Í Endalausadal í Lóni

Ástandsmat á gróðurlendi í Endalausadal í Lóni

Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands um ástandsmat á gróðurlendi í Endalausadal í Lóni í Austur-Skaftafellssýslu árið 2015. Samstarfsaðilar voru Landgræðsla Ríkisins, landeigendur í Endalausadal og Herdís Ólína Hjörvarsdóttir líffræðingur.

Íslenskur sauðfjárbúskapur byggist fyrst og fremst á frjálsri úthagabeit sauðfjár yfir sumarmánuðina. Gott ástand úthaga skiptir því miklu máli ef sauðfjárrækt á að vera hagkvæm og umhverfisvæn. Vöxt og viðhald búfjárs í úthaga má rekja til þess í hvernig ástandi beitarlandið er. Sömuleiðis er verndun landsvæða gegn ofnýtingu og landgræðsla mikilvægur þáttur í því að vinna gegn hnattrænni hlýnun. Til að geta fylgst með breytingum á ástandi gróðurlands þarf að fara fram mat á því með reglulegu millibili. Út frá reglubundnu mati má sjá þróun svæðis og gögn sem verða til við matið nýtast meðal annars við ákvarðanatöku vegna beitarstýringar og landgræðslu.

Helstu niðurstöður ástandsmatsins í Endalausadal árið 2015 sýna að ástand dalsins er fremur slæmt. Gróðurþekja er oftar en ekki mjög takmörkuð vegna grjóts og rofs, en sérstaklega var algengt að sjá rofdíla í sverði. Þessir rofdílar og rofabörð bera þess merki að dalurinn sé, eða a.m.k. hafi verið í gegnum tíðina, ofbeittur. Ekki má því mikið út af bregða svo að dalurinn fari þjást alvarlega af jarðvegsrofi. Tækifæri til bóta er að takmarka beit í dalnum, en einnig mætti skoða uppgræðslu með Landgræðslunni.

Skýrsluna í heild sinni má sjá á vef Náttúrustofu Suðausturlands nattsa.is undir útgefið efni eða hér.

Merkur fundur í vettvangsferð á Breiðamerkursandi. Mikilvægt innlegg í skráningu jöklabreytinga.

Í vettvangsferð um Breiðamerkursand, fimmtudaginn 3. ágúst 2017,  vísaði Fjölnir Torfason, Þórbergssetri, samferðafólki á athyglisvert grettistak. Aðrir í ferðinni voru Helga Árnadóttir, aðstoðarþjóðgarðsvörður á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs, Rósa Björk Halldórsdóttir, yfirlandvörður við Jökulsárlón og Snævarr Guðmundsson, jöklafræðingur hjá Náttúrustofu Suðausturlands. Steininn hafði Þorsteinn Guðmundsson frá Reynivöllum, notað sem viðmið í jöklamælingum fyrir miðja síðustu öld. Á hann er fest koparplata, sem hann greypti í fjarlægðir að jökulsporði Breiðamerkurjökuls, á árunum 1945 til 1951.

Fjölnir fann steininn fyrir tilviljun við smalamennsku haustið 2005. Hann segir svo frá að „sól hafi  verið lágt á lofti og hann tekið eftir að það glampaði á eitthvað við steininn.“ Fjölnir vissi strax hvað um var að ræða, enda skráði hann sjálfur á þessum tíma sporðastöðu Breiðamerkurjökuls. Saga reglubundinna jöklamælinga í Austur-Skaftafellssýslu nær aftur til 1930. Helgi H. Eiríksson hófst fyrstur handa við það en síðan tók Jón Eyþórsson, veðurfræðingur við og kom á fót skráningu jökulsporða víða. Það voru heimamenn sem sinntu mælingunum lengst af á Breiðamerkurjökli. Fjölnir hafði skráningarbækur forvera sinna undir höndum og vitnesku um að einhvers staðar á þessum slóðum hefði verið steinn með áfastri plötu.

Snævarr Guðmundsson, jöklafræðingur hjá Náttúrustofu Suðausturlands vinnur markvisst að skráningu jöklabreytinga í skriðjöklum Vatnajökuls. Snævarr og Fjölnir höfðu lengi ætlað sér að fara að steininum og náðu loks ferð saman á þessum bjarta fimmtudegi í byrjun ágústmánaðar. Platan er enn áföst steininum og vel má lesa hvað Þorsteinn á Reynivöllum skráði. Þorsteinn notaði lambastimpla, til að hnoða ártal og vegalengd (í metrum) frá steininum að jökulsporði á plötuna. Þessar aðferðir eru ólíkar þeim sem nú tíðkast meðal vísindamanna, sem nota GPS tæki, loftmyndir í  miklum gæðum eða gervihnattamyndir, til að skrá stöðu jökuls hverju sinni. Stimplarnir eru enn vel lesanlegar í dag. Tölurnar veita jöklafræðingum mikilvægar upplýsingar um stöðu jökulsins á þessum tíma, sem er síðan mikilvægt púsl í hopunarsögu Breiðamerkurjökuls.

Þó svo að endurfundur skráningarsteinsins hafi verið skemmtilegt innlegg í þessa vettvangsferð, var þó megin tilgangurinn að fara fyrstu yfirferð yfir þá vegslóða sem myndast hafa á sandinum undanfarin ár. Margir þeirra hafa tilgang en aðrir slóðar enda í vegleysum eða jafnvel hefur akstur valdið gróðurskemmdum og jarðraski. Breiðamerkursandur er nú orðinn friðlýstur innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Svæðið á sér merka sögu jökla- og náttúrufarsbreytinga. Brýnt er að hraða gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Sandinn, þar sem m.a. þarf að taka fyrir landnýtingu. Í ferðinni var nokkrum slóðum lokað, þar sem einsýnt þótti, að þeir voru ekki í gagnagrunnum og höfðu valdið spjöllum.  Á mörgum stöðum voru afar ljót för í landið og bersýnileg merki um utanvegaakstur. Vonir eru bundar við að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið veiti gott utanumhald og fræðslu, þannig að ferðir ökutækja um sandinn verði skipulagðar þannig að náttúra og nýting fari vel saman.

Þessi frétt birtist einnig á heimasíðu Vatnajökulsþjóðgarðs.

Platan sem Þorsteinn Guðmundsson frá Reynivöllum skráði vegalengd að jökulsporði, á árunum 1945-1951. Ljósm. Snævarr Guðmundsson.

Breiðamerkursandur. Ljósm. Náttúrustofa Suðausturlands , 3. mars 2017.

 

Jörðin Fell orðinn hluti Vatnajökulsþjóðgarðs.

Þann 25. júlí síðastliðinn ritaði Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindamálaráðherra, undir friðlýsingu jarðarinnar Fells og nærliggjandi þjóðlenda á Breiðamerkursandi, þ. á m. Jökulsárlóns. Í friðlýsingunni felst að þetta land (alls 189 ferkm) verður hluti Vatnajökulsþjóðgarðs. Ríkið keypti jörðina í byrjun janúar 2017 og við þessa viðbót er þjóðgarðurinn orðinn 14.141 ferkm.

Þessi stækkun bætir í fjölbreytileika Vatnajökulsþjóðgarðs, en þetta er eina svæðið þar sem hann nær að sjó. Enginn vafi leikur á að þetta styrkir ennfrekar við tilnefningu þjóðgarðsins, það er að koma honum á heimsminjaskrá UNESCO.

Á Breiðamerkursandi er vitnisburður um landmótun jökla hvað aðgengilegastur hér á landi. Svo orkuríkt er landið að á fremur stuttum tíma er hægt að nema atburðarás landbreytinga. Hraðastar eru breytingarnar á Breiðamerkurjökli, sérstaklega þar sem jökullinn kelfir í Jökulsárlón. Ísjakarnir eru eitt megin aðdráttarafl lónsins, sem ferðamenn sækjast eftir. Hitt er þó ekki síður mikilvægara að á Breiðamerkursandi eru varplönd ýmissa fuglategunda. Í svo svipmiklu og síbreytilegu landi eru stundaðar vísindarannsóknir, bæði á landmótun og þróun auk landnáms lífríkisins.

Þar sem aðgengi um sandinn er fremur gott er svæðið afar heppilegt til fræðslu um landmótun. Á sama tíma er það jafnframt viðkvæmt og berskjaldað gagnvart ágangi manna. Þess vegna er gott að fá Breiðamerkursand inn í þjóðgarðinn, því það er þá helst þar að tryggð verði verndun hans.

Undirritun friðlýsingar 25. júlí 2017, við Jökulsárlón. Frá vinstri: Regína Hreinsdóttir þjóðgarðsvörður, Björn Ingi Jónsson, bæjarstjóri Sveitarféalgsins Hornafjarðar, ónafngreindur sonur Bjartar, Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra og Þórður H. Ólafsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs. Mynd: Snævarr Guðmundson.

Undirritun friðlýsingar 25. júlí 2017, við Jökulsárlón. Frá vinstri: Regína Hreinsdóttir þjóðgarðsvörður, Björn Ingi Jónsson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar, ónafngreindur sonur Bjartar, Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra og Þórður H. Ólafsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs. Mynd: Snævarr Guðmundson.

 

Breiðamerkursandur og Jökulsárlón. Myndin er tekin 9. mars 2017. Samsett mynd: Náttúrustofa Suðausturlands/Snævarr Guðmundsson.

Helsingjar merktir á Breiðamerkursandi sumarið 2017

Starfsmenn Náttúrustofu Suðausturlands, Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands, Vatnajökulsþjóðgarðs ásamt fleirum tóku þátt í að merkja helsingja á Breiðamerkursandi í lok júlí. Verkefnið er hluti af stærra fuglamerkingaverkefni á vegum Arnórs Sigfússonar, dýravistfræðings hjá Verkís, fuglafræðinga hjá Wildfowl & Wetlands í Bretlandi (http://www.wwt.org.uk/) og Halldórs Walters Stefánssonar á Náttúrustofu Austurlands. Eru þessar merkingar m. a. liður í því að fylgjast með hátterni fuglanna og ferðum þeirra. Þeir fóru víða um öræfi á Norður- og Austurlandi, merktu nokkur hundruð gæsir og settu GPS senda á fjölmargar þeirra. Sagt var frá þessum merkingum í sjónvarpsfréttum RÚV, sunnudaginn 30. júlí http://ruv.is/sarpurinn/klippa/smala-gaesum-og-merkja-med-gps-sendum.  Í lokin á sömu ferð komu þeir við á Breiðamerkursandi. Þar var 41 helsingi merktur með númeruðu álmerki á öðrum fæti og lituðu bókstafsmerki á hinum.

Fuglunum var smalað saman og settir í net og háfa. Því næst voru þeir kyngreindir og merktir. Þegar allir fuglarnir höfðu fengið merki var þeim sleppt á ný. Nú verður að bíða og sjá hvar og hvenær þessir fuglar sjást eða nást næst.

 

Helsingjunum smalað saman. Mynd: Halldór Walter Stefánsson, 28. júlí 2017.

Helsingjarnir komnir í net og bíða merkinga. Mynd: Halldór Walter Stefánsson, 28. júlí 2017.

Carl Mitchell kyngreinir einn helsingjann og Rósa Björk Halldórsdóttir (t. h.) og Kristín Hermannsdóttir bíða átekta. Mynd: Halldór Walter Stefánsson, 28.júlí 2017.

Björn Gísli Arnarson og Hrafnhildur Ævarsdóttir með sinn hvorn helsingjann. Mynd: Kristín Hermannsdóttir, 28. júlí 2017.

Kristín Vala Þrastardóttir og Halldór Walter Stefánsson með nýmerktan helsingja. Mynd: Kristín Hermannsdóttir, 28. júlí 2017.

Helsingjar á Beriðamerkursandi. Mynd: Þorvarður Árnason, 28. júlí 2017.

Hópurinn sem tók þátt í merkingum á Breiðamerkursandi (vantar Kristínu Völu). Mynd: Þorvarður Árnason, 28. júlí 2017.

Búið að opna netið og merktir helsingjarnir hlaupa í burtu frá merkingarfólkinu. Mynd: Kristín Hermannsdóttir, 28. júlí 2017.

Sumarstarfsmenn

Í sumar munu tveir sumarstarfsmenn starfa hjá Náttúrustofu Suðausturlands.

Pálína Pálsdóttir hóf störf 1. júní og mun hafa aðsetur í Skaftárhreppi. Hún mun vinna í samstarfsverkefni með Landgræðslunni – „Bændur græða landið“ og einnig í verkefni um ágang gæsa í ræktarlönd.

Eiríka Ösp Arnardóttir hóf störf 7. júní og mun vinna við set- og kornastærðargreiningu jökulsets á Breiðamerkursandi. Hún mun að mestu hafa aðstöðu í rannsóknarstofu í Öskju í Háskóla Íslands.

Náttúrustofan býður þær velkomnar til starfa.

 

Hoffellsjöklull 28. október 2016

Ársskýrsla Náttúrustofu Suðausturlands 2016

Ársskýrsla Náttúrustofu Suðausturlands fyrir árið 2016 er komin á netið.  Hægt er að nálgast skýrsluna hér.

Skógarmítlar á Höfn vorið 2017

Þetta vorið hafa fundist nokkrir skógarmítlar á Höfn í Hornafirði. Skógarmítill er blóðsuga sem sest á fugla, ketti, hunda og menn, en talið er að þeir berist til landsins með fuglum.

Þetta er ekki fyrsta skipti sem skógarmítill finnst á Íslandi en hann er þó fágætur ennþá. Mynd 1 sýnir skógarmítil sem fannst á Ísafirði haustið 2015 og mynd 2 sýnir mítil sem fannst á ketti á Höfn í síðustu viku. Mælt er með því að eigendur katta og hunda leiti á dýrum sínum eftir mítlum. Ef mítill finnst skal viðkomandi koma með hann til Náttúrustofu Suðausturlands í Nýheimum eða til Björns Gísla Arnarsonar á Fuglaathugunarstöð Suðausturlands (sími 8467111). Ef mítill hefur sogið sig fastan er rétt að fara að öllu með gát þegar hann er fjarlægður. Það er best gert með því að klemma pinsettuodda um munnhluta mítilsins og lyfta honum beint upp frá húðinni (mynd 3). Forðast skal að snúa honum í sárinu.

Fleiri upplýsingar má lesa á https://nattsa.is/skogarmitill-fannst-hofn-hornafirdi/.

Mynd 1. Skógarmítill sem fannst á Ísafirði haustið 2015, um 6 mm langur.

Mynd 1.  Skógarmítill sem fannst á Ísafirði haustið 2015, um 6 mm langur.

Mynd 2. Mítill sem fannst á ketti á Höfn fyrstu vikuna í maí 2017. Hérna kominn í varðveislu Náttúrustofu Suðausturlands.

Mynd 2. Mítill sem fannst á ketti á Höfn fyrstu vikuna í maí 2017. Hérna kominn í varðveislu Náttúrustofu Suðausturlands.

 

Mynd 3. Mítill fjarlægður með pinsettu.

Mynd 3.  Mítill fjarlægður með pinsettu.

Ein myndasería á sýningunni

Sýning á kortum og myndum í anddyri ráðhúss Hornafjarðar

Á vegum Náttúrustofu Suðausturlands verður í dag opnuð sýning í anddyri ráðhúss Hornafjarðar á kortum og myndum sem sýna jökla og jöklabreytingar.

Sýningin er hluti af ráðstefnu Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Höfn, Náttúrustofu Suðausturlands og Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar sem nefnist  „Jöklar í bókmenntum, listum og lífinu.“  Ráðstefnan verður haldin 28.-30. apríl, en sýningarnar í ráðhúsinu, í Svavarssafni og Nýheimum verða opnar áfram í sumar.

Kort búa yfir sérstöku afli til þess að tengja saman margvíslegar upplýsingar og miðla sjónrænt á einfaldan, áhrifaríkan og aðlaðandi hátt. Kort eru því afar öflugur upplýsingamiðill en ekki ætíð hlutlaus mynd af raunveruleikanum, ekki fremur en kortagerðarmaðurinn eða tilgangur verksins. Áróðursaflið hefur lengi verið vitað og óspart nýtt af þjóðum, stofnunum og öðrum sem hafa þurft að koma upplýsingum á framfæri. En kort segja meira en 1000 orð.

Fyrr á öldum kostaði kortlagning óhemjufé og tíma og var einungis á framfæri lærðra kortagerðamanna. Frá um 1960 hafa tækniframfarir umbreytt  kortagerð og flutt frá pennableki í tölvutækni. Nútímakortagerð vinnst hvar sem er svo fremi sem gagnagrunnar eru fyrir hendi.

Kortum er skipt í staðfræðileg kort og áherslukort. Staðfræðileg kort lýsa landfræðilegum staðháttum og draga upp misnákvæma staðfræðilega mynd af landshlutum eða borgum. Íslandskort er dæmi um staðfræðikort og sömuleiðis götukort. Áherslukort birta eigindlegar eða tölfræðilegar upplýsingar af einhverju tagi. Slík kort sjást allstaðar og í hinum fjölbreytilegustu birtingarmyndum. Mannfjöldakort eða úrkomukort eru áherslukort og á sýningunni er sprungusvæðakort sem er dæmi um síkt áherslukort.

Kortagerð getur sameinað þætti sem í fyrstu virðast óskyldir eins og vísindi, fagurfræði og listir. Að baki upplýsinga liggur öflun gagna og oft á tíðum gríðarlegt vinnuframlag sem ekki þarf að birtast á sjálfum kortunum. Fagurfræðileg myndræn framsetning er svo lykillinn að vekja athygli á upplýsingum í kortum. Þetta er nefnt vísindaleg sjónsköpun, og er vogaraflið á milli vísinda og lista.

Á sýningunni gefur að líta nokkrar gerðir af kortum, en einnig nokkrar myndir sem teknar hafa verið á sama stað, með margra nokkurra ára millibili. Þessar myndir sýna þær miklu breytingar sem orðið hafa á jöklum á Suðausturlandi síðustu áratugina og árhundruðin.

Njótið sýningarinnar

Myndir frá sama sjónarhorni, með meira en 100 ára millibili.

Myndir frá sama sjónarhorni, með meira en 100 ára millibili.

Kort af Breiðamerkursandi með línum sem sýna hvar jökulinn var á hverjum tíma.

Kort af Breiðamerkursandi með línum sem sýna hvar jökulinn var á hverjum tíma.

Kvísker

Ársfundur Náttúrustofu Suðausturlands 2017

Fjórði ársfundur Náttúrustofu Suðausturlands ses. verður haldinn á Icelandair Hótelinu á Kirkjubæjarklaustri miðvikudaginn 29. mars 2017  kl. 20:00.

Á eftir venjubundnum fundarstörfum verða haldin þrjú erindi á vegum Náttúrustofu Suðausturlands.

  • Kvískerjajöklar – Jöklabreytingar í ljósi gamalla ritheimilda og vitnisburðar Kvískerjabræðra: Snævarr Guðmundsson
  • Kynning á verkefninu „Hættumat vegna jökulvatna í Skaftárhreppi“: Kristín Hermannsdóttir.
  • Stærsti sjónauki til stjörnurannsókna á Íslandi settur upp á Hornafirði: Snævarr Guðmundsson.

Kaffi, te og léttar veitingar í hléi.

Allir velkomnir og hvattir til að mæta

Hornafriði 14. mars 2017

Stjórnin

Stjörnuskoðun í kvöld, fimmtudaginn 2. mars 2017

Í kvöld lítur út fyrir ágæt skilyrði til stjörnuskoðunar. Því ætlum við að bjóða áhugasömum í heimsókn í stjörnuhúsið á Markúsarþýfishól á milli 19:30 og 20:30. Áhersla verður lögð á að skoða tunglið og reikistjörnuna Venus, sem er hátt á lofti um þessar mundir. Þeir sem eiga sjónauka eru hvattir til að koma með þá.