Færslur

Horft yfir eyjar Skarðsfjarðar, Langaneshólmi í forgrunni.

Náttúrustofa Suðausturlands hlýtur styrki

Undanfarið hefur Náttúrustofan hlotið styrki til fjögurra nýrra verkefna sem hefjast í sumar. Þann 6. mars hlutu tvö verkefnanna styrki frá Orkurannsóknarsjóði Landsvirkjunar upp á 2 milljónir hvort. Verkefnin snúa að rannsóknum á niturnámi í kolefnissnauðum jarðvegi annars vegar og smádýralífi í leirum Skarðsfjarðar hins vegar. Daginn eftir, 7. mars, fékk stofan einnig tvo styrki frá atvinnu- og rannsóknarsjóð Sveitarfélagsins Hornafjarðar, hlaut þar verkefnið niturnám í kolefnissnauðum jarðvegi annan styrk upp á 250.000 kr en einnig hlaut verkefnið kortlagning jarðmyndana við Höfn í Hornafirði styrk upp á 277.000 kr. Þann 10. mars hlaut stofan svo tvo verkefnastyrki til viðbótar frá Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar, fékk verkefnið smádýralíf í leirum Skarðsfjarðar annan styrk upp á 1,5 milljón en einnig fékk verkefnið áhrif vega á kolefnibúskap mýrlenda styrk upp á 1,6 milljón.

Niturnám í kolefnissnauðum jarðvegi

Róbert tekur á við styrkjum Orkurannsóknasjóðs Landsvirkjunar

Róbert tekur við styrkjum Orkurannsóknasjóðs Landsvirkjunar

Róbert Ívar Arnarsson stýrir verkefninu sem fellst í að skoða niturbindandi örverur í jarðvegi á Breiðamerkursandi og Skeiðarársandi. Aðstæður í umhverfi niturbindandi örverusamfélögum verða skoðaðar auk þess að athugað verður hvaða jarðvegseiginleikar stuðla að landnámi þeirra og hversu skilvirk uppsöfnun niturs í jarðvegi er sem hýsir þau samfélög. Lítið er vitað um þær lífverur sem bera ábyrgð á niturnámi á söndum Íslands og er þetta verkefni eitt af fyrstu skrefum í öflun á þeirri þekkingu.

Smádýralíf í leirum Skarðsfjarðar

Hólmfríður Jakobsdóttir fer með umsjón verkefnisins sem gengur út á að meta hvort breytingar hafa orðið á smádýralífi í leirum Skarðsfjarðar síðustu áratugi. Tekin verða sýni úr leirunum í Sílavík og Flóa í Skarðsfirði og gögnin borin saman við eldri úttekt frá árinu 1979. Einnig verða tekin sýni úr seti leiranna og kolefnismagn í þeim greint sem mun dýpka skilning okkar á kolefnisbúskap leiranna. Gögnin úr rannsókninni munu gefa yfirlit yfir smádýralíf á svæðinu sem nýtist meðal annars til að meta ástand svæðisins og áhrif t.d. vegna loftslagsbreytinga, svo sem breytinga á jökulám og landriss eða vegna athafna mannanna svo sem landfyllingar og mengunar.

Kortlagning jarðmyndana við Höfn í Hornafirði

Á síðustu árum hefur atvikast að í framkvæmdum eða skipulagi á Höfn var ekki gefinn gaumur að athyglisverðum jarðminjum. Þar má nefna Topphól sem var sprengdur burt fyrir tveim árum og merkilegar trjábolaafsteypur sem eru í hættu við iðnaðarsvæðið við Miðós á Höfn. Minnisblað um merkar jarðmenjar í bæjarlandi Hafnar var tekið saman haustið 2022 og sent umhverfis- og skipulagsvöldum. Athyglisverðar jarðmyndanir eru svo víða innan Hafnarbyggðar að kanna þarf hvort fleiri slíkar séu í grenndinni, þ. á m. eyjum og skerjum í fjörðunum. Markmið verkefnisins er að kanna berggrunn og skrásetja merkilegar jarðmyndanir. Yfirlitið um fágætar jarðmyndanir mun m.a. nýtast umhverfis- og skipulagsyfirvöldum í framtíðarskipulagi. Meðan verkið er unnið verður umhverfis- og skipulagsstjóra Sveitarfélagsins Hornafjarðar haldið upplýstum um verkið. Snævarr Guðmundsson fer með umsjón verkefnisins.

Áhrif vega á kolefnibúskap mýrlenda

Mýrlendi eru stærstu kolefnisgeymar á landi og varðveita um þriðjung af öllu kolefni sem finnst í jarðvegi á heimsvísu. Virkni mýrlendis sem kolefnisgeymis byggist á súrefnissnauðum aðstæðum í jarðvegi sem hægir á niðurbroti plöntuleifa. Rask á vatnsbúskapi mýrlenda getur aukið aðgengi súrefnis og komið af stað niðurbroti á plöntuleifum. Í Sveitarfélaginu Hornafirði, við Hornarfjarðarfljót, var nýlega lagður vegur í gegnum mýrlendi. Verkefninu er ætlað að meta afleiðingar lagningar nýs vegar um Hornafjaðarfljót en óljóst er hver áhrif hans eru á kolefnisforða mýranna. Skoðað verður hvort aukning hafi orðið á losun koltvísýrings úr jarðvegi, hvort breytingar hafi orðið á vatnshæð í jarðvegi og hvort aukning hafi orðið á hlutfalli steinefna í jarðveginum. Þessi rannsókn mun auka skilning okkar á áhrifum mannsins á náttúruna og nýtast til skilvirkari mótvægisaðgerða eftir sambærilegar framkvæmdir. Róbert Ívar Arnarsson fer með umsjón þessa verkefnis.

 

Við á Náttúrustofu Suðausturlands erum Orkurannsóknarsjóði Landsvirkjunar, atvinnu- og rannsóknasjóði Sveitarfélagsins Hornafjarðar og Rannsóknasjóði Vegargerðarinnar þakklát og fögnum því að verkefnin hafi hlotið brautargengi. Styrkveitingar sem þessar eru mikilvægar starfsemi stofunnar og styrkja mátt okkar til að sinna fjölbreyttum rannsóknum á náttúru Suðausturlands. Þær dýpka skilning okkar á náttúrlegu ferlum sem eru að verkum auk þess að afla betri upplýsinga um mikilvægi og fjölbreytileika náttúrunnar. Þetta er í þriðja skipti sem stofan fær styrk frá Orkurannsóknarsjóði Landsvirkjunar en áður hafa fengist styrkir fyrir rannsóknum á klettafrú og kolefnisbindingu og -flæði úr jarðvegi í Skaftárhreppi. Stofan hefur hlotið fjölmarga styrki út atvinnu- og rannsóknasjóði Sveitarfélagsins Hornafjarðar til ýmissa náttúrurannsókna í sveitarfélaginu. Stofan hefur einu sinni áður fengið styrk frá Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar. Við hlökkum til að sjá þessi verkefni verða að veruleika og erum spennt fyrir að niðurstöðum þeirra.

Styrkþegar atvinnu- og rannsóknarsjóðs sveitarfélagsins Hornafjarðar á Minningarhátíð sveitarfélagsins 2025. Mynd: Menningarmiðstöð Hornafjarðar

Styrkþegar atvinnu- og rannsóknarsjóðs Sveitarfélagsins Hornafjarðar á Menningarhátíð sveitarfélagsins 2025. Mynd: Menningarmiðstöð Hornafjarðar

 

 

Rúmlega tuttugu manns komu í fræðslugöngu og gengu að Háuklettum í Botnum þar sem þessi mynd var tekin í þó nokkurri rigningu

Blautir Botnar í blómaskrúð

Síðastliðinn föstudag, 21. júní, stóð náttúrustofan fyrir fræðslugöngu um Botna í Meðallandi. Gangan var skipulögð í samstarfi við landeigendur, Vatnajökulsþjóðgarð og Ungmennafélagið ÁS í tilefni Dags hinna villtu blóma. Gengið var frá Botnabænum að Háuklettum, fram hjá Trjágróf og að lokum var boðið upp á kaffi í glæsilegum garðskála.

Dagur hinna villtu blóma er árlegur Norrænn viðburður þar sem boðið er upp á plöntuskoðunarferðir. Dagurinn er í reynd þann 16. júní en við ákváðum að halda upp á hann föstudaginn 21. júní og sameina skemmtigöngum sem Ungmennafélagið ÁS stendur fyrir á föstudögum í sumar.

Bæjarstæðið Í Botnum er um margt sérstakt en þar mætast þrjú hraunlög. Það elsta og syðsta er Botnahraunið sem rann úr Hálsagígum fyrir um 5.300 árum síðan. Ofan á því liggur þykkur hraunbunki sem upprunninn er úr Eldgjárgosinu um 934-940. Þetta hraun er það mesta sem runnið hefur á Íslandi, og heiminum öllum, frá landnámi og hefur verið gríðarlegur hörmungaatburður. Í dag er hraunið vel gróið móa og birkikjarri og undan því spretta fjölmargar lindir sem renna í Eldvatn í Meðallandi. Í Skaftáreldum árið 1783 rann svo þriðja hraunið á þessu svæði. Það kom úr Lakagígum og er það næstmesta frá landnámi Íslands. Eldhraunið úr Skaftáreldum rann yfir gamla bæinn í Botnum en stöðvaðist á sandöldu og hér má því sjá þessi þrjú hraun mætast og lindirnar spretta undan hverju og einu þeirra. Skaftáreldahraunið er frábrugðið hinum hraununum að því leyti að það er hulið þykkri, mjúkri mosamottu en hin hraunin vaxin móagróðri.

Rúmlega tuttugu manns mættu í fræðslugönguna í Botnum og veltu fyrir sér sögunni, hraunlögum, gróðri og lindarvatni. Við þökkum kærlega fyrir góða þátttöku og skemmtilega samveru þrátt fyrir vætu. Sérstaklega viljum við þakka landeigendum í Botnum fyrir að taka á móti okkur og Vatnajökulsþjóðgarði fyrir gott kaffi að göngu lokinni.

Orkurannsóknasjóður styrkir rannsóknir á klettafrú

Náttúrustofa Suðausturlands hefur hlotið 1,5 milljón króna styrk frá Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar til rannsókna á lífsferli klettafrúar í Skaftárhreppi og Sveitarfélaginu Hornafirði. Verkefninu er stýrt af Álfi Birkir Bjarnasyni, starfsmanni náttúrustofunnar, og miðar að því að afla þekkingar á lykilþáttum lífsferils klettafrúar á Íslandi.

Lesa meira

Grógos – verkefni lokið

Á vormánuðum 2023 gáfu Náttúrustofa Suðausturlands og Landgræðslan út lokaskýrslu verkefnisins Grógos – Mat á áfallaþoli vistkerfa á áhrifasvæði Skaftárhlaupa gagnvart ákomu sets og fokefna. Markmið verkefnisins var að kortleggja áhrif Skaftárhlaupa á gróður við farveg Skaftár sunnan Skaftárdals og með því greina tegundir og búsvæði sem best þola álagið. Slík þekking gerir okkur fært að beita náttúrulegum lausnum til að bregðast við þeim vanda sem Skaftárhlaupin valda. Lesa meira

Rör fyrir mælingar

Nýsköpunarverkefni á vegum Náttúrustofu Suðausturlands fékk 8.5 milljóna styrk

Fyrir nokkru úthlutaði Loftslagssjóður styrkjum í verkefni ársins 2021 en hlutverk sjóðsins er að styðja við verkefni sem lúta nýsköpun á sviði loftslagsmála og kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga. Þetta er í annað sinn sem úthlutað er úr sjóðnum, en hann heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðherra.

Nýtt verkefni

Eitt þeirra nýsköpunarverkefna sem fékk styrk var verkefnið „Kolefnisforði og CO2 flæði úr jarðvegi – samstarfsverkefni um vöktun á völdum landgerðum“. Umsækjandi verkefnisins er Náttúrustofa Suðausturlands og meðumsækjandi er Landgræðslan. Aðrir samstarfsaðilar verkefnisins eru: Ólafur S. Andrésson sem hefur undanfarin misseri hannað og þróað smíði á smátæki sem mælir losun CO2 úr jarðvegi, sveitarfélagið Skaftárhreppur, Mor-nefndin -samstarfsnefnd Skaftárhrepps, Landgræðslunnar og Skógræktarinnar og Sveitarfélagið Hornafjörður.

Verkefnastjóri

Verkefnið er unnið til eins árs og verkefnisstjóri er Rannveig Ólafsdóttir, sérfræðingur hjá Náttúrustofu Suðausturlands, búsett og starfandi í Skaftárhreppi. Markmið verkefnisins er að mæla kolefnisforða á fjórum stöðum, ásamt CO2 flæði úr þurrlendisjarðvegi í Skaftárhreppi og þannig er hægt að áætla heildarlosun eða bindingu úr völdum vistgerðum með nokkuð góðri vissu.

Hugmyndin

Hugmyndin að verkefninu kviknaði eftir að íslensk stjórnvöld gáfu út aðgerðaáætlun sína í loftslagsmálum. Þar eru sett markmið um að minnsta kosti 40% samdrátt á losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030, og kolefnishlutleysi árið 2040. Jafnframt er stefnt á gríðarlega aukna bindingu kolefnis vegna landnotkunar eða um +515% aukningu frá 2005 til 2030. Landnotkun (e.Land Use, Land Use Change and Forestry, skammstafað LULUCF) er einn stærsti losunarþáttur gróðurhúsalofttegunda sem standa þarf skil á gagnvart Parísarsamningnum en rekja má um fjórðung allrar losunar á heimsvísu til landnotkunar. Þessi þáttur er jafnvel enn mikilvægari á Íslandi, þar sem um 65% losun gróðurhúsalofttegunda á landsvísu er rakin til landnotkunar og um 86% losunar fyrir Suðurland. Losunarbókhald vegna landnotkunar og skógræktar er skemmra á veg komið en fyrir aðrar uppsprettur eins og til dæmis losun frá jarðefnaeldsneyti og iðnaðarferlum enda er um flókna vistfræðilega ferla að ræða og mikinn breytileika eftir aðstæðum.

Því þarf að gera stórauknar kröfur um mælingar á losun CO2 frá jarðvegi til að hafa árreiðanlegar upplýsingar í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum. Fjölga þarf mælingum og í fjölbreyttari landgerðum en gert hefur verið hingað til.

Búnaðurinn sem verður notaður

Náttúrustofa Suðausturlands hefur fjárfest í alþjóðlega vottuðum dýrum mælibúnaði frá PP systems sem mælir bæði bindingu og losun CO2 úr jarðvegi. Hefur slíkur búnaður verið prófaður og notaður með góðum árangri hjá Landgræðslunni. Samhliða mælingum á CO2 úr jarðvegi verður notast við nýjan íslenskan tækjabúnað sem hefur verið þróaður með styrk frá Loftslagssjóði á síðasta ári. Íslenski ódýrari búnaðurinn er talinn tilbúinn til almennrar notkunar en hefur ekki verið prófaður við skipulagðar mælingar eða staðlaður með annarskonar mælingum. Hér gefst því kostur á að prófa fýsileika þessa nýja búnaðar og fá samanburð við mælingar gerðar með viðurkenndum búnaði.

Markmið

Markmiðið er að gögn og niðurstöður sem safnast með verkefninu nýtist m.a. sveitarfélaginu Skaftárhreppi til að ná árangri í loftslagsmálum í gegnum skipulagsgerð. Skaftárhreppur er annað landstærsta sveitarfélag landsins og um þessar mundir er verið að vinna í nýju aðalskipulagi sem tekur mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og eru þar aðgerðir í loftslagsmálum sérstaklega dregnar fram. Að draga úr kolefnislosun og auka kolefnisbindingu hjá sveitarfélagi sem byggir að stórum hluta afkomu sína á hefðbundnum landbúnaði er mikil áskorun. Með niðurstöðum sem fást úr verkefninu verða til gögn um kolefnisbúskap landflokka og þannig hægt að kortleggja hvar jarðvegur er að tapa kolefni og hvar það bindst. Með þær niðurstöður er hægt að hefja samræður um hvar best væri að auka útbreiðslu náttúruskóga, endurheimta votlendi, hefja skógrækt, friða fyrir beit o.s.frv. Niðurstöður fyrir hvern undirflokk sem mældur er mun einnig nýtast öðrum sveitarfélögum á landsvísu eða landeigendum með sambærilegar vistgerðir til að meta kolefnisbúskap sinna landgerða og gera áætlanir fyrir breytta landnotkun með það að markmiði að draga úr losun eða auka bindingu.

Ný þekking og bætt loftslagsbókhald

Síðast en ekki síst skapast þekking og störf í heimabyggð og reynsla fæst í samstarfi ólíkra aðila um vöktunarmælingar á kolefnisforða lands og breytingum þar á, sem myndi nýtast til að setja upp og þróa sambærilegt samstarf á landsvísu. Verður verkefnið liður í mikilvægu framlagi til að afla betri þekkingar á losun CO2 frá mismunandi landgerðum á Íslandi sem bætir loftslagsbókhald Íslands.

Allir aðstandendur og starfsmenn Náttúrustofu Suðausturlands eru ánægðir og þakklátir fyrir styrkinn sem fékkst í þetta verkefni.

Rannveig Ólafsdóttir og Kristín Hermannsdóttir

Samstarfsaðilar setja niður mælireiti

Á myndinni eru talið frá vinstri; Elín Erla Káradóttir sumarstarfsmaður hjá Náttúrustofu Suðausturlands, Rannveig Ólafsdóttir Náttúrustofu Suðausturlands, og Jóhann Þórsson frá Landgræðslunni. Verið er að setja niður mælirör í jarðveginn 21. apríl 2021.

Rör fyrir mælingar

Rörin eru sett niður í mismunandi landgerðum í Skaftárhreppi. Þannig er hægt að mæla losun og bindingu á hverjum stað.

Þurrlendi í Landbroti

Frá Landbroti í Skaftárhreppi (Mynd Náttúrustofa Suðausturlands 21. April 2021)