Horft yfir eyjar Skarðsfjarðar, Langaneshólmi í forgrunni.

Náttúrustofa Suðausturlands hlýtur styrki

Undanfarið hefur Náttúrustofan hlotið styrki til fjögurra nýrra verkefna sem hefjast í sumar. Þann 6. mars hlutu tvö verkefnanna styrki frá Orkurannsóknarsjóði Landsvirkjunar upp á 2 milljónir hvort. Verkefnin snúa að rannsóknum á niturnámi í kolefnissnauðum jarðvegi annars vegar og smádýralífi í leirum Skarðsfjarðar hins vegar. Daginn eftir, 7. mars, fékk stofan einnig tvo styrki frá atvinnu- og rannsóknarsjóð Sveitarfélagsins Hornafjarðar, hlaut þar verkefnið niturnám í kolefnissnauðum jarðvegi annan styrk upp á 250.000 kr en einnig hlaut verkefnið kortlagning jarðmyndana við Höfn í Hornafirði styrk upp á 277.000 kr. Þann 10. mars hlaut stofan svo tvo verkefnastyrki til viðbótar frá Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar, fékk verkefnið smádýralíf í leirum Skarðsfjarðar annan styrk upp á 1,5 milljón en einnig fékk verkefnið áhrif vega á kolefnibúskap mýrlenda styrk upp á 1,6 milljón.

Niturnám í kolefnissnauðum jarðvegi

Róbert tekur á við styrkjum Orkurannsóknasjóðs Landsvirkjunar

Róbert tekur við styrkjum Orkurannsóknasjóðs Landsvirkjunar

Róbert Ívar Arnarsson stýrir verkefninu sem fellst í að skoða niturbindandi örverur í jarðvegi á Breiðamerkursandi og Skeiðarársandi. Aðstæður í umhverfi niturbindandi örverusamfélögum verða skoðaðar auk þess að athugað verður hvaða jarðvegseiginleikar stuðla að landnámi þeirra og hversu skilvirk uppsöfnun niturs í jarðvegi er sem hýsir þau samfélög. Lítið er vitað um þær lífverur sem bera ábyrgð á niturnámi á söndum Íslands og er þetta verkefni eitt af fyrstu skrefum í öflun á þeirri þekkingu.

Smádýralíf í leirum Skarðsfjarðar

Hólmfríður Jakobsdóttir fer með umsjón verkefnisins sem gengur út á að meta hvort breytingar hafa orðið á smádýralífi í leirum Skarðsfjarðar síðustu áratugi. Tekin verða sýni úr leirunum í Sílavík og Flóa í Skarðsfirði og gögnin borin saman við eldri úttekt frá árinu 1979. Einnig verða tekin sýni úr seti leiranna og kolefnismagn í þeim greint sem mun dýpka skilning okkar á kolefnisbúskap leiranna. Gögnin úr rannsókninni munu gefa yfirlit yfir smádýralíf á svæðinu sem nýtist meðal annars til að meta ástand svæðisins og áhrif t.d. vegna loftslagsbreytinga, svo sem breytinga á jökulám og landriss eða vegna athafna mannanna svo sem landfyllingar og mengunar.

Kortlagning jarðmyndana við Höfn í Hornafirði

Á síðustu árum hefur atvikast að í framkvæmdum eða skipulagi á Höfn var ekki gefinn gaumur að athyglisverðum jarðminjum. Þar má nefna Topphól sem var sprengdur burt fyrir tveim árum og merkilegar trjábolaafsteypur sem eru í hættu við iðnaðarsvæðið við Miðós á Höfn. Minnisblað um merkar jarðmenjar í bæjarlandi Hafnar var tekið saman haustið 2022 og sent umhverfis- og skipulagsvöldum. Athyglisverðar jarðmyndanir eru svo víða innan Hafnarbyggðar að kanna þarf hvort fleiri slíkar séu í grenndinni, þ. á m. eyjum og skerjum í fjörðunum. Markmið verkefnisins er að kanna berggrunn og skrásetja merkilegar jarðmyndanir. Yfirlitið um fágætar jarðmyndanir mun m.a. nýtast umhverfis- og skipulagsyfirvöldum í framtíðarskipulagi. Meðan verkið er unnið verður umhverfis- og skipulagsstjóra Sveitarfélagsins Hornafjarðar haldið upplýstum um verkið. Snævarr Guðmundsson fer með umsjón verkefnisins.

Áhrif vega á kolefnibúskap mýrlenda

Mýrlendi eru stærstu kolefnisgeymar á landi og varðveita um þriðjung af öllu kolefni sem finnst í jarðvegi á heimsvísu. Virkni mýrlendis sem kolefnisgeymis byggist á súrefnissnauðum aðstæðum í jarðvegi sem hægir á niðurbroti plöntuleifa. Rask á vatnsbúskapi mýrlenda getur aukið aðgengi súrefnis og komið af stað niðurbroti á plöntuleifum. Í Sveitarfélaginu Hornafirði, við Hornarfjarðarfljót, var nýlega lagður vegur í gegnum mýrlendi. Verkefninu er ætlað að meta afleiðingar lagningar nýs vegar um Hornafjaðarfljót en óljóst er hver áhrif hans eru á kolefnisforða mýranna. Skoðað verður hvort aukning hafi orðið á losun koltvísýrings úr jarðvegi, hvort breytingar hafi orðið á vatnshæð í jarðvegi og hvort aukning hafi orðið á hlutfalli steinefna í jarðveginum. Þessi rannsókn mun auka skilning okkar á áhrifum mannsins á náttúruna og nýtast til skilvirkari mótvægisaðgerða eftir sambærilegar framkvæmdir. Róbert Ívar Arnarsson fer með umsjón þessa verkefnis.

 

Við á Náttúrustofu Suðausturlands erum Orkurannsóknarsjóði Landsvirkjunar, atvinnu- og rannsóknasjóði Sveitarfélagsins Hornafjarðar og Rannsóknasjóði Vegargerðarinnar þakklát og fögnum því að verkefnin hafi hlotið brautargengi. Styrkveitingar sem þessar eru mikilvægar starfsemi stofunnar og styrkja mátt okkar til að sinna fjölbreyttum rannsóknum á náttúru Suðausturlands. Þær dýpka skilning okkar á náttúrlegu ferlum sem eru að verkum auk þess að afla betri upplýsinga um mikilvægi og fjölbreytileika náttúrunnar. Þetta er í þriðja skipti sem stofan fær styrk frá Orkurannsóknarsjóði Landsvirkjunar en áður hafa fengist styrkir fyrir rannsóknum á klettafrú og kolefnisbindingu og -flæði úr jarðvegi í Skaftárhreppi. Stofan hefur hlotið fjölmarga styrki út atvinnu- og rannsóknasjóði Sveitarfélagsins Hornafjarðar til ýmissa náttúrurannsókna í sveitarfélaginu. Stofan hefur einu sinni áður fengið styrk frá Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar. Við hlökkum til að sjá þessi verkefni verða að veruleika og erum spennt fyrir að niðurstöðum þeirra.

Styrkþegar atvinnu- og rannsóknarsjóðs sveitarfélagsins Hornafjarðar á Minningarhátíð sveitarfélagsins 2025. Mynd: Menningarmiðstöð Hornafjarðar

Styrkþegar atvinnu- og rannsóknarsjóðs Sveitarfélagsins Hornafjarðar á Menningarhátíð sveitarfélagsins 2025. Mynd: Menningarmiðstöð Hornafjarðar

 

 

Mynd eftir Snævarr Guðmundsson

Alþjóðadagur jökla

„Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir og þess vegna er gleðin ekki nauðsynleg, þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu.” 

   ― Halldór Laxness, Heimsljós 

Nýlega ákváðu Sameinuðu þjóðirnar að helga árið 2025 jöklum á hverfanda hveli og að 21. mars verði sérstakur árlegur alþjóðadagur jökla. Ákvörðunin markar því mjög helgan dag hér á landi enda hafa jöklar haft mikil áhrif á okkar samfélag, menningu og landslag. Jöklar hafa mótað Ísland og sett mark sitt á lífsbaráttuna hér meira en nokkurt annað afl.

Jöklar myndast þar sem kaldara er, eins og á fjöllum, og meira snjóar á vetrum en nær að bráðna á sumrin. Ef snjómassinn eykst með tímanum þá umbreytist hann smám saman í ís. Þegar tilskilinni þykkt er náð tekur massinn að hníga undan eigin þyngd og leita niður hlíðar. Þegar þessu marki er náð nefnum við hann jökul. Í fleiri tugþúsundir ára var Ísland hulið jöklum og með linnulausri hreyfingu þeirra mótaðist landslagið í það sem við þekkjum í dag.

Einn eiginleiki jökla er mikill rofmáttur og ber Ísland allt þess merki í landslagi sínu en þeir  móta þó ekki einungis fallegt landslag heldur nýtast þeir okkur á ýmsan hátt. Jöklar eru stærstu geymar ferskvatns í heiminum og svo er einnig á Íslandi. Í því vatni er oft að finna næringarefni úr möluðu seti sem er lykill að uppsprettu lífs í nærumhverfi þeirra og einnig myndar það vatn jökulár sem við beislum til að knýja heimili landsins, þau sömu heimili sem við byggjum í dölum og fjörðum landsins sem tálgaðir voru úr heilu fjöllunum af rofmætti jökla.

Jöklar eru einnig mikilvægir í baráttunni gegn loftlagsbreytingum en undir þeim er oft að finna þúsundir ára gömul lífræn efni eins og plöntuleifar sem hafa varðveist í tímanna rás. Þeir veita einnig stöðugleika en talið er að við það að jöklar rýrna minnki fargið á jarðskorpunni undir Íslandi og það muni valda meiri eldvirkni í framtíðinni. Fegurð þeirra er innblástur margra verka og sem náttúrufyrirbæri snerta óteljandi mörg hjörtu á heimsvísu. Töfrar jöklanna laðar einnig þúsundir ferðamanna til landsins sem gera sér oft margra daga ferðalag einungis til að upplifa návígi þess gríðarlega afls.

Á þessum degi eru því margar ástæður til að fagna jöklum en því miður til að syrgja líka. Frá síðustu aldamótum hafa íslenskir jöklar hopað mikið og hafa 70 smáir jöklar horfið vegna loftlagsbreytinga. Í dag þekja jöklar um 11% af flatarmáli Íslands en sú tala mun halda áfram að minnka næstu 200 árin þar til að þeir eru flestir horfnir og með því munu gríðarlegar afleiðingar á menningu og landslag fylgja. Þeirra viðvera er þar af leiðandi ekki gefin og er upplifun, stoðþjónusta og máttur þeirra því eitthvað sem komandi kynslóðir munu missa af. Í dag er því góður dagur til að hugsa inn á við um áhrif okkar á umhverfi, náttúru og komandi kynslóðir.

Ársfundur 2025 á Klaustri

Ársfundur Náttúrustofu Suðausturlands verður haldinn í Kirkjubæjarstofu, Kirkjubæjarklaustri mánudaginn 17. mars 2025 kl. 16:00. Við bjóðum alla velkomna að mæta en fyrir þá sem sjá sér ekki fært að mæta á Klaustur verður fundinum einnig streymt á Teams á linknum hér: https://shorturl.at/oRqLq.

Lesa meira

Nýr starfsmaður Náttúrustofu Suðausturlands

Þann 13. janúar tók til starfa nýr starfsmaður hjá Náttúrustofunni, Róbert Ívar Arnarsson. Róbert er með B.Sc. gráðu í líffræði og er að ljúka við M.Sc. gráðu í landfræði frá Háskóla Íslands. Í námi sínu lagði hann áherslu á jarðvegs- og vistfræði með sérstöku tilliti til örverulífs og er lokaverkefni hans um áhrifaþætti umhverfis á virknisbreytileika örverusamfélaga í lífrænum jarðvegi. Róbert hefur áður starfað hjá Háskóla Íslands við mælingar á kolefnisforða ræktarlands og hjá Landgræðslunni við ýmis rannsóknartengd sumarstörf. Áherslusvið Róberts eru virkni vistkerfa og hvernig þau móta og eru mótuð af lífríkinu sem þar finnast, með sérstöku tilliti til jarðvegs og jarðvegslífs. Róbert verður með aðsetur á Kirkjubæjarklaustri og bjóðum við hann hjartanlega velkomin til starfa.

Náttúrustofa Suðausturlands leitar að náttúrufræðingi  

Náttúrustofa Suðausturlands óskar eftir öflugum náttúrufræðingi á starfstöð stofunnar í Skaftárhreppi. Um er að ræða fullt starf bæði við vettvangsrannsóknir og við úrvinnslu gagna og skýrslu- og greinaskrif. Starfið mótast af sérþekkingu umsækjanda og getur m.a. snúið að þróun nýrra verkefna á sviði náttúrurannsókna. Náttúrustofa Suðausturlands sinnir fjölbreyttum náttúrufarsrannsóknum, t.d. á fuglum, gróðri, jöklum og landformum.

 

Helsingjaungar í Skúmey

Varpútbreiðsla helsingja 2023

Nú er komið á netið minnisblað um helsingjavöktun á Íslandi árið 2023 sem Náttúrustofa Suðausturlands vann í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands. Aukning í íslenska varpstofninum heldur áfram en heildarfjöldi varppara var nú metinn 3121 pör, til samanburðar voru metin 2493 pör árið 2020 og 2052 pör árið 2019. Það er u.þ.b. 18% aukning milli áranna 2019 og 2020 og 20% aukning frá 2020 til 2023. Þegar árlegar talningar úr helsingjavarpinu í Skúmey í Jökulsárlóni er skoðaðar til samanburðar kemur í ljós fækkun í Skúmey árið 2023 miðað við tvö árin þar áður. Þetta er vísbending um að heildarstofn helsingja á Íslandi gæti hafa verið stærri árin 2021 og 2022 og fækkun í Skúmey endurspegli áhrif fuglaflensu á stofnstærðina. Við þessa úttekt var mestur fjöldi varppara í Skúmey en misjafnt er milli svæða hvort aukning eða fækkun hafi orðið í fjölda varppara. Árið 2023 var tekið út varp á tveimur nýjum svæðum; í Ölfusi og í austfirsku eyjunum Seley og Andey. Stefnt er að því að fylgjast áfram með þeim svæðum. Heildarstofnmat helsingja á Íslandi svipar mjög til síðasta mats en stofninn var talinn vera 11.349 fuglar árið 2023 en 11.600 árið 2020. Lesa má meira um helsingjavöktunina 2023 hér.

Áður voru gerðar heildarúttektir á varpi helsingja, árin 2019 og 2020. Í tengslum við AEWA (African – Eurasian Migratory Waterbird Agreement) og EGMIWG (European Goose Management International Working Group) hefur frá 2020 verið samstarf milli Íslands og Breta og Íra um helsingjavöktun, bæði íslenska og grænlenska varpstofnsins. Samkvæmt rannsóknaráætlun verkefnisins á íslenski varpstofninn að vera metin sömu árin og heildartalning á vetrarstöðvum í Bretlandi og Írlandi fer fram. Hefur það nú verið gert árin 2020 og 2023 en til stendur að næsta mat verði framkvæmt árið 2026.

Árið 2025 verður alþjóðaár jökla

 

Laugardaginn 17. ágúst 2024 var haldin viðburðaröð á vegum Rice háskóla, Jöklarannsóknafélags Íslands, Náttúruminjasafns Íslands, Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, Alþjóðlegu jöklavöktunarsamtakanna (World Glacier Monitoring Service, WGMS) og Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO), þar sem vakin var athygli á jöklum sem hafa horfið á undanförnum áratugum eða eru að hverfa. Viðburðaröðin helgast af því að Sameinuðu þjóðirnar ákváðu fyrir stuttu að árið 2025 yrði alþjóðaár jökla og að 21. mars verði eftirleiðis dagur jökla.

Hörfun jökla er að gerast alls staðar á jörðinni og birtist sem beisk táknmynd hinna hröðu loftslagsbreytinga sem nú eiga sér stað. Til þess að undirstrika hremmingarnar var á viðburðaröðinni settur upp eins konar „grafreitur“ þar sem að heiti 15 valinna jökla, sem eru horfnir eða á hverfanda hveli, voru skráð á legsteina úr ís. Þeir höfðu verið skornir út af myndhöggvaranum Ottó Magnússyni. Þessir jöklar eru staðsettir víðs vegar á jörðinni og er einn þeirra á Íslandi. Frásagnir og lýsingar á þessum völdu jöklum má finna á vefsíðunni Global Glacier Casualty List. Á meðal jökla á válista er Hofsjökull eystri á suðausturlandi. Frásögnin af honum var tekin saman og rituð af Snævari Guðmundssyni hjá Náttúrustofu Suðausturlands.

Þrándarjökull (fremst), Hofsjökull eystri (ofar til vinstri) og í fjarska er Vatnajökull. Ljósm. Snævarr Guðmundsson, 9. september, 2021.

Þrándarjökull (fremst), Hofsjökull eystri (ofar til vinstri) og í fjarska er Vatnajökull. Ljósm. Snævarr Guðmundsson, 9. september, 2021.

 

Stjörnustöðin sem Snævarr notar við mælingar sínar

Snævarr – heiðursfélagi í Alþjóðasambandi stjarnfræðinga

Þann 14. ágúst 2024 var starfsmaður Náttúrustofu Suðausturlands, Snævarr Guðmundsson, einn þeirra fimmtán sem samþykktir voru sem heiðursfélagar í Alþjóðasambandi stjarnfræðinga (IAU: International Astronomical Union). Hann er nú í hópi 35 einstaklinga hvaðan af úr heiminum sem hafa hlotið þessa viðurkenningu. IAU hóf fyrst árið 2018 að heiðra einstaklinga sem ekki uppfylla skilyrði sem menntaðir stjörnufræðingar en hafa lagt sitt af mörkum til stjarnfræðilegra rannsóknar og menningu í sínu landi. Heiðursfélagar geta einungis þeir orðið sem eru tilnefndir af landsnefndum aðildarþjóða IAU. Landsnefnd Stjarnvísindafélags Íslands tilnefndi Snævarr sem heiðursfélaga í IAU og er hann fyrsti Íslendingurinn til að hljóta þennan heiður.

Snævarr er jöklafræðingur en hefur fylgst með stjörnum í frítíma sínum í hátt í fjóra áratugi. Hann var útnefndur heiðursfélagi vegna ljósmælinga á breytistjörnum, myrkvatvístirnum og þvergöngum fjarreikistjarna, frá Íslandi, og framlagi hans í að kynna almenningi stjörnufræði.

Formleg tilkynning var birt á heimasíðu IAU í síðasta mánuði (ágúst) auk þess sem morgunþátturinn „Ísland í bítið“ á Bylgjunni og netmiðillinn Vísir birtu nýlega viðtal við Snævarr. Náttúrustofa Suðausturlands óskar honum innilega til hamingju með viðurkenninguna.

97. árbók Ferðafélags Íslands Sunnan Vatnajökuls – Frá Núpsstað til Suðursveitar kom út 2024.

Sunnan Vatnajökuls – Frá Núpsstað til Suðursveitar: Árbók FÍ 2024

Vorið 2024 kom út árbók Ferðafélags Íslands, og er það í 97. árið í röð sem það gerist. Árbókin 2024 heitir – Sunnan Vatnajökuls – Frá Núpsstað til Suðursveitar –   og eins og titillinn gefur til kynna fjallar hún um svæði sem nær frá Djúpá í Fljótshverfi austur í Steinadal í Suðursveit. Það markast í suðri af strandlengjunni og í norðri vatnaskilum Vatnajökuls. Allt svæðið er innan þeirra marka sem við á Náttúrustofu Suðausturlands skilgreinum okkar starfsvettvang í rannsóknum á náttúrufari.

Þrjár af árbókum Ferðafélags Íslands hafa áður fjallað um suðausturland með einum eða öðrum hætti. Sú fyrsta nefnist Austur-Skaftafellssýsla og hún kom út árið 1937. Jón Eyþórsson veðurfræðingur, forseti Ferðafélagsins og stofnandi Jöklarannsóknafélags Íslands tók hana saman. Hún lýsir landsháttum í sýslunni, frá Skeiðarárjökli í vestri og austur í Lónsöræfi. Árbókin 1979 – Öræfasveit – var rituð af Sigurði Björnssyni á Kvískerjum, og afmarkast við þá fallegu sveit. Á þeim tíma höfðu stórvötnin á Skeiðarársandi nýlega verið brúuð og breyttir samgönguhættir gert aðgengi í sýsluna betra en fyrr.  Þriðja árbókin kom svo út árið 1993. Sú heitir – Við rætur Vatnajökuls –  og lýsir frá Austur-Skaftafellssýslu, að stórum hluta. Bókin var rituð af Hjörleifi Guttormssyni náttúrufræðingi, sem er einn höfunda hinnar nýju árbókar. Ásamt Hjörleifi eru höfundar árbókarinnar 2024 þeir Snævarr Guðmundsson náttúrulandfræðingur hjá Náttúrustofu Suðausturlands og Oddur Sigurðsson jarðfræðingur. Langflestar ljósmyndir í bókinni eru eftir höfundana og jafnframt sá Snævarr um gerð korta og skýringarmynda.

Að vanda kynna árbækur Ferðafélagsins valin svæði í gegnum landlýsingu, jarðfræði og náttúrufar. Að auki er fjallað um söguna, samfélagið og  einstaklinga sem hafa verið áberandi þar. Sagt er frá stofnun Skaftajökulsþjóðgarðs, sem varð síðar hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Á þeim rúmu þrjátíu árum sem hafa liðið frá því að árbók fjallaði síðast þetta svæði hafa miklar breytingar orðið í þessum landsfjórðungi, bæði landslagi og jöklunum en einnig samfélaginu. Meira um bókina má sjá hér.

Viðtöl voru tekin við fjórar konur úr Skaftafellssýslum. Frá vinstri til hægri: Elínborg Pálsdóttir, Halla Bjarnadóttir, Ingibjörg Zophoníasdóttir og Laufey Lárusdóttir.

Fortíðarsamtal fyrir framtíðina

Á dögunum birtum við fjögur viðtöl á YouTube rás stofunnar sem Snævarr Guðmundsson og Kristín Hermannsdóttir tóku við eldri konur úr Skaftafellssýslum á árunum 2020 og 2021.

Rætt var við:

  • Elínborgu Pálsdóttur, fædd á Böðvarshólum í Vesturhópi 3. september 1923, en flutti síðar á Höfn. Viðtalið er tekið 3. september 2021
  • Höllu Bjarnadóttur, fædd á Holtum á Mýrum 24. febrúar 1930 en flutti síðar á Höfn. Viðtalið er tekið 21. september 2021
  • Ingibjörgu Zophoníasdóttur, fædd á Hóli í Svarfaðardal 22. ágúst 1923, en flutti síðar að Hala. Viðtalið er tekið 24. ágúst 2021
  • Laufeyju Lárusdóttur, fædd á Svínafelli í Öræfum 14. ágúst 1927, en bjó síðar í Skaftafelli. Viðtalið er tekið 30. júní 2020

Viðtölunum er ætlað að varðveita sögu þeirra og upplifun af umhverfisbreytingum, breyttum atvinnuháttum og tíðaranda. Á ævi sinni urðu þessar konur vitni af miklum breytingum á samfélagi, náttúru og tækni en saga kvenna hefur oft á tíðum ekki fengið eins mikla athygli og frásagnir karla.

Verkefnið fortíðarsamtal fyrir framtíðina er samstarfsverkefni milli Náttúrustofu Suðausturlands og Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar og var styrkt af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga (SASS). Viðtölin voru fyrst aðgengileg almenning á 20 ára afmælishátíð Nýheima sem haldin var í lok ágúst 2022 en nú hefur aðgengi að þeim verið aukið með birtingu á YouTube og vonum við að þið njótið vel. Allar konurnar gáfu leyfi sitt fyrir birtingu viðtalsins og má nálgast hvert og eitt viðtal með að smella á nafn viðkomandi konu hér að ofan. Rannveig Rögn Leifsdóttir vann viðtölin.