Stiklað á stóru í starfi Náttúrustofu Suðausturlands árið 2019

Á Suðausturlandi er náttúran einstök, jafnvel á heimsvísu. Óvíða er jafn gott aðgengi að jöklum, hér er auðugt fuglalíf árið um kring og nokkrar dýrategundir eru nánast eingöngu bundnar við þennan landshluta. Það eru til dæmis tröllasmiður, helsingi (í varpi) og hreindýr, sem reyndar dreifast um austanvert landið. Jarðfræðin hér er einkar fjölbreytt, enda landið byggt upp af eldsumbrotum fyrir milljónum árum síðan sem jöklar hafa svo mótað í stórfenglegt landslag. Það má því með sanni segja að starfsmenn Náttúrustofu Suðausturlands búi við einstök tækifæri til rannsókna. Hjá stofunni starfa náttúrufræðingar með víðtæka þekkingu á veðri og loftslagsbreytingum, jöklum og jöklabreytingum, fuglum og vistkerfum svæðisins.

Viðfangsefnin sem við sinnum eru fjölbreytt vegna síkvikrar náttúru. Veðrið ræður miklu og með hlýnandi loftslagi og öfgum í veðri þurfum við að aðlaga hegðun og skipulag að þeim breytingum sem eiga sér stað í umhverfi okkar. Á síðustu tveim árum hefur Náttúrustofan, ásamt Vatnajökulsþjóðgarði, tekið þátt í fjölþjóðlegu verkefni um aðlögun að loftslagsbreytingum á norðurslóðum. Lokaráðstefna verkefnisins CLIMATE var haldin í Hoffelli í lok nóvember. Þátttaka okkar í slíku starfi er ekki tilviljun því segja má að við séum stödd í lifandi kennslustofu um loftslagsbreytingar allt árið um kring. Jöklarnir breytast ört og hopa og er ein afleiðing þess að framan við skriðjökla myndast jökullón sem stækka sífellt. Snævarr Guðmundsson, jöklafræðingur stofunnar, hefur verið að skoða hve hratt þau stækka og breytast en niðurstöður mælinga hans munu birtast í næsta ársriti Jöklarannsóknafélags Íslands, Jökli.  

Samhliða hopi jökla verða breytingar á farvegum jökulánna og framburði. Árkvíslum fækkar og eftir að jökulvötnin taka að renna úr lónum myndast stöðugri farvegir. Í gömlum árfarvegum er hins vegar skráð atburðarás sem er í raun saga jökulvatnanna, hvar árnar runnu tímabundið, hvar jökuljaðrar lágu og hvernig vatnsföllin hafa mótað  landið. Á Náttúrustofunni hefur verið unnið að kortlagningu á farvegum Jökulsár á Breiðamerkursandi. Nú hefur verið lokið við að skrá flestalla þekkta farvegi árinnar á kort, en slíkt nýtist meðal annars við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar Breiðamerkursands og skipulagsvinnu við Jökulsárlón sem unnið er að í augnablikinu.

Jöklarnir eru stórvirkir í að rjúfa og móta landið á margan hátt og ber allt Suðausturland þess merkis. Rof jökla skilur eftir opnur að djúpbergi, en slíkt berg hefur storknað á miklu dýpi í jarðskorpunni. Annað sem fylgir jöklum eru grettistök en það eru m.a. stórgrýti sem berast með jökli langt frá upprunastað. Nú hefur verið lokið við gerð steinagarðs við náttúrustíginn á Höfn en í honum eru átta stórgrýti víðs vegar að úr sveitarfélaginu. Markmið garðsins er að kynna algengar bergtegundir sem hér finnast, en á hverjum steini eru upplýsingar um uppruna og þyngd.

Nábýli við jöklana olli íbúum oft miklum skakkaföllum, allt fram á miðja 20. öld. Þó að jöklarnir hafi minnkað og minni ógn stafi af þeim geta þeir enn í dag valdið miklum skaða. Dæmi um það eru jökulhlaup en eitt af verkefnum stofunnar sem lokið var við á þessu ári var skýrsla fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Í henni eru teknar saman allar fáanlegar upplýsingar um jökulvötn og -hlaup í Skaftárhreppi. Þar er bæði rýnt í áhrif jökulvatna á náttúruna og samfélagið. Skýrslan var unnin af starfsmönnum stofunnar á Kirkjubæjarklaustri. Önnur vá sem er afleiðing af hopi jöklana eru skriðuföll. Yfirvofandi skriðuhætta er nú í Svínafellsheiði, ofan við Svínafellsjökul. Vel er fylgst með þessu af sérfræðingum Háskóla Íslands og Veðurstofu Íslands, en starfsfólk Náttúrustofunnar kemur einnig að því samstarfi.

Suðausturland er í heild sinni paradís fyrir fugla en samkvæmt alþjóðlegu fuglaverndarsamtökunum (e. BirdLife) er nánast allt svæðið skilgreint sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Sem dæmi um mikilvægið má nefna að um 75% íslenska skúmsstofnsins verpur á söndunum sunnan jökla. Rannsóknir starfsmanna Náttúrustofunnar hafa þó sýnt að skúm hefur fækkað verulega undangengin ár og í kjölfar þeirra niðurstaðna var skúmurinn færður á válista Náttúrufræðistofnunnar Íslands árið 2018. Fækkunin stafar líklegast af lélegum varpárangri sem er afleiðing breytinga í fæðuframboði, ekki hvað síst vegna hruns sandsílisstofnsins sem rakið hefur verið til loftslagsbreytinga. Nú í sumar var unnið að rannsókn um varpárangur skúms á Breiðamerkursandi og verður unnið úr þeim gögnum nú á vordögum. En Suðausturland er ekki einungis höfuðvígi skúmsins heldur hefur íslenski helsingjavarpstofninn kosið að verpa nær einungis í þessum landshluta. Varpstofninn hefur vaxið hratt á undanförnum árum og Náttúrustofan hefur í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands og Fuglaathugunarstöð Suðausturlands fylgst grannt með því. Á næsta ári munu erlendir sérfræðingar koma til landsins til helsingjarannsókna í samstarfi við stofuna.

Varpstofnar bæði skúms og helsingja hafa tekið miklum breytingum á skömmum tíma en þeir varpstofnar eru afmarkaðir við lítil svæði og því er nokkuð auðvelt að mæla stofnstærðarbreytingar. Hins vegar er afar erfitt að mæla slíkar breytingar hjá tegundum sem verpa í úthaga um landið allt, dæmi um slíkar tegundir eru mófuglarnir okkar, til dæmis heiðlóa, hrossagaukur, tjaldur og spói. Til að meta stofnstærðarbreytingar slíkra tegunda er nauðsynlegt að beita öðrum aðferðum, t.d. með að vakta svæði þar sem fuglarnir safnast saman, oft við fæðuöflun. Við hjá Náttúrustofunni höfum verið við slíka vinnu hér umhverfis Höfn þar sem fjöldi vaðfugla á leirunum, bæði í Skarðsfirði og Hornafirði, hefur verið vaktaður frá því sumarið 2018. Reglulegar og staðlaðar mælingar yfir lengra tímabil eru besta leiðin til að greina stofnstærðarbreytingar tegunda sem dreifast yfir stór svæði. Vöktunartölur verða gefnar út árið 2020.

Ein ástæða þess hversu auðugt fuglalíf er að finna hér um slóðir eru ríkuleg votlendi og vatnasvæði. Síðastliðin tvö sumur hefur stofan skoðað fuglalíf við tjarnir í Sveitarfélaginu Hornafirði en vantað hefur upp á upplýsingar um slíkt. Hluti þeirra gagna sem safnað eru myndir af tjörnunum sem teknar voru með flygildi stofunnar. Þann 10. janúar 2020 verður opnuð sýningin Tjarnarsýn í bókasafninu á Höfn með hluta þessara mynda sem Lilja Jóhannesdóttir tók.

Samkvæmt lögum um Náttúrustofur ber okkur að fræða og miðla þekkingu. Við á Náttúrustofu Suðausturlands tökum þessu hlutverki okkar alvarlega og nýtum þau tækifæri sem okkur gefast. Í ár, sem önnur ár, höfum við hitt skólahópa bæði frá Grunnskóla Hornafjarðar og Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu, en líka fengið til okkar skólahópa bæði frá Landgræðsluskóla og Jafnréttisskóla Sameinuðu þjóðanna og frá Kanadískum háskóla, svo fátt eitt sé nefnt. Einnig tókum við á móti tveimur nemum í starfskynningu frá Grunnskóla Hornafjarðar.

Í sumar heimsótti Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra Náttúrustofu Suðausturlands á Höfn og var ánægjulegt að fá hann og samstarfsfólk hans til okkar. Starfsmenn stofunnar áttu góðan fund með gestunum um málefni og verkefni stofunnar og að honum loknum var haldið út á Jökulsárlón þar Vatnajökulsþjóðgarður vígði fræðslustíg þar sem sjá má skilti um náttúru svæðisins. Náttúrustofa Suðausturlands vann efni á fjögur skilti og við hvetjum alla að staldra við á leið sinni um Suðausturland og skoða fræðslustíginn og umhverfið við Jökulsárlón. 

Náttúrustofa Suðausturlands hefur nú verið starfrækt í sex ár hefur starfsemi hennar vaxið og dafnað. Í dag eru þrír starfsmenn á Höfn og tveir á Kirkjubæjarklaustri í hálfu starfi. Hver starfmaður á svona lítilli stofnun er mikilvægur og skiptir miklu að samspil menntunar og þekkingar starfsmanna sé gott því fjölbreyttur bakgrunnur  eflir starf okkar til framtíðar. Við tökum því brosandi á móti nýju ári.

Bólstaðafoss og Fláajökull í vetrarbirtu  – Ljósm.: Náttúrustofa Suðausturlands/Snævarr Guðmundsson 30. nóvember 2019.
Nýklakinn skúmsungi bíður eftir systkini sínu á Breiðamerkursandi sumarið 2018. Ljósm.: LJ.
Nýklakinn skúmsungi bíður eftir systkini sínu á Breiðamerkursandi sumarið 2018. Ljósm.: Lilja Jóhannesdóttir.
Ein tjarnanna sem fuglalíf var skoðað á, en hún er staðsett norðan við bæinn Volasel í Lóni. Ljósm. Náttúrustofa Suðausturlands/Lilja Jóhannesdóttir 6. júlí 2018.
Hluti starfsfólks Náttúrustofu Suðausturlands með umhverfisráðherra við Jökulsárlón.  Frá vinstri; Snævarr Guðmundsson, Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra, Kristín Hermannsdóttir og Lilja Jóhannesdóttir.  Ljósm. Kristín Vala Þrastardóttir 3. júlí 2019.

Jólakveðja frá Náttúrustofu Suðausturlands 2019

Náttúrustofa Suðausturlands sendir öllum samstarfsfélögum, vinum og velunnurum bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár.

Merki CLIMATE-verkefnisins

Ráðstefna í Hornafirði um aðlögun að loftslagsbreytingum – CLIMATE

Þann 22. nóvember var haldin lokaráðstefna CLIMATE, verkefnis sem Náttúrustofa Suðausturlands hefur tekið þátt í undanfarin ár sem leitast við að finna lausnir til að takast á við áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum.

CLIMATE leiðir saman ólíka hagsmunaaðila frá átta Evrópulöndum með að sjónarmiði að vinna lausnir fyrir mismunandi svæði. Þátttakendur verkefnisins eru fræðimenn, starfsmenn stofnana og stefnumótendur sveitarfélaga og hefur verkefnið lagt áherslu á að miðla þekkingu á milli landa.

Á ráðstefnunni, sem haldin var í Hoffelli í Hornafirði, var kynnt líkan sem er aðalafurð verkefnisins en líkanið nýtist sem leiðarvísir um hvernig best er aðlaga skipulag og viðbúnað vegna afleiðinga loftslagsbreytinga. Þær breytingar í veðurfari sem hafa átt sér stað og eru yfirvofandi snerta alla heimsbyggðina, t.d. ofsarigningar, þurrkar og hitabylgjur, en breytilegt er á milli svæða hverjar áskoranirnar eru, jafnvel á smáum skala líkt á milli sveitarfélaga á Íslandi. Þó að áskoranirnar séu ólíkar á milli landa og landsvæða þá nýtist líkanið stjórnvöldum alls staðar sem hjálpartæki til að aðlaga skipulag, þol opinberrar þjónustu og viðbrögð við loftslagsbreytingum.


Einfölduð mynd af líkaninu fyrir aðlögun að loftslagsbreytingum. Fyrst þarf að skoða hvað ógnar (hvaða veðurþættir) og hvað er í hættu á hverjum stað. Því næst að leita leiða til að mæta ógninni og forgangsraða mótvægisaðgerðum, framkvæma þær og að síðustu að meta árangur og endurskoða áætlanir. Ferlinu lýkur þó ekki þarna heldur þarf reglulega nota líkanið fyrir alla veðurþætti sem geta haft áhrif á hverjum stað, því slíkt getur breyst með tíma. Á vefsvæði verkefnisins sem verður aðgengilegt snemma árs 2020 verða mun ítarlegri upplýsingar um hvert skref fyrir sig, með gátlistum og aðferðum, aðlagað að mismunandi sviðmyndum.

Á ráðstefnunni var einnig fjallað um staðbundin áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi og hvernig þurfi að bregðast við þeim. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur flutti erindi um loftslagsbreytingar á Íslandi, Snævarr Guðmundsson náttúrulandfræðingur fjallaði um jöklabreytingar og Steinunn Hödd Harðardóttir starfsmaður Vatnajökulsþjóðgarðs sagði frá þjóðgarðinum og áhrifum loftslagsbreytinga á starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs. Fundinum stýrði Helga Árnadóttir, þjóðgarðsvörður á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs, og var mæting góð og var aðstaðan í Hoffelli til fyrirmyndar.   

Vefur verkefnisins er http://climate.interreg-npa.eu/

Ríkisútvarpið fjallaði um ráðstefnuna í hádegisfréttum þann 22.11.2019 og tekið var viðtal við Kristínu Hermannsdóttur, forstöðumann Náttúrustofu Suðausturlands en hún hefur leitt verkefnið fyrir hönd Íslands (viðtalið hefst á elleftu mínútu): RUV-hádegisfréttir.

Í þættinum Samfélagið á Rás 1 þann 25. nóvember var viðtal við Kristínu H. um CLIMATE-verkefnið og fleira tengt Náttúrustofunn (viðtalið hefst á 23 mínútu): RÁS1-Samfélagið.

Fjallað var um ráðstefnuna í Eystrahorni í 42. tölublaði 2019 og á vef blaðsins. 

Ráðstefnugestir í Hoffelli, í baksýn má sjá Hoffellsjökul, en hann hefur minnkað ört síðustu áratugi.  Ljósm. Michelle Coll.
Snævarr Guðmundsson flytur erindi um jöklabreytingar á ráðstefnunni. Ljósm. Kristín Hermannsdóttir.
Ráðstefnugestir hlýða á erindi Jennie Sandström í Hoffelli á CLIMATE ráðstefnu 22. nóvember 2019. Ljósm. Lilja Jóhannesdóttir.
Verkefnahópurinn í heimsókn á Bessastöðum, hjá Hr. Guðna Th. Jóhannessyni forseta. Ljósm. Michelle Coll.

Jökulvötn í Skaftárhreppi

Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands um Jökulvötn í Skaftárhreppi.  Er hún afrakstur samnings sem gerður var milli Náttúrustofu Suðausturlands og umhverfis- og auðlindaráðuneytis, en einn liður í þeim samningi var að gera skipulega samantekt (skýrslu) á fyrirliggjandi gögnum um jökulvötn í Skaftárhreppi og áhrif þeirra.

Höfundar skýrslunnar eru Pálína Pálsdóttir og Rannveig Ólafsdóttir, báðar búsettar í Skaftárhreppi. Leitað var fanga á ýmsum sviðum og í samstarfi við margar stofnanir og einstaklinga og þannig reynt að fá sem heilstæðasta mynd af jökulvötnunum og áhrifum þeirra.

Í skýrslunni er greint frá jökulvötnum í Skaftárhreppi og áhrifum þeirra á náttúru og samfélag, en þar á sér stað talsvert gróður- og landrof af völdum jökulvatna. Í byrjun október árið 2015 hljóp úr eystri Skaftárkatli í Vatnajökli og reyndist það vera rennslismesta Skaftárhlaup síðan mælingar hófust árið 1951 eða um 3.000 m3/sek. Þar sem um var að ræða stærri atburð en áður hafði sést var ráðist í gerð þessarar skýrslu að beiðni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Einnig er sagt frá áhrifum loftslagsbreytinga á jökulvötn og nýtingu vatnsafls ásamt því hvernig hægt er að aðlagast breytingum þeim tengdum. Farið er yfir helstu viðbragðsaðila þegar kemur að náttúruhamförum og hvernig megi að draga úr tjóni af þeirra völdum með skipulegri áhættustýringu og viðbragðsáætlunum.

Skýrslan er vistuð á vef Náttúrstofu Suðausturlands (nattsa.is), en einnig verður hægt að finna eintök á héraðsbókasafni Skaftárhrepps, skrifstofu Skaftárhrepps, Kirkjubæjarstofu, hjá umhverfis- og auðlindaráðuneyti, höfundum og fleirum.

Einnig er hægt er að sækja skýrsluna hér:

Skaftá, þar sem hún rennur framhjá Kirkjubæjarklaustri. Ljósm.: Jón Karl Snorrason, 2018.

Litmerking helsingja á Breiðamerkursandi

Líkt og tvö síðustu sumur tók Náttúrustofa Suðausturlands þátt í helsingjamerkingum á Breiðamerkursandi í júlí síðastliðnum. Verkefnið er drifið áfram af Arnóri Sigfússyni dýravistfræðing hjá Verkís ásamt fuglafræðingum hjá Wildfowl and Wetland Trust í Bretlandi. Verkefni sem þetta krefjast margra handa og eins og algengt er í vísindaheiminum byggir það á samstarfi stofnanna. Í ár komu til aðstoðar fólk frá stofunni á Höfn, Náttúrustofu Austurlands, Vatnajökulsþjóðgarði, Nýheimum þekkingasetri, Fuglaathugunarstöð Suðausturlands auk nokkrurra kappsamra sjálfboðaliða. Verkefnið var styrkt af Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar.

Alls voru merktir um 200 helsingjar í ár. Hver fugl sem næst fær lítið stálmerki á vinstri fót með ígröfnu einkennandi númer fyrir viðkomandi fugl, nokkurs konar kennitölu. Gallinn við þau merki er þó sá að erfitt er að lesa af merkjunum nema komast í mikið návígi við fuglana (nokkra metra fjarlægð). Til að leysa þann vanda eru notuð litmerki, þá er settur plasthringur á fuglana sem er gerður á þann hátt að hægt er að lesa af honum úr talsverðri fjarlægð. Mörg mismunandi merkjakerfi eru notuð í heiminum en fyrir helsingjana er notast við einn hring  með áletraða tvo bókstafi. Það sem einkennir helsingja sem merktir eru á Íslandi eru óbrotin lína sem aðgreinir stafina tvo.

Tilgangur merkinganna er að geta fylgst með hegðun einstaklinga til að skilja betur atferli fuglanna og svara spurningum eins og hvert fuglarnir fara og hvað þeir eru þar lengi. Út frá því má svo álykta um hegðun stofnsins, ekki síst ef búið að merkja nokkurn fjölda einstaklinga í stofninum. Því fleiri fuglar sem eru merktir því betri upplýsingar fást um atferli og afkomu stofnsins. Lykilatriði er þó að einhver sé til staðar til að lesa af merkjunum þar sem þeir fara um og hvetjum við fólk sem sér merkta fugla, eða veiðimenn, að senda upplýsingar um hvar og hvenær fuglinn sást til Náttúrufræðistofnunnar á netfangið fuglamerki@ni.is. Þar sem íslenski helsinginn hefur að mestu vetursetu í Skotlandi er einkar gagnlegt að vera í samstarfi við breska stofnun en fólkið þar er duglegt að lesa af merkjum. Náttúrustofan þakkar öllum sem komu að merkingunum og hlakkar til að fá fréttir af helsingjunum sem merktir voru í sumar.

Mynd 1 – Lilja Jóhannesdóttir, starfsmaður Náttúrustofu Suðausturlands, með helsingjagassa sem fékk litmerki með áletrunni LJ sem eru upphafsstafir Lilju. Mynd: Hlynur Steinsson.

Mynd 2 – Árin 2017-18 fengu fuglarnir blá merki en einungis er hægt að gera takmarkaðan fjölda merkja með ólíkum bókstafasamsetningum og fengu því fuglarnir í ár hvít merki. Til að aðgreina helsingja merkta á Íslandi eru þau litmerki með óbrotna línu á milli bókstafa. Mynd: Lilja Jóhannesdóttir.

Fundur um framtíð Breiðamerkursands

Síðustu vikur og mánuði hefur Náttúrustofa Suðausturlands, í samráði við Vatnajökulsþjóðgarð, unnið að verkefnum á suðursvæði þjóðgarðsins. Og nýlega var komið að ákveðnum kaflaskilum.

Þriðjudagskvöldið 2. júlí 2019 var haldinn kynningar- og hugarflugsfundur í Mánagarði í Nesjum þar sem að vinna svæðisráðs suðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs, um framtíð Breiðamerkursands og Jökulsárlóns, var kynnt. Í þessu verkefni hefur stofan unnið að kortum sem sýna núverandi landslag, byggingar og fleira á því svæði sem varð hluti af þjóðgarðinum í júli 2017. Þar fyrir utan hafa starfsmenn stofunnar verið ráðgjafar við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir svæðið, og mun sú vinna halda áfram næstu mánuði.

Kort sem sýnir mörk Vatnajökulsþjóðgarðs á Breiðamerkursandi. Kortagerð: Náttúrustofa Suðausturlands/Snævarr Guðmundsson.
Starfsmenn Náttúrustofu Suðausturlands, Vatnajökulsþjóðgarðs, svæðisráðs suðursvæðsi Vatnajökulsþjóðgarðs og ýmsir aðrir tóku þátt í kynningar og hugarflugsfundi í Mánagarði. Ljósm. Kristín Hermannsdóttir.

Furðufiskur í grennd

Í dag kl. 14 verður opnuð sýning á vegum Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar í samstarfi við Náttúrustofu Suðausturlands í Nýheimum. Þar má sjá ýmsa furðufiska sem hafa veiðst af hornfiskum skipum og/eða í grennd við Hornafjörð. Hafa þessir fiskar verið varðveittir í safni Menningarmiðstöðvarinnar um langa hríð og er kominn tími til að koma þeim fyrir sjónir almennings. Verður sýningin opin í Gallerý Nýheimum frá 05.07-05.08.2019.

Á opnunardegi verður einnig hægt að sjá og snerta ferska fiska í boði Fiskbúðar Gunnhildar á Höfn. Verður sú sýning utan við Nýheima og eru allir boðnir velkomnir á viðburðinn.

Umhverfisráðherra heimsækir Náttúrustofu Suðausturlands

Miðvikudaginn 3. júlí 2019 heimsótti Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra Náttúrustofu Suðausturlands, en stofan starfar samkvæmt rekstrarsamningi milli umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Sveitarfélagsins Hornafjarðar og Skaftárhrepps. Auk þess vinnur hún að samningsbundnum verkefnum á vegum ráðuneytisins og verkefnum sem hljóta styrki úr samkeppnissjóðum. Ánægjulegt var að fá Guðmund Inga ráðherra, Orra Pál Jóhannsson aðstoðarmann hans, Guðríði Þorvarðardóttur og Jón Geir Pétursson samstarfsfólk þeirra úr ráðuneytinu í heimsókn á Höfn. Starfsmenn stofunnar áttu góðan fund með gestunum um málefni og verkefni stofunnar. Margt var rætt á fundinum og meðal annars kom fram mikilvægi þess að hafa fólk með sérþekkingu nærri viðfangsefnum, slíkt er fjárhagslega hagkvæmt og einnig eflir starfsemi fjölbreyttra stofnana innan þekkingarmiðstöðva samfélagið og ýtir undir samstarf milli stofnana.  

Að loknum fundi var haldið út á Jökulsárlón þar Vatnajökulsþjóðgarður vígði fræðslustíg sem er afrakstur góðs samstarf fjölda stofnanna og einstaklinga og var styrktur af Vinum Vatnajökuls. Á fræðslustígnum má sjá skilti um náttúru svæðisins. Náttúrustofa Suðausturlands vann efni á fjögur skilti; um loftslagsbreytingar, myndun jökullóna, liti ísjaka og einkennisfugla svæðisins. Við hvetjum alla  að staldra við á leið sinni um Suðausturland og skoða fræðslustíginn og umhverfið við Jökulsárlón.

Hluti starfsfólks Náttúrustofu Suðausturlands með umhverfisráðherra við Jökulsárlón.  Frá vinstri; Snævarr Guðmundsson, Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra, Kristín Hermannsdóttir og Lilja Jóhannesdóttir.  Ljósm. Kristín Vala Þrastardóttir. 
Lilja Jóhannesdóttir við skilti með upplýsingum um einkennisfugla svæðisins, en efni skiltisins var unnið af starfsfólki Náttúrustofu Sauðausturlands. Ljósm. Kristín Hermannsdóttir
Sigurlaug Gissurardóttir ferðaþjónustubóndi og Snævarr Guðmundsson náttúrulandfræðingur á Náttúrustofu Suðausturlands, sem bæði eru meðlimir í svæðisráði suðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs, Kristín Vala Þrastardóttir verkefnastjóri Nýheimum þekkingarsetri, Lilja Jóhannesdóttir vistfræðingur á Náttúrustofu Suðausturlands og Sigrún Sigurgeirsdóttir starfsmaður Vatnajökulsþjóðgarðs við eitt skiltanna við Jökulsárlón. Ljósm. Kristín Hermannsdóttir.

Grein um Breiðamerkursand og hop Breiðamerkurjökuls á 20. öld í Geografiska Annaler.

Breiðamerkursandur og hop Breiðamerkurjökuls eru höfuðviðfangsefnið í ritrýndri grein sem birtist í alþjóðlega vísindaritinu Geografiska Annaler: Series A, Physical Geography, í lok júní 2019. Í greininni “Testing lichenometric techniques in the production of a new growth-rate (curve) for the Breiðamerkurjökull foreland, Iceland, and the analysis of potential climatic drivers of glacier recession” er m.a. gerður samanburður á þrem aðferðum í fléttumælingum (lichenometry) til þess að kanna trúverðugleika þeirra. Fléttumælingar hafa verið notaðar til þess að aldursgreina misgamla jökulgarða og þ.a.l. meta hophraða jökla, sérstaklega á norðlægum breiddarbaugum og fjalllendi. Niðurstöður úr slíkum mælingum hér á landi hafa ekki sannfært jarðfræðinga um hvort treysta megi þessum aðferðum, vegna ósamsvörunar í vaxtarhraða á milli svæða. Í þessari grein eru niðurstöður stærðarmælinga á fléttunni Rhizocarbon geographicum borin við þekkta stöðu jökuljaðarsins á 20. öld, til þess að ákvarða vaxtarferil (growth curve) hennar á vestanverðum Breiðamerkursandi. Engin skýr tengsl við veðurfarssveifluna, sem nefnd er Norður-Atlantshafssveiflan (North Atlantic Oscillation = NOA), komu fram en samanburður loftslagssveiflna á 20. öld og rýrnun Breiðamerkurjökuls benda til þess að lofthiti, þá sérstaklega á sumrin, sé helsti hvatinn í hve hratt hann hefur hopað.

Höfundar greinarinnar eru David J. A. Evans, prófessor við Durham háskóla á Englandi, Snævarr Guðmundsson hjá Náttúrustofu Suðausturlands og Jonathan L. Vautrey, KateFernyough & W. Gerard Southworth, sem voru nemendur D. Evans þegar þetta verkefni var unnið.

Greinina í heild sinni má finna hér.

Vestanverður Breiðamerkursandur, með Skúmey í forgrunni, Öræfajökull í baki. Ljósm.: Náttúrustofa Suðausturlands/Snævarr Guðmundsson.
Rhizocarpon geographicum
Mæling á fléttunni Rhizocarpon geographicum. Ljósm.: Snævarr Guðmundsson, 11.8.2012.
Helsingi sumarið 2018

Helsingjavarp á Suðausturlandi

Helsingja hefur fjölgað nokkuð hratt hér á suðausturhorninu á síðastliðnum árum eins og grafið hér að neðan sýnir en þar er þróun í fjölda helsingjahreiðra í Skúmey (í Jökulsárlóni) sýnd. Þessa dagana er Náttúrustofa Suðausturlands, ásamt Fuglaathugunarstöð Suðausturlands og Náttúrufræðistofnun Íslands að kortleggja varpútbreiðslu helsingjans og þiggjum við allar upplýsingar um hvar hann er að verpa. Ef þið vitið um helsingjahreiður vorið 2019, látið okkur endilega vita á fésbókarsíðu okkar, eða með öðrum mögulegum leiðum s.s. símtali eða tölvupósti. Bestu þakkir!