Sólarupprás í Óslandi 19. desember 2014

Jólakveðja frá Náttúrustofu Suðausturlands jólin 2014

Náttúrustofa Suðausturlands sendir öllum vinum og velunnurum bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár

Kristín Hermannsdóttir tók myndina

Styrkþegar á Hótel Natura 1.desember við móttöku á styrkjum

Styrkur frá Vinum Vatnajökuls

Í síðustu viku tók Náttúrustofa Suðausturlands við styrk í verkefni sem stofan mun vinna að á nýju ári. Styrkurinn er í verkefni sem kallast „Náttúrustígur – jarðfærði svæðisins kynnt“. Í lýsingu á verkefninu segir: Náttúrustofa Suðausturlands hefur með velvilja Sveitarfélagsins Hornafjarðar og í samstarfi við Grunnskóla Hornafjarðar hafið gerð fróðleiksstígs, allt frá himingeimnum (sólkerfinu) til jökla, jarðfræði og flóru svæðisins til þess að kynna samhengi þess stóra og smáa í náttúrunni. Á göngustígnum, vestanmegin við byggðina á Höfn í Hornafirði er ætlunin að koma fyrir upplýsingum um náttúruna í víðu samhengi. Frá stígnum, sem nú er auðkenndur sem Náttúrustígur, er frábært útsýni til jökla og suðausturhluta Vatnajökulsþjóðgarðs. Fyrsta skrefið í verkefninu var tekið sumarið 2014 þegar líkan af sólkerfinu í réttum stærðar- og fjarlægðahlutföllum var sett upp við stíginn. Næsti hluti sem gera skal skil á er jarðfræði og flóra suðaustanverðs Vatnajökulsþjóðgarðs. Stefnt er á að flytja stór grjót (grettistök) úr héraðinu að heppilegum stað/stöðum við stíginn ásamt jurtum úr flóru Vatnajökulsþjóðgarðs. Þar verða einnig sett upp viðeigandi fræðsluskilti.

Alls hlutu 24 verkefni styrki að þessu sinni og má lesa nánar um það á vef Vina Vatnajökuls: http://www.vinirvatnajokuls.is/styrkir/ og fréttir um styrkveitinguna á mbl.is.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/12/01/uthluta_taeplega_40_milljonum_i_styrki/

Gasmóða yfir Hornafirði?

Íbúar í Hornafirði urðu þess varir, síðdegis þann 23. september 2014, að óvenjuleg móðuský bárust inn yfir héraðið í heiðríkju. Var þetta í annað sinn á stuttum tíma sem það gerist en einnig varð vart blámóðu laugardaginn 20 september.  Slíks varð reyndar vart víða um land og á hálendinu (sjá mynd frá Eldgjá).  Í þetta sinn sást móðan þokast yfir fjalllendi við rætur Vatnajökuls og breiðast smám saman yfir láglendið í nokkurri hæð. Byrgði að nokkru sýn til sólar svo rauðleitri birtu sló yfir. Myndirnar, sem voru teknar frá Nesjum, sýna móðuna eftir að hún fór að skríða inn yfir fjöllin um kl 17:00. Ekki er hægt að fullyrða afdráttarlaust hvort um sé að ræða gasmóðu frá gosstöðvunum í Holuhrauni eða óvenjuleg skýjamyndun. Þetta sýnir hins vegar að mikilvægt er að fá mælitæki hingað á staðinn til þess að skera úr um það.

Blámóða í Eldgjá 20. 9. 2014. Ljósm. Snævarr Guðmundsson.

Blámóða sást víða á landinu laugardaginn 20. september 2014. Myndin er frá Eldgjá og tekin um kl 11:00. Má sjá að þar lá móða yfir. Ljósm. Snævarr Guðmundsson.

 

Gasmóða eða óvenjuleg ský?

Óvenjulegt ský eða gasmóða yfir Fláajökli. Myndin er tekin sunnan við Borgir í Nesjum. Ljósm. Snævarr Guðmundsson, kl 17:00 23. sept 2014

Óvenjulegt ský eða gasmóða? Myndin er tekin sunnan við Borgir í Nesjum. Ljósm. Snævarr Guðmundsson, kl 17:00 23. sept 2014.

Óvenjulegt ský eða gasmóða yfir fjallendi Hornafjarðar og Mýra. Myndin er tekin sunnan við Borgir í Nesjum. Ljósm. Snævarr Guðmundsson, kl 17:00 23. sept 2014.

 

 

Breiðamerkurjökull og Jökulsárlón. Ljósm. Snævarr Guðmundsson, 13. september 2014.

Jöklabreytingar á Breiðamerkurjökli

Frá lokum 19. aldar hafa miklar breytingar orðið á íslenskum jöklum og þeir hörfað og rýrnað vegna hlýnandi loftslags. Jöklarnir náðu mestu stærð á sögulegum tíma um 1890, eftir nokkurra alda kuldaskeið sem nefnt er litla ísöld. Í nýlegri M.Sc. ritgerð Snævars Guðmundssonar (2014), um Breiðamerkurjökul og Kotárjökul, kemur fram að frá ~1890 til 2010 hopaði sporður Breiðamerkurjökuls rúma 5 km að meðaltali og um 114 ferkm lands kom undan jökli. Jafnframt rýrnaði jökullinn um 69 rúmkm að vatnsgildi eða um 20%. Verkefnið er meðal fyrstu rannsókna sem Náttúrustofa Suðausturlands innir af hendi.

Meðfylgjandi myndir voru teknar 13. september 2014. Þær sýna Breiðamerkurjökul og Jökulsárlón. Ísinn kelfir af jökulsporðinum í lónið og brotnar upp í jaka. Ferlið flýtir fyrir rýrnun jökulsins og hann hopar hraðar. Ísinn rekur tímabundið um sem jakar á lóninu, ferðalöngum til ánægju, en bráðnar að lokum  og hverfur.

 

Vestur- og Miðarmur Breiðamerkurjökuls. Einnig sjást Máfabyggðir (uppi t. v.) og Esjufjöll (ofan við miðja mynd). Ljósm. Snævarr Guðmundsson, 13. september 2014.

Vestur- og Miðarmur Breiðamerkurjökuls. Einnig sjást Máfabyggðir (uppi t. v.) og Esjufjöll (ofan við miðja mynd). Ljósm. Snævarr Guðmundsson, 13. september 2014.

Breiðamerkurjökull kelfir í Jökulsárlón, þ. e. það brýtur af jöklinum og. Ísinn kelfir af jökulsporðunum í lónin og brotnar upp í jaka sem reka á lóninu, ferðalöngum til ánægju, uns þeir bráðna. Ljósm. Snævarr Guðmundsson, 13. september 2014.

Breiðamerkurjökull kelfir í Jökulsárlón, þ. e. það brýtur af jöklinum og. Ísinn kelfir af jökulsporðunum í lónin og brotnar upp í jaka sem reka á lóninu, ferðalöngum til ánægju, uns þeir bráðna. Ljósm. Snævarr Guðmundsson, 13. september 2014.

 

Eldgosið í Holuhrauni

Umbrotahrina í Bárðarbungu, sem hófst 16. ágúst 2014, og eldgosið í Holuhrauni hafa ekki farið fram hjá  landsmönnum. Starfsmaður Náttúrustofu Suðausturlands skoðaði gosstöðvarnar nýverið og tók meðfylgjandi myndir. Þær voru teknar frá Kverkfjöllum þann 7. september. Það var 10 dögum eftir að gos hófst (aðfaranótt 29. ágúst). Myndir voru síðan teknar á flugi þann 13. september, þær sýna eldsprunguna  sem fékk auknefnið Baugur og Baugsbörn.

Myndin er tekin frá Kverkfjöllum í 1760 m hæð, þann 7. september 2014, sama dag og hraunið náði í farveg Jökulsár á Fjöllum. Kvikustrókarnir frá Baugi náðu meira en 150 m hæð. Ljósm. Snævarr Guðmundsson.

Myndin er tekin frá Kverkfjöllum í 1760 m hæð, þann 7. september 2014, sama dag og hraunið náði í farveg Jökulsár á Fjöllum. Kvikustrókarnir frá Baugi náðu meira en 150 m hæð. Ljósm. Snævarr Guðmundsson.

 

Hraunið rann út í farveg við Jökulsá á Fjöllum þann 7.september. Áin færði sig til eftir því sem hraunjaðarinn skreið fram án gufusprenginga eða gervigígamyndana. Ljósm. Snævarr Guðmundsson.

Hraunbrúnin 13. september 2014. Hraunið rann út í farveg Jökulsá á Fjöllum þann 7. september. Áin færði sig til eftir því sem hraunjaðarinn skreið fram, þó án gufusprenginga eða gervigígamyndunar. Ljósm. Snævarr Guðmundsson.

Gígurinn Suðri spúði stöku hraunslettum en í botninu var mögnuð hrauntjörn. Ljósm. Snævarr Guðmundsson.

Gígurinn Suðri spúði stöku hraunslettum en í botninu var mögnuð hrauntjörn. Ljósm. Snævarr Guðmundsson.

Myndin sýnir virkasta hluta eldsprungunnar sem var miðsvæðis á henni og vísindamenn hafa auðkennt Baug og Baugsbörn. Suðvestanstrekkingur var á gossvæðinu og bar gufu og gas frá eldvarpinu til norðausturs. Ljósm. Snævarr Guðmundsson.

Myndin sýnir virkasta hluta eldsprungunnar sem var miðsvæðis á henni og vísindamenn hafa auðkennt Baug og Baugsbörn. Suðvestanstrekkingur var á gossvæðinu og bar gufu og gas frá eldvarpinu til norðausturs. Ljósm. Snævarr Guðmundsson.

Gígurinn Baugur og hraunelfur sem frá honum rennur. Ljósmynd Snævarr Guðmundsson.

Gígurinn Baugur og hraunelfur sem frá honum rennur. Ljósmynd Snævarr Guðmundsson.

Dagur íslenskrar náttúru 16. september 2014

Á degi íslenskrar náttúru 16. september 2014 stendur Náttúrustofa Suðausturlands fyrir gönguferð með leiðsögn.

Farið verður kl 17 frá „sólinni“ á Óslandshæð og gengið að Leiðarhöfða. Leiðsögnin felst fyrst og fremst í því að sagt verður frá líkani af sólkerfinu sem sett hefur verið upp við göngustíginn.

Allir velkomnir og beðnir um að koma klæddir eftir veðri

.Auglýsing-gönguferd

Hreindýraveiðar 2014

Þann 1. ágúst 2014 byrjuðu veiðar á hreindýrakúm en veiðar á törfum hafa staðið yfir frá 15. júlí.  Tvö veiðisvæði eru í A-Skaftafellssýslu, annars vegar Nes og Lón (svæði 8) og hins vegar Mýrar og Suðursveit (svæði 9).  Veiðitímabil tarfa stendur yfir til 15. september en veiðitímabil kúa til 20. september. 

Náttúrustofa Austurlands sér um talningar á hreindýrum. Á svæði 8 eru talin vera um 450 dýr. Veiðikvótinn þar er 68 kýr og 45 tarfar, nú í ár. Talið er að á svæði 9 séu um 250 dýr. Á því er veiðikvótinn 35 kýr og 25 tarfar í ár. 

Á svæðum 8 og 9 hefur töluverður fjöldi hreindýra haldið sig á stöðum sem ekki er veiðanlegt á. Af þeim sökum hefur Umhverfisstofnun gefið út viðbótarleyfi sem leyfa veiðar frá 1.  til 30. nóvember. Leyfið nær yfir allt að 22 kýr á svæði 8. Á svæði 9 eru hins vegar engar takmarkanir á fjölda kúa sem eru veiddar í nóvember.

Það sem af er veiðitímabilinu hefur einn tarfur verið felldur á svæði 8 en fjórir tarfar á svæði 9. Fyrir áhugasama er hægt að fylgjast með gangi veiða á vef Umhverfisstofnunar.

Líkan af sólkerfinu sett upp við göngustíg á Höfn í Hornafirði

Í dag var lokið við að setja upp líkan af sólkerfinu við göngustíg sem liggur vestan byggðar á Höfn.  Líkanið er kvarðað niður meira en 2,1 milljarðfalt en er í réttum stærðar- og fjarlægðahlutföllum. Sólin er staðsett á Óslandshæð en reikistjörnurnar dreifast meðfram stígnum allt að golfvellinum við Silfurnes. Reikistjörnurnar eru mótaðar sem kúlur á enda málmstanga og er stærð þeirra á bilinu 1 mm til 6,5 cm. Þær eru festar á gabbrósteina frá Litlahorni, en auk þess eru upplýsingaskilti við þær allar.  Leiðin frá sólinni að Neptúnusi er 2.8 km á lengd og tekur gangan í heild sinni tæpa klukkustund.

Út frá líkani af sólkerfinu gerir fólk sér frekar grein fyrir smæð jarðarinnar, smæð Íslands og okkar sjálfra. Jörðin er eini staðurinn í okkar sólkerfi þar sem líf þrífst svo líkanið minnir á mikilvægi þess að umgangast náttúruna vel, allt umhverfið og jörðina í heild sinni.

Nánar má lesa um verkefnið og fá frekari upplýsingar um sólkerfið hér.

Búið er að gefa út bæklinga um náttúrustíginn og sólkerfið á íslensku og ensku.  Er það von starfsmanna Náttúrustofu Suðausturlands að sem flestir hafi gagn og gaman af líkaninu, en með göngu á stígnum er hægt að fræðast um sólkerfið auk þess að njóta útiverunnar, fjörunnar og fuglalífsins.

Guðni Karlsson flutti gabbrósteina frá Litlahorni að stígnum og kom þeim fyrir á réttum stöðum.

Guðni Karlsson flutti Gabbrósteina frá Litlahorni að stígnum og kom þeim fyrir á réttum stöðum.

Jóhann Helgi Stefánsson og Snævarr Guðmundsson stóðu að uppsetningu á steinum og skiltum auk þess að koma reikistjörnunum á rétta staði.

Jóhann Helgi og Snævarr sáu um uppsetningu á skiltum auk þess að koma reikistjörnunum á rétta staði.

Jóhann Helgi Stefánsson og Kristín Hermannsdóttir skrúfuðu og límdu reikistjörnurnar á sína staði.

Jóhann Helgi og Kristín skrúfuðu og límdu reikistjörnurnar á sína staði.

Snævarr Guðmundsson stendur við hlið líkans af sólinni, en það er 65 cm í þvermál og stendur á Óslandshæð.

Snævarr við hlið líkans af sólinn, en hún er 65 cm í þvermál og stendur á Óslandshæð.

Júpiter er stærsta reikistjarnan og er 6,5 cm í þvermál í líkaninu.

Júpiter er stærsta reikstjarnan og er 6,5 cm í þvermál í líkaninu.

Á meðan skiltin og reikistjörnurnar voru settar upp komu nokkrar áhugasamar stúlkur og skoðuðu þau.

Áhugasamar stúlkur skoða skiltin um leið og þau voru komin upp.

Veðurfar á Höfn – hálfsárs uppgjör

Þegar rýnt er í veðurtölur fyrir Höfn frá áramótum og til júníloka árið 2014, má sjá að þar hefur verið mun hlýrra en meðalárið og einnig mun úrkomumeira. Stærsta frávikið í hitatölum má sjá í janúar (4,0°C), en minsta í mai (0,9°C).  Mesta frávikið í úrkomutölum má sjá í  í janúar þegar úrkoman var um 280 % af mánaðarmeðaltalinu, en minnsta frávikið var í júní, þegar einungis rigndi um 57 % af mánaðarmeðaltalinu. Það sem af er júlí (skrifað 7.júlí) hafa mælst um 78 mm á Höfn, en meðaltal júlímánaðar er um 88 mm (1981-2010) svo ekki er langt í land að meðaltalið náist þennan mánuðinn hvað varðar úrkomu.

Út frá þessum tölum má sjá að mánuðirnir frá áramótum hafa verið hagstæðir fyrir allan gróður, skepnur og menn á þessu svæði, hlýtt og rakt, en þó hafa einnig verið góðir og sólríkir dagar inn á milli.

Sláttur hófst snemma hjá mörgum bændum í sveitarfélaginu og nokkrir eru farnir að taka upp kartöflur.  Má því búast við góðri uppskeru þetta sumarið en einnig bera bláberjalyng og krækiberjalyng talsvert af sætukoppum og grænjöxlum svo líkur eru á góðu berjasumri.

Hér fyrir neðan er tafla sem sýnir meðalhita á Höfn árið 2014 og frávik frá 30 ára meðaltali (1961-1990)

Mánuður Meðalhiti (°C ) Frávik frá meðaltali 1961-1990 ( °C)
Janúar

4,1

4,0

Febrúar

2,5

1,9

Mars

3,5

2,3

Apríl

5,4

2,6

Mai

7,2

0,9

Júní

10,9

2,4

 

 

 

 

 

 

 

Tafla sem sýnir mælt úrkomumagn á Höfn 2014 og hlutfall af 30 ára meðaltalsúrkomu (1961-1990)

Mánuður Úrkomumagn (mm) Hlutfall úrkomu af meðaltali 1961-1990 (%)
Janúar

369,7

281,4

Febrúar

195,8

147,7

Mars

211,7

192,5

Apríl

121,5

143,1

Mai

67,1

85,4

Júní

40,7

56,9

 

Á vef Veðurstofu Íslands má sjá finna yfirlit yfir veðurfar í Reykjavík og á Akureyri fyrstu fimm mánuði ársins. Þar er sagt frá því að óvenjuhlýtt hafi verið í Reykjavík það sem af er ársins og einungis hafi þrisvar sinnum verið hlýrra þar frá upphafi samfelldra mælinga, 1871. Það var árið 1964, 1929 og 2003. Á Akureyri hafa fyrstu fimm mánuðir ársins aðeins verið sex sinnum hlýrri (frá 1882 að telja).

Ekki er hægt að finna sambærilegar tölur fyrir Höfn eða veðurstöðvar sem þar hafa verið starfræktar, en eitt er víst að það sem af er ári hefur veður verið gott á margan hátt, hlýtt og mátulega blautt.

Hvernig framhaldið verður skal ósagt látið.

Í krækjunum hér fyrir neðan má sjá myndrænt hvernig meðalmánaðarhiti hefur verið á Höfn og hvernig úrkoman var í hverjum mánuði það sem af er árinu.

hiti-2014 úrkoma-2014

 

Sigurður Bjarnason tók myndina

Merking á kríuungum í Óslandi

Síðdegis þann 3. júlí tók starfsmaður Náttúrustofu Suðausturlands þátt í merkingum á kríuungum í Óslandi. Brynjúlfur Brynjólfsson hjá Fuglaathugunarstöð Suðausturlands sá um að merkja þá unga sem fundust en nokkur ungmenni aðstoðu einnig við að finna ungana í háu og blautu grasinu. Þann  dag voru merktar 161 kríur af Fuglaathugunarstöð Suðausturlands og þar af voru 124 þeirra í Óslandi. Einnig fundust nokkrir dauðir ungar.  Mikil úrkoma hefur verið á Höfn síðustu sólarhringa og því verða lífsskilyrði fyrir litla ófleyga kríuunga slæm og sumir þeirra kafna eða krókna í blautu grasinu sem leggst yfir þá.

Til að fræðast nánar um  merkingar á fuglum má lesa vef Náttúrufræðistofnunar Íslands http://www.ni.is/dyralif/fuglar/fuglamerkingar/  en Fuglaathugunarstöð Suðausturlands er með merkingarleyfi frá henni.

Brynjúlfur Brynjólfsson og tveir ungir menn leita að kríuungum í blautu grasi

Brynjúlfur Brynjólfsson og tveir ungir menn leita að kríuungum í blautu grasi

 Hettumáfsungi sem fannst og var einnig merktur

Hettumáfsungi sem fannst og var einnig merktur

Kríuungi í höndum á ungum leitarmanni

Kríuungi í höndum á ungum leitarmanni

Vegna rigninga undarnfarna daga var grasið mjög blautt og hafði lagst niður

Vegna rigninga undanfarna daga var grasið mjög blautt og hafði lagst niður

Kríuungi í höndum starfsmanns Náttúrustofu Suðausturlands

Kríuungi í höndum starfsmanns Náttúrustofu Suðausturlands

Kríuungi sem kúrir í grasinu.  Nú er þessi ungi kominn með merki á hægri fót.

Kríuungi sem kúrir í grasinu. Nú er þessi ungi kominn með merki á hægri fót.

Stoltur ungafangari.  Að vísu skeit unginn á jakkann hans, en það skipti ekki máli

Stoltur ungafangari. Að vísu skeit unginn á jakkann hans, en það skipti ekki máli

Brynjúlfur Brynjólfsson merkingarmaður heldur hér á stálpuðum kríuunga sem búið var að merkja.

Brynjúlfur Brynjólfsson merkingarmaður heldur hér á stálpuðum kríuunga sem búið var að merkja.