Hreindýraveiðar 2014

Þann 1. ágúst 2014 byrjuðu veiðar á hreindýrakúm en veiðar á törfum hafa staðið yfir frá 15. júlí.  Tvö veiðisvæði eru í A-Skaftafellssýslu, annars vegar Nes og Lón (svæði 8) og hins vegar Mýrar og Suðursveit (svæði 9).  Veiðitímabil tarfa stendur yfir til 15. september en veiðitímabil kúa til 20. september. 

Náttúrustofa Austurlands sér um talningar á hreindýrum. Á svæði 8 eru talin vera um 450 dýr. Veiðikvótinn þar er 68 kýr og 45 tarfar, nú í ár. Talið er að á svæði 9 séu um 250 dýr. Á því er veiðikvótinn 35 kýr og 25 tarfar í ár. 

Á svæðum 8 og 9 hefur töluverður fjöldi hreindýra haldið sig á stöðum sem ekki er veiðanlegt á. Af þeim sökum hefur Umhverfisstofnun gefið út viðbótarleyfi sem leyfa veiðar frá 1.  til 30. nóvember. Leyfið nær yfir allt að 22 kýr á svæði 8. Á svæði 9 eru hins vegar engar takmarkanir á fjölda kúa sem eru veiddar í nóvember.

Það sem af er veiðitímabilinu hefur einn tarfur verið felldur á svæði 8 en fjórir tarfar á svæði 9. Fyrir áhugasama er hægt að fylgjast með gangi veiða á vef Umhverfisstofnunar.