Helsingjaungi vorið 2020

Varpútbreiðsla helsingja á Suðausturlandi 2019 og 2020

Nú eru komin á netið tvö minnisblöð frá kortlagningu varpútbreiðslu helsingja síðustu tveggja sumra. Helsingi er tiltölulega nýr varpfugl á Íslandi og er aðalvarpútbreiðsla hans í Skaftafellssýslum og höfum við á Náttúrustofunni lagt áherslu á að fylgjast náið með framvindunni. Heildstæð hreiðurtalning fór fram í fyrsta skipti árið 2019 sem var samstarfsverkefni Náttúrustofu Suðausturlands og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Verkefnið var styrkt af Vinum Vatnajökuls og kunnum við samtökunum bestu þakkir. Alls fundust 2051 helsingjahreiður í úttektinni, 1760 hreiður í Austur-Skaftafellssýslu og 292 í Vestur-Skaftafellssýslu.

Sumarið 2020 var kortlagningin unnin í tengslum við AEWA (African – Eurasian Migratory Waterbird Agreement) og EGMIWG (European Goose Management International Working Group) en verkefnið er í samvinna við Breta og Íra um vöktun íslenska varpstofnsins og þess grænlenska. Samkvæmt rannsóknaáætlun á að meta íslenska varpstofninn sömu ár og heildartalning fer fram á vetrarstöðvum á Bretlandseyjum, þ.e. 2020, 2023 og 2026. Sumarið 2020 fundust í heild 2493 helsingjahreiður í Skaftafellssýslum, 421 í Vestur-Skaftafellssýslu og 2072 í Austur-Skaftafellssýslu. Vitað er að helsingjastofninn verpur víðar í litlum mæli og því er stofnmat helsingja á Íslandi 2500 varpör vorið 2020, auk geldfugla. Fjöldi geldfugla er áætlaður frá hlutfalli geldfugla í vörpum þar sem heildartalning er möguleg. Út frá því og fjölda varppara er metið að stofnstærð íslenskra helsingja árið 2019 hafi verið um 9000 fuglar (geldfugl 54,3%) og 2020 um 11.600 fuglar (geldfugl 57,4%). Heildartalning Grænlandsstofns (þ.m.t. íslenski varpstofninn) á vetrarstöðvum í mars 2020 gaf 73.391 fugl en ef marka má heildarstofnmat á Íslandi sama vor þá er hlutdeild íslenskra helsingja orðin 15,8% (var um 12,5% 2019).

Þetta og meira má lesa í minnisblöðunum sem finna má hér fyrir árið 2019 og hér fyrir árið 2020.