Jöklar á hverfanda hveli
Í september 2024 sögðum við hjá Náttúrustofu Suðausturlands frá því að Sameinuðu þjóðirnar ætluðu að helga árinu 2025 m.a. jöklum, sem eru á hverfanda hveli, og verður árið notað til að vekja athygli á þeim. Jöklar hafa mikilvægt hlutverk vatnfræðilega og veðurfarslega en líka mikla samfélagslega og efnahagslega þýðingu hér á landi þar sem að fjöldi ferðamanna leggur leið sína til landsins til þess að kynnast jöklum. Við á Náttúrustofunni látum ekki okkar kyrrt liggja og tökum þátt í að vekja athygli, meðal annars með greinaskrifum.
Snævarr Guðmundsson, starfsmaður stofunnar hefur komið að ritun tveggja greina um íslenska jökla sem nýlega hafa verið gefnar út og sú þriðja er á vinnslustigi. Í nýjasta ársriti Jöklarannsóknafélagsins, Jökli nr. 74., birtist ritrýnd grein: „Nunataks and medial moraines of Breiðamerkurjökull, Southeast Iceland“ sem rituð var af Snævari, Helga Björnssyni, David J. A. Evans og Finni Pálssyni. Í henni er annars vegar rakin framvinda jökulbreytinga við níu jökulsker sem hafa stungið upp kolli í Breiðamerkurjökli frá því á þriðja áratug 20. Aldar. Jökulrýrnunin veldur því að þau verða sífellt meira áberandi en einnig hafa þau áhrif á ísflæði jökulsins. Hins vegar er kynnt áhrif jökulhopsins á urðarana á jöklinum eða „röndunum“ eins og Öræfingar jafnan kalla þær. Rendurnar hafa hnikast til vegna breytilegs ísflæðis frá misstórum safnsvæðum.
Grein tvö er einnig ritrýnd og birtist í EGU Natural Hazards and Earth Sciences fyrir stuttu: “ Proglacial lake development and outburst flood hazard at Fjallsjökull glacier, southeast Iceland„. Höfundar eru Greta H. Wells, Þorsteinn Sæmundsson, Finnur Pálsson, Guðfinna Aðalgeirsdóttir, Eyjólfur Magnússon, Reginald L. Hermanns, og Snævarr Guðmundsson. Greinin segir frá yfirvofandi skriðu- og flóðahættu, þegar jöklar hopa frá veikburða fjallshlíðum og lón myndast í bælinu sem jökullinn áður fyllti. Ef skriður falla í slík lón geta afleiðingarnar verið gríðarleg jökulhlaup. Við Fjallsárlón er slík hætta fyrir hendi og á þrem stöðum við jökulinn eru belti þar sem sá möguleiki er fyrir hendi að skriður falli. Eftir því sem lónin stækka verður sífellt líklegra að skriður nái að falla þau.