Hreindýrskálfur í Lóni

Þó komið sé fram á sumar eru hreindýr enn á ferli á láglendinu á Suðausturlandi. Yfirleitt fara geldar hreindýrskýr, tarfar og ung dýr í sumarhaga á hálendinu frá lokum maí, en kelfdar kýr leita yfirleitt inn til dala eða fjalla til að bera. Tarfarnir geta þó haldið sig á láglendi sumarlangt allt fram að fengitíma.

Undanfarið hafa nokkur dýr haldið sig á túninu við Þorgeirsstaði í Lóni. Bóndinn þar, Ragnar Pétursson sagði hafa séð hreindýrskýr með nýfæddan kálf, nú fyrir helgi. Sjaldgæft er að kýr beri svona nálægt mannabyggð og það hafi ekki gerst á Þorgeirsstöðum síðastliðin 45 ár.

Skarphéðinn Þórisson á Náttúrustofu Austurlands segir að flestar kelfdar kýr fari á burðarsvæði inn til dala og fjalla til að bera. Gerist það þó annað slagið að hann rekist á nýborna kýr á túnum, síðast gerðist það í Lóni við bæinn Fjörð árið 2012.

Brynjúlfur Brynjólfsson náði þessum glæsilegu myndum af kálfinum í síðustu viku, en þá var hann um 300 metra frá móður sinni. Eftir myndunum að dæma má áætla að kálfurinn sé um viku gamall og braggaralegur. Skarphéðinn furðar sig á fjarlægð hans frá móður sinni en telur að hann hafi sennilegast sofnað á túninu.

Hreindýrskálfar þroskast mjög hratt fyrstu viku lífs síns og geta leikið eftir nær öllu atferli fullorðins dýrs stuttu eftir fæðingu. Nota þeir mikinn tíma í að hvílast og fá mjólk úr spena 40 til 50 sinnum á dag fyrstu vikuna sína en sjúga skemur þegar líður á haustið.

Helsta hættan sem þessum kálfi og móður hans stafar að er umferð um þjóðveginn.

Hreindýrskálfur við Þorgeirsstaði í Lóni í lok maí 2015. Mynd; Brynjúlfur Brynólfsson

Hreindýrskálfur við Þorgeirsstaði í Lóni í lok maí 2015. Mynd: Brynjúlfur Brynjólfsson.

Hreinsýrskálfur tekur á sprett eftir að ró hans var raskað af ljósmyndara.  Mynd; Brynjúlfur Brynjólfsson

Hreindýrskálfur tekur á sprett eftir að ró hans var raskað af ljósmyndara í maílok 2015. Mynd: Brynjúlfur Brynjólfsson.

Heimild
Skarphéðinn G. Þórisson (September 2010)Hreindýr. Útgefandi: Náttúrustofa Austurlands í samstarfi við Þekkingarnet Austurlands og NEED. Sótt 01.06.15 af: http://www.austurbru.is/static/files/PDF/eldra_efni/100901_hreindyr.pdf

Ársskýrsla Náttúrustofu Suðausturlands 2014

Ársskýrsla Náttúrustofu Suðausturlands fyrir árið 2014 er komin á netið.  Hægt er að nálgast skýrsluna hér.

Við Lakagíga

Ársfundur Náttúrustofu Suðausturlands 2015

Ársfundur Náttúrustofu Suðausturlands ses. verður haldinn miðvikudaginn 29. apríl n.k. kl. 20:00.
Fundurinn er í haldinn í Skaftárstofu á Kirkjubæjarklaustri og er öllum opinn.

Á undan venjulegum fundarstörfum verða haldin þrjú erindi á vegum náttúrustofu, um jökla, náttúrustíg og stjörnur.

Ársfundardagskrá:
1. Formaður setur fundinn
2. Kosning fundarstjóra og fundarritara
3. Skýrsla stjórnar
4. Afgreiðsla reikninga
5. Rekstrar- og starfsáætlun / skýrsla forstöðumanns
6. Önnur mál

Stjórnin

Landbreytingar á Breiðamerkursandi

Þann 3. júlí 1935 tók Helgi Arason (frá Fagurhólsmýri)  mynd framan við Breiðamerkurjökul, með sjónarhorn á Breiðamerkurfjall. Á þeim tíma var fjallið enn umlukið  af Breiðamerkurjökli og Fjallsjökli.  Nýverið leitaði Snævarr Guðmundsson hjá Náttúrustofu Suðausturlands uppi hvar myndin var tekin og tók aðra frá sama stað. Þá voru næstum full 80 ár liðin frá því að Helgi tók myndina. Ótrúlegar landbreytingar endurspeglast í þeim. Árið 1935 hafði jökullinn hörfað 680 m á þennan stað frá því að hann var í hámarkstærð ~1880-1890. Frá 1935 hefur jökullinn hopað 3400 m og því samtals rúma 4 km þarna. Myndirnar sýna ekki aðeins jökulrýrnunina, landið framan við hefur líka breyst. Frostupplyfting hefur lyft grettistökum svo sum eru meira áberandi og ís þiðnað úr aurnum.

Sigurður og Ari Björnssynir frá Kvískerjum nærri jaðri Breiðamerkurjökuls með Breiðamerkurfjall að baki, 3. júlí 1935.  Ljósmynd Helgi Arason.

Sigurður og Ari Björnssynir frá Kvískerjum nærri jaðri Breiðamerkurjökuls með Breiðamerkurfjall að baki, 3. júlí 1935. Ljósmynd Helgi Arason.

Sigríður Björgvinsdóttir stendur á sama stað 18. apríl 2015. Ljósmynd Snævarr Guðmundsson.

Sigríður Björgvinsdóttir stendur á sama stað 18. apríl 2015. Ljósmynd Snævarr Guðmundsson.

Náttúrustofuþing á Höfn – 8. april 2015 kl. 10:00 – 16:30

Náttúrustofuþing Samtaka Náttúrustofa (SNS) verður haldið á Höfn í Hornafirði miðvikudaginn 8. apríl 2015.  Gestgjafar þingsins að þessu sinni eru Náttúrustofa Suðausturlands í samvinnu við Samtök Náttúrustofa, Rannsóknasetur H.Í. á Hornafirði og Nýheima Þekkingarsetur.

Þema þingsins er fuglar, með sérstaka áherslu á samstarf áhuga- og fræðimanna sem sinna athugunum og rannsóknum á fuglum á Íslandi.

Þingið verður opið almenningi og gefst gestum tækifæri á að hlýða á fjölbreytt erindi starfsmanna náttúrustofa landsins og auk gestafyrirlesara.
Gert er ráð fyrir að þingið hefist kl.10 og að því ljúki kl. 16:30.

Eftir þinglok er gert ráð fyrir stuttri ferð að Hoffellsjökli og sameiginlegum kvöldverði á Hótel Höfn.

Ókeypis er inn á þingið en æskilegt er að þátttaka tilkynnist í netfangið kristin@nattsa.is fyrir 2. april svo gera megi ráðstafanir með hádegismat, kaffi og rútuferð.

Aðstandendur þingsins vonast til að sjá sem flesta á Höfn.

Hér fyrir neðan má sjá dagskrá þingsins.

Dagskrá náttúrustofuþings 2015

Dagskrá náttúrustofuþings 2015

 

Almyrkvi 29. mars 2006

Sólmyrkvinn 20. mars 2015

Deildarmyrkvi

Deildarmyrkvi. Ljósmynd Snævarr Guðmundsson

Sólmyrkvi verður sjáanlegur frá Íslandi, að morgni þann 20. mars 2015. Á þeim tíma á sér stað almyrkvi í hafinu austan Íslands, og sem verður sjáanlegur m.a. frá Færeyjum og Svalbarða. Eins og heitið gefur til kynna hylur tunglið sólina alla í almyrkva. Skugginn er hins vegar afmarkaður og utan hans sjá athugendur svonefndan deildarmyrkva. Þá hylst sólin ekki öll að baki tunglinu. Litlu munar þó og frá Hornafirði séð mun 99,4% sólar verða hulinn þegar myrkvinn nær hámarki. Greinargóðar skýringar á þessum atburði og sólmyrkvum almennt finnast í Almanaki Háskóla Íslands og vefsíðu þess, http://almanak.hi.is/myrk2015.html, og Stjörnufræðivefnum, http://www.stjornufraedi.is. Atburðarásin er sú, séð frá Höfn í Hornafirði, að kl. 8:39 fer tunglið að ganga inn á skífu sólar hægra megin. Myrkvinn er mestur um klukkustund síðar, kl. 09:40 og síðan lýkur myrkvanum um kl. 10:43.

Við hvetjum fólk til að fylgjast með. Búast má við nokkru rökkri um tíma, jafnvel þó myrkvinn sjáist ekki vegna skýja. Fólk er þó varað við að horfa beint á sólina án sérstakra gleraugna, vegna mikillar hættu á alvarlegum augnskaða. Í tilefni þessa atburðar ákvað Náttúrustofa Suðausturlands í samstarfi við Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnaness að gefa nemendum og öllu starfsfólki í Grunnskóla Hornafjarðar og Kirkjubæjarskóla svokölluð sólmyrkvagleraugu. Rafsuðugler er einnig nýtilegt eða filma en vissa þarf að vera fyrir að það hleypi ekki hættulegum geislum í gegn. Fyrir utan gleraugun sem allir í grunnskólunum fá er Náttúrustofa Suðausturlands með 50 gleraugu til sölu á 500 kr. stykkið. Áhugasamir geta komið og keypt gleraugu á Náttúrustofu Suðausturlands í Nýheimum 18. og 19. mars. Fyrstur kemur fyrstu fær. Svo vonum við öll að það verði léttskýjað þegar sólmyrkvinn á sér stað.

Sólmyrkvi. Ljósmynd Snævarr Guðmundsson

Almyrkvi 29. mars 2006. Sólkórónan og sólstrókar frá yfirborði sólar sjáanlegir. Ljósmynd Snævarr Guðmundsson.

Atburðarrás sólmyrkva 2006. Myndin er samsett til að sýna atburðarás sólmyrkva sem sást m.a. frá Tyrklandi 29. mars 2006. Tunglið fór að hylja sólina hægra megin frá svo horfa ætti á myndina frá frá hægri til vinstri. Meðan tunglið hylur einungis hluta af sólinni er myrkvinn svonefndur deildarmyrkvi. Í almyrkvanum sjálfum birtist sólkórónan og ýmis önnur fyrirbrigði. Í sólmyrkvanum 20. mars 2015, séð frá Höfn í Hornafirði hylst 99,4% sólar svo það munar einungis hársbreidd að um almyrkva sé að ræða. Ljósmyndir Snævarr Guðmundsson.

Líffræðingur – sumarstarf

Náttúrustofa Suðausturlands auglýsir sumarstarf á komandi sumri fyrir líffræðing, í M.Sc námi eða þriðja árs nema. Starfið felst í rannsóknum og úttekt á lífríki Skarðsfjarðar, sem er austan við Höfn í Hornafirði. Gagnasöfnun, úrvinnsla gagna og skýrslugerð, auk þátttöku í öðrum verkefnum Náttúrustofunnar. Starfshlutfallið er 100%, eða eftir samkomulagi. Starfsaðstaða er á Höfn í Hornafirði.

Starfsmaðurinn þarf að hafa góða íslensku- og tölvukunnáttu, vera skipulagður, sjálfstæður í vinnubrögðum og eiga gott með samstarf. Reynsla af rannsóknarstörfum er æskileg.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og hlutaðeigandi stéttarfélags.

Umsóknir með upplýsingum um starfsferil og menntun skulu berast Náttúrustofu Suðausturlands, Litlubrú 2, 780 Höfn eða á netfangið kristin@nattsa.is fyrir 25. mars.

Nánari upplýsingar veitir Kristín Hermannsdóttir forstöðumaður í síma 4708060

Líkan af jörðinni

„Sólin sprungin og jörðin horfin!“

Síðastliðið sumar var sett upp líkan af sólkerfinu á Höfn á vegum Náttúrustofu Suðausturlands. Það er við göngustíg sem liggur frá Óslandshæð að golfvelli. Sólin er staðsett í Óslandinu, en reikistjörnurnar raða sér svo í réttum hlutföllum hvað varðar stærð og fjarlægð, hér og þar við göngustíginn.

„Sólin“ sem sett var upp síðasta sumar var úr þunnu stáli og var kúlan fyllt með steypu, bæði til að halda henni á sínum stað og einnig til að stálið héldi lögun sinni.

Nú hefur það hins vegar komið í ljós að „sólin“ hefur ekki þolað veðrið og kuldann í vetur. Líklega hafa tveir samverkandi þættir átt hlut að máli. Steypan þanist lítið eitt út í frosti en stálið dregist einnig talsvert saman í frosti. Svo það kom sprunga á miðja kúluna og hún rifnaði í sundur.

Nú er búið að panta nýja og endurbætta kúlu sem verður sett upp í stað núverandi sólar á sama stað. Svo „sólin“ okkar verður betri en ný áður en langt um líður.

Um nýliðna helgi kom svo í ljós að einhver hefur tekið líkanið af jörðinni, annað hvort að gammni sínu eða til láns. Þetta líkan er rennd kúla á enda málmstangar og er kúlan álíka stór og baun en stöngin um 20 cm á lengd. Við skorum eindregið á þann sem tók jörðina að skila henni aftur, annað hvort í pósthólf Náttúrustofu Suðausturlands í Nýheimum eða á sinn stað.

 

Jörðin á sínum stað við Óslandshæð sumarið 2014

Jörðin á sínum stað við Óslandshæð sumarið 2014

Sólin sprungin um miðbaug í janúar 2015

Sólin sprungin um miðbaug í janúar 2015

 

 

Grasvefari

Fiðrildavöktun 2014 í Einarslundi

Sumarið 2014 var sett upp fiðrildagildra í Einarslundi við Hornafjörð. Þessi gildra var áður á Kvískerjum og fangaði fiðrildi þar undanfarna áratugi. Þann 16. april var kveikt á gildrunni og var það Hálfdán Björnsson frá Kvískerjum sem gerði það. Fyrstu fiðrildin komu í gildruna um miðjan mai en flest fiðrildi voru í henni við vitjun í lok ágúst, 117 stykki. Þann 12. nóvember var gildran tekin niður og verður sett upp að nýju í april á þessu ári. Umsjón með gildrunni er í höndum starfsmanna Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands og Náttúrustofu Suðausturlands.

Á meðfylgjandi mynd má sjá fjölda fiðrilda af sjö algengustu tegundunum sem komu í gildruna í sumar. Tegundargreindar hafa verið 17 tegundir sem komu í gildruna, en eftir er að tegundargreina 16 fiðrildi og gæti því fjöldi tegunda breyst frá því sem hér er sagt.  Heildarfjöldinn sem gildran fangaði yfir sumarið 541 fiðrildi.

Skoða má meiri upplýsingar um fiðrildi á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands.

fjoldi-i-viku-2014

Súlurit sem sýnir fjölda af algengustu tegundnum 2014

Súlurit sem sýnir fjölda af algengustu tegundnum 2014

Hálfdán Björnsson

Hálfdán Björnsson kveikir á ljósi fiðrildagildrunnar í apríl 2014.

Hálfdán, Björn og Helgi

Hálfdán Björnsson, Björn Gísli Arnarson og Helgi Björnsson við fiðrildagildruna í Einarslundi.

 

 

Sólarupprás í Óslandi 19. desember 2014

Jólakveðja frá Náttúrustofu Suðausturlands jólin 2014

Náttúrustofa Suðausturlands sendir öllum vinum og velunnurum bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár

Kristín Hermannsdóttir tók myndina