Grunnrannsóknir lífríkis við Míganda í Skarðsfirði

Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands um grunnrannsóknir lífríkis við Míganda í Skarðsfirði sumarið 2015. Verkefnið var styrkt af Atvinnu- og rannsóknarsjóði Sveitarfélagsins Hornafjarðar en samstarfsaðilar voru Fuglaathugunarstöð Suðausturlands, Jón S. Ólafsson á Veiðimálasofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Framhaldsskólinn í Austur- Skaftafellssýslu og Náttúrufræðistofunun Kópavogs.

Mígandi er dragá sem rennur í Skarðsfjörð. Fyrir um 40 árum var farvegi árinnar beint í Bergá vegna flóða yfir vatnsból Hornfirðinga. Vatnsbólið var fært norðar um 10 árum síðar, en vatni Míganda var aldrei beint aftur sinn gamla farveg. Nú eru uppi hugmyndir að endurheimta ána.

Sumarið 2015 voru gerðar grunnrannsóknir á lífríki Míganda með áherslur á vatnalífið í ánni, gróðurþekju við farveginn, ífánu leirunnar sem áin rennur í, grunnmælingar í vatninu, svo sem sýrustig, leiðni og seltu, ásamt fuglatalningum í Skarðsfirði.

Helstu niðurstöður sýna að botndýralíf einkenndist á rykmýi og tegundum sem flestar eru aðlagaðar lygnum búsvæðum. Blaðgræna botnþörunga var lítil. Gróðurþekja var metin og tegundafjölbreytileiki plantna skráður. Ífánan í árósnum var einsleit eins og við mátti búast vegna erfiðra ísalta aðstæðna. Leiðni í ánni var í hærra lagi miðað við dragár. Fuglalífið er gífurlega mikið og fjölbreytt og dreifðist misjafnlega um fjörðinn.

Skýrsluna í heild sinni má sjá á vef Náttúrustofu Suðausturlands nattsa.is undir útgefið efni eða hér.

IMG_2373

Mígandi – nærri Sauðanesi

 

Sérfræðingur óskast á Náttúrustofu Suðausturlands

Sérfræðingur óskast til starfa á Náttúrustofu Suðausturlands, Kirkjubæjarklaustri.

Starfið er laust frá 1. ágúst 2016 eða eftir nánara samkomulagi. Skilyrði fyrir ráðningu er búseta á Kirkjubæjarklaustri eða í Skaftárhreppi.

Helstu verkefni

Þátttaka við gerð hættumats vegna jökulhlaupa á Skaftársvæði, í samstarfi við Veðurstofu Íslands.

Samantekt skýrslu á fyrirliggjandi gögnum um jökulvötn í Skaftárhreppi og áhrif þeirra.

Önnur sérhæfð verkefni, eftir atvikum, sem heyra undir starfsemi stofunnar.

Menntun og hæfniskröfur
  • Háskólapróf í náttúruvísindum er skilyrði.
  • Reynsla af náttúrurannsóknum.
  • Metnaður og sjálfstæði í starfi.
  • Samstarfshæfni.
  • Öguð vinnubrögð.
  • Gott vald á íslensku og a. m. k. einu öðru tungumáli.

Leitað er að náttúrufræðingi með frumkvæði, yfirsýn og skipulagsfærni ásamt faglegri framkomu.

Frekari upplýsingar um starfið

Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi fjármálaráðherra og viðkomandi stéttarfélags.

Umsókn fylgi náms- og starfsferilskrá. Mat á hæfni umsækjenda byggist m.a. á innsendum gögnum og viðtölum.

Umsóknarfrestur er til og með 20. júní 2016.

 Nánari upplýsingar veitir

Kristín Hermannsdóttir, forstöðumaður Náttúrustofu Suðausturlands, í síma 470-8060. kristin@nattsa.is. Sótt er um starfið rafrænt á sama netfang. Öllum umsóknum verður svarað.

Náttúrustofa Suðausturlands er rannsóknarstofnun á sviði náttúrufræða sem staðsett er á Hornafirði, en verður með starfsstöð á Kirkjubæjarklaustri frá og með ágúst 2016.

Verkefni náttúrustofunnar eru öflun upplýsinga um náttúru Suðausturlands og gera þær aðgengilegar þeim sem á þurfa að halda. Náttúrustofa Suðausturlands tekur að sér margvísleg verkefni á þessu sviði fyrir; ríki, sveitarfélög, stofnanir eða einkaaðila.

Auglýsing um starf 2016

Ársskýrsla Náttúrustofu Suðausturlands 2015

Ársskýrsla Náttúrustofu Suðausturlands fyrir árið 2015 er komin á netið.  Hægt er að nálgast skýrsluna hér.

Sýni úr steinasafni Þorleifs Einarssonar í Nýheimum

Inni í Nýheimum hafa verið settir upp nokkrir steinar og steingervingar úr steinasafni Þorleifs Einarssonar. Hann gaf Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Hornafirði safnið sitt og er það nú hýst hjá Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu (FAS). Nú hafa verið valin nokkur eintök til sýningar í sýningarborð framan við bókasafnið í Nýheimum og einnig í glerskápum á eftir hæð Nýheima, rétt ofan við stigann. Fólk er hvatt til að koma og skoða þessa steina og steingervinga sér til fræðslu og ánægju.

Þorleifur Einarsson var íslenskur jarðfræðingur. Hann fæddist í Reykjavík 29. ágúst 1931 en lést í Bergisch Gladbach í Þýskalandi 22. mars 1999. Þorleifur stundaði margþættar rannsóknir í jarðfræði og liggur eftir hann fjöldi greina og bóka um jarðfræðileg efni og umhverfisvernd á ýmsum tungumálum auk íslensku. Síðasta bókin sem hann lauk við var Myndun og mótun lands : jarðfræði sem kom út 1991. Einnig flutti hann fjölda fyrirlestra um jarðfræðileg efni á ráðstefnum og fundum hérlendis, á alþjóðaráðstefnum og við fjölmarga háskóla erlendis.

Í skápunum á efri hæðinni er jafnframt að finna ýmsa hluti sem tengjast skólastarfi í FAS. Flestir tengjast þeir erlendu samstarfi í skólaunum en einnig eru nokkrir verðlaunagripir.

 

Hluti af steinasafni Þorleifs Einarssonar á efri hæð Nýheima

Hluti af steinasafni Þorleifs Einarssonar á efri hæð Nýheima

Merkúríus fyrir sól 9. maí 2016

Þann 9. maí næstkomandi mun heldur óalgengur atburður eiga sig stað, þegar reikistjarnan Merkúríus, gengur fyrir sól séð frá jörðu. Slíkur atburður er nefndur þverganga. Samkvæmt almanaki Háskóla Íslands gerðist slíkt fjórtán sinnum á síðustu öld og svo mun einnig verða á 21. öldinni.

Vegna þess hve Merkúríus er lítill í samanburði við sólina er þó ekki auðvelt að greina hana. Sjónauka þarf til en einnig er sólin svo björt að afar hættulegt er að horfa í hana. Sérstakar ljóssíur þarf til þess og sem hleypa einungis broti af sólarljósinu í gegnum sig. Engum er ráðlagt að skoða þetta nema með slíkum búnaði.

Náttúrustofa Suðausturlands ætlar að bjóða áhugasömum að kíkja í gegnum sjónauka með þar til gerðri ljóssíu, ef veður leyfir og sólin verður sjáanleg. Þvergangan hefst um kl 11:13 og lýkur 18:41. Á milli er hægt að sjá Merkúríus bera fyrir sólskífuna en stærð hans er einungis á við sólbletti sem stundum má sjá í yfirborði sólar.

Ef viðrar verður hægt að heimsækja okkur í Nýheima á milli 11:30-12:00, 14:00-14:30 og 16:00-16:30.

20160128_081724

Sjónauki Náttúrustofunnar.

Ætluð þverganga Merkúríusar, 9. maí 2016.

Ætluð þverganga Merkúríusar, 9. maí 2016. Mynd fengin á Wikipedia.

 

Ársfundur Náttúrustofu Suðausturlands 2016

Ársfundur Náttúrustofu Suðausturlands ses. verður haldinn fimmtudaginn 28. apríl 2016  kl. 15 í Nýheimum á Höfn í Hornafirði.

Á undan venjubundnum fundarstörfum verða haldin tvö erindi á vegum Náttúrustofu Suðausturlands.

  • Áningarstaðir og örugg vegútskot á Suðausturlandi: Snævarr Guðmundsson
  • Grunnrannsóknir á lífríki Míganda í Skarðsfirði: Herdís Ólína Hjörvarsdóttir

Kaffi á könnunni og allir velkomnir

Stjórnin

logo-mjög-litid-i-lit

Áningarstaðir og örugg vegútskot á Suðausturlandi með áherslu á náttúrufar og myndrænt svipmót.

Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands um áningarstaði og örugg vegútskot á Suðausturlandi með áherslu á náttúrufar og myndrænt svipmót. Verkefnið var styrkt af Vegagerðinni, en samstarfsaðilar voru verkfræðistofan Mannvit, lögreglan á Hornafirði, Vatnajökulsþjóðgarður, Háskólasetrið á Hornafirði og Einar Björn Einarsson.

Vegagerðin hefur um árabil útbúið áningarstaði við hringveginn sem eru ætlaðir vegfarendum til hvíldar, vegupplýsinga og fræðslu. Þeim er oft valin staðsetning þar sem útsýni, umhverfi eða menning teljast athyglisverð. Ástæða er þó til að fjölga áningarstöðum, því ferðamenn stöðva gjarnan bíla á vegi eða vegöxl til þess að taka myndir eða njóta umhverfisins. Með fjölgun vegútskota á vel völdum stöðum má reyna að draga úr hættu sem skapast vegna hátternisins. Á Suðausturlandi liggur ein fegursta vegleið á Íslandi vegna fjölbreytileika lands og stórbrotins útsýnis til fjalla og jökla. Með áherslutengdum áningarstöðum getur þessi hluti hringvegarins tekið að sér hlutverk útsýnis- eða ferðamannavegar án þess að koma niður á umferðaröryggi eða kosta þurfi miklum fjármunum til. Þar vinni saman akstursöryggi á hringveginum en jafnframt að auka við ánægju ferðalanga af vegleiðinni sjálfri.  Niðurstöðurnar úr verkefninu  eru ábendingar á tíu áhugaverða áningarstaði við hringveginn á Suðausturlandi. Jafnframt er sú hugmynd reifuð og útskýrð að gera þennan vegkafla að ferðamannavegi að erlendri fyrirmynd, með því að þematengja alla áningarstaði á honum. Áherslurnar skyldu taka mið af því sem höfðar til ferðamanna, t. d. áhugavert myndefni við hringveginn, athyglisverðar jarðmenjar, lífríki og menning.

 

Skýrsluna í heild sinni má sjá á vef Náttúrustofu Suðausturlands nattsa.is undir útgefið efni eða hér.

Athygli vakin á stjörnumælingunum frá Hornafirði

Vefsíða Almanaks Háskóla Íslands vakti nýlega athygli á stjörnuathugunum sem nú er sinnt frá Hornafirði. Í almanakinu, hefur verið birt tímatafla fyrir myrkva stjörnunnar Algol, í stjörnumerkinu Perseusi, fyrir hvert ár. Algol-myrkvar eru sjáanlegir með berum augum. Nýverið var myrkvi stjörnunnar tímasettur frá Hornafirði og munu myrkvar fyrir árið 2017, sem verða skráðir í almanakið verða miðaðir við hann. Á almanaksvefnum er grein um Algol (sjá  hér) og greinargerð um þann myrkva (hér), sem einnig er aðgengileg frá megingreininni.

Á svipuðum tíma birtust einnig fréttir um aðrar stjörnuathuganir sem hafa verið gerðar í Hornafirði, t. d. hreyfingu nálægrar fastastjörnu (hér) og fyrstu mælingar  á fjarreikistjörnum sem hafa verið gerðar frá Íslandi (hér).

Kort af stjörnumerkinu Perseusi og hvar stjörnuna Algol er að finna.

Kort af stjörnumerkinu Perseusi og hvar stjörnuna Algol er að finna.

Snæfell sést frá Lóni

Fyrir nokkru síðan var okkur á Náttúrustofu Suðausturlands bent á að það væri hægt að sjá Snæfell (1833 m) á Fljótdalshéraði, frá Suðausturlandi, á afmörkuðum kafla við hringveginn í Lóni. Þetta var ótrúlegt að heyra því landið austan við Vatnajökul er svo hálent og tindótt að við fyrstu umhugsun teldi maður það ósennilegt. Var undirritaður frekar vantrúaður á að svo væri. Í hvert sinn sem leiðin lá um Lón á heiðríkjudögum var skimast um eftir tindinum en jafnvel það nægði ekki þess að sannfærast um hvort það væri efsti hluti Snæfells sem sæist í raun og veru en ekki einhver annar tindur.

Náttúrustofunni barst síðan óvænt en velþegin hjálp til að skera úr um þetta. Einar Björn Einarsson á öflugan dróna með innbyggðri myndavél. Honum þótti sjálfsagt að bregðast við bón okkar um að kanna þetta til hlýtar. Heiðríkjudaginn 17. mars 2016 fórum við austur fyrir Laxá í Lóni, ekki langt frá veginum sem liggur inn í Lónsöræfi. Þar sendi Einar drónann upp í um 500 m hæð y.s. og beindi myndavélinni í átt að Snæfelli. Viti menn, þar fékkst ótvírætt úr því skorið, Snæfell sést svo sannarlega frá hringveginum í Lóni. Fjarlægðin á milli Snæfells og Lóns, þaðan sem tindurinn sést, er 54 km í sjónlínu. Hér er skemmtilegt myndband sem sýnir flugið: Snæfell séð frá Lóni.

Útsýni til Lónsöræfa og Snæfells, í um 54 km fjarlægð, úr 500 m hæð yfir Lóni á Suðausturlandi. Mynd Einar Björn Einarsson, 17. mars 2016.

Útsýni til Lónsöræfa og Snæfells, í um 54 km fjarlægð, úr 500 m hæð yfir Lóni á Suðausturlandi. Mynd Einar Björn Einarsson, 17. mars 2016.

3. bekkur í tungl- og stjörnuskoðun

Fimmtudagsmorguninn 28. janúar komu vaskir krakkar úr 3. bekk Grunnskóla Hornafjarðar í heimsókn til Náttúrustofu Suðausturlands í Nýheimum. Þau komu ásamt kennara sínum, en nokkrir foreldrar og aðrir aðstandendur slógust einnig í hópinn. Tilefnið var að skoða tunglið, Júpíter og tungl hans sem kallast Galílei-tunglin og heita Jó, Evrópa, Kallistó og Ganymedes. Fór þessi skoðun fram vestan við Nýheima – úti við Náttúrustíginn og voru notaðir tveir stórir stjörnusjónaukar, en einnig var horft til himins með handsjónaukum og berum augum. Við stíginn er unnið að því koma fyrir steinum víðs vegar úr sveitarfélaginu til fræðslu og afþreyingar og einhverjir klifruðu upp á þá. Var ekki annað að sjá og heyra en að heimsóknin hefði heppnast vel, þrátt fyrir nokkrar kaldar tær.

 

20160128_081854 20160128_081724 20160128_081711

 

 

 

 

20160128_082730 (2) 20160128_083407 (2)galileotunglin