Verkefnastyrkir til Náttúrustofu Suðausturlands
Fimmtudaginn 22. febrúar voru afthentir, við hátíðlega athöfn í Nýheimum, styrkir úr atvinnu- og rannsóknarsjóði Sveitarfélagsins Hornafjarðar.
Náttúrustofa Suðausturlands hlaut styrk úr A-sjóði fyrir verkefnið „Mat á ástandi beitarlands á Kvískerjum 2018“. Markmið verkefnisins er að kortleggja gróðurfar og meta ástand beitarlands í landi Kvískerja í Öræfum. Svæðið frá Múlagljúfri og vestur að Vattárárgljúfri verður skoðað, en með sérstaka áherslu á svæðið frá þjóðvegi og upp að fjalli.
Einnig hlaut Náttúrstofa Suðausturlands styrki úr B-sjóði. Annan í verkefnið „Uppskerutap vegna gæsaágangs í ræktarlönd á Suðausturlandi vorið 2018“, en sambærilegar rannsóknir hafa verið gerðar á Suðausturlandi árið 2014-2017. Hinn með Vatnajökulsþjóðgarði í verkefnið „Varðveisla forn-trés til sýninga“. Styrkurinn verður notaður til að sækja fornt tré sem fannst við norðanvert Jökulsárlón, forverja það og gera að sýningargrip innan héraðs.
Á sama tíma voru afhennt menningarverðlaun, umhverfisverðlaun og styrkir frá bæjarráði. Sjá nánar á http://www.hornafjordur.is/stjornsysla/sveitarfelagid/frettasafn/menningarverdlaun-umhverfisvidurkenningar-og-styrkir-afhent
Föstudaginn 23. febrúar voru afhentir styrkir frá Vinum Vatnajökuls og hlaut Náttúrustofa Suðausturlands tvo styrki. Annar styrkurinn var í verkefnið „ Fuglalíf í Skúmey á Jökulsárlóni á varptíma 2018“ og hinn í verkefnið „ Sögulegt tímayfirlit (krónólógía) af Breiðamerkursandi/-jökli“. Tók Rögnvaldur Ólafsson formaður stjórnar Náttúrustofunnar við styrkjunum við hátíðlega athöfn á Hótel Natura í Reykjavík.
Starfsfólk Náttúrustofu Suðausturlands er að vonum mjög ánægt með þessa styrki, en þeir auðvelda vinnu við verkefni stofunnar þetta árið og þau næstu.