Jöklar hopa

 

Náttúrustofa Suðausturlands hefur tekið að sér vöktun nokkurra skriðjökla í Öræfajökli. Verkefnið er unnið í samstarfi við Jöklarannsóknafélag Íslands og jöklahóp Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands. Starfsmaður Náttúrustofu fór 20. október og mældi sporðastöðu Breiðamerkurjökuls, Kvíárjökuls, Hrútárjökuls og Fjallsjökuls. Þann 3. nóvember var gengið með GPS  tæki meðfram sporði Fláajökuls á kafla (sjá mynd).

Frá árinu 2010 hafa jöklarnir rýrnað talsvert en hop þeirra er breytilegt. Á þessu tímabili hefur Breiðamerkurjökull hopað 200 – 300 m  upp af Nýgræðukvíslum, eða um 65 – 100 m/ári. Sporður Fláajökuls, austan Jökulfells hefur hopað um 40 – 100 m frá árinu 2010. Svipað hop átti stað á Hrútárjökli. Sá hluti Kvíárjökuls sem var mældur í þetta sinn hefur ýmist stað í stað eða gengið lítillega fram (~20 m) samanborið við sporðastöðu árið 2010.

14. nóvember fóru starfsmenn Náttúrustofu Suðausturlands að Heinabergsjökli ásamt nemendum og kennurum í Framhaldsskólanum í Austur Skaftafellssýslu (FAS) og fylgdust með  mælingum þeirra á jöklinum. Þær eru hluti af náttúrufarsrannsóknum sem kenndar eru og FAS sinnir. Sjá athuganir þeirra á slóðinni: http://nattura.fas.is/index.php/joklamaelingar.

 

Myndina tók Kristín Hermannsdóttir

Óvissuferð

Föstudaginn 1. nóvember var haldin ráðstefna á Hótel Höfn á vegum Ríkis Vatnajökuls sem nefnd var „Tilvist og tækifæri“. Þegar ráðstefnunni lauk tók við óvissuferð sem var í samvinnu við Náttúrustofu Suðausturlands.

Ferðin hófst í Óslandi þar sem kynnt var hugmynd að sólkerfislíkani sem Náttúrustofa  Suðausturlands hyggst koma upp. Í því er gert ráð fyrir að sólin sé staðsett á hæsta punkti í Óslandi en reikistjörnurnar verða í réttum stærðar og fjarlægðarhlutföllum meðfram göngustíg sem liggur vestanmegin við Höfn, alla leið að Silfurnesgolfvelli. Frá Sólinni var gengið að Merkúríus, Venus, Jörðinni, Mars, smástirninu Ceres, Júpiter og Satúrnus en bent var á hvar Úranus og Neptúnus yrðu staðsettar. Staldrað var við hverja reikistjörnu og viðstaddir fræddir um þær. Þar sem vindurinn var hvass og kalt í veðri, voru stoppin ekki löng á hverjum stað.  Að síðustu var stoppað á Leiðarhöfða þar sem ánægjulegri en vindasamri óvissuferð lauk.

 

Myrkurgæði – greinargerð

Út er komin greinargerð hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu um myrkurgæði og tillögur um hvernig sporna megi við ljósmengun á Íslandi, bæði í þéttbýli og dreifbýli.  Starfsmaður Náttúrustofu Suðausturlands, Snævarr Guðmundsson vann ásamt fleirum í starfshópi að þessari greinargerð, en starfshópurinn hefur starfað síðan í mars 2012 og var Mörður Árnason formaður hans.

Í tilefni af útgáfu greinargerðarinnar um Myrkurgæði á Íslandi verður haldið málþing um myrkurgæði og ljósmengun miðvikudaginn 23. október, kl. 10–12, í fundarsal Þjóðminjasafnsins. Sjá nánar í frétt um málþingið á vef umhverfisráðuneytisins.  http://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/2490

Greinargerði er gefin út rafrænt og má skoða hana eða sækja hér.

Hér má sjá auglysinguna .

 

 

Vefur Náttúrustofu Suðausturlands

Vefur Náttúrustofu Suðausturlands hefur formlega verið settur í loftið. Hann var hannaður af Daníel Imsland  (dimms.is) sem einnig hannaði fyrirtækismerkið – logóið.

Á vefinn er fyrirhugað að setja inn fréttir, upplýsingar um verkefni, myndir og viðburði, en einnig er hægt að hafa samband við starfsmenn Náttúrustofu í gegnum fyrirspurnir.

Stjörnuverið á Höfn

Á degi íslenskrar náttúru  16.september bauð Náttúrustofa Suðausturlands upp á stjörnuskoðun í stjörnuveri sem komið var fyrir á bókasafninu í Nýheimum. Stjörnuver er sýndarheimur þar sem áhorfendur sitja eða liggja inni í kúlulaga hvelfingu og sérstakt sýningartæki varpar mynd af stjörnuhimninum á veggi hennar.

Tvær sýningar voru síðdegis á náttúrudeginum fyrir almenning og mættu samtals tæplega 40 manns á þær. Fyrr sama dag og daginn eftir bauð Grunnskóli Hornafjarðar nemendum sínum upp á 14 sýningar og komu þá tæplega 300 nemendur auk kennara í tjaldið. Á miðvikudagsmorgun komu svo um 30 krakkar á leikskólanum Lönguhólum á sýningu sem var sniðin að þeirra aldri.

stjornuverid

 

Stjörnuverið uppblásið á bókasafninu – tilbúið til sýningar.

stornuverid2

Nemendur úr Grunnskóla Hornafjarðar á leið inn í stjörnuverið.

Stjornuverid3

Nokkrir kakkar og starfsmenn á Lönguhólum bíða spennt eftir að þeirra sýning hefjist.

 

Dagur íslenskrar náttúru

Í tilefni af degi íslenskrar náttúru býður Náttúrustofa Suðausturlands, sem nýlega tók til starfa, til stjörnuskoðunar í stjörnuverinu. Stjörnuver er sýndarheimur þar sem áhorfendur sitja eða liggja inni í kúlulaga hvelfingu og sérstakt sýningartæki varpar mynd af stjörnuhimninum á veggi hennar.

Tvær sýningar verða í boði: kl. 16 og kl. 17 þann 16. september í Nýheimum.

Áhugasamir geta sótt miða í bókasafnið samdægurs, en einungis komast 25 manns á hverja sýningu.

Sjá nánar á www.hornafjordur.is  og http://natturumyndir.com/

Allar upplýsingar um ýmsa viðburði um allt land á degi íslenskrar náttúru má sjá á sérstökum vef Umhverfisráðuneytisins http://www.umhverfisraduneyti.is/dagur-islenskrar-natturu-2013/

Minnt er á að Grunnskóli Hornafjarðar mun bjóða öllum sínum nemendum í stjörnuverið en sýningarnar síðdegis eru hugsaðar fyrir alla.

Verið hjartanlega velkomin.

Rostungur við Jökulsárlón.

Á morgunblaðsvefnum frá 16.8.2013 er frétt um rostung við Jökulsárlón. MBL

Hann sást fyrst að morgni 16.ágúst og dvaldi á sandinum neðan við brúna yfir Jökulsá þann dag og fram á nótt. Morguninn eftir var hann á bak og burt.

Á vef Selaseturs Íslands á Hvammstanga er hægt að lesa sér til um rostunga.  Þeir eru mjög sjaldgæfir við Ísland, en síðast sást rostungur á Reyðarfirði um miðjan júlí.

Samkvæmt samanburði á þessum tveimur rostungum sést að þar er líklega um sama einstaklinginn að ræða, alla vega eru tennur jafn langar og sú vinstri aðeins styttri. Þetta sést þegar bornar eru saman myndir af moggavefnum og myndir sem Kristján Svavarsson tók af Reyðarfjarðarrostungnum.  (sjá á vef Náttúrustofu Austurlands).

Á mynd sem Þórhildur Magnúsdóttir  Landvörður í Vatnajökulsþjóðgarði tók fljótlega eftir hádegi má sjá að hann liggur afslappaður á sandinum og er svolítið rauðlitaður undir húðinni. Rauði liturinn stafar sennilega af því að honum hefur verið heitt og þar sem rostungar eru lítið hærðir sést blóðflæði undir húðinni vel.  Myndin sem hér birtist var tekin um kl. 16:30 af Sibylle von Löwis.