Örlög tveggja jökla, Hofsjökuls eystri og Okjökuls

Örlög tveggja jökla, Hofsjökuls eystri og Okjökuls, í hlýnandi loftslagi

Í fréttapistlum hefur Náttúrustofa Suðausturlands fyrr vakið athygli á að Sameinuðu þjóðirnar tileinkuðu árið 2025 sem alþjóðaár jökla á hverfanda hveli. Var það notað til að vekja athygli á vatnsfræðilegum, veðurfarslegum áhrifum jökla ásamt samfélagslegri og efnahagslegri þýðingu. Náttúrustofan tók þátt í verkefninu með greinaskrifum og nýverið birtist greinin „The fate of two Icelandic glaciers in a warming climate: Hofsjökull eystri and Okjökull [Örlög tveggja jökla, Hofsjökuls eystri og Okjökuls, í hlýnandi loftslagi]“ í hefti Annals of Glaciology. Tímaritið birtir frumsamdar ritrýndar vísindagreinar og bréf um valda þætti jöklafræði og gefur út áherslutengt efni sem varðar jökla og loftslag.

Auglýst er eftir forstöðumanni Náttúrustofu Suðausturlands

Náttúrustofa Suðausturlands auglýsir starf forstöðumanns laust til umsóknar. Stofan er alhliða rannsóknar- og þjónustustofnun í náttúrufræðum og starfar eftir lögum 54/2024 um Náttúrufræðistofnun og náttúrustofur. Starfssvæðið nær yfir Sveitarfélagið Hornafjörð og Skaftárhrepp og er stofan með aðsetur á Höfn og starfsstöð á Kirkjubæjarklaustri.

Starfsmenn NattSa á líffræðiráðstefnu Líffræðifélags Íslands 2025

Líffræðiráðstefnan 2025

Starfsfólk Náttúrustofu Suðausturlands lét sig ekki vanta á líffræðiráðstefnu Líffræðifélags Íslands 2025 fór fram 9.–11. október í Reykjavík. Ráðstefnan er haldin annað hvert ár og þar koma saman flestallir vísindamenn á þessu sviði og koma saman fulltrúar nær allra stofnana og fyrirtækja sem tengjast lífvísindaheiminum á Íslandi. Ráðstefnan er einnig opin öllu áhugafólki um líffræði. 

Jöklar á hverfanda hveli

Í september 2024 sögðum við hjá Náttúrustofu Suðausturlands frá því að Sameinuðu þjóðirnar ætluðu að helga árinu 2025 m.a. jöklum, sem eru á hverfanda hveli, og verður árið notað til að vekja athygli á þeim. Jöklar hafa mikilvægt hlutverk vatnfræðilega og veðurfarslega en líka mikla samfélagslega og efnahagslega þýðingu hér á landi þar sem að fjöldi ferðamanna leggur leið sína til landsins til þess að kynnast jöklum. Við á Náttúrustofunni látum ekki okkar kyrrt liggja og tökum þátt í að vekja athygli, meðal annars með greinaskrifum.

 

Snævarr Guðmundsson, starfsmaður stofunnar hefur komið að ritun tveggja greina um íslenska jökla sem nýlega hafa verið gefnar út og sú þriðja er á vinnslustigi. Í nýjasta ársriti Jöklarannsóknafélagsins, Jökli nr. 74., birtist ritrýnd grein: „Nunataks and medial moraines of Breiðamerkurjökull, Southeast Iceland“ sem rituð var af Snævari, Helga Björnssyni, David J. A. Evans og Finni Pálssyni. Í henni er annars vegar rakin framvinda jökulbreytinga við níu jökulsker sem hafa stungið upp kolli í Breiðamerkurjökli frá því á þriðja áratug 20. Aldar. Jökulrýrnunin veldur því að þau verða sífellt meira áberandi en einnig hafa þau áhrif á ísflæði jökulsins. Hins vegar er kynnt áhrif jökulhopsins á urðarana á jöklinum eða „röndunum“ eins og Öræfingar jafnan kalla þær. Rendurnar hafa hnikast til vegna breytilegs ísflæðis frá misstórum safnsvæðum.

 

Grein tvö er einnig ritrýnd og birtist í EGU Natural Hazards and Earth Sciences fyrir stuttu: “ Proglacial lake development and outburst flood hazard at Fjallsjökull glacier, southeast Iceland„. Höfundar eru Greta H. Wells, Þorsteinn Sæmundsson, Finnur Pálsson, Guðfinna Aðalgeirsdóttir, Eyjólfur Magnússon, Reginald L. Hermanns, og Snævarr Guðmundsson. Greinin segir frá yfirvofandi skriðu- og flóðahættu, þegar jöklar hopa frá veikburða fjallshlíðum og lón myndast í bælinu sem jökullinn áður fyllti. Ef skriður falla í slík lón geta afleiðingarnar verið gríðarleg jökulhlaup. Við Fjallsárlón er slík hætta fyrir hendi og á þrem stöðum við jökulinn eru belti þar sem sá möguleiki er fyrir hendi að skriður falli. Eftir því sem lónin stækka verður sífellt líklegra að skriður nái að falla þau.

20 ára afmæli Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands

Á árinu fagnaði Fuglaathugunarstöð Suðausturlands 20 ára afmæli sínu og í tilefni þess var gefið út 20. ára afmælisrit. Þar má finna ýmsar skemmtilegar og fræðandi greinar tengdum fuglum og starfsemi stöðvarinnar. Starfsfólk Náttúrustofu Suðausturlands skrifuðu í ritið tvær greinar, „Samstarf Náttúrustofu Suðausturlands og Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands“ og „Frá blómaskeiði til válista: Saga skúmsathugana á Suðausturlandi“. Ritið var borið í öll hús í Sveitarfélaginu Hornafirði en áhugasamir aðilar utan sveitarfélagsins geta fengið ritið gegn stuðningsgreiðslu til Fuglaathugunarstöðvarinnar, kr. 3000 með því að senda beiðni á Brynjúlf Brynjólfsson (bjugnefja@smart.is). Fuglaathugunastöðin heldur einnig úti facebook síðu þar sem fylgjast má með störfum hennar.

 

Frá stofnun Náttúrustofu Suðausturlands árið 2013 hefur samstarf hennar við Fuglaathugunarstöðina verið af ýmsum toga en verkefni tengd helsingja og skúm hafa haft mestan sess. Það er þó ekki bara fjöldi verkefna sem stendur uppi sem ávöxtur samstarfsins heldur líka hversu gott það hefur verið. Hjálpsemi starfsmanna Fuglaathugunarstöðvarinnar hefur verið dýrmæt stoð fyrir starfsfólk Náttúrustofunnar og þekking þeirra á fuglum og öðru náttúrutengdu er ómetanleg auðlind inn í okkar vinnu. Við óskum Fuglaathugunarstöðinni hjartanlega til hamingju með stórafmælið, megi starf hennar halda áfram að blómstra og dafna. Einnig þökkum við kærlega fyrir gott samstarf og hlökkum til áframhaldandi samvinnuverkefna.

Afmælisrit Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands

Afmælisrit Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands

Nýr starfsmaður Náttúrustofu Suðausturlands

Í dag tók María Rúnarsdóttir (Maja) til starfa hjá Náttúrustofunni. Maja lauk B.Sc. prófi frá Landbúnaðarháskóla Íslands vorið 2022 í náttúru-og umhverfisfræði. Í lokaverkefni sínu þar rýndi hún upplifun þátttakenda í verkefninu loftslagsvænn landbúnaður. Að því loknu hélt hún til Stokkhólms og lauk þaðan M.Sc. prófi í vistfræði og líffræðilegri fjölbreytni. Þar var megináherslan lögð á rannsóknir á plöntum, streituvöldum plantna og á jarðvegi. Í meistaraverkefninu skoðaði hún þá tilgátu um hvort hitaþol æðplantna væri arfgengt og hvort hitaþolsbreytileikinn sem slíkur væri gagnlegur fyrir æðplöntur til að takast á við loftslagsbreytinga. Maja verður með aðsetur á Kirkjubæjarklaustri og við bjóðum hana hjartanlega velkomin til starfa.

Horft yfir eyjar Skarðsfjarðar, Langaneshólmi í forgrunni.

Náttúrustofa Suðausturlands hlýtur styrki

Undanfarið hefur Náttúrustofan hlotið styrki til fjögurra nýrra verkefna sem hefjast í sumar. Þann 6. mars hlutu tvö verkefnanna styrki frá Orkurannsóknarsjóði Landsvirkjunar upp á 2 milljónir hvort. Verkefnin snúa að rannsóknum á niturnámi í kolefnissnauðum jarðvegi annars vegar og smádýralífi í leirum Skarðsfjarðar hins vegar. Daginn eftir, 7. mars, fékk stofan einnig tvo styrki frá atvinnu- og rannsóknarsjóð Sveitarfélagsins Hornafjarðar, hlaut þar verkefnið niturnám í kolefnissnauðum jarðvegi annan styrk upp á 250.000 kr en einnig hlaut verkefnið kortlagning jarðmyndana við Höfn í Hornafirði styrk upp á 277.000 kr. Þann 10. mars hlaut stofan svo tvo verkefnastyrki til viðbótar frá Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar, fékk verkefnið smádýralíf í leirum Skarðsfjarðar annan styrk upp á 1,5 milljón en einnig fékk verkefnið áhrif vega á kolefnibúskap mýrlenda styrk upp á 1,6 milljón.

Niturnám í kolefnissnauðum jarðvegi

Róbert tekur á við styrkjum Orkurannsóknasjóðs Landsvirkjunar

Róbert tekur við styrkjum Orkurannsóknasjóðs Landsvirkjunar

Róbert Ívar Arnarsson stýrir verkefninu sem fellst í að skoða niturbindandi örverur í jarðvegi á Breiðamerkursandi og Skeiðarársandi. Aðstæður í umhverfi niturbindandi örverusamfélögum verða skoðaðar auk þess að athugað verður hvaða jarðvegseiginleikar stuðla að landnámi þeirra og hversu skilvirk uppsöfnun niturs í jarðvegi er sem hýsir þau samfélög. Lítið er vitað um þær lífverur sem bera ábyrgð á niturnámi á söndum Íslands og er þetta verkefni eitt af fyrstu skrefum í öflun á þeirri þekkingu.

Smádýralíf í leirum Skarðsfjarðar

Hólmfríður Jakobsdóttir fer með umsjón verkefnisins sem gengur út á að meta hvort breytingar hafa orðið á smádýralífi í leirum Skarðsfjarðar síðustu áratugi. Tekin verða sýni úr leirunum í Sílavík og Flóa í Skarðsfirði og gögnin borin saman við eldri úttekt frá árinu 1979. Einnig verða tekin sýni úr seti leiranna og kolefnismagn í þeim greint sem mun dýpka skilning okkar á kolefnisbúskap leiranna. Gögnin úr rannsókninni munu gefa yfirlit yfir smádýralíf á svæðinu sem nýtist meðal annars til að meta ástand svæðisins og áhrif t.d. vegna loftslagsbreytinga, svo sem breytinga á jökulám og landriss eða vegna athafna mannanna svo sem landfyllingar og mengunar.

Kortlagning jarðmyndana við Höfn í Hornafirði

Á síðustu árum hefur atvikast að í framkvæmdum eða skipulagi á Höfn var ekki gefinn gaumur að athyglisverðum jarðminjum. Þar má nefna Topphól sem var sprengdur burt fyrir tveim árum og merkilegar trjábolaafsteypur sem eru í hættu við iðnaðarsvæðið við Miðós á Höfn. Minnisblað um merkar jarðmenjar í bæjarlandi Hafnar var tekið saman haustið 2022 og sent umhverfis- og skipulagsvöldum. Athyglisverðar jarðmyndanir eru svo víða innan Hafnarbyggðar að kanna þarf hvort fleiri slíkar séu í grenndinni, þ. á m. eyjum og skerjum í fjörðunum. Markmið verkefnisins er að kanna berggrunn og skrásetja merkilegar jarðmyndanir. Yfirlitið um fágætar jarðmyndanir mun m.a. nýtast umhverfis- og skipulagsyfirvöldum í framtíðarskipulagi. Meðan verkið er unnið verður umhverfis- og skipulagsstjóra Sveitarfélagsins Hornafjarðar haldið upplýstum um verkið. Snævarr Guðmundsson fer með umsjón verkefnisins.

Áhrif vega á kolefnibúskap mýrlenda

Mýrlendi eru stærstu kolefnisgeymar á landi og varðveita um þriðjung af öllu kolefni sem finnst í jarðvegi á heimsvísu. Virkni mýrlendis sem kolefnisgeymis byggist á súrefnissnauðum aðstæðum í jarðvegi sem hægir á niðurbroti plöntuleifa. Rask á vatnsbúskapi mýrlenda getur aukið aðgengi súrefnis og komið af stað niðurbroti á plöntuleifum. Í Sveitarfélaginu Hornafirði, við Hornarfjarðarfljót, var nýlega lagður vegur í gegnum mýrlendi. Verkefninu er ætlað að meta afleiðingar lagningar nýs vegar um Hornafjaðarfljót en óljóst er hver áhrif hans eru á kolefnisforða mýranna. Skoðað verður hvort aukning hafi orðið á losun koltvísýrings úr jarðvegi, hvort breytingar hafi orðið á vatnshæð í jarðvegi og hvort aukning hafi orðið á hlutfalli steinefna í jarðveginum. Þessi rannsókn mun auka skilning okkar á áhrifum mannsins á náttúruna og nýtast til skilvirkari mótvægisaðgerða eftir sambærilegar framkvæmdir. Róbert Ívar Arnarsson fer með umsjón þessa verkefnis.

 

Við á Náttúrustofu Suðausturlands erum Orkurannsóknarsjóði Landsvirkjunar, atvinnu- og rannsóknasjóði Sveitarfélagsins Hornafjarðar og Rannsóknasjóði Vegargerðarinnar þakklát og fögnum því að verkefnin hafi hlotið brautargengi. Styrkveitingar sem þessar eru mikilvægar starfsemi stofunnar og styrkja mátt okkar til að sinna fjölbreyttum rannsóknum á náttúru Suðausturlands. Þær dýpka skilning okkar á náttúrlegu ferlum sem eru að verkum auk þess að afla betri upplýsinga um mikilvægi og fjölbreytileika náttúrunnar. Þetta er í þriðja skipti sem stofan fær styrk frá Orkurannsóknarsjóði Landsvirkjunar en áður hafa fengist styrkir fyrir rannsóknum á klettafrú og kolefnisbindingu og -flæði úr jarðvegi í Skaftárhreppi. Stofan hefur hlotið fjölmarga styrki út atvinnu- og rannsóknasjóði Sveitarfélagsins Hornafjarðar til ýmissa náttúrurannsókna í sveitarfélaginu. Stofan hefur einu sinni áður fengið styrk frá Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar. Við hlökkum til að sjá þessi verkefni verða að veruleika og erum spennt fyrir að niðurstöðum þeirra.

Styrkþegar atvinnu- og rannsóknarsjóðs sveitarfélagsins Hornafjarðar á Minningarhátíð sveitarfélagsins 2025. Mynd: Menningarmiðstöð Hornafjarðar

Styrkþegar atvinnu- og rannsóknarsjóðs Sveitarfélagsins Hornafjarðar á Menningarhátíð sveitarfélagsins 2025. Mynd: Menningarmiðstöð Hornafjarðar

 

 

Mynd eftir Snævarr Guðmundsson

Alþjóðadagur jökla

„Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir og þess vegna er gleðin ekki nauðsynleg, þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu.” 

   ― Halldór Laxness, Heimsljós 

Nýlega ákváðu Sameinuðu þjóðirnar að helga árið 2025 jöklum á hverfanda hveli og að 21. mars verði sérstakur árlegur alþjóðadagur jökla. Ákvörðunin markar því mjög helgan dag hér á landi enda hafa jöklar haft mikil áhrif á okkar samfélag, menningu og landslag. Jöklar hafa mótað Ísland og sett mark sitt á lífsbaráttuna hér meira en nokkurt annað afl.

Jöklar myndast þar sem kaldara er, eins og á fjöllum, og meira snjóar á vetrum en nær að bráðna á sumrin. Ef snjómassinn eykst með tímanum þá umbreytist hann smám saman í ís. Þegar tilskilinni þykkt er náð tekur massinn að hníga undan eigin þyngd og leita niður hlíðar. Þegar þessu marki er náð nefnum við hann jökul. Í fleiri tugþúsundir ára var Ísland hulið jöklum og með linnulausri hreyfingu þeirra mótaðist landslagið í það sem við þekkjum í dag.

Einn eiginleiki jökla er mikill rofmáttur og ber Ísland allt þess merki í landslagi sínu en þeir  móta þó ekki einungis fallegt landslag heldur nýtast þeir okkur á ýmsan hátt. Jöklar eru stærstu geymar ferskvatns í heiminum og svo er einnig á Íslandi. Í því vatni er oft að finna næringarefni úr möluðu seti sem er lykill að uppsprettu lífs í nærumhverfi þeirra og einnig myndar það vatn jökulár sem við beislum til að knýja heimili landsins, þau sömu heimili sem við byggjum í dölum og fjörðum landsins sem tálgaðir voru úr heilu fjöllunum af rofmætti jökla.

Jöklar eru einnig mikilvægir í baráttunni gegn loftlagsbreytingum en undir þeim er oft að finna þúsundir ára gömul lífræn efni eins og plöntuleifar sem hafa varðveist í tímanna rás. Þeir veita einnig stöðugleika en talið er að við það að jöklar rýrna minnki fargið á jarðskorpunni undir Íslandi og það muni valda meiri eldvirkni í framtíðinni. Fegurð þeirra er innblástur margra verka og sem náttúrufyrirbæri snerta óteljandi mörg hjörtu á heimsvísu. Töfrar jöklanna laðar einnig þúsundir ferðamanna til landsins sem gera sér oft margra daga ferðalag einungis til að upplifa návígi þess gríðarlega afls.

Á þessum degi eru því margar ástæður til að fagna jöklum en því miður til að syrgja líka. Frá síðustu aldamótum hafa íslenskir jöklar hopað mikið og hafa 70 smáir jöklar horfið vegna loftlagsbreytinga. Í dag þekja jöklar um 11% af flatarmáli Íslands en sú tala mun halda áfram að minnka næstu 200 árin þar til að þeir eru flestir horfnir og með því munu gríðarlegar afleiðingar á menningu og landslag fylgja. Þeirra viðvera er þar af leiðandi ekki gefin og er upplifun, stoðþjónusta og máttur þeirra því eitthvað sem komandi kynslóðir munu missa af. Í dag er því góður dagur til að hugsa inn á við um áhrif okkar á umhverfi, náttúru og komandi kynslóðir.

Ársfundur 2025 á Klaustri

Ársfundur Náttúrustofu Suðausturlands verður haldinn í Kirkjubæjarstofu, Kirkjubæjarklaustri mánudaginn 17. mars 2025 kl. 16:00. Við bjóðum alla velkomna að mæta en fyrir þá sem sjá sér ekki fært að mæta á Klaustur verður fundinum einnig streymt á Teams á linknum hér: https://shorturl.at/oRqLq.

Lesa meira

Nýr starfsmaður Náttúrustofu Suðausturlands

Þann 13. janúar tók til starfa nýr starfsmaður hjá Náttúrustofunni, Róbert Ívar Arnarsson. Róbert er með B.Sc. gráðu í líffræði og er að ljúka við M.Sc. gráðu í landfræði frá Háskóla Íslands. Í námi sínu lagði hann áherslu á jarðvegs- og vistfræði með sérstöku tilliti til örverulífs og er lokaverkefni hans um áhrifaþætti umhverfis á virknisbreytileika örverusamfélaga í lífrænum jarðvegi. Róbert hefur áður starfað hjá Háskóla Íslands við mælingar á kolefnisforða ræktarlands og hjá Landgræðslunni við ýmis rannsóknartengd sumarstörf. Áherslusvið Róberts eru virkni vistkerfa og hvernig þau móta og eru mótuð af lífríkinu sem þar finnast, með sérstöku tilliti til jarðvegs og jarðvegslífs. Róbert verður með aðsetur á Kirkjubæjarklaustri og bjóðum við hann hjartanlega velkomin til starfa.