Færslur

Helsingjaungar í Skúmey

Varpútbreiðsla helsingja 2023

Nú er komið á netið minnisblað um helsingjavöktun á Íslandi árið 2023 sem Náttúrustofa Suðausturlands vann í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands. Aukning í íslenska varpstofninum heldur áfram en heildarfjöldi varppara var nú metinn 3121 pör, til samanburðar voru metin 2493 pör árið 2020 og 2052 pör árið 2019. Það er u.þ.b. 18% aukning milli áranna 2019 og 2020 og 20% aukning frá 2020 til 2023. Þegar árlegar talningar úr helsingjavarpinu í Skúmey í Jökulsárlóni er skoðaðar til samanburðar kemur í ljós fækkun í Skúmey árið 2023 miðað við tvö árin þar áður. Þetta er vísbending um að heildarstofn helsingja á Íslandi gæti hafa verið stærri árin 2021 og 2022 og fækkun í Skúmey endurspegli áhrif fuglaflensu á stofnstærðina. Við þessa úttekt var mestur fjöldi varppara í Skúmey en misjafnt er milli svæða hvort aukning eða fækkun hafi orðið í fjölda varppara. Árið 2023 var tekið út varp á tveimur nýjum svæðum; í Ölfusi og í austfirsku eyjunum Seley og Andey. Stefnt er að því að fylgjast áfram með þeim svæðum. Heildarstofnmat helsingja á Íslandi svipar mjög til síðasta mats en stofninn var talinn vera 11.349 fuglar árið 2023 en 11.600 árið 2020. Lesa má meira um helsingjavöktunina 2023 hér.

Áður voru gerðar heildarúttektir á varpi helsingja, árin 2019 og 2020. Í tengslum við AEWA (African – Eurasian Migratory Waterbird Agreement) og EGMIWG (European Goose Management International Working Group) hefur frá 2020 verið samstarf milli Íslands og Breta og Íra um helsingjavöktun, bæði íslenska og grænlenska varpstofnsins. Samkvæmt rannsóknaráætlun verkefnisins á íslenski varpstofninn að vera metin sömu árin og heildartalning á vetrarstöðvum í Bretlandi og Írlandi fer fram. Hefur það nú verið gert árin 2020 og 2023 en til stendur að næsta mat verði framkvæmt árið 2026.

Helsingjaungi vorið 2020

Varpútbreiðsla helsingja á Suðausturlandi 2019 og 2020

Nú eru komin á netið tvö minnisblöð frá kortlagningu varpútbreiðslu helsingja síðustu tveggja sumra. Helsingi er tiltölulega nýr varpfugl á Íslandi og er aðalvarpútbreiðsla hans í Skaftafellssýslum og höfum við á Náttúrustofunni lagt áherslu á að fylgjast náið með framvindunni. Heildstæð hreiðurtalning fór fram í fyrsta skipti árið 2019 sem var samstarfsverkefni Náttúrustofu Suðausturlands og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Verkefnið var styrkt af Vinum Vatnajökuls og kunnum við samtökunum bestu þakkir. Alls fundust 2051 helsingjahreiður í úttektinni, 1760 hreiður í Austur-Skaftafellssýslu og 292 í Vestur-Skaftafellssýslu.

Sumarið 2020 var kortlagningin unnin í tengslum við AEWA (African – Eurasian Migratory Waterbird Agreement) og EGMIWG (European Goose Management International Working Group) en verkefnið er í samvinna við Breta og Íra um vöktun íslenska varpstofnsins og þess grænlenska. Samkvæmt rannsóknaáætlun á að meta íslenska varpstofninn sömu ár og heildartalning fer fram á vetrarstöðvum á Bretlandseyjum, þ.e. 2020, 2023 og 2026. Sumarið 2020 fundust í heild 2493 helsingjahreiður í Skaftafellssýslum, 421 í Vestur-Skaftafellssýslu og 2072 í Austur-Skaftafellssýslu. Vitað er að helsingjastofninn verpur víðar í litlum mæli og því er stofnmat helsingja á Íslandi 2500 varpör vorið 2020, auk geldfugla. Fjöldi geldfugla er áætlaður frá hlutfalli geldfugla í vörpum þar sem heildartalning er möguleg. Út frá því og fjölda varppara er metið að stofnstærð íslenskra helsingja árið 2019 hafi verið um 9000 fuglar (geldfugl 54,3%) og 2020 um 11.600 fuglar (geldfugl 57,4%). Heildartalning Grænlandsstofns (þ.m.t. íslenski varpstofninn) á vetrarstöðvum í mars 2020 gaf 73.391 fugl en ef marka má heildarstofnmat á Íslandi sama vor þá er hlutdeild íslenskra helsingja orðin 15,8% (var um 12,5% 2019).

Þetta og meira má lesa í minnisblöðunum sem finna má hér fyrir árið 2019 og hér fyrir árið 2020.