekinn að hníga í áttina að Jökulsárlóni. Austurhluti Esjufjallajökuls sækir því inn að dæld upp af lóninu og sveigir um leið röndina  austur. Samanburður gervihnattamynda og LiDAR gagna, bendir til að Esjufjallarönd hafi verið farin að sveigjast örlítið á 8 km kafla ofan við sporðinn, kringum 2006. Hliðrunin á Esjufjallarönd hefur verið að meðaltali 5 m á ári efst og 30—40 m/ári þar sem hún hefur gengið hvað hraðast fyrir sig.

Sveigjan varð þó fyrst áberandi eftir 2012. Samtímis breikkar röndin, þar sem hraðinn er mestur, hún verður  gisnari, sprungur myndast þar sem teygist á jöklinum. Vegna þess að fremsti hluti urðarranans liggur hreyfingarlaus á föstu landi myndast hlykkur á röndina. Ef fram vindur sem horfir er líklegt að Esjufjallarönd verði farin að  brotna í lónið að nýju, að nokkrum árum liðnum. Enn er mikill ís í fremsta hluti urðarinnar, sem nú er á föstu landi (2015) og mun hann bráðna á nokkrum áratugum og skilja eftir sig hrúgald af urð.

Sagt var frá þessu á mbl.is þann 25. ágúst 2015, sjá hér.

Mynd 1.  Breiðamerkurjökull og Jökulsárlón, 10. október 2014. Hlykkurinn á Esjufjallarönd.  Ljósmynd Snævarr Guðmundsson.

Mynd 1.
Breiðamerkurjökull og Jökulsárlón, 10. október 2014. Hlykkurinn á Esjufjallarönd. Ljsmynd Snævarr Guðmundsson.

 

Mynd 2. Esjufjallarönd og jökulsporður árið 2015 og landið undir Breiðamerkurjökli, samkvæmt íssjármælingum Jöklahóps Jarðvísindastofnunar HÍ árið 1991. Breiðamerkurjökull er gerður gegnsær til þess að landið undir honum sjáist. Rennan er sýnd með 20 m dýptarbili (gular línur eru 0 m y. s.) en landið ofan sjávarmáls 100 m hæðarbili. Fremsti hluti Esjufjallarandar situr á hæð sem rís 20—40 m y. s. Vestan við og samhliða röndinni hallar ofan í rennuna. Urðarraninn hefur ekki hliðrast til ofan við ~ 8 km norðan jökulsporðsins (2004 röndin hættir) enda ekki ofan í rennunni þar.

Mynd 2.
Esjufjallarönd og jökulsporður árið 2015 og landið undir Breiðamerkurjökli, samkvæmt íssjármælingum Jöklahóps Jarðvísindastofnunar HÍ árið 1991. Breiðamerkurjökull er gerður gegnsær til þess að landið undir honum sjáist. Rennan er sýnd með 20 m dýptarbili (gular línur eru 0 m y. s.) en landið ofan sjávarmáls 100 m hæðarbili. Fremsti hluti Esjufjallarandar situr á hæð sem rís 20—40 m y. s. Vestan við og samhliða röndinni hallar ofan í rennuna. Urðarraninn hefur ekki hliðrast til ofan við ~ 8 km norðan jökulsporðsins (2004 röndin hættir) enda ekki ofan í rennunni þar.

2015: Ár jarðvegsins

Sameinuðu þjóðirnar

©Sameinuðu þjóðirnar

Jarðvegur er skilgreindur sem efsta lagið á jarðskorpunni. Hann er undirstaða í velgengni plantna og þar með dýra. Jarðvegur er því afar mikilvægur, þó fær hann ekki alltaf þá athygli sem hann á skilið. Sameinuðu þjóðirnar útnefndu árið 2015 sem ár jarðvegs, einmitt til  að vekja athygli á mikilvægi hans og þeim ógnum sem steðja að jarðvegi í heiminum.

Jarðvegur er okkur mannfólkinu lífsnauðsynlegur. Í gegnum árþúsundin hafa sprottið upp blómleg menningarsamfélög þar sem frjósaman jarðveg er að finna og  virðist oft vera tenging milli hnignunar samfélaga og skorts á góðum jarðvegi. Enda þarf að hugsa vel um jarðveginn, því að með mikilli og langvarandi ræktun minnkar frjósemi hans.

Jarðvegur er þó ekki bara jarðvegur. Jarðvegur heimsins er flokkaður á grundvelli þess hvað einkennir hann. Fyrsta flokkunin var gerð af rússanum V.V. Dokuchaev í lok 19. aldar, það var ekki fyrr en á fyrri hluta 20. aldar sem önnur lönd fór að skilgreina mismunandi jarðveg út frá eðliseinkennum hans. Nú er til alþjóðlegt flokkunarkerfi fyrir jarðveg (WRB) á vegum  Sameinuðu þjóðanna, þar er jarðvegur heimsins skilgreindur í 32 mismunandi hópa. Flest lönd hafa svo sína eigin flokkun sem byggir á hinni alþjóðlegu. Það er gert til að útskýra betur þann mun sem er á eðliseiginleikum hans. Þó svo að hið alþjóðlega flokkunarkerfi sé til staðar, er flokkunarkerfi Bandaríkjanna(USDA)  einnig notað á heimsvísu. Þar jarðvegnum skipt upp í 12 flokka. Íslenskur jarðvegur er flokkaður sem eldfjallajörð (e. Andosol) í báðum flokkunarkerfunum.

Nú hafa augu heimsins einkum beinst að jarðvegsvernd og landgræðslu til að stemma stigu við þeirri hnattrænu hlýnun sem við mannfólkið eigum sök á. Jarðvegur bindur mun meira af kolefni heldur en nokkur annar hluti lífkerfisins, að hafinu undanskyldu. Með aukinni landgræðslu er hægt að vinna upp þann jarðveg sem hefur tapast, auk þess sem vistkerfin auka framleiðni sína og virkni. Andosol – eldfjallajarðvegur hefur  tilhneigingu til að binda mun meira af kolefni en annar þurrlendisjarðvegur. Það er því mikið af kolefni bundið í hinnum íslenska Andosol, oft yfir >40 kg/m2 á þurrlendi en >90 kg/m2 í votlendi. Þar sem mikið er um auðnir á Íslandi hefur töluvert tapast af jarðvegi hér á landi eftir að land byggðist, bæði af mannavöldum og af náttúrulegum orsökum. Með því að græða upp þær auðnir er mögulegt að binda umtalsvert magn kolefnis. Það er því góð mótvægisaðgerð við allt það koltvíoxíð  (CO2  )sem við dælum útí andrúmsloftið á degi hverjum. Einnig er nauðsynlegt að draga úr beit á mörgum stöðum landsins, þar sem ofbeit leiðir til þess að rof myndast í gróðurþekjuna og þá tapast jarðvegurinn.

Með þessum stutta pistli vona ég að að vitneskja þín, lesandi góður, hafi aukist örlítið um hversu gríðarlega mikilvægur jarðvegur er fyrir líf okkar hér á jörðinni. Enn fremur nauðsyn þess að við stöndum okkur í að vernda þann jarðveg sem enn er til staðar hér á landi sem og í heiminum öllum.

Heimildir:

Fyrirlestrar Guðrúnar Gísladóttir, PhD í Náttúrulandfræði við HÍ, 2013.
Ólafur Arnalds, Grétar Guðbergsson og Jón Guðmundsson (2000). Carbon sequestration and reclamation of severely degraded soils in Iceland. Búvísindi 13; 87-97