Færslur

Mynd eftir Snævarr Guðmundsson

Alþjóðadagur jökla

„Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir og þess vegna er gleðin ekki nauðsynleg, þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu.” 

   ― Halldór Laxness, Heimsljós 

Nýlega ákváðu Sameinuðu þjóðirnar að helga árið 2025 jöklum á hverfanda hveli og að 21. mars verði sérstakur árlegur alþjóðadagur jökla. Ákvörðunin markar því mjög helgan dag hér á landi enda hafa jöklar haft mikil áhrif á okkar samfélag, menningu og landslag. Jöklar hafa mótað Ísland og sett mark sitt á lífsbaráttuna hér meira en nokkurt annað afl.

Jöklar myndast þar sem kaldara er, eins og á fjöllum, og meira snjóar á vetrum en nær að bráðna á sumrin. Ef snjómassinn eykst með tímanum þá umbreytist hann smám saman í ís. Þegar tilskilinni þykkt er náð tekur massinn að hníga undan eigin þyngd og leita niður hlíðar. Þegar þessu marki er náð nefnum við hann jökul. Í fleiri tugþúsundir ára var Ísland hulið jöklum og með linnulausri hreyfingu þeirra mótaðist landslagið í það sem við þekkjum í dag.

Einn eiginleiki jökla er mikill rofmáttur og ber Ísland allt þess merki í landslagi sínu en þeir  móta þó ekki einungis fallegt landslag heldur nýtast þeir okkur á ýmsan hátt. Jöklar eru stærstu geymar ferskvatns í heiminum og svo er einnig á Íslandi. Í því vatni er oft að finna næringarefni úr möluðu seti sem er lykill að uppsprettu lífs í nærumhverfi þeirra og einnig myndar það vatn jökulár sem við beislum til að knýja heimili landsins, þau sömu heimili sem við byggjum í dölum og fjörðum landsins sem tálgaðir voru úr heilu fjöllunum af rofmætti jökla.

Jöklar eru einnig mikilvægir í baráttunni gegn loftlagsbreytingum en undir þeim er oft að finna þúsundir ára gömul lífræn efni eins og plöntuleifar sem hafa varðveist í tímanna rás. Þeir veita einnig stöðugleika en talið er að við það að jöklar rýrna minnki fargið á jarðskorpunni undir Íslandi og það muni valda meiri eldvirkni í framtíðinni. Fegurð þeirra er innblástur margra verka og sem náttúrufyrirbæri snerta óteljandi mörg hjörtu á heimsvísu. Töfrar jöklanna laðar einnig þúsundir ferðamanna til landsins sem gera sér oft margra daga ferðalag einungis til að upplifa návígi þess gríðarlega afls.

Á þessum degi eru því margar ástæður til að fagna jöklum en því miður til að syrgja líka. Frá síðustu aldamótum hafa íslenskir jöklar hopað mikið og hafa 70 smáir jöklar horfið vegna loftlagsbreytinga. Í dag þekja jöklar um 11% af flatarmáli Íslands en sú tala mun halda áfram að minnka næstu 200 árin þar til að þeir eru flestir horfnir og með því munu gríðarlegar afleiðingar á menningu og landslag fylgja. Þeirra viðvera er þar af leiðandi ekki gefin og er upplifun, stoðþjónusta og máttur þeirra því eitthvað sem komandi kynslóðir munu missa af. Í dag er því góður dagur til að hugsa inn á við um áhrif okkar á umhverfi, náttúru og komandi kynslóðir.

Árið 2025 verður alþjóðaár jökla

 

Laugardaginn 17. ágúst 2024 var haldin viðburðaröð á vegum Rice háskóla, Jöklarannsóknafélags Íslands, Náttúruminjasafns Íslands, Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, Alþjóðlegu jöklavöktunarsamtakanna (World Glacier Monitoring Service, WGMS) og Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO), þar sem vakin var athygli á jöklum sem hafa horfið á undanförnum áratugum eða eru að hverfa. Viðburðaröðin helgast af því að Sameinuðu þjóðirnar ákváðu fyrir stuttu að árið 2025 yrði alþjóðaár jökla og að 21. mars verði eftirleiðis dagur jökla.

Hörfun jökla er að gerast alls staðar á jörðinni og birtist sem beisk táknmynd hinna hröðu loftslagsbreytinga sem nú eiga sér stað. Til þess að undirstrika hremmingarnar var á viðburðaröðinni settur upp eins konar „grafreitur“ þar sem að heiti 15 valinna jökla, sem eru horfnir eða á hverfanda hveli, voru skráð á legsteina úr ís. Þeir höfðu verið skornir út af myndhöggvaranum Ottó Magnússyni. Þessir jöklar eru staðsettir víðs vegar á jörðinni og er einn þeirra á Íslandi. Frásagnir og lýsingar á þessum völdu jöklum má finna á vefsíðunni Global Glacier Casualty List. Á meðal jökla á válista er Hofsjökull eystri á suðausturlandi. Frásögnin af honum var tekin saman og rituð af Snævari Guðmundssyni hjá Náttúrustofu Suðausturlands.

Þrándarjökull (fremst), Hofsjökull eystri (ofar til vinstri) og í fjarska er Vatnajökull. Ljósm. Snævarr Guðmundsson, 9. september, 2021.

Þrándarjökull (fremst), Hofsjökull eystri (ofar til vinstri) og í fjarska er Vatnajökull. Ljósm. Snævarr Guðmundsson, 9. september, 2021.

 

Þolmarkarannsókn á Breiðamerkursandi

Náttúrustofa Suðausturlands og Nýheimar Þekkingarsetur vinna nú að rannsókn á þolmörkum við Jökulsárlón og á Breiðamerkursandi. Er þetta samstarfsverkefni unnið fyrir Vatnajökulsþjóðgarð með aðkomu Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði, annarra fagstofnana og sérfræðinga Vatnajökulsþjóðgarðs. Verkefnið hófst í ágúst 2021 og hefur verið unnið að gagnaöflum og samráði við sérfræðinga. Áætluð verklok eru lok árs 2022 með skýrsluskrifum og þar verður sett fram aðgerðaráætlun. Verkefnastjóri er Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir. Lesa meira