2015: Ár jarðvegsins

Sameinuðu þjóðirnar

©Sameinuðu þjóðirnar

Jarðvegur er skilgreindur sem efsta lagið á jarðskorpunni. Hann er undirstaða í velgengni plantna og þar með dýra. Jarðvegur er því afar mikilvægur, þó fær hann ekki alltaf þá athygli sem hann á skilið. Sameinuðu þjóðirnar útnefndu árið 2015 sem ár jarðvegs, einmitt til  að vekja athygli á mikilvægi hans og þeim ógnum sem steðja að jarðvegi í heiminum.

Jarðvegur er okkur mannfólkinu lífsnauðsynlegur. Í gegnum árþúsundin hafa sprottið upp blómleg menningarsamfélög þar sem frjósaman jarðveg er að finna og  virðist oft vera tenging milli hnignunar samfélaga og skorts á góðum jarðvegi. Enda þarf að hugsa vel um jarðveginn, því að með mikilli og langvarandi ræktun minnkar frjósemi hans.

Jarðvegur er þó ekki bara jarðvegur. Jarðvegur heimsins er flokkaður á grundvelli þess hvað einkennir hann. Fyrsta flokkunin var gerð af rússanum V.V. Dokuchaev í lok 19. aldar, það var ekki fyrr en á fyrri hluta 20. aldar sem önnur lönd fór að skilgreina mismunandi jarðveg út frá eðliseinkennum hans. Nú er til alþjóðlegt flokkunarkerfi fyrir jarðveg (WRB) á vegum  Sameinuðu þjóðanna, þar er jarðvegur heimsins skilgreindur í 32 mismunandi hópa. Flest lönd hafa svo sína eigin flokkun sem byggir á hinni alþjóðlegu. Það er gert til að útskýra betur þann mun sem er á eðliseiginleikum hans. Þó svo að hið alþjóðlega flokkunarkerfi sé til staðar, er flokkunarkerfi Bandaríkjanna(USDA)  einnig notað á heimsvísu. Þar jarðvegnum skipt upp í 12 flokka. Íslenskur jarðvegur er flokkaður sem eldfjallajörð (e. Andosol) í báðum flokkunarkerfunum.

Nú hafa augu heimsins einkum beinst að jarðvegsvernd og landgræðslu til að stemma stigu við þeirri hnattrænu hlýnun sem við mannfólkið eigum sök á. Jarðvegur bindur mun meira af kolefni heldur en nokkur annar hluti lífkerfisins, að hafinu undanskyldu. Með aukinni landgræðslu er hægt að vinna upp þann jarðveg sem hefur tapast, auk þess sem vistkerfin auka framleiðni sína og virkni. Andosol – eldfjallajarðvegur hefur  tilhneigingu til að binda mun meira af kolefni en annar þurrlendisjarðvegur. Það er því mikið af kolefni bundið í hinnum íslenska Andosol, oft yfir >40 kg/m2 á þurrlendi en >90 kg/m2 í votlendi. Þar sem mikið er um auðnir á Íslandi hefur töluvert tapast af jarðvegi hér á landi eftir að land byggðist, bæði af mannavöldum og af náttúrulegum orsökum. Með því að græða upp þær auðnir er mögulegt að binda umtalsvert magn kolefnis. Það er því góð mótvægisaðgerð við allt það koltvíoxíð  (CO2  )sem við dælum útí andrúmsloftið á degi hverjum. Einnig er nauðsynlegt að draga úr beit á mörgum stöðum landsins, þar sem ofbeit leiðir til þess að rof myndast í gróðurþekjuna og þá tapast jarðvegurinn.

Með þessum stutta pistli vona ég að að vitneskja þín, lesandi góður, hafi aukist örlítið um hversu gríðarlega mikilvægur jarðvegur er fyrir líf okkar hér á jörðinni. Enn fremur nauðsyn þess að við stöndum okkur í að vernda þann jarðveg sem enn er til staðar hér á landi sem og í heiminum öllum.

Heimildir:

Fyrirlestrar Guðrúnar Gísladóttir, PhD í Náttúrulandfræði við HÍ, 2013.
Ólafur Arnalds, Grétar Guðbergsson og Jón Guðmundsson (2000). Carbon sequestration and reclamation of severely degraded soils in Iceland. Búvísindi 13; 87-97

Tilraunareitur á Suðausturlandi sumarið 2014

Uppskerutap vegna ágangs gæsa í ræktarlönd og eftirlíking gæsabeitar á bygg að vori 2014

Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands um uppskerutap vegna ágangs gæsa í ræktarlönd og eftirlíking gæsabeitar á bygg að vori 2014. Verkefnið var unnið í samvinnu Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands, Búnaðarsambands Suðurlands, Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins og var styrkt af Veiðikortasjóði Umhverfis– og auðlindaráðuneytis.

Í skýrslunni greinir frá tveimur tilraunaverkefnum sem voru unnin árið 2014. Önnur rannsóknin (Rannsókn I) var gerð á Suðausturlandi en þar var borin saman uppskera í friðuðum reitum við reiti sem fuglar komust að. Einnig voru skoðuð tengsl á milli fjölda fugla á ákveðnum túnum og rýrnun uppskeru. Hin rannsóknin (Rannsókn II) var gerð á Korpu þar sem líkt var eftir beit gæsa á bygg að vori. Þar var sláttuvél notuð til að líkja eftir gæsabeitinni. Markmiðið var að kanna áhrif gæsabeitar að vori á uppskeru og þroska byggs.

Niðurstöður úr Rannsókn I sýna að mismunur á uppskeru af friðuðum reitum og viðmiðunarreitum var að meðaltali 520 kg af þurrefni á hektara. Þurrefnisuppskera var að meðaltali 18% minni þar sem fuglarnir bitu túnin. Á tilraunatúnunum töpuðust því tæpar tvær rúllur af þurrefnisuppskeru á hektara að meðaltali. Með kostnaðarútreikningum má sjá að mismunur í uppskeru kostaði að meðaltali 17.082 kr./ha. Einfalt fylgnipróf var framkvæmt til að sjá samhengi milli fjölda fugla og mismunar í uppskeru, en það sýndi enga fylgni. Ekki er hægt að alhæfa að talningatölurnar séu lýsandi fyrir fjöldann, en töluverðar líkur eru á að talningatölur sýni lágmarksfjölda fugla á hverjum stað.

Í Rannsókn II mátti sjá að slátturinn hafði mismunandi áhrif eftir þroskastigi plantna við slátt, en í heildina rýrði slátturinn (beitin) uppskeruna og þroskastig kornsins tók skref afturábak. Einnig hefur beitin áhrif á gæði kornsins til hins verra.

Skýrsluna í heild sinni má sjá á vef Náttúrustofu Suðausturlands nattsa.is undir útgefið efni eða hér.

Vorið 2015 voru settir út tilraunareitir á 6 staði á Suðausturlandi og verður unnið úr niðurstöðum þeirrar tilraunar veturinn 2015-2016.

 

Heiðagæsir í túni á Seljavöllum í Nesjum 5. april 2009. Ljósmynd Brynjúlfur Brynjólfsson.

Heiðagæsir í túni á Seljavöllum í Nesjum 5. april 2009. Ljósmynd Brynjúlfur Brynjólfsson.

Merki ráðstefnu

Alþjóðleg jöklaráðstefna á Hornafirði 21.-26. júní 2015

Þessa vikuna sitja tæplega 120 jöklafræðingar ráðstefnu Alþjóðlega jöklafræðifélagsins (International glaciological society) hér á Hornafirði. Áhersluefnið eru vatna- og eðlisfræði jökla í víðu samhengi. Í jöklum er bundið mikið magn vatns og er ör leysing þeirra vegna loftslagsbreytinga talsvert áhyggjuefni, m. a. vegna þeirra afleiðinga sem munu fylgja. Margar þjóðir nýta það ferskvatn sem jöklarnir geyma. Má búast við að leysing jökla hafi mikil áhrif á hagsæld fólks á þeim svæðum þegar vatnsuppspretturnar minnka eða jafnvel hverfa. Aðrar fyrirsjáanlegar breytingar er aukin flóðahætta, landris og rof. Hér á landi munu minnkandi jöklar meðal annars hafa áhrif á vatnabúskap vatnsaflsvirkjana. Breytingar á hinum stóru ísbreiðum Grænlands og Antarktíku hafa áhrif á höfin, líffræði og loftslag.
Á ráðstefnunni munu fræðimenn miðla þekkingu á helstu þáttum og eiginleikum jökla og þeirri þróun sem hefur orðið á síðustu árum.
Við setningu ráðstefnunnar á Hótel Vatnajökli sunnudaginn 21. júní hélt Björn Ingi Jónsson bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar tölu þar sem hann bauð fólk velkomið til Hornafjarðar.

 

Fláajökull vorið 2015

Á Fláajökli í mai 2015 – ljósmynd: Snævarr Guðmundsson

Merki ráðstefnu

Mynd listamanns af geimkannanum New Horizons. Mynd: NASA/Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Southwest Research Institute.

Geimkanninn „New Horizons“ nálgast Plútó

Niðurtalning hafin: fyrsta heimsókn geimkanna til hins fjarlæga dvergreikistirnis Plútó.

Mynd listamanns af geimkannanum New Horizons. Mynd: NASA/Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Southwest Research Institute.

Mynd listamanns af geimkannanum New Horizons. Mynd: NASA/Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Southwest Research Institute.

[powr-countdown-timer label=“New Horizons“]

Þann 14. júlí næstkomandi þýtur geimkanninn „New Horizons“ framhjá dvergreikistjörnunni Plútó, eftir rúmlega níu ára ferðalag frá jörðu. Honum var skotið á loft þann 19. janúar 2006, frá Canaveralhöfða á Flórida. Geimkanninn verður næst Plútó kl 11:49:57 þann dag, minna en 10 000 km ofan við yfirborðið. Markmið leiðangursins er að afla upplýsinga um Plútó og fylgitunglin Karon, Nix, Hýdra, Kerberos og Styx. Í verkefnaáætluninni er einnig að senda upplýsingar um eitt eða tvö enn fjarlægari útstirni seinna meir.

Ameríski stjörnufræðingurinn Clyde Tombaugh fann Plútó þann 18. febrúar 1930. Um langt skeið var hún flokkuð sem reikistjarna en eftir því sem fleiri útstirni (reikistirni utan við braut Neptúnusar) fóru að finnast, eftir 1990, varð ljóst að nákvæmari flokkunar á fyrirbærum sólkerfisins var þörf. Árið 2006 samþykkti alþjóðasamband stjörnufræðinga að skilgreina hana sem dvergreikistirni. Er Plútó jafnframt stærsti hnötturinn sem þekkist í hinu svonefnda Kuiper-belti, sem er svæðið í sólkerfinu utan við braut Neptúnusar.

Þó að Plútó sé ekki lengur skilgreind sem reikistjarna breytir það engu um hve áhugavert fyrirbæri er um að ræða. Plútó er 248 jarðár að fara sporbraut sína umhverfis sólu og er meðalfjarlægðin á milli þeirra tæplega 6 milljarðar km. Svo fjarri sólu er gríðarlegt frost og talið um -230 °C á yfirborðinu. Sökum fjarlægðar sést  yfirborðið afar illa, jafnvel í stærstu sjónaukum jarðar. Talið er að Plútó sé að miklu leyti íshnöttur en einnig mynduð úr bergi. Verkefni New Horizons eru m. a. að mæla hitastig og efnasamsetningu, kortleggja landform á yfirborði, kanna lofthjúp Plútós og Karons, leita fleiri fylgitungla og hringja sem gætu leynst þar.

Það styttist óðum í þennan merkilega viðburð í könnun sólkerfisins, sem er að afla góðra upplýsinga um fyrirbæri í hinum fjarlægustu svæðum þess.

Júpíter and tunglið Jó, séð frá geimkannanum New Horizons, 1. mars 2007, á leið sinni til Plútó. Mynd: NASA/Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Southwest Research Institute/Goddard Space Flight Center.

Júpíter and tunglið Jó, séð frá geimkannanum New Horizons, 1. mars 2007, á leið sinni til Plútó. Mynd: NASA/Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Southwest Research Institute/Goddard Space Flight Center.

Myndröð geimkannans af Plútó og stærsta tunglinu, Karon, var tekin á 13 augnablikum yfir sex og hálfan dag, frá 12.--18. apríl 2015. Á þeim tíma  styttist fjarlægðin úr 111 milljón km í 104 milljón km. Fleiri upplýsingar um leiðangurinn er að finna á vefsvæði NASA (http://www.nasa.gov/mission_pages/newhorizons/main/index.html). Mynd: NASA/Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Southwest Research Institute.

Myndröð geimkannans af Plútó og stærsta tunglinu, Karon, var tekin á 13 augnablikum yfir sex og hálfan dag, frá 12.–18. apríl 2015. Á þeim tíma styttist fjarlægðin úr 111 milljón km í 104 milljón km. Fleiri upplýsingar um leiðangurinn er að finna á vefsvæði NASA (http://www.nasa.gov/mission_pages/newhorizons/main/index.html). Mynd: NASA/Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Southwest Research Institute.

Hreindýrskálfur í Lóni

Þó komið sé fram á sumar eru hreindýr enn á ferli á láglendinu á Suðausturlandi. Yfirleitt fara geldar hreindýrskýr, tarfar og ung dýr í sumarhaga á hálendinu frá lokum maí, en kelfdar kýr leita yfirleitt inn til dala eða fjalla til að bera. Tarfarnir geta þó haldið sig á láglendi sumarlangt allt fram að fengitíma.

Undanfarið hafa nokkur dýr haldið sig á túninu við Þorgeirsstaði í Lóni. Bóndinn þar, Ragnar Pétursson sagði hafa séð hreindýrskýr með nýfæddan kálf, nú fyrir helgi. Sjaldgæft er að kýr beri svona nálægt mannabyggð og það hafi ekki gerst á Þorgeirsstöðum síðastliðin 45 ár.

Skarphéðinn Þórisson á Náttúrustofu Austurlands segir að flestar kelfdar kýr fari á burðarsvæði inn til dala og fjalla til að bera. Gerist það þó annað slagið að hann rekist á nýborna kýr á túnum, síðast gerðist það í Lóni við bæinn Fjörð árið 2012.

Brynjúlfur Brynjólfsson náði þessum glæsilegu myndum af kálfinum í síðustu viku, en þá var hann um 300 metra frá móður sinni. Eftir myndunum að dæma má áætla að kálfurinn sé um viku gamall og braggaralegur. Skarphéðinn furðar sig á fjarlægð hans frá móður sinni en telur að hann hafi sennilegast sofnað á túninu.

Hreindýrskálfar þroskast mjög hratt fyrstu viku lífs síns og geta leikið eftir nær öllu atferli fullorðins dýrs stuttu eftir fæðingu. Nota þeir mikinn tíma í að hvílast og fá mjólk úr spena 40 til 50 sinnum á dag fyrstu vikuna sína en sjúga skemur þegar líður á haustið.

Helsta hættan sem þessum kálfi og móður hans stafar að er umferð um þjóðveginn.

Hreindýrskálfur við Þorgeirsstaði í Lóni í lok maí 2015. Mynd; Brynjúlfur Brynólfsson

Hreindýrskálfur við Þorgeirsstaði í Lóni í lok maí 2015. Mynd: Brynjúlfur Brynjólfsson.

Hreinsýrskálfur tekur á sprett eftir að ró hans var raskað af ljósmyndara.  Mynd; Brynjúlfur Brynjólfsson

Hreindýrskálfur tekur á sprett eftir að ró hans var raskað af ljósmyndara í maílok 2015. Mynd: Brynjúlfur Brynjólfsson.

Heimild
Skarphéðinn G. Þórisson (September 2010)Hreindýr. Útgefandi: Náttúrustofa Austurlands í samstarfi við Þekkingarnet Austurlands og NEED. Sótt 01.06.15 af: http://www.austurbru.is/static/files/PDF/eldra_efni/100901_hreindyr.pdf

Ársskýrsla Náttúrustofu Suðausturlands 2014

Ársskýrsla Náttúrustofu Suðausturlands fyrir árið 2014 er komin á netið.  Hægt er að nálgast skýrsluna hér.

Við Lakagíga

Ársfundur Náttúrustofu Suðausturlands 2015

Ársfundur Náttúrustofu Suðausturlands ses. verður haldinn miðvikudaginn 29. apríl n.k. kl. 20:00.
Fundurinn er í haldinn í Skaftárstofu á Kirkjubæjarklaustri og er öllum opinn.

Á undan venjulegum fundarstörfum verða haldin þrjú erindi á vegum náttúrustofu, um jökla, náttúrustíg og stjörnur.

Ársfundardagskrá:
1. Formaður setur fundinn
2. Kosning fundarstjóra og fundarritara
3. Skýrsla stjórnar
4. Afgreiðsla reikninga
5. Rekstrar- og starfsáætlun / skýrsla forstöðumanns
6. Önnur mál

Stjórnin

Landbreytingar á Breiðamerkursandi

Þann 3. júlí 1935 tók Helgi Arason (frá Fagurhólsmýri)  mynd framan við Breiðamerkurjökul, með sjónarhorn á Breiðamerkurfjall. Á þeim tíma var fjallið enn umlukið  af Breiðamerkurjökli og Fjallsjökli.  Nýverið leitaði Snævarr Guðmundsson hjá Náttúrustofu Suðausturlands uppi hvar myndin var tekin og tók aðra frá sama stað. Þá voru næstum full 80 ár liðin frá því að Helgi tók myndina. Ótrúlegar landbreytingar endurspeglast í þeim. Árið 1935 hafði jökullinn hörfað 680 m á þennan stað frá því að hann var í hámarkstærð ~1880-1890. Frá 1935 hefur jökullinn hopað 3400 m og því samtals rúma 4 km þarna. Myndirnar sýna ekki aðeins jökulrýrnunina, landið framan við hefur líka breyst. Frostupplyfting hefur lyft grettistökum svo sum eru meira áberandi og ís þiðnað úr aurnum.

Sigurður og Ari Björnssynir frá Kvískerjum nærri jaðri Breiðamerkurjökuls með Breiðamerkurfjall að baki, 3. júlí 1935.  Ljósmynd Helgi Arason.

Sigurður og Ari Björnssynir frá Kvískerjum nærri jaðri Breiðamerkurjökuls með Breiðamerkurfjall að baki, 3. júlí 1935. Ljósmynd Helgi Arason.

Sigríður Björgvinsdóttir stendur á sama stað 18. apríl 2015. Ljósmynd Snævarr Guðmundsson.

Sigríður Björgvinsdóttir stendur á sama stað 18. apríl 2015. Ljósmynd Snævarr Guðmundsson.

Náttúrustofuþing á Höfn – 8. april 2015 kl. 10:00 – 16:30

Náttúrustofuþing Samtaka Náttúrustofa (SNS) verður haldið á Höfn í Hornafirði miðvikudaginn 8. apríl 2015.  Gestgjafar þingsins að þessu sinni eru Náttúrustofa Suðausturlands í samvinnu við Samtök Náttúrustofa, Rannsóknasetur H.Í. á Hornafirði og Nýheima Þekkingarsetur.

Þema þingsins er fuglar, með sérstaka áherslu á samstarf áhuga- og fræðimanna sem sinna athugunum og rannsóknum á fuglum á Íslandi.

Þingið verður opið almenningi og gefst gestum tækifæri á að hlýða á fjölbreytt erindi starfsmanna náttúrustofa landsins og auk gestafyrirlesara.
Gert er ráð fyrir að þingið hefist kl.10 og að því ljúki kl. 16:30.

Eftir þinglok er gert ráð fyrir stuttri ferð að Hoffellsjökli og sameiginlegum kvöldverði á Hótel Höfn.

Ókeypis er inn á þingið en æskilegt er að þátttaka tilkynnist í netfangið kristin@nattsa.is fyrir 2. april svo gera megi ráðstafanir með hádegismat, kaffi og rútuferð.

Aðstandendur þingsins vonast til að sjá sem flesta á Höfn.

Hér fyrir neðan má sjá dagskrá þingsins.

Dagskrá náttúrustofuþings 2015

Dagskrá náttúrustofuþings 2015

 

Almyrkvi 29. mars 2006

Sólmyrkvinn 20. mars 2015

Deildarmyrkvi

Deildarmyrkvi. Ljósmynd Snævarr Guðmundsson

Sólmyrkvi verður sjáanlegur frá Íslandi, að morgni þann 20. mars 2015. Á þeim tíma á sér stað almyrkvi í hafinu austan Íslands, og sem verður sjáanlegur m.a. frá Færeyjum og Svalbarða. Eins og heitið gefur til kynna hylur tunglið sólina alla í almyrkva. Skugginn er hins vegar afmarkaður og utan hans sjá athugendur svonefndan deildarmyrkva. Þá hylst sólin ekki öll að baki tunglinu. Litlu munar þó og frá Hornafirði séð mun 99,4% sólar verða hulinn þegar myrkvinn nær hámarki. Greinargóðar skýringar á þessum atburði og sólmyrkvum almennt finnast í Almanaki Háskóla Íslands og vefsíðu þess, http://almanak.hi.is/myrk2015.html, og Stjörnufræðivefnum, http://www.stjornufraedi.is. Atburðarásin er sú, séð frá Höfn í Hornafirði, að kl. 8:39 fer tunglið að ganga inn á skífu sólar hægra megin. Myrkvinn er mestur um klukkustund síðar, kl. 09:40 og síðan lýkur myrkvanum um kl. 10:43.

Við hvetjum fólk til að fylgjast með. Búast má við nokkru rökkri um tíma, jafnvel þó myrkvinn sjáist ekki vegna skýja. Fólk er þó varað við að horfa beint á sólina án sérstakra gleraugna, vegna mikillar hættu á alvarlegum augnskaða. Í tilefni þessa atburðar ákvað Náttúrustofa Suðausturlands í samstarfi við Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnaness að gefa nemendum og öllu starfsfólki í Grunnskóla Hornafjarðar og Kirkjubæjarskóla svokölluð sólmyrkvagleraugu. Rafsuðugler er einnig nýtilegt eða filma en vissa þarf að vera fyrir að það hleypi ekki hættulegum geislum í gegn. Fyrir utan gleraugun sem allir í grunnskólunum fá er Náttúrustofa Suðausturlands með 50 gleraugu til sölu á 500 kr. stykkið. Áhugasamir geta komið og keypt gleraugu á Náttúrustofu Suðausturlands í Nýheimum 18. og 19. mars. Fyrstur kemur fyrstu fær. Svo vonum við öll að það verði léttskýjað þegar sólmyrkvinn á sér stað.

Sólmyrkvi. Ljósmynd Snævarr Guðmundsson

Almyrkvi 29. mars 2006. Sólkórónan og sólstrókar frá yfirborði sólar sjáanlegir. Ljósmynd Snævarr Guðmundsson.

Atburðarrás sólmyrkva 2006. Myndin er samsett til að sýna atburðarás sólmyrkva sem sást m.a. frá Tyrklandi 29. mars 2006. Tunglið fór að hylja sólina hægra megin frá svo horfa ætti á myndina frá frá hægri til vinstri. Meðan tunglið hylur einungis hluta af sólinni er myrkvinn svonefndur deildarmyrkvi. Í almyrkvanum sjálfum birtist sólkórónan og ýmis önnur fyrirbrigði. Í sólmyrkvanum 20. mars 2015, séð frá Höfn í Hornafirði hylst 99,4% sólar svo það munar einungis hársbreidd að um almyrkva sé að ræða. Ljósmyndir Snævarr Guðmundsson.