Gulygla sem kom í gildru í Einarslundi við Höfn. Mynd; Kristín Hermannsdóttir 24. september 2018.

Fiðrildavöktun lokið 2018

Í gær, 12. nóvember 2018 var síðasta tæming þetta árið á þremur fiðrildagildrum sem eru í umsjá Náttúrustofu Suðausturlands í samstarfi við Fuglaathugunarstöð Suðausturlands og Náttúrufræðistofnun Íslands. Umsjón með gildrunum er í höndum Björn Gísla Arnarsonar og starfsmanna Náttúrustofu Suðausturlands. Þetta árið hafa verið þrjár gildrur á Suðausturlandi. Tvær í Einarslundi við Hornafjörð og ein í garðinum við Mörtungu í Skaftárhreppi. Þann 16. apríl var kveikt á þeim og hafa þær því logað í 30 vikur og safnað rannsóknargögnum.

Mismikið kemur í gildrurnar í hverri viku, en mest er um fiðrildi og mölflugur síðari hluta júlímánaðar, í ágúst og fram í september. Samantekt um öll fiðrildin verður unnin síðar, þegar öll gögn hafa verið greind.

Við tæmingu í september var ein gulygla í hvorri gildru í Einarslundi.  Gulygla (Noctua pronuba) er landlæg hér á landi og hefur henni farið fjölgandi í kjölfar hlýnandi loftslags á seinni árum. Þó eru af henni áraskipti. Auk þess er nokkuð ljóst að hún berst til landsins með vindum á haustin eins og fleiri tegundir fiðrilda. Það ber ekki mikið á henni því hún hefur hægt um sig í dagsbirtu en fer á flug er skyggir. Þá flýgur hún gjarnan á ljós og berst stundum inn um glugga þar sem ljós logar fyrir innan.

Gulygla er með stærstu fiðrildum og þar með stærstu skordýrum hér á landi. Hún er auðþekkt á stærðinni og sterkgulum afturvængjum sem hafa dökkt belti með afturjaðri. Þegar fiðrildið situr með aðfellda vængi hverfa einkennandi afturvængirnir alveg undir framvængina sem eru breytilegir á lit.

Heimild:

https://www.ni.is/biota/animalia/arthropoda/hexapoda/insecta/lepidoptera/noctuidae/gulygla-noctua-pronuba

Björn Gísli Arnarson að tendra aðra gildruna á Höfn 16. apríl 2018. Mynd; Kristín Hermannsdóttir.

Björn Gísli Arnarson að tendra aðra gildruna á Höfn 16. apríl 2018. Mynd; Kristín Hermannsdóttir.

 

Gulygla sem kom í gildru í Einarslundi við Höfn. Mynd; Kristín Hermannsdóttir 24. september 2018.

Gulygla sem kom í gildru í Einarslundi við Höfn. Mynd; Kristín Hermannsdóttir 24. september 2018.

 

Björn Gísli Arnason og Erling Ólafsson greina og telja fiðrildi haustið 2018. Mynd; Kristín Hermannsdóttir 28. október 2018

Björn Gísli Arnason og Erling Ólafsson greina og telja fiðrildi haustið 2018. Mynd; Kristín Hermannsdóttir 28. október 2018

Tunglið

Stjörnumerkin og tunglið – stjörnuskoðun í kvöld

Í kvöld lítur út fyrir ágæt skilyrði til stjörnuskoðunar frá Hornafirði. Því ætlum við að bjóða öllum áhugasömum í heimsókn að stjörnuhúsinu á Markúsarþýfishóli við Ægissíðu. Ætlunin er að skimast eftir og staðsetja stjörnumerki haustsins og tunglinu sem er nærri fyllingu þessa dagana.

Stjörnuskoðunin verður í kvöld (fimmtudagskvöld) 25. október milli kl. 19:00-20:00. Heitt kakó á staðnum.

Sjónaukar verða á staðnum en þeir sem eiga handkíkja eða sjónauka eru hvattir til að koma með þá.

Komið vel klædd til að njóta stjarnanna og útiverunnar.

Skúmey í Jökulsárlóni – landmótun og lífríki

Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands um Skúmey á Jökulsárlón, landmótun og lífríki. Verkefnið er samstarfsverkefni og unnið á vegum Náttúrustofu Suðausturlands, Náttúrustofu Austurlands, Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands og Vatnajökulsþjóðgarðs.

Eyjan kom í ljós þegar Breiðamerkurjökull hopaði af þessu svæði á árunum 1976—2000.  Vorið og sumarið 2017 voru farnar nokkrar vettvangsferðir í eyjuna til að skoða og kortleggja landmótun, gróðurfar, pöddu- og fuglalíf. Í þessum vettvangsferðum voru skráð 968 helsingjahreiður í eynni. Meðalgróðurþekjan var um 20% og í allt fundust 54 tegundir padda af 27 ættum.

Um mitt ár 2017 varð þetta svæði hluti Vatnajökulsþjóðgarðs. Í desember það ár samþykkti stjórn þjóðgarðsins að Skúmey verði lokuð allri umferð nema í vísindalegum tilgangi. Um er að ræða tímabundna lokun þar til ákvæði um svæðið í stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs hafa tekið gildi.

Í skýrslunni má lesa um hvern þátt sem skoðaður var, en einnig hefur verið sett saman stutt kvikmynd um vettvangsferðir og helstu niðurstöður.

Hægt er að sækja skýrsluna hérna.

Stutta kvikmynd má sjá á Youtube. Íslenskt tal og íslenskur texti  og íslenskt tal og enskur texti.

Fjögur egg innan um lyng og víði. Ljósmynd; Brynjúlfur Brynjólfsson, 29. maí 2017.

Fjögur helsingjaegg innan um lyng og víði. Ljósmynd; Brynjúlfur Brynjólfsson, 29. maí 2017.

 

Búr á túni á Steinasandi 16. júní 2017. Ljósmynd Kristín Hermannsdóttir.

Uppskerutap vegna ágangs gæsa í ræktarlönd í Austur-Skaftafellssýslu 2017

Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands um uppskerutap vegna ágangs gæsa í ræktarlönd 2017. Verkefnið var samstarfsverkefni Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands, Búnaðarsambands Austur-Skaftafellssýslu og Landbúnaðarháskóla Íslands.

Skýrslan greinir frá framhaldsverkefni sem unnið var í Austur-Skaftafellssýslu árið 2017. Borin var saman uppskera af friðuðum grasreitum við reiti sem fuglar komust að. Einnig voru skoðuð tengsl á milli fjölda fugla á ákveðnum túnum og rýrnun uppskeru. Markmiðið var að kanna áhrif gæsabeitar að vori og fram á sumar á grasuppskeru. Var þetta í fjórða sinn sem sambærileg rannsókn var framkvæmd.

Niðurstöður sýna mismun á uppskeru af friðuðum reitum og viðmiðunarreitum, að meðaltali 1066 kg af þurrefni á hektara. Þurrefnisuppskera var að meðaltali 27% minni þar sem fuglarnir komust um túnin. Á tilraunatúnunum töpuðust því 3,8 rúllur af þurrefnisuppskeru á hektara að meðaltali. Með kostnaðarútreikningum má sjá að mismunur í uppskeru kostaði að meðaltali 30.061 kr./ha. Einfalt fylgnipróf var framkvæmt til að sjá samhengi milli fjölda fugla og mismunar í uppskeru, en það sýndi enga fylgni. Ekki er hægt að alhæfa að talningatölurnar séu lýsandi fyrir fjöldann. En töluverðar líkur eru á að talningatölur sýni lágmarksfjölda fugla á hverjum stað.

Skýrsluna í heild sinni má sjá á vef Náttúrustofu Suðausturlands nattsa.is undir útgefið efni eða hér.

Búr á túni við uppskeru 16. júní 2017. Ljósmynd Kristín Hermannsdóttir.

Lurkafundur á Breiðamerkursandi

Breiðamerkurjökull hopar ört og þar sem ísinn leysir burt, birtist nýtt land. Á undanförnum árum hafa fundist gróðurleifar á Breiðamerkursandi þar sem áður lá jökull yfir.

Á þeim er ljóst að gróður óx á svæðinu áður en jöklar gengu fram á litlu-ísöld (12-16. öld).

Sumar þessara gróðurleifa hafa verið aldursgreindar og eru frá mun eldri tíð, frá því fyrir landnám.

Haustið 2017 var grafin út birkilurkur og aldursgreindur en sagt var frá þeim fundi í fjölmiðlum, síðla árs 2017, og vakti töluverða athygli. Aldur hans var 3000 ár.

Þann 20. júní 2018 fóru starfsmenn Náttúrustofu Suðausturlands, auk samstarfsmanna aftur á Breiðamerkursand til þess að grafa út aðra birkilurka sem höfðu fundist í jökulurðinni.

Til þess að komast á áfangastað með verkfæri og tól, til að grafa þá út, var siglt yfir Jökulsárlón.

Ein jökulkvíslin hefur grafið út djúpan farveg og þar fundust lurkar. Nokkra klukkutíma tók að grafa út lurkana. Stærsta sýnið reyndist 1,5 m á lengd.

Sýnin voru pökkuð inn sérstaklega og flutt til frekari rannsókna og forvörslu. Frá niðurstöðum þeirra verður sagt frá síðar.

Hér má sjá stutta mynd um vinnuferðina í júní 2018, bæði á íslensku og ensku.

 

 

Nýir starfsmenn hjá Náttúrustofu Suðausturlands

Þann 1. júní tóku tveir nýjir starfsmenn til starfa hjá Náttúrustofu Suðausturlands.

Lilja Jóhannesdóttir verður með starfsaðstöðu í Nýheimum á Höfn í Hornafirði. Hún er með doktorspróf í vistfræði og starfaði áður hjá Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Suðurlandi. Hennar verkefni munu að mestu snúa að verkefnum sem tengjast fuglum og vistfræði. Lilja er alin upp á Nýpugörðum á Mýrum til 12 ára aldurs og má því segja að hún sé komin heim.

Pálína Pálsdóttir verður með starfsaðstöðu í Kirkjubæjarstofu á Kirkjubæjarklaustri. Hún er með B.Sc próf í Búvísindum frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Hennar verkefni mun snúa að gerð hættumats vegna jökulhlaupa á Skaftársvæðinu sem er á ábyrgð Veðurstofu Íslands 2016-2017, en gerður var sérstakur samningur milli Umhverfisráðuneytis og Náttúrustofu Suðausturlands um það verkefni. Einnig vinnur hún að samstarfsverkefni með Landgræðslunni sem kallast „Bændur græða landið“.  Pálína er frá og býr að Mýrum í Álftaveri.

 

Lilja Jóhannesdóttir

Lilja Jóhannesdóttir

Pálína Pálsdóttir

 

Úrkoma á Höfn í maí 2018

Á Höfn er mæld úrkoma og fleiri veðurathuganir gerðar að Höfðavegi 10. Í maí komu 188,6mm í þann mæli sem er 240% af meðalmánaðarúrkomu áranna 1961-1990 þar. Metið sem hefur mælst á Höfn í maí eru 201,2mm árið 1978. Svo maímánuður þessa árs er í öðru sæti hvað varðar úrkomumagn. Í fyrra mældust 178,9 mm svo sá mánuður er í þriðja sæti af úrkomumestu maímánuðum á Höfn. Í fjórða sæti er svo maí árið 1976 þegar úrkoman mældist 168,9mm.

Til samanburðar má geta þess að í Borgum í Nesjum mældust núna 194,1mm og á Kvískerjum í Öræfum 463,3mm. Og í Reykjavík féll úrkomumet frá upphafi mælinga, en þar mældust í allt 128,8mm í maí.

Þegar skoðuð er sólarhringsúrkoma kl. 09 hvern dag á Höfn, má sjá að einungis var alveg þurrt í tvo sólarhringa í mánuðinum og mest mældist úrkoman að morgni 10. maí, 26 mm. Á súluritinu hér fyrir neðan má sjá úrkomuna sem mældist hvern sólarhring fyrir sig.

Rétt er samt að taka fram að margir dagar í mánuðinum verið þurrir að stórum hluta, einkum yfir daginn.

Súlurit sem sýnir úrkomu hvers sólarhrings, mælt kl. 09 að morgni á Höfn.

Súlurit sem sýnir úrkomu hvers sólarhrings á Höfn, mælt kl. 09 að morgni.

 

 

Þorvarður Árnason og Harald Schaller í ferð með Náttúrustofu Suðausturlands inn að Fláajökli í góðu veðri, 4. maí 2018. Ljósmynd: Kristín Hermannsdóttir

Nánari upplýsingar um veðurfar víða  á landinu má lesa á vef Veðurstofu Íslands.

 

Hreindýr á Höfn. Horn byrjuð að vaxa eftir veturinn. Mynd; Björn Gísli Arnarson, 19. april 2018.

Hreindýrið á Höfn

Í vetur og vor hefur eitt hreindýr haldið sig á Höfn. Lengi vel var það í Óslandi, en hefur einnig flakkað um bæinn og sést á tjaldstæðinu, nærri íbúðarhúsum og víðar.

Hreindýr eru yfirleitt í hópum, en þó má búast við að sjá stök dýr, einkum síðla vetrar og stundum eru þau veikburða. Náttúrustofa Austurlands vaktar hreindýr og til þeirra ber að tilkynna um sjúk eða veikburða dýr. Ef þörf er á aðgerðum er það á ábyrgð Matvælastofnunar.

Dýrið sem hefur verið og er enn á Höfn er ungt karldýr. Hann er feitur og nærist ágætlega á grasi og öðru sem hann kroppar. Hann lítur út fyrir að vera í góðu ásigkomulagi og líklegast fer hann til fjalla þegar kemur lengra fram á sumar.

Hreindýr á tjaldstæðinu á Höfn. Mynd tekin 8. maí 2018 af Tatjönu Rössler.

Hreindýrið á skokkinu nærri Ásgarði á Höfn. Mynd; Brynjúlfur Brynjólfsson 1. apríl 2018.

Hreindýr á Höfn. Horn byrjuð að vaxa eftir veturinn. Mynd; Björn Gísli Arnarson, 19. april 2018.

Hreindýr á Höfn. Horn byrjuð að vaxa eftir veturinn. Mynd; Björn Gísli Arnarson, 19. apríl 2018.

Sama dýr. Ungt og sprækt karldýr, og hornin hafa vaxið talsvert á 3 vikum. Mynd; Björn Gísli Arnarson, 10. maí 2018.

Sama dýr. Ungt og sprækt karldýr, og hornin hafa vaxið talsvert á 3 vikum. Mynd; Björn Gísli Arnarson, 10. maí 2018.

Fiðrildagildra 2 á Höfn

Fiðrildagildrur tendraðar og yfirlit yfir fiðrildin frá 2017

Í gær, 16. apríl 2018 var kveikt á þremur fiðrildagildrum á vegum Náttúrustofu Suðausturlands, en fiðrildavöktun er í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands. (sjá vef NÍ)

Mynd 1. Björn Gísli Arnarson að tendra aðra gildruna á Höfn, 16. apríl 2018.

Mynd 1. Björn Gísli Arnarson að tendra aðra gildruna á Höfn, 16. apríl 2018.

Árið 2017 voru gildrurnar einnig þrjár á Suðausturlandi. Tvær í Einarslundi við Hornafjörð og ein í garðinum við Mörtungu í Skaftárhreppi. Þann 17. apríl var kveikt á þeim og loguðu þær langt út í nóvember.

Fyrstu fiðrildin veiddust á Höfn í byrjun maí, en flest fiðrildi voru í þeim við vitjun seinni hluta ágúst, 329 stykki í annarri gildrunni og 455 stykki í hinni (gildru-2). Umsjón með gildrunum er í höndum Björns Gísla Arnarsonar og starfsmanna Náttúrustofu Suðausturlands.

Fyrstu fiðrildin í Mörtungu komu í gilduna í byrjun maí og flest voru fiðrildin í henni við vitjun um 20. ágúst, 813 stykki. Umsjón með gildrunni er í höndum Rannveigar Ólafsdóttur.

Mynd 2 sýnir fjölda veiddra fiðrilda í hverri viku sumarið 2017. Flest þeirra komu í gildrurnar um miðbik og síðari hluta ágúst, en mjög fá veiddust eftir lok september.

Heildarfjöldi fiðrilda sem kom í viku hverri 2017

Mynd 2. Heildarfjöldi fiðrilda sem kom í viku hverri 2017

Á mynd 3 má sjá þær tíu tegundir sem algengastar voru í gildrunum sumarið 2017 og hlutfall þeirra af heildinni á hverjum stað. Í allt komu 23-25 tegundir í gildrurnar og heildarfjöldinn sem gildrurnar fönguðu yfir sumarið var 6129 fiðrildi og komu 43% þeirra í gildruna í Mörtungu. Fjöldi veiddra fiðrilda á milli ára hélst nokkuð stöðugur.

Mynd 3. Hlutfall algengustu fiðrilda af heildinni á hverjum stað á Suðausturland sumarið 2017.

Mynd 3. Hlutfall algengustu fiðrilda af heildinni á hverjum stað á Suðausturland sumarið 2017.

Algengasta tegundin í Mörtungu er grasvefari, en tígulvefari í báðum gildrum á Höfn. Fjöldi grasvefara og jarðygla í Mörtungu sker sig úr samaborið við gildrurnar á Höfn. Einnig er áberandi mikið af tílugvefara á Höfn, samanborið við Mörtungu.

Á síðustu árum hafa allt í allt veiðst 48 tegundir fiðrilda á Höfn, en 38 tegundir í Mörtungu.

Grasvefari

Mynd 4. Grasvefari (Eana osseana) – algengast fiðrildið árið 2017 í Mörtungu

Jarðygla

Mynd 5. Jarðygla (Diarsia mendica) – . Tegund sem var mun algengarari í Mörtungu en á Höfn sumarið 2017.

Ef einstaka flækingstegundir eru skoðaðar má sjá að gammayglur komu í allar gildrurnar á SA-landi sumarið 2017, eða 13 stykki í allt (mynd 5), en það er algengasta flækingstegundin hér á landi. Eins komu 8 kálmölir í gildruna í Mörtungu, en á Höfn komu einungis einn slíkur í gildruna.

Gammaygla - flækingsfiðrildi á Íslandi

Mynd 6. Gammaygla (Autographa gamma)– algengasta flækingsfiðrildið á Íslandi.

 

Mynd 7. Kálmölur (Plutella xylostella). Flækingur sem einnig fannst á Suðausturlandi sumarið 2017.

 

 

Hörfandi jöklar. Við Skaftafellsjökul Ljósm.: Helga Árnadóttir 26.6.2017.

Hörfandi jöklar

Út er komin skýrslan; Hörfandi jöklar – Tillögur að gönguleiðum við sunnanverðan Vatnajökul. Eins og heitið bendir til eru í henni kynntar gönguleiðir, þaðan sem hægt er að fá glögga sýn á þær breytingar sem orðið á jöklum á síðustu áratugum.

Hörfandi jöklar er samvinnuverkefni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Vatnajökulsþjóðgarðs. Aðrir samstarfsaðilar eru Veðurstofa Íslands, Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, Náttúrustofa Suðausturlands, Jöklarannsóknafélagið og Durham háskóli. Markmið verkefnisins er að auka vitund fólks, raunar um allan heim, um þær loftslagsbreytingar sem nú eiga sér stað og áhrif þeirra á umhverfið. Hér á landi sjást beinar afleiðingar hlýnandi loftslags einna best á jöklunum.

Hér eru tillögur að fimm gönguleiðum innan þjóðgarðsins og tekið saman hvaða upplýsingum er hægt að koma á framfæri á hverri leið. Úttektin var gerð á þessum leiðum sumarið 2017. Starfsmenn Náttúrustofu Suðausturlands og Vatnajökulsþjóðgarðs sáu um að velja leiðirnar. Einnig fengum við góða hjálp frá Dr David Evans, frá Durham háskóla, við val á leiðunum og að lýsa jökulmenjum.

Leiðirnar sem eru tilgreindar í skýrslunni eru allar mjög aðgengilegar og tekur yfirleitt stuttan tíma að ganga. Auðvelt er að aka að þeim og í öllum tilfellum er um að ræða hringleiðir svo að sífellt ber eitthvað nýtt fyrir augu. Reynt var að velja þær með misjafnar áherslur varðandi landmótun og hop í huga.

Hægt er að nálgast skýrsluna hér eða sækja hana á útgefið efni hjá Náttúrustofu Suðausturlands.

Hörfandi jöklar. Við Skaftafellsjökul Ljósm.: Helga Árnadóttir 26.6.2017.

Hörfandi jöklar. Við Skaftafellsjökul Ljósm.: Helga Árnadóttir 26.6.2017.

Hoffellsjökull. Ljósm.: Náttúrustofa Suðausturlands/Snævar Guðmundsson, 28.6.2017.

Hoffellsjökull. Ljósm.: Náttúrustofa Suðausturlands/Snævar Guðmundsson, 28.6.2017.