Skaftárhlaup 2015. Ljósmyndari Sigurður Bergmann Jónasson.

Spurningakönnun vegna vinnu við hættumat vegna Skaftárhlaupa

Í kjölfar umfangsmikils Skaftárhlaups haustið 2015 var ákveðið að vinna formlegt hættumat fyrir vatnasvið Skaftár í Skaftárhreppi. Hefur Veðurstofa Íslands, ásamt Náttúrustofu Suðausturlands, útbúið spurningakönnun þar sem kallað er eftir viðhorfum íbúa Skaftárhrepps við Skaftárhlaupum, sem skipta miklu máli varðandi það hvernig hið endanlega hættumat mun verða formað.

Markmiðið er að meta hættu af völdum Skafárhlaupa og draga saman helstu upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna viðbúnaðar við þeim svo sem varnaraðgerða til að verja land og eignir, viðbúnaðar vegna hlaupa, og skipulagsmála m.a. til að koma í veg fyrir að tjónnæmi aukist til framtíðar.  Í hættumatinu verður m.a. stillt upp sviðsmyndum og útbreiðsla vatns við mismunandi flóðahæð verður sett fram á kortum, byggt á líkanareikningum. Á grundvelli slíkra sviðsmynda verða þeir staðir sem eru mest útsettir vegna flóðanna markaðir af og tillögur gerðar að mótvægisaðgerðum.
Hluti af áhættumatinu er að átta sig á viðhorfum og afstöðu heimamanna til atburðanna. Þar eru atriði eins og hvaða þættir; valda þeim áhyggjum, hafa valdið þeim skaða, hafa haft áhrif á lífsgæði þeirra en síðast en ekki síst hvers konar fyrirbyggjandi viðbúnaður og viðbrögð íbúum  finnst skipta máli að séu til staðar við næstu hlaup.

Því óskum við eftir ykkar stuðningi í þessu verkefni og hvetjum alla íbúa Skaftárhrepps til að taka þátt í gerð hættumatsins með því að svara stuttri spurningakönnun á netinu. Könnunin telur 17 spurningar og tekur um  10 mínútur að svara henni.

Könnunin verður opin til og með 1. febrúar 2017 og má finna á slóðinni:

http://www.surveymonkey.com/r/Skafta

 

skaftarhlaup-2015-sigurdur-bergmann-jonasson skaftarhlaup-2015-sigurdur-bergmann-jonasson-2

 

 

Sjónarspil á himni

Árið 2017 byrjar með fallegu sjónarspili á himni, séð héðan frá Hornafirði. Að kvöldi 2. janúar mynduðu reikistjörnurnar Mars og Venus svonefnda samstöðu með tunglinu. Samstaða er þegar reikistjörnur og tunglið eru nærri hvor annarri, séð frá jörðu. Það er fremur algeng sýn og svipað mun gerast þann 31. janúar næstkomandi. Þá verða sömu reikistjörnur í aðalhlutverki en í stað þess að mynda e. k. línu, eins og hér sést, mun samstaðan mynda þríhyrning, með tunglið austan undir Venusi.

Sama kvöld (2. jan.) og samstaðan varð og einnig morgunin eftir, þann 3. janúar, skreyttu glitský suðausturhiminn. Glitský (e. nacreous clouds) eru einnig nefnd „perlumóðurský“ á íslensku. Þau myndast í heiðhvolfinu í 15-30 km hæð og við afar kaldar aðstæður, -70 til -90°C frost. Litbrigði skýjanna skýrist af því að bylgjulengdir ljóssins brotna undir mismiklu horni. Lesa má nánar um glitský í fróðleiksgreinum Veðurstofu Íslands (sjá heimildir).

sg-glitsky20170102_1 sg-glitsky20170103_9 sg-glitsky20170103_7

Heimildir
Halldór Björnsson, 2006. Hvað eru glitský? Veðurstofa Íslands. Vefslóð: http://www.vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/355
Trausti Jónsson, 2008. Árstíðasveifla glitskýja yfir Íslandi 1964-2002. Veðurstofa Íslands. Vefslóð: http://www.vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/1192

Fláajökull og nokkrir nemendur FAS í mælingaferð að jöklinum. Talsvert samstarf er milli náttúrustofu og FAS vegna náttúrfræðikennslu og rannsókna.

Náttúrustofa Suðausturlands- Horft um öxl í árslok

Eystrahorn birtir í jólablaði sínu árið 2016 viðtal við Kristínu Hermannsdóttur, forstöðumann Náttúrustofu Suðausturlands.

Hér er greinin birt ásamt nokkrum myndum sem ekki komust í blaðið:

Náttúrustofa Suðausturlands var stofnuð árið 2013 og eru höfuðstöðvar hennar á Höfn í Hornafirði. Þar starfa þau Kristín Hermannsdóttir veðurfræðingur og forstöðumaður stofnunarinnar og Snævarr Guðmundsson náttúrulandfræðingur. Blaðamaður Eystrahorns tók Kristínu tali um hvað borið hefði á daga Náttúrustofu árið 2016.

„Við færðum örlítið út kvíarnar í ár“ segir Kristín „því að nýr starfsmaður tók til starfa á Kirkjubæjarklaustri í sumar. Sú heitir Rannveig Ólafsdóttir og er náttúru- og umhverfisfræðingur að mennt. Það hefur lengi staðið til að fá starfsmann á Klaustri því Skaftárhreppur er aðili að Náttúrustofu Suðausturlands, ásamt Sveitarfélaginu Hornafirði með stuðningi ríkisins. Hennar starf er að mestu tengt málefnum jökulvatna í Skaftárhreppi.“

Síðan stofan var sett á laggirnar hafa fjölbreytileg verkefni mætt starfsfólki, eiginlega allt á milli himins og jarðar og var starfsárið 2016 engin undantekning. Flest snúast þau um náttúrufar á Suðausturlandi en með starfsmann á Klaustri mun þeim einnig fjölga í Skaftárhreppi á næstu árum.

„Það sem kemur kannski fyrst í huga eru verkefnin sem snúa að ánni Míganda og tillögur að áningastöðum við hringveginn hér í sýslunni“, segir Kristín. „Mígandi rennur í Skarðsfjörð og var gerð rannsókn á lífríkinu við og í ánni sumarið 2015. Sögusagnir voru um að farveginum hefði verið breytt fyrir fjölmörgum áratugum og upp komu spurningar um hverjar afleiðingarnar yrðu við endurheimt. Þetta mál hefur reyndar tekið á sig ýmsar hliðar og líklega var áin aldrei færð, en flóðavarnir settar nærri fossinum í Bergá. Okkur þótti mikilvægt að rannsaka lífríkið á áhrifasvæði árinnar til að hafa samanburð ef breytingar yrðu í farvegi árinnar og voru niðurstöðurnar gefnar út í skýrslu nú í vor.“

„Aukinn ferðamannastraumur hefur sett mark sitt á umferðina á Suðausturlandi, eins og allir vita. Ásamt nokkrum fagaðilum lukum við einnig við tillögur að áningastöðum á leiðinni á milli Skeiðarársands austur að Streiti, milli Berufjarðar og Breiðdalsvíkur. Þessar tillögur gáfum við einnig út í skýrslu.“

„Annars eru fjölmörg verkefni sem við sinnum hvert ár og þau taka oft talsverðan tíma“, útskýrir Kristín. „Við sinnum t.d. jöklamælingum á eiginlega flestum jöklum í sýslunni, austan Öræfajökuls. Sumar þessara mælinga eru nýttar í samstarfi við Jöklarannsóknafélagið en aðrar eru hluti verkefna sem við sinnum í eigin þágu. Ég get nefnt grein sem birtist í vísindatímaritinu Jökli, um hlaup sem átti sér stað í Gjávatni haustið 2015 en að öllum líkindum hjálpuðu miklar úrkomur því að það hljóp af stað. Nú er í vinnslu grein um Esjufjallarönd sem við vonumst til að verði birt á næstu misserum. Þetta er þó aðeins brot af því efni sem varðar jöklana á Suðausturlandi og eru í vinnslu.“

Til að auðvelda mælingar á hopandi jöklum, einkum þeim sem hafa lón framan við sporðana, keyptu náttúrustofan og FAS saman dróna í haust. Hann hefur þegar verið notaður þessu tengt en ásamt kennurum og nemendum FAS var hann með í mælingaferð að Heinabergsjökli. Verkefni Náttúrustofu eru þó fleiri en hvað viðkemur jöklum. Kristín segir að síðasta sumar hafi verið gerð mæling á uppskerutapi vegna ágangs gæsa í ræktarlönd bænda, þriðja árið í röð, en skýrsla um verkefnið er í vinnslu. Kristín nefnir einnig vöktun á fiðrildum og fuglatalningar sem eru unnar í samstarfi við Fuglaathugunarstöð Suðausturlands. „Þessum athugunum er mikilvægt að viðhalda, hér er mikilvægur viðkomustaður farfugla og hér eru menn sem hafa mikla þekkingu á fuglum.“

Efni sem Náttúrustofan gefur út er hægt að nálgast hér: https://nattsa.is/utgefid-efni/

2016-07-06-fidrildagildra

Fiðrildagildra. Á vegum Náttúrustofu Suðausturlands eru þrjár gildrur, tvær í Einarslundi og ein í Mörtungu við Kirkjubæjarklaustur.

20160509_snaevarr-vid-kiki

Snævarr Guðmundsson með stjörnukíki utanvið Nýheima þegar Merkúríus gekk fyrir sólu 9. mai. Þegar öllu hafði verið stillt upp dróg ský fyrir sólu og ekki reyndist mögulegt að fylgjast með þvergöngunni.

20160523_steinn-ur-hoffelli

Steinn frá Hoffelli komin að náttúrustígnum nærri Nýheimum, en þar verður jarðfræði svæðisins kynnt með mismunandi bergtegundum.

20160419_bur-a-tuni

Búr á túni á Suðausturlandi. Þau voru notuð við rannsókn á uppskerutapi vegna ágangs gæsa á ræktarlönd.

 

Jólakveðja frá Náttúrustofu Suðausturlands 2016

Náttúrustofa Suðausturlands sendir öllum vinum og velunnurum bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár

 

jolakvedja2016-1

Skuggamyndir í nóvember

Mælingaferð að Heinabergsjökli

Föstudaginn 4. nóvember fóru tveir starfsmenn Náttúrustofu Suðausturlands með nemendum og kennurum frá Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu og Helgu Árnadóttur frá Vatnajökulsþjóðgarði í mælingaferð að Heinabergsjökli. Fyrirfram höfðu allir nemendurnir ákveðið hlutverk við mælinguna á stöðu sporðsins á Heinabergsjökli. Stórt lón er fyrir framan jökulröndina og því þarf að notast við fjarlægðarmælingar og þríhyrningamælingar. Verkfæri sem voru með í ferð voru því mælistöng, málbönd, byggingakíkir og fjarlægðarmælir. Einnig var dróninn, sem náttúrustofan og FAS eiga saman, hafður með. Hann var sendur á loft eins oft og hægt var, en lengst af var of hvasst fyrir hann. Með drónanum náðust flottar loftmyndir sem gáfu nýtt sjónarhorn á jökulinn. Nokkrar myndir úr ferðinni fylgja þessari frétt. Einnig klipptu nemendur í FAS saman stutt myndband af ferðinni úr gögnum frá drónanum og má sjá það hér. Höfundar myndbandsins eru Elín Ása Heiðarsdóttir, Helgi Sæmundsson og Ísabella Ævarsdóttir. Niðurstöður úr mælingunum má lesa á vef FAS.

 

Hluti af hópnum sem fór að mæla Heinabergsjökul 4. nóvember 2016. Mynd tekin með dróna.

Hluti af hópnum sem fór að mæla Heinabergsjökul 4. nóvember 2016. Mynd tekin með dróna.

Horft yfir Heinabergsjökul með dróna úr 15 m hæð yfir jörðu.

Horft yfir Heinabergsjökul með dróna úr 15 m hæð yfir jörðu.

 

Dróninn á flugi rétt yfir Eyjólfi Guðmundssyni og nemendum úr FAS við Heinabergslón, 4. nóvember 2016. Mynd: Kristín Hermannsdóttir.

Dróninn á flugi rétt yfir Eyjólfi Guðmundssyni og nemendum úr FAS við Heinabergslón, 4. nóvember 2016. Mynd: Kristín Hermannsdóttir.

Hoffellsjökull

Náttúrustofa Suðausturlands og Framhaldsskólinn í Austur- Skaftafellssýslu fjárfesta saman í dróna

Nýlega bættist í tækjabúnað Náttúrustofu Suðausturlands og Framhaldsskólans í Austur Skaftafellssýslu. Að þessu sinni var fjárfest í DJI Phantom 4 dróna. Nokkrir aðilar styrktu kaupin, Landsbankinn, Nettó, Skinney-Þinganes, flutningadeild KASK og Uppbyggingasjóður Suðurlands.

Dróninn kemur til með að nýtast Náttúrustofu og FAS vel við margvísleg verkefni. Nefna má eftirlit og mælingar á jöklum, ekki síst þar sem erfitt og hættulegt er að fara um. Þar verður nú hægt að fljúga yfir og afla gagna úr lofti, þar sem hægt verður að mynda jökulsporða ofan frá eða framan við t.d. þar sem lón liggja við jökulinn. Einnig verður hægt að nýta hann við kortlagningu á jökulgörðum og öðrum jarðmenjum. Dróninn mun þar að auki nýtast vel við gerð yfirlitsmynda og fræðsluefnis í tengslum við ýmis verkefni sem Náttúrustofan vinnur að.

2. nóv. 2016

Mynd tekin beint niður í um 20 m hæð yfir Nýheimum og þar má grilla í stjórnendur drónans fyrir miðri mynd á grasinu.

2. nóv. 2016

Mynd tekin með drónanum 2. nóvember 2016 fyrir utan Nýheima á Höfn með útsýni til jökla. Hjördís Skírnisdóttir, Kristín Hermannsdóttir, Guðmundur Ingi Sigbjörnsson, Eyjólfur Guðmundsson og Snævarr Guðmundsson prófa tækið.

dji_0009

Þessi mynd var tekin fyrstu braut á Silfurnesgolfvelli 18.október 2016 þegar dróninn var prófaður í fyrsta sinn.

dji_0043

Snævarr Guðmundsson og Kristín Hermannsdóttir við Hoffellssjökul.

dji_0036

Dróninn hefur verið prófaður síðustu daga, m.a. við við Hoffelssjökul þar sem þessi mynd var tekin úr 216 m hæð yfir sjávarmáli 28. október 2016.

Save

Septemberúrkoma á Höfn 2016

Úrkoma á Höfn síðastliðin september mældist í heildina 245,2 mm. Það er um 230% af 30 ára meðal mánaðarúrkomu áranna 1961-1990. Ef skoðuð er mánaðarúrkoma septembermánaða síðustu 50 ára á Höfn, í Akurnesi og í Hjarðarnesi, lendir þessi nýliðni september í fjórða sæti, hvað varðar úrkomumet.

Mesta úrkoma á þessum stöðvum í september mældist árið 2008 á Höfn, 294,4 mm. Árið 1999 mældust 288,3 mm í Akurnesi og 260,2 mm á Höfn árið 2011.

Í nýliðnum september voru einungis 7 sólarhringar úrkomulausir og mesta sólarhringsúrkoma mældist þann 22. september, 40,2 mm. Á súluritinu hér fyrir neðan má sjá úrkomuna sem mældist hvern sólarhring fyrir sig.

 

Sólarhingsúrkoma á Höfn í september 2016

Sólarhingsúrkoma á Höfn í september 2016

Veðurstofa Íslands tekur saman yfirlit yfir ýmsa veðurþætti í hverjum mánuði á nokkrum stöðvum á landinu. Þar og í viðbótarskjölum sem vísað er í neðst á síðunni má sjá að meðalhitinn á Höfn var 9,4 °C í september. Það er 1,7°C hlýrra en meðaltalið 1961-1990 og 0,7°C hlýrra en meðaltalið 2006-2015. Einnig kemur fram að meðalvindhraðinn var 5,2 m/s í september, en óvenju hægviðrasamt var á öllu landinu.

Nánari upplýsingar um veðurfar víða  á landinu má lesa á vefnum  vedur.is.

Save

Nýr starfsmaður hjá Náttúrustofu Suðausturlands á Kikjubæjarklaustri

Í dag tók til starfa nýr starfmaður hjá Náttúrustofu Suðausturlands. Hún heitir Rannveig Ólafsdóttir og verður með starfsaðstöðu í Kirkjubæjarstofu á Kirkjubæjarklaustri. Rannveig er frá Mörtungu í Skaftárhreppi og er með B.Sc próf í líffræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. próf í náttúru- og umhverfisfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands.

Rannveig mun meðal annars vinna að gerð hættumats vegna jökulhlaupa á Skaftársvæðinu sem er á ábyrgð Veðurstofu Íslands 2016-2017, en gerður var sérstakur samningur milli Umhverfisráðuneytis og Náttúrustofu Suðausturlands um það verkefni.

Rannveig-2016

Rannveig Ólafsdóttir

 

 

 

 

Save

Save

Save

Save

Save

Save

Gammaygla - flækingsfiðrildi á Íslandi

Fiðrildavöktun 2015 á Suðausturlandi

Sumarið 2015 voru settar upp þrjár fiðrildagildrur á vegum Náttúrustofu Suðausturlands í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands. Tvær gildrur í Einarslundi við Hornafjörð á tveimur ólíkum stöðum í lundinum og ein í garðinum við Mörtungu í Skaftárhreppi. Þann 16. apríl var kveikt á gildrunum og loguðu þær langt út í nóvember.

Fyrstu fiðrildin viddust á Höfn strax í fyrstu vikunni, en flest fiðrildi voru í þeim við vitjun í lok ágúst, 254 stykki í annarri gildrunni og 235 stykki í hinni. Umsjón með gildrunum er í höndum Björn Gísla Arnarsonar og starfsmanna Náttúrustofu Suðausturlands. (Sjá myndir 6 og 7).

Fyrstu fiðrildin í Mörtungu komu í gilduna í byrjun júní og flestu fiðrildin voru í henni við vitjun í lok ágúst, 1311 stykki. Umsjón með gildrunni er í höndum Rannveigar Ólafsdóttur. (Sjá mynd 8).

Mynd 1 sýnir fjölda veiddra fiðrilda í hverri viku sumarið 2015. Flest þeirra komu í gildrurnar í lok ágúst, en mjög fá veiddust eftir lok september.

Veidd-firdrildi-í-viku-hverri-2015

Mynd 1. Heildarfjöldi veiddra fiðrilda í gildrur á Höfn og í Mörtungu í viku hverri sumarið 2015.

Á mynd 2 má sjá þær ellefu tegundir sem algengastar voru í gildrunum sumarið 2015 og hlutfall þeirra af heildinni á hverjum stað. Í allt komu 36 tegundir í gildrurnar og heildarfjöldinn sem gildrurnar fönguðu yfir sumarið var 7367 fiðrildi og komu 59% þeirra í gildruna í Mörtungu.

Algengustu-fidrildi-2015-hlutfall af heild

Mynd 2. Hlutfall algengustu fiðrilda af heildinni á hverum stað á Suðausturland sumarið 2015. Algengasta tegundin á Höfn í gildru 1 og í Mörtungu er jarðygla, en tígulvefari í gildru 2 á Höfn. Fjöldi grasvefara í Mörtungu sker sig úr samaborið við gildrurnar á Höfn.

Þegar gögnin frá þessum þremur gildrum eru skoðuð er áhugavert að sjá að gildra nr. 2 á Höfn, í Einarslundi gefur meiri fjölbreytni en sú nr. 1. Einnig er fjölbreyttni tegunda í Mörtungu óvenjuleg, en tvær tæmingar á gildrunni sýndu 20 tegundir sem er frekar óvenjulegt miðað við aðra staði á landinu.

Sunnudaginn 30. ágúst 2015 sást og náðist fiðrildi af tegundinni kóngasvarmi í Skaftafelli. Finnandi var Valdís Kjartansdóttir og kom hún með hann til Náttúrustofu Suðausturlands á Höfn (sjá mynd 3). Samkvæmt upplýsingum frá Erling Ólafssyni á Náttúrufræðistofnun Íslands var þetta sjöundi kóngasvarminn sem finnst hér á landi sumarið 2015, en sá fyrsti fannst vestur í Dölum 25. ágúst.

Kóngasvarminn sem fannst í Skaftafelli 2015. Bolurinn er um 50 mm að lengd, en vænghafið mun meira. Ljósmynd Kristín Hermannsdóttir

Mynd 3. Kóngasvarminn sem fannst í Skaftafelli 2015. Bolurinn er um 50 mm að lengd, en vænghafið mun meira. Ljósmynd Kristín Hermannsdóttir

 

Ef einstaka flækingstegundir eru skoðaðar má sjá að gammaygla (eins og sú sem settist á andlit Ronaldo í París 2016) kom í allar gildrurnar á SA-landi sumarið 2015.  Er gammayglan algengasta flækingstegundin hér á landi (mynd 9.). Fjórar yglur komu í gildruna í Mörtungu og var sú fyrsta þar í tæmingu á gildrunni 27. júlí. Á Höfn komu 5 í aðra gildruna og 10 í hina. Fyrstu gammayglurnar þar voru í tæmingu 27. ágúst og síðasta yglan var í gildru á Höfn 5. nóvember.

 

Jarðygla

Mynd 4. Jarðygla, algengasta fiðrildið árið 2015 á Höfn í gildru 1 og í Mörtungu.

Grasvefari

Mynd 5. Grasvefari – algengasta tegundin sem kom í gildru nr. 1 á Höfn sumarið 2014 en var mun algengari í Mörtungu en á Höfn sumarið 2015.

Mynd 6. Gildra nr.1 í Einarslundi.

Mynd 6. Gildra nr.1 í Einarslundi.

Mynd 7. Fiðrildagildra nr. 2 í Einarslundi

Mynd 7. Fiðrildagildra nr. 2 í Einarslundi

Mynd 8. Fiðrildagildra í Mörtungu.

Mynd 8. Fiðrildagildra í Mörtungu.

Mynd 9. Gammaygla – algengasta flækingsfiðrildið á Íslandi.

Mynd 9. Gammaygla – algengasta flækingsfiðrildið á Íslandi.

Mynd 10. Björn Gísli Arnarson og Erling Ólafsson flokka og greina fiðrildi sem komu í gildrur á Suðausturlandi sumarið 2015.

Mynd 10. Björn Gísli Arnarson og Erling Ólafsson flokka og greina fiðrildi sem komu í gildrur á Suðausturlandi sumarið 2015.

Save

Save

Save

Save

Save

Save

Save

Save

Save

Save

Save

Skógarmítlar finnast á Höfn í Hornafirði

Nokkrir skógarmítlar hafa nú fundist á Höfn í Hornafirði. (Mynd 1 og 2). Skógarmítill er blóðsuga sem sest á ketti, hunda og menn, en talið er að þeir berist til landsins með fuglum.

Þetta er ekki fyrsta skipti sem skógarmítill finnst á Íslandi en hann er þó fágætur ennþá. Mynd 3 sýnir skógarmítil sem fannst á Ísafirði síðasta haust og mynd 5 sýnir hvar skógarmítlar hafa fundist á landinu. Mælt er með því að eigendur katta og hunda leiti á dýrum sínum eftir mítlum. Ef mítill finnst skal viðkomandi koma með hann til Náttúrustofu Suðausturlands í Nýheimum eða til Björns Gísla Arnarsonar (sími 8467111). Ef mítill hefur sogið sig fastan er rétt að fara að öllu með gát þegar hann er fjarlægður. Það er best gert með því að klemma pinsettuodda um munnhluta mítilsins og lyfta honum beint upp frá húðinni (mynd 4). Forðast skal að snúa honum í sárinu.

Skógarmítill heldur sig í gróðri, einkum á skógarbotni en dýrin í skóginum, spendýr og fuglar sjá mítlinum fyrir blóði. Þegar hann vantar blóð krækir hann sig á fórnarlambið sem á leið um skóginn. Á vef heilbrigðisráðuneytisins segir að þar sem skógarmítill er landlægur er fólk vant því að leita að honum á líkama sínum eftir dvöl í skógi eða graslendi. Ef hann er tekinn af húðinni innan við sólarhring eftir að hann nær að festa sig er hann talinn hættulaus þar sem bakterían sem veldur Lyme-sjúkdómi í mönnum kemst ekki í blóðrás hýsilsins nema mítillinn sjúgi blóð mjög lengi.

Skógarmítill hefur borist til Íslands með farfuglum en einnig eru dæmi um að hann hafi borist með fólki frá útlöndum og jafnvel hundum ef eftirlit hefur ekki verið nægjanlegt. Á Íslandi hefur hann einkum fundist á mönnum og hundum, t.d. eftir útivist í skógum en einnig fuglum, sauðfé og hreindýrum.
Ungviðið sem er um 1 mm á lengd heldur sig í gróðri, en þegar það vantar blóð krækir sig við blóðgjafa á leið um. Lífshættir skógarmítils á Íslandi eru að mestu ókannaðir. Skógarmítill er varasamur því hann getur borið alvarlega sýkla í fórnarlömb sín, t.d. bakteríuna Borrelia burgdorferi, sem getur valdið alvarlegum skaða á taugakerfi.

Upplýsingarnar eru fengnar af heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands. http://www.ni.is/animalia/arthropoda/chelicherata/arachnida/acari/ixodida/ixodidae/ixodes/ixodes_ricinus og af heimasíðu landlæknis http://www.landlaeknir.is/smit-og-sottvarnir/smitsjukdomar/sjukdomur/item12471/Skogarmitill-(Borreliosa—Lyme-sjukdomur).

 

Skógarmítill neðan við auga á þúfutittlingi í Einarslundi. Ljósmynd Björn Gísli Arnarson.

Mynd 1.  Skógarmítill neðan við auga á þúfutittlingi í Einarslundi 8. maí 2016. Ljósmynd Björn Gísli Arnarson.

Skógarmítill við munnvikið á skógarþresti í Einarslundi. Ljósmynd Björn Gísli Arnarson.

Mynd 2. Skógarmítill við munnvikið á skógarþresti í Einarslundi 8. maí 2016. Ljósmynd Björn Gísli Arnarson.

 

Skógarmítill-Ísafirði-2015

Mynd 3. Skógarmítill sem fannst á Ísafirði haustið 2015, um 6 mm langur.

Skógarmítill-tekinn-af

Mynd 4. Leiðbeiningarmynd sem sýnir hvernig taka á skógarmítil af húð með pinsettu.

 

Kort-af-skógarmítlum-2016

Mynd 5. Fundarstaðir skógarmítils. Kort tekið af vef Náttúrufræðistofnunar Íslands 2016.

 

Save

Save

Save

Save

Save

Save

Save