Fiðrildavöktun 2021 á Suðausturlandi
Náttúrustofan rekur fjórar fiðrildagildur í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands og Fuglaathugunarstöð Suðausturlands. Gildurnar eru á Mýrum í Álftaveri, í Mörtungu á Síðu og tvær í Einarslundi við Hornafjörð. Þær eru settar upp um miðjan apríl og teknar niður í byrjun nóvember ár hvert en tæmdar vikulega. Í gildrurnar við Einarslund komu þetta árið 2.447 fiðrildi og 475 vorflugur í aðra gildruna og 2.945 fiðrildi og 881 vorflugur í hina. Það er töluverð aukning frá fyrr ári og hefur heildarfjöldi veiddra fiðrilda í Einarslundi aldrei verið hærri. Heildarfjöldi fiðrildategunda var 29 og heildarfjöldi vorflugutegunda var 9. Þar var barrvefari (Zeiraphera griseana) algengasta fiðrildategundin og sitrubytta (Limnephilus sparsus) algengasta vorflugan. Í Mörtungu veiddust í heildina 2.231 fiðrildi og 198 vorflugur. Gífurleg fækkun var á heildarfjölda fiðrilda frá árinu á undan (13.544) en tölur þessa árs eru í ágætum takti við fyrri mælingar. Heildarfjöldi fiðrildategunda í Mörtungu var 30 og heildarfjöldi vorflugu tegunda var 8. Þar var jarðygla algengasta fiðrildategundin en sitrubytta algengasta vorflugan líkt og í Einarslundi. Rekstur fiðrildagildrunnar á Mýrum gekk brösuglega síðastliðið ár vegna rafmagns- og ljósaperu vandamála. Lesa meira
Þolmarkarannsókn á Breiðamerkursandi
Náttúrustofa Suðausturlands og Nýheimar Þekkingarsetur vinna nú að rannsókn á þolmörkum við Jökulsárlón og á Breiðamerkursandi. Er þetta samstarfsverkefni unnið fyrir Vatnajökulsþjóðgarð með aðkomu Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði, annarra fagstofnana og sérfræðinga Vatnajökulsþjóðgarðs. Verkefnið hófst í ágúst 2021 og hefur verið unnið að gagnaöflum og samráði við sérfræðinga. Áætluð verklok eru lok árs 2022 með skýrsluskrifum og þar verður sett fram aðgerðaráætlun. Verkefnastjóri er Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir. Lesa meira
Helsingjamerkingar 2021 – gæs og gassi nefnd í höfuð Kvískerjasystkina
Um miðjan júli tók Náttúrustofa Suðausturlands þátt í helsingjamerkingum í Vestur- og Austur-Skaftafellssýslum, en verkefninu er sem áður stýrt af Arnóri Þóri Sigfússyni dýravistfræðingi hjá Verkís.
Þetta er fimmta árið í röð sem helsingjar eru merktir á starfsvæði stofunnar og líkt og síðasta ár voru sett staðsetningatæki á nokkra fugla. Það gerir rannsakendum kleift að fylgjast nákvæmlega með ferðum fuglana og fá betri innsýn í hvernig þeir haga lífi sínu. Settir voru GSM/GPS-sendar á fjóra helsingja, tvo á Breiðamerkursandi í Austur-Skaftafellssýslu (gæsin Guðrún eldri og gassinn Hálfdán) og tvo á Álftaversafrétti í Vestur-Skaftafellssýslu (gassarnir Laki og Hallmundur). Sendarnir eru nokkuð dýrir og því var leitað styrkja til að fjármagna þá sérstaklega. Kvískerjsjóður veitti styrk fyrir tveimur sendum sem settir voru á fugla sem náðust nærri Kvískerjum og ákveðið var að nefna fuglana tvo eftir þeim systkinum Guðrúnu eldri og Hálfdáni. Skaftárhreppur styrkti kaup á einum sendi og hlaut fuglinn sem fékk hann nafnið Laki. Síðasti sendirinn var styrktur af einkaaðila og fékk sá að launum að fuglinn sem ber hann er nefndur Hallmundur í höfuð viðkomandi. Allir sem koma að merkingunum kunna styrktaraðilum hinar bestu þakkir fyrir.

Mynd 1 – Arnór Þórir Sigfússon með gæsina Guðrúnu eldri að nýlokinni ásetningu staðsetningarbúnaðs. Þau voru þó ekki að hittast í fyrsta sinn því hann merkti hana fyrir tveimur árum sem sagði okkur það að hún væri reynslubolti (búin að ná að lifa af í alla vega þrjú ár) og því vænlegt að setja á hana sendi. Sendirinn sem hún fékk var styrktur af Kvískerjasjóði en hún heitir einmitt í höfuðið á Guðrúnu eldri frá Kvískerjum.

Mynd 2 – Elín Erla Káradóttir, starfsmaður stofunnar, með gassann Hálfdán sem nýbúinn var að fá staðsetningartæki. Glöggir taka eftir að hann fékk litmerkið O-HB (O fyrir appelsínugulan og HB fyrir Hálfdán Björnsson). Við vonum að Hálfdáni farnist vel í komandi ævintýrum.
Bættist þá í hóp fugla með staðsetningartæki en síðastliðið sumar fengu fuglarnir Guðmundur, Guðrún, Stefanía, Eivör og Sæmundur senda um hálsa sína. Þann 29. júlí í sumar komu hins vegar í ljós sterkar vísbendingar að helsinginn Sæmundur væri allur þar sem hann var hafði verið kyrr á sama stað í nokkurn tíma. Sendur var út leitarflokkur sem staðfesti grunsemdirnar, ekki er fullljóst hvað varð honum að aldurtila en skúmur og tófa liggja bæði undir grun. Sendirinn hefur þó ekki lokið hlutverki sínu heldur verður hann endurnýttur á Sæmund II næsta sumar.

Mynd 5 – Hinsti hvílustaður Sæmundar (reyndar er það ekki rétt því leifar hans voru teknar til rannsókna) nærri Breiðabólsstaðarlóni.
Við merkingarnar er fuglunum smalað saman í rétt og merktir með litmerki og stálmerki á fæturna. Litmerkin í ár voru gul og appelsínugul. Það er frekar auðvelt að smala fuglum á þeim tíma sumarsins þegar þeir eru í sárum, en það er þegar þeir skipta þeir út gömlum flugfjöðrum fyrir nýjar. Í sumar voru fyrsta sinn fuglar merktir á Mýrum sem er talsvert austar en merkt hefur verið hingað til. Það verður spennandi að sjá hvort fuglar sem verpa austar sýni aðra hegðun en þeir sem eru vestar. Alls voru merktir um 625 helsingjar í ár á öllu Suðausturlandi og verður spennandi að sjá hvar þeir koma fram í vetur og næsta sumar. Við hvetjum fólk sem sér merkta fugla, eða veiðimenn, að senda upplýsingar um hvar og hvenær fuglinn sást til Náttúrufræðistofnunnar á netfangið fuglamerki@ni.is.
Merkingarnar í sumar gengu einkar vel enda hópurinn sem kemur að þeim orðinn þrautþjálfaður. Við þökkum öllum þeim sem aðstoðuðu við merkingarnar, bæði sjálfboðaliðum sem og starfsfólki Vatnajökulsþjóðgarðar og hlökkum til næsta árs.