Jöklar hopa
Náttúrustofa Suðausturlands hefur tekið að sér vöktun nokkurra skriðjökla í Öræfajökli. Verkefnið er unnið í samstarfi við Jöklarannsóknafélag Íslands og jöklahóp Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands. Starfsmaður Náttúrustofu fór 20. október og mældi sporðastöðu Breiðamerkurjökuls, Kvíárjökuls, Hrútárjökuls og Fjallsjökuls. Þann 3. nóvember var gengið með GPS tæki meðfram sporði Fláajökuls á kafla (sjá mynd).
Frá árinu 2010 hafa jöklarnir rýrnað talsvert en hop þeirra er breytilegt. Á þessu tímabili hefur Breiðamerkurjökull hopað 200 – 300 m upp af Nýgræðukvíslum, eða um 65 – 100 m/ári. Sporður Fláajökuls, austan Jökulfells hefur hopað um 40 – 100 m frá árinu 2010. Svipað hop átti stað á Hrútárjökli. Sá hluti Kvíárjökuls sem var mældur í þetta sinn hefur ýmist stað í stað eða gengið lítillega fram (~20 m) samanborið við sporðastöðu árið 2010.
14. nóvember fóru starfsmenn Náttúrustofu Suðausturlands að Heinabergsjökli ásamt nemendum og kennurum í Framhaldsskólanum í Austur Skaftafellssýslu (FAS) og fylgdust með mælingum þeirra á jöklinum. Þær eru hluti af náttúrufarsrannsóknum sem kenndar eru og FAS sinnir. Sjá athuganir þeirra á slóðinni: http://nattura.fas.is/index.php/joklamaelingar.
- Kvíárjökull frá einum mælistað 20. október 2013. Framan við jökulsporðinn hefur myndast lón í kjölfar jökulhops síðustu áratugi.
- Hrútárjökull 20. október 2013.
- Sporður Fláajökuls austan Jökulfells, 3. nóvember 2013.
- Eyjólfur Guðmundsson, skólameistari Framhaldsskólans í Austur Skaftafellsýslu, hefur sinnt mælingum á Heinabergsjökli frá 1990.
- Nemendur FAS í mælingaferð 14. nóvember 2013. Eyjólfur Guðmundsson skólameistari rýnir í mælikíkinn. Kristín Hermannsdóttir fylgist með.