Styrkþegar verkefnastyrkja 2017

Verkefnastyrkir til Náttúrustofu Suðausturlands

Fimmtudaginn 22. febrúar voru afthentir, við hátíðlega athöfn í Nýheimum, styrkir úr atvinnu- og rannsóknarsjóði Sveitarfélagsins Hornafjarðar.

Náttúrustofa Suðausturlands hlaut styrk úr A-sjóði fyrir verkefnið „Mat á ástandi beitarlands á Kvískerjum 2018“. Markmið verkefnisins er að kortleggja gróðurfar og meta ástand beitarlands í landi Kvískerja í Öræfum. Svæðið frá Múlagljúfri og vestur að Vattárárgljúfri verður skoðað, en með sérstaka áherslu á svæðið frá þjóðvegi og upp að fjalli.

Einnig hlaut Náttúrstofa Suðausturlands styrki úr B-sjóði. Annan í verkefnið „Uppskerutap vegna gæsaágangs í ræktarlönd á Suðausturlandi vorið 2018“, en sambærilegar rannsóknir hafa verið gerðar á Suðausturlandi árið 2014-2017. Hinn með Vatnajökulsþjóðgarði í verkefnið „Varðveisla forn-trés til sýninga“. Styrkurinn verður notaður til að sækja fornt tré sem fannst við norðanvert Jökulsárlón, forverja það og gera að sýningargrip innan héraðs.

Á sama tíma voru afhennt menningarverðlaun, umhverfisverðlaun og styrkir frá bæjarráði. Sjá nánar á  http://www.hornafjordur.is/stjornsysla/sveitarfelagid/frettasafn/menningarverdlaun-umhverfisvidurkenningar-og-styrkir-afhent

Föstudaginn 23. febrúar voru afhentir styrkir frá Vinum Vatnajökuls og hlaut Náttúrustofa Suðausturlands tvo styrki. Annar styrkurinn var í verkefnið „ Fuglalíf í Skúmey á Jökulsárlóni á varptíma 2018“ og hinn í verkefnið „ Sögulegt tímayfirlit (krónólógía) af  Breiðamerkursandi/-jökli“. Tók Rögnvaldur Ólafsson formaður stjórnar Náttúrustofunnar við styrkjunum við hátíðlega athöfn á Hótel Natura í Reykjavík.

Starfsfólk Náttúrustofu Suðausturlands er að vonum mjög ánægt með þessa styrki, en þeir auðvelda vinnu við verkefni stofunnar þetta árið og þau næstu.

 

Allir sem tilnefndir voru til menningarverðlauna Sveitarfélagsins Hornafjarðar árið 2017.

Frá afhendingu styrkja frá Vinum Vatnajökuls. Rögnvaldur Ólafsson stjórnarformaður Náttúrustofu Suðausturlands tók við stykjum fyrir hönd stofunnar.

 

Umhverfisverðlaun Sveitarfélagsins Hornafjarðar

Tilnefndir og handhafar verðlauna og styrkja frá Sveitarfélaginu Hornafjarðar 2017