Færslur

Helsingjaungar í Skúmey

Varpútbreiðsla helsingja 2023

Nú er komið á netið minnisblað um helsingjavöktun á Íslandi árið 2023 sem Náttúrustofa Suðausturlands vann í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands. Aukning í íslenska varpstofninum heldur áfram en heildarfjöldi varppara var nú metinn 3121 pör, til samanburðar voru metin 2493 pör árið 2020 og 2052 pör árið 2019. Það er u.þ.b. 18% aukning milli áranna 2019 og 2020 og 20% aukning frá 2020 til 2023. Þegar árlegar talningar úr helsingjavarpinu í Skúmey í Jökulsárlóni er skoðaðar til samanburðar kemur í ljós fækkun í Skúmey árið 2023 miðað við tvö árin þar áður. Þetta er vísbending um að heildarstofn helsingja á Íslandi gæti hafa verið stærri árin 2021 og 2022 og fækkun í Skúmey endurspegli áhrif fuglaflensu á stofnstærðina. Við þessa úttekt var mestur fjöldi varppara í Skúmey en misjafnt er milli svæða hvort aukning eða fækkun hafi orðið í fjölda varppara. Árið 2023 var tekið út varp á tveimur nýjum svæðum; í Ölfusi og í austfirsku eyjunum Seley og Andey. Stefnt er að því að fylgjast áfram með þeim svæðum. Heildarstofnmat helsingja á Íslandi svipar mjög til síðasta mats en stofninn var talinn vera 11.349 fuglar árið 2023 en 11.600 árið 2020. Lesa má meira um helsingjavöktunina 2023 hér.

Áður voru gerðar heildarúttektir á varpi helsingja, árin 2019 og 2020. Í tengslum við AEWA (African – Eurasian Migratory Waterbird Agreement) og EGMIWG (European Goose Management International Working Group) hefur frá 2020 verið samstarf milli Íslands og Breta og Íra um helsingjavöktun, bæði íslenska og grænlenska varpstofnsins. Samkvæmt rannsóknaráætlun verkefnisins á íslenski varpstofninn að vera metin sömu árin og heildartalning á vetrarstöðvum í Bretlandi og Írlandi fer fram. Hefur það nú verið gert árin 2020 og 2023 en til stendur að næsta mat verði framkvæmt árið 2026.

Helsingjaungi á Mýrum

Helsingjamerkingar 2021 – gæs og gassi nefnd í höfuð Kvískerjasystkina

Um miðjan júli tók Náttúrustofa Suðausturlands þátt í helsingjamerkingum í Vestur- og Austur-Skaftafellssýslum, en verkefninu er sem áður stýrt af Arnóri Þóri Sigfússyni dýravistfræðingi hjá Verkís.

Þetta er fimmta árið í röð sem helsingjar eru merktir á starfsvæði stofunnar og líkt og síðasta ár voru sett staðsetningatæki á nokkra fugla. Það gerir rannsakendum kleift að fylgjast nákvæmlega með ferðum fuglana og fá betri innsýn í hvernig þeir haga lífi sínu. Settir voru GSM/GPS-sendar á fjóra helsingja, tvo á Breiðamerkursandi í Austur-Skaftafellssýslu (gæsin Guðrún eldri og gassinn Hálfdán) og tvo á Álftaversafrétti í Vestur-Skaftafellssýslu (gassarnir Laki og Hallmundur). Sendarnir eru nokkuð dýrir og því var leitað styrkja til að fjármagna þá sérstaklega. Kvískerjsjóður veitti styrk fyrir tveimur sendum sem settir voru á fugla sem náðust nærri Kvískerjum og ákveðið var að nefna fuglana tvo eftir þeim systkinum Guðrúnu eldri og Hálfdáni. Skaftárhreppur styrkti kaup á einum sendi og hlaut fuglinn sem fékk hann nafnið Laki. Síðasti sendirinn var styrktur af einkaaðila og fékk sá að launum að fuglinn sem ber hann er nefndur Hallmundur í höfuð viðkomandi. Allir sem koma að merkingunum kunna styrktaraðilum hinar bestu þakkir fyrir.

Arnór með annan GPS merkta helsingjann

Mynd 1 – Arnór Þórir Sigfússon með gæsina Guðrúnu eldri að nýlokinni ásetningu staðsetningarbúnaðs. Þau voru þó ekki að hittast í fyrsta sinn því hann merkti hana fyrir tveimur árum sem sagði okkur það að hún væri reynslubolti (búin að ná að lifa af í alla vega þrjú ár) og því vænlegt að setja á hana sendi. Sendirinn sem hún fékk var styrktur af Kvískerjasjóði en hún heitir einmitt í höfuðið á Guðrúnu eldri frá Kvískerjum.

Elín Erla með annan GPS merktan helsingja.

Mynd 2 – Elín Erla Káradóttir, starfsmaður stofunnar, með gassann Hálfdán sem nýbúinn var að fá staðsetningartæki. Glöggir taka eftir að hann fékk litmerkið O-HB (O fyrir appelsínugulan og HB fyrir Hálfdán Björnsson). Við vonum að Hálfdáni farnist vel í komandi ævintýrum.

 

Ferðir Háldáns fyrst eftir merkingu.

Mynd 3 – Hér má sjá hvernig Hálfdán ferðaðist fyrstu dagana eftir merkingu.

Bættist þá í hóp fugla með staðsetningartæki en síðastliðið sumar fengu fuglarnir Guðmundur, Guðrún, Stefanía, Eivör og Sæmundur senda um hálsa sína. Þann 29. júlí í sumar komu hins vegar í ljós sterkar vísbendingar að helsinginn Sæmundur væri allur þar sem hann var hafði verið kyrr á sama stað í nokkurn tíma. Sendur var út leitarflokkur sem staðfesti grunsemdirnar, ekki er fullljóst hvað varð honum að aldurtila en skúmur og tófa liggja bæði undir grun. Sendirinn hefur þó ekki lokið hlutverki sínu heldur verður hann endurnýttur á Sæmund II næsta sumar.

Sæmundur allur

Mynd 5 – Hinsti hvílustaður Sæmundar (reyndar er það ekki rétt því leifar hans voru teknar til rannsókna) nærri Breiðabólsstaðarlóni.

Við merkingarnar er fuglunum smalað saman í rétt og merktir með litmerki og stálmerki á fæturna. Litmerkin í ár voru gul og appelsínugul. Það er frekar auðvelt að smala fuglum á þeim tíma sumarsins þegar þeir eru í sárum, en það er þegar þeir  skipta þeir út gömlum flugfjöðrum fyrir nýjar. Í sumar voru fyrsta sinn fuglar merktir á Mýrum sem er talsvert austar en merkt hefur verið hingað til. Það verður spennandi að sjá hvort fuglar sem verpa austar sýni aðra hegðun en þeir sem eru vestar. Alls voru merktir um 625 helsingjar í ár á öllu Suðausturlandi og verður spennandi að sjá hvar þeir koma fram í vetur og næsta sumar. Við hvetjum fólk sem sér merkta fugla, eða veiðimenn, að senda upplýsingar um hvar og hvenær fuglinn sást til Náttúrufræðistofnunnar á netfangið fuglamerki@ni.is.

Merkingarnar í sumar gengu einkar vel enda hópurinn sem kemur að þeim orðinn þrautþjálfaður. Við þökkum öllum þeim sem aðstoðuðu við merkingarnar, bæði sjálfboðaliðum sem og starfsfólki Vatnajökulsþjóðgarðar og hlökkum til næsta árs.

Merkingarhópurinn einn daginn í sumar.

Mynd 6 – Helsingjamerkingarhópurinn glaðbeittur við Stemmulón eftir vel heppnaðar veiðar þann 12. júlí 2021.

Helsingjaungi vorið 2020

Varpútbreiðsla helsingja á Suðausturlandi 2019 og 2020

Nú eru komin á netið tvö minnisblöð frá kortlagningu varpútbreiðslu helsingja síðustu tveggja sumra. Helsingi er tiltölulega nýr varpfugl á Íslandi og er aðalvarpútbreiðsla hans í Skaftafellssýslum og höfum við á Náttúrustofunni lagt áherslu á að fylgjast náið með framvindunni. Heildstæð hreiðurtalning fór fram í fyrsta skipti árið 2019 sem var samstarfsverkefni Náttúrustofu Suðausturlands og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Verkefnið var styrkt af Vinum Vatnajökuls og kunnum við samtökunum bestu þakkir. Alls fundust 2051 helsingjahreiður í úttektinni, 1760 hreiður í Austur-Skaftafellssýslu og 292 í Vestur-Skaftafellssýslu.

Sumarið 2020 var kortlagningin unnin í tengslum við AEWA (African – Eurasian Migratory Waterbird Agreement) og EGMIWG (European Goose Management International Working Group) en verkefnið er í samvinna við Breta og Íra um vöktun íslenska varpstofnsins og þess grænlenska. Samkvæmt rannsóknaáætlun á að meta íslenska varpstofninn sömu ár og heildartalning fer fram á vetrarstöðvum á Bretlandseyjum, þ.e. 2020, 2023 og 2026. Sumarið 2020 fundust í heild 2493 helsingjahreiður í Skaftafellssýslum, 421 í Vestur-Skaftafellssýslu og 2072 í Austur-Skaftafellssýslu. Vitað er að helsingjastofninn verpur víðar í litlum mæli og því er stofnmat helsingja á Íslandi 2500 varpör vorið 2020, auk geldfugla. Fjöldi geldfugla er áætlaður frá hlutfalli geldfugla í vörpum þar sem heildartalning er möguleg. Út frá því og fjölda varppara er metið að stofnstærð íslenskra helsingja árið 2019 hafi verið um 9000 fuglar (geldfugl 54,3%) og 2020 um 11.600 fuglar (geldfugl 57,4%). Heildartalning Grænlandsstofns (þ.m.t. íslenski varpstofninn) á vetrarstöðvum í mars 2020 gaf 73.391 fugl en ef marka má heildarstofnmat á Íslandi sama vor þá er hlutdeild íslenskra helsingja orðin 15,8% (var um 12,5% 2019).

Þetta og meira má lesa í minnisblöðunum sem finna má hér fyrir árið 2019 og hér fyrir árið 2020.

Helsingjamerkingar 2020 – staðsetningarbúnaður settur á helsingja í fyrsta sinn

Dagana 13.-15. júlí tók Náttúrustofa Suðausturlands þátt í helsingjamerkingum í Vestur- og Austur-Skaftafellssýslum, en verkefninu er stýrt af Arnóri Þóri Sigfússyni dýravistfræðingi hjá Verkís.

Þetta var fjórða sumarið í röð þar sem helsingjar eru merktir á Breiðamerkursandi en í ár voru í fyrsta skipti settir sendar á nokkra fugla sem gerir kleift að fylgjast nákvæmlega með ferðum þeirra. Settir voru GSM/GPS-sendar á fimm helsingja, einn á Álftaversafrétti í Vestur-Skaftafellssýslu (gassinn Guðmundur) og fjóra á Breiðamerkursandi í Austur-Skaftafellssýslu (þrjár gæsir: Eivör, Guðrún og Stefanía og einn gassi: Sæmundur). Sendarnir notast við símkerfi og berast upplýsingar um staðsetningu fuglanna tvisvar sinnum á sólarhring og veita því ítarlegar upplýsingar um ferðir þeirra. Slíkar upplýsingar eru því afar dýrmætar til að skilja betur lífshætti helsingja. Sendarnir eru nokkuð dýrir og nauðsynlegt að leita styrkja til að fjármagna sérstaklega slíkar rannsóknir. Náttúrustofan aðstoðaði við safna styrkjum og fékk styrk fyrir tveimur sendum, annan frá Búnaðarsambandi Austur-Skaftafellssýslu og hinn frá Sveitarfélaginu Hornafirði. Við hjá stofunni, sem og allir sem koma að merkingunum, kunnum þeim hinar bestu þakkir fyrir. Allir sem styrkja sendi fá að velja nafn fuglsins og völdu Búnaðarsamtökin nafnið Eivör og Sveitarfélagið valdi nafnið Sæmundur (sjá myndir).

Alls voru merktir um 370 helsingjar í ár. Hver fugl sem næst fær lítið stálmerki á vinstri fót með nokkurs konar kennitölu, en fullorðnir fuglar fengu einnig litmerki á hægri fót og voru merki ársins í ár gul með tveimur svörtum bókstöfum. Það sem einkennir litmerki sem sett eru á helsingja merkta á Íslandi frá helsingjum merktum annars staða er óbrotin lína sem aðgreinir stafina tvo. Við hvetjum fólk sem sér merkta fugla, eða veiðimenn, að senda upplýsingar um hvar og hvenær fuglinn sást til Náttúrufræðistofnunnar á netfangið fuglamerki@ni.is.

Vatnajökulsþjóðgarður lagði til starfsfólk og einnig komu sjálfboðar til merkinganna og fá allir þessir aðilar kærar þakkir fyrir vel unnið verk.

Kristín Hermannsdóttir, forstöðukona Náttúrustofu Suðausturlands, með helsingja sem fékk GPS senditæki sem styrkt var af Búnaðarsambandi Austur-Skaftafellssýslu en þau völdu nafnið Eivör fyrir þessa glæsilegu gæs. Litmerki hennar er gult með áletruninni SF. Nafn gæsarinnar til vinstri er óþekkt. Mynd: Lilja Jóhannesdóttir.
Sæmundur Helgason með Sæmund í sparifötunum, en sendir á þennan helsingja var styrktur af Sveitarfélaginu Hornafirði. Litmerki hans er gult með áletruninni SH. Mynd: Kristín Hermannsdóttir.
Hrafnhildur Ævarsdóttir, aðstoðarmaður þjóðgarðsvarðar Vatnajökulsþjóðgarðs í Skaftafelli með helsingja sem fékk GPS senditæki og nafnið Guðrún. Litmerki hennar er gult með áletruninni HA. Mynd: Kristín Hermannsdóttir.
Einn helsingjahópur kominn í “réttina” og bíða þar eftir að verða merktir. Hlynur Þráinn Sigurjónsson, Sandra Rós Karlsdóttir og Lilja Jóhannesdóttir gæta fuglanna. Mynd: Kristín Hermannsdóttir.
Einn helsingjahópur kominn í “réttina” og bíða þar eftir að verða merktir. Hlynur Þráinn Sigurjónsson, Sandra Rós Karlsdóttir og Lilja Jóhannesdóttir gæta fuglanna. Mynd: Kristín Hermannsdóttir.