Helsingjaungi vorið 2020

Varpútbreiðsla helsingja á Suðausturlandi 2019 og 2020

Nú eru komin á netið tvö minnisblöð frá kortlagningu varpútbreiðslu helsingja síðustu tveggja sumra. Helsingi er tiltölulega nýr varpfugl á Íslandi og er aðalvarpútbreiðsla hans í Skaftafellssýslum og höfum við á Náttúrustofunni lagt áherslu á að fylgjast náið með framvindunni. Heildstæð hreiðurtalning fór fram í fyrsta skipti árið 2019 sem var samstarfsverkefni Náttúrustofu Suðausturlands og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Verkefnið var styrkt af Vinum Vatnajökuls og kunnum við samtökunum bestu þakkir. Alls fundust 2051 helsingjahreiður í úttektinni, 1760 hreiður í Austur-Skaftafellssýslu og 292 í Vestur-Skaftafellssýslu.

Sumarið 2020 var kortlagningin unnin í tengslum við AEWA (African – Eurasian Migratory Waterbird Agreement) og EGMIWG (European Goose Management International Working Group) en verkefnið er í samvinna við Breta og Íra um vöktun íslenska varpstofnsins og þess grænlenska. Samkvæmt rannsóknaáætlun á að meta íslenska varpstofninn sömu ár og heildartalning fer fram á vetrarstöðvum á Bretlandseyjum, þ.e. 2020, 2023 og 2026. Sumarið 2020 fundust í heild 2493 helsingjahreiður í Skaftafellssýslum, 421 í Vestur-Skaftafellssýslu og 2072 í Austur-Skaftafellssýslu. Vitað er að helsingjastofninn verpur víðar í litlum mæli og því er stofnmat helsingja á Íslandi 2500 varpör vorið 2020, auk geldfugla. Fjöldi geldfugla er áætlaður frá hlutfalli geldfugla í vörpum þar sem heildartalning er möguleg. Út frá því og fjölda varppara er metið að stofnstærð íslenskra helsingja árið 2019 hafi verið um 9000 fuglar (geldfugl 54,3%) og 2020 um 11.600 fuglar (geldfugl 57,4%). Heildartalning Grænlandsstofns (þ.m.t. íslenski varpstofninn) á vetrarstöðvum í mars 2020 gaf 73.391 fugl en ef marka má heildarstofnmat á Íslandi sama vor þá er hlutdeild íslenskra helsingja orðin 15,8% (var um 12,5% 2019).

Þetta og meira má lesa í minnisblöðunum sem finna má hér fyrir árið 2019 og hér fyrir árið 2020.

Farvegir Jökulsár á Breiðamerkursandi

Í nýjasta hefti Jökuls (nr 70), ársriti Jöklarannsóknafélags Íslands, er grein eftir Snævarr Guðmundsson á Náttúrustofu Suðausturlands og Helga Björnsson jöklafræðing á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, þar sem dreginn er saman fróðleikur um farvegi Jökulsár á Breiðamerkursandi og kynnt kort sem sýnir hvar áin rann á ýmsum tímum á 19. og 20. öld. Jökulsá á Breiðamerkursandi er á meðal vatnsmestu vatnsfalla á Íslandi, og á meðan sandar á Suðausturlandi voru einungis reiðfærir og stórvötn öll óbrúuð, þótti hún á meðal illfærustu straumvatna landsins. Áður en áin gróf sig í stöðugan stokk á fjórða áratug 20. aldar átti hún til að flæmast um á sandinum, ýmist í mörgum álum eða falla fram í fáum straummiklum kvíslum. Sumir hinna gömlu farvega sjást enn báðum megin við núverandi farveg Jökulsár. Með nákvæmum kortum af Breiðamerkursandi má rekja legu þeirra víða um sandinn og út frá rituðum heimildum hvenær áin rann í þeim. Ágrip af greininni má sjá hér.

 

Varpútbreiðsla skúms í Ingólfshöfða, Salthöfða og á Skeiðarársandi sumarið 2019

Nú er kominn út önnur skýrsla á skömmum tíma um skúm út hjá Náttúrustofunni en þessi skýrsla segir frá varpútbreiðslu skúms í Ingólfshöfða, Salthöfða og á Skeiðarársandi sumarið 2019. Í kjölfar kortlagningar á varpútbreiðslu skúms á Breiðamerkursandi sumarið 2018 sem unnin var við stofuna í samstarfi við Fuglaathugunarstöð Suðausturlands og sýndi fram á mikla fækkun var ákveðið að skoða önnur skúmsvörp á nálægum svæðum. Kortlagningin sumarið 2019 sýndi fram á að fjöldabreyting á varppörum er breytileg á milli svæða, talsverð fækkun hefur átt sér stað á Skeiðarársandi en hins vegar fjölgun í Ingólfshöfða. Nánari upplýsingar má lesa í skýrslunni hérna.