Kóngasvarmi í Skaftafelli

Sunnudaginn 30. ágúst 2015 sást og náðist fiðrildi af tegundinni kóngasvarmi í Skaftafelli. Finnandi var Valdís Kjartansdóttir og kom hún með hann til Náttúrustofu Suðausturlands á Höfn. Samkvæmt upplýsingum frá Erling Ólafssyni á Náttúrufræðistofnun Íslands var þetta sjöundi kóngasvarminn sem finnst hér á landi í sumar, en sá fyrsti fannst vestur í Dölum 25. ágúst. Einnig náðu skipverjar á Sigurði VE einum fyrir austan land. Sjá hér.

Kóngasvarminn sem fannst í Skaftafelli um helgina.  Bolurinn er um 50 mm að lengd, en vænghafið mun meira. Ljósmynd Kristín Hermannsdóttir

Kóngasvarminn sem fannst í Skaftafelli um helgina. Bolurinn er um 50 mm að lengd, en vænghafið mun meira. Ljósmynd Kristín Hermannsdóttir

Kóngasvarmi er nánast árlegur flækingur til Íslands og stundum berst hingað nokkur fjöldi samtímis. Hann er eitt stærsta skordýr sem hingað berst, með vænghaf allt að 12 cm. Hann er þó fyrst og fremst á ferli í myrkri og getur þá farið huldu höfði. Kóngasvarmi hefur fundist hérlendis frá lokum júlí og nokkuð fram í október. Hann er auðþekktur á stærðinni og hefur stundum verið mistekinn fyrir fugl. Vængirnir eru gráir með flekkjum og beltum í mismunandi tónum og á afturbol erum hliðstæðir bleikir blettir á hverjum lið.
Nánar má lesa um kóngasvarma á vef Náttúrufæðistofnunar Íslands.