Bændur græða landið sumarið 2020

Verkefninu bændur græða landið sumarið 2020 er lokið á Suðausturlandi, en það er samvinnuverkefni Landgræðslunnar og bænda um uppgræðslu heimalanda. Tilgangur þess er að styrkja bændur til landgræðslu á jörðum sínum, stöðva rof, þekja land gróðri og gera það nothæft á ný til landbúnaðar eða annarra nota. Starfsmaður á vegum Náttúrustofu Suðausturlands, Pálína Pálsdóttir, sem hefur aðsetur á Kirkjubæjarklaustri sá um verkefnið. Starfið fólst í heimsóknum til bænda í sveitarfélögunum Skaftárhreppi og Hornafirði en svæðið nær allt frá Mýrdalssandi og austur í Lón. Alls eru 35 bændur á svæðinu þátttakendur í verkefninu, 29 í Skaftárhreppi og 6 í Hornafirði.

Nánar má lesa sér til um verkefnið á landsvísu á vef Landgræðslunnar:  https://land.is/baendur-graeda-landid/

Hér fyrir neðan má sjá myndir sem teknar á Hólmsáraurum en þar er unnið að uppgræðslu á vegum Landbótasjóðs og verkefnisins “Bændur græða landið”. Myndirnar eru teknar af Garðari Þorfinnssyni héraðsfulltrúa Landgræðslunnar.

Mynd frá uppgræðslusvæði á Hólmsáraurum en þar er unnið að uppgræðslu á vegum Landbótasjóðs og verkefnisins “Bændur græða landið”. Mynd fengin frá Landgræðslunni.
Landgræðslusvæði á Hólmsáraurum í Austur-Skaftafellssýslu. Mynd fengin frá Landgræðslunni.
Hólmsáraurar í Austur-Skaftafellssýslu. Mynd fengin frá Landgræðslunni.

Merki CLIMATE-verkefnisins

Ráðstefna í Hornafirði um aðlögun að loftslagsbreytingum – CLIMATE

Þann 22. nóvember var haldin lokaráðstefna CLIMATE, verkefnis sem Náttúrustofa Suðausturlands hefur tekið þátt í undanfarin ár sem leitast við að finna lausnir til að takast á við áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum.

CLIMATE leiðir saman ólíka hagsmunaaðila frá átta Evrópulöndum með að sjónarmiði að vinna lausnir fyrir mismunandi svæði. Þátttakendur verkefnisins eru fræðimenn, starfsmenn stofnana og stefnumótendur sveitarfélaga og hefur verkefnið lagt áherslu á að miðla þekkingu á milli landa.

Á ráðstefnunni, sem haldin var í Hoffelli í Hornafirði, var kynnt líkan sem er aðalafurð verkefnisins en líkanið nýtist sem leiðarvísir um hvernig best er aðlaga skipulag og viðbúnað vegna afleiðinga loftslagsbreytinga. Þær breytingar í veðurfari sem hafa átt sér stað og eru yfirvofandi snerta alla heimsbyggðina, t.d. ofsarigningar, þurrkar og hitabylgjur, en breytilegt er á milli svæða hverjar áskoranirnar eru, jafnvel á smáum skala líkt á milli sveitarfélaga á Íslandi. Þó að áskoranirnar séu ólíkar á milli landa og landsvæða þá nýtist líkanið stjórnvöldum alls staðar sem hjálpartæki til að aðlaga skipulag, þol opinberrar þjónustu og viðbrögð við loftslagsbreytingum.


Einfölduð mynd af líkaninu fyrir aðlögun að loftslagsbreytingum. Fyrst þarf að skoða hvað ógnar (hvaða veðurþættir) og hvað er í hættu á hverjum stað. Því næst að leita leiða til að mæta ógninni og forgangsraða mótvægisaðgerðum, framkvæma þær og að síðustu að meta árangur og endurskoða áætlanir. Ferlinu lýkur þó ekki þarna heldur þarf reglulega nota líkanið fyrir alla veðurþætti sem geta haft áhrif á hverjum stað, því slíkt getur breyst með tíma. Á vefsvæði verkefnisins sem verður aðgengilegt snemma árs 2020 verða mun ítarlegri upplýsingar um hvert skref fyrir sig, með gátlistum og aðferðum, aðlagað að mismunandi sviðmyndum.

Á ráðstefnunni var einnig fjallað um staðbundin áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi og hvernig þurfi að bregðast við þeim. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur flutti erindi um loftslagsbreytingar á Íslandi, Snævarr Guðmundsson náttúrulandfræðingur fjallaði um jöklabreytingar og Steinunn Hödd Harðardóttir starfsmaður Vatnajökulsþjóðgarðs sagði frá þjóðgarðinum og áhrifum loftslagsbreytinga á starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs. Fundinum stýrði Helga Árnadóttir, þjóðgarðsvörður á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs, og var mæting góð og var aðstaðan í Hoffelli til fyrirmyndar.   

Vefur verkefnisins er http://climate.interreg-npa.eu/

Ríkisútvarpið fjallaði um ráðstefnuna í hádegisfréttum þann 22.11.2019 og tekið var viðtal við Kristínu Hermannsdóttur, forstöðumann Náttúrustofu Suðausturlands en hún hefur leitt verkefnið fyrir hönd Íslands (viðtalið hefst á elleftu mínútu): RUV-hádegisfréttir.

Í þættinum Samfélagið á Rás 1 þann 25. nóvember var viðtal við Kristínu H. um CLIMATE-verkefnið og fleira tengt Náttúrustofunn (viðtalið hefst á 23 mínútu): RÁS1-Samfélagið.

Fjallað var um ráðstefnuna í Eystrahorni í 42. tölublaði 2019 og á vef blaðsins. 

Ráðstefnugestir í Hoffelli, í baksýn má sjá Hoffellsjökul, en hann hefur minnkað ört síðustu áratugi.  Ljósm. Michelle Coll.
Snævarr Guðmundsson flytur erindi um jöklabreytingar á ráðstefnunni. Ljósm. Kristín Hermannsdóttir.
Ráðstefnugestir hlýða á erindi Jennie Sandström í Hoffelli á CLIMATE ráðstefnu 22. nóvember 2019. Ljósm. Lilja Jóhannesdóttir.
Verkefnahópurinn í heimsókn á Bessastöðum, hjá Hr. Guðna Th. Jóhannessyni forseta. Ljósm. Michelle Coll.

Jökulvötn í Skaftárhreppi

Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands um Jökulvötn í Skaftárhreppi.  Er hún afrakstur samnings sem gerður var milli Náttúrustofu Suðausturlands og umhverfis- og auðlindaráðuneytis, en einn liður í þeim samningi var að gera skipulega samantekt (skýrslu) á fyrirliggjandi gögnum um jökulvötn í Skaftárhreppi og áhrif þeirra.

Höfundar skýrslunnar eru Pálína Pálsdóttir og Rannveig Ólafsdóttir, báðar búsettar í Skaftárhreppi. Leitað var fanga á ýmsum sviðum og í samstarfi við margar stofnanir og einstaklinga og þannig reynt að fá sem heilstæðasta mynd af jökulvötnunum og áhrifum þeirra.

Í skýrslunni er greint frá jökulvötnum í Skaftárhreppi og áhrifum þeirra á náttúru og samfélag, en þar á sér stað talsvert gróður- og landrof af völdum jökulvatna. Í byrjun október árið 2015 hljóp úr eystri Skaftárkatli í Vatnajökli og reyndist það vera rennslismesta Skaftárhlaup síðan mælingar hófust árið 1951 eða um 3.000 m3/sek. Þar sem um var að ræða stærri atburð en áður hafði sést var ráðist í gerð þessarar skýrslu að beiðni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Einnig er sagt frá áhrifum loftslagsbreytinga á jökulvötn og nýtingu vatnsafls ásamt því hvernig hægt er að aðlagast breytingum þeim tengdum. Farið er yfir helstu viðbragðsaðila þegar kemur að náttúruhamförum og hvernig megi að draga úr tjóni af þeirra völdum með skipulegri áhættustýringu og viðbragðsáætlunum.

Skýrslan er vistuð á vef Náttúrstofu Suðausturlands (nattsa.is), en einnig verður hægt að finna eintök á héraðsbókasafni Skaftárhrepps, skrifstofu Skaftárhrepps, Kirkjubæjarstofu, hjá umhverfis- og auðlindaráðuneyti, höfundum og fleirum.

Einnig er hægt er að sækja skýrsluna hér:

Skaftá, þar sem hún rennur framhjá Kirkjubæjarklaustri. Ljósm.: Jón Karl Snorrason, 2018.
Helsingi sumarið 2018

Helsingjavarp á Suðausturlandi

Helsingja hefur fjölgað nokkuð hratt hér á suðausturhorninu á síðastliðnum árum eins og grafið hér að neðan sýnir en þar er þróun í fjölda helsingjahreiðra í Skúmey (í Jökulsárlóni) sýnd. Þessa dagana er Náttúrustofa Suðausturlands, ásamt Fuglaathugunarstöð Suðausturlands og Náttúrufræðistofnun Íslands að kortleggja varpútbreiðslu helsingjans og þiggjum við allar upplýsingar um hvar hann er að verpa. Ef þið vitið um helsingjahreiður vorið 2019, látið okkur endilega vita á fésbókarsíðu okkar, eða með öðrum mögulegum leiðum s.s. símtali eða tölvupósti. Bestu þakkir!

Helsingjahreiður í Skógey 27. maí 2014. Ljósmynd Björn Gísli Arnarson.

Helsingjar í Austur-Skaftafellssýslu – Stofnstærð og varpútbreiðsla 2014

Út er komin skýrsla á vegum Náttúrustofu Suðausturlands um helsingja í Austur-Skaftafellssýlus- stofnstærð og varpútbreiðsla 2014. Verkefnið var samvinnuverkefni með Fuglaathugunarstöð Suðausturlands og var styrkt af Veiðikortasjóði Umhverfis– og auðlindaráðuneytisins.
Sumarið 2014 var farið á nokkur svæði í Austur-Skaftafellssýslu sem álitið var að helsingjar kynnu að verpa. Hreiðurstæði voru hnitsett og talin á hverjum stað. Vitað var að árið 2009 voru um 40 helsingjahreiður í Austur-Skaftafellssýslu en fyrirfram talið að þeim hefði fjölgað nokkuð síðan þá. Talningin sumarið 2014 leiddi í ljós að hreiðrin voru að minnsta kosti 509. Fjölgun helsingjapara sem verpa á Suðausturlandi hefur því verið mjög hröð síðastliðin ár, eða meira en 1200% aukning á fimm árum.

Síðustu áratugi hefur veðurfar á Íslandi breyst, meðalárshiti hækkað og ársúrkoma aukist. Ef horft er til þess að helsingjar verpa að jafnaði á mun norðlægari stöðum kemur fjölgun helsingjavarpa nokkuð á óvart. Helsingjar hafa hingað til orpið á svölum stöðum s. s. á Grænlandi og Svalbarða. Því er ekki að sjá að skýra megi fjölgunina út frá veðurþáttum. Aðrir þættir líkt og fæðuframboð og landslag spila þar líklega inn í, bæði á Íslandi og öðrum varpstöðum.

Skýrsluna í heild sinni má sjá á vef Náttúrustofu Suðausturlands nattsa.is undir útgefið efni eða hér.

 

Helsingi í Skógey 27. maí 2014. Ljósmynd Björn Gísli Arnarson.

Helsingi í Skógey 27. maí 2014. Ljósmynd Björn Gísli Arnarson.

 

 

Breiðamerkurjökull og Jökulsárlón. Ljósm. Snævarr Guðmundsson, 13. september 2014.

Jöklabreytingar á Breiðamerkurjökli

Frá lokum 19. aldar hafa miklar breytingar orðið á íslenskum jöklum og þeir hörfað og rýrnað vegna hlýnandi loftslags. Jöklarnir náðu mestu stærð á sögulegum tíma um 1890, eftir nokkurra alda kuldaskeið sem nefnt er litla ísöld. Í nýlegri M.Sc. ritgerð Snævars Guðmundssonar (2014), um Breiðamerkurjökul og Kotárjökul, kemur fram að frá ~1890 til 2010 hopaði sporður Breiðamerkurjökuls rúma 5 km að meðaltali og um 114 ferkm lands kom undan jökli. Jafnframt rýrnaði jökullinn um 69 rúmkm að vatnsgildi eða um 20%. Verkefnið er meðal fyrstu rannsókna sem Náttúrustofa Suðausturlands innir af hendi.

Meðfylgjandi myndir voru teknar 13. september 2014. Þær sýna Breiðamerkurjökul og Jökulsárlón. Ísinn kelfir af jökulsporðinum í lónið og brotnar upp í jaka. Ferlið flýtir fyrir rýrnun jökulsins og hann hopar hraðar. Ísinn rekur tímabundið um sem jakar á lóninu, ferðalöngum til ánægju, en bráðnar að lokum  og hverfur.

 

Vestur- og Miðarmur Breiðamerkurjökuls. Einnig sjást Máfabyggðir (uppi t. v.) og Esjufjöll (ofan við miðja mynd). Ljósm. Snævarr Guðmundsson, 13. september 2014.

Vestur- og Miðarmur Breiðamerkurjökuls. Einnig sjást Máfabyggðir (uppi t. v.) og Esjufjöll (ofan við miðja mynd). Ljósm. Snævarr Guðmundsson, 13. september 2014.

Breiðamerkurjökull kelfir í Jökulsárlón, þ. e. það brýtur af jöklinum og. Ísinn kelfir af jökulsporðunum í lónin og brotnar upp í jaka sem reka á lóninu, ferðalöngum til ánægju, uns þeir bráðna. Ljósm. Snævarr Guðmundsson, 13. september 2014.

Breiðamerkurjökull kelfir í Jökulsárlón, þ. e. það brýtur af jöklinum og. Ísinn kelfir af jökulsporðunum í lónin og brotnar upp í jaka sem reka á lóninu, ferðalöngum til ánægju, uns þeir bráðna. Ljósm. Snævarr Guðmundsson, 13. september 2014.

 

Náttúrustígur – líkan af sólkerfinu

Við göngustíg sem liggur vestanmegin við byggðina á Höfn í Hornafirði er verið að koma upp líkani af sólkerfinu, en ætlunin í framtíðinni er að koma þar fyrir upplýsingum um náttúruna í víðu samhengi. Frá stígnum er frábært útsýni til jökla og suðausturhluta Vatnajökulsþjóðgarðs. Fyrsta skrefið í gerð Náttúrustígs er að koma fyrir líkani að sólkerfinu í réttum hlutföllum, hvað varðar stærð og fjarlægðir.  Út frá líkani af sólkerfinu gerir fólk sér frekar grein fyrir smæð jarðarinnar, smæð Íslands og okkar sjálfra. Jörðin er eini staðurinn í okkar sólkerfi þar sem líf þrífst svo líkanið minnir á mikilvægi þess að umgangast náttúruna vel, allt umhverfið og jörðina í heild sinni.

Við það að sjá og upplifa smæð jarðarinnar, Íslands og okkar í samanburði við sólina og aðrar reikistjörnur er ætlunin að fá fólk til þess að hugsa um mikilvægi þess að ganga vel um náttúruna og það sem við höfum. Sólkerfið mun einnig nýtast skólunum til kennslu, en allir geta notið þess að skoða líkanið og lesa á skilti sem sett verða við það. Skilti með helstu upplýsingum verða við hverja reikistjörnu auk Ceres og Plútó.  Hér að neðan eru krækjur á frekari upplýsingar en koma fram á skiltunum. Einng verður rafræn útgáfa bæklings um stíginn sett hér að neðan þegar hann verður tilbúinn.

Myrkurgæði – greinargerð

Út er komin greinargerð hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu um myrkurgæði og tillögur um hvernig sporna megi við ljósmengun á Íslandi, bæði í þéttbýli og dreifbýli.  Starfsmaður Náttúrustofu Suðausturlands, Snævarr Guðmundsson vann ásamt fleirum í starfshópi að þessari greinargerð, en starfshópurinn hefur starfað síðan í mars 2012 og var Mörður Árnason formaður hans.

Í tilefni af útgáfu greinargerðarinnar um Myrkurgæði á Íslandi verður haldið málþing um myrkurgæði og ljósmengun miðvikudaginn 23. október, kl. 10–12, í fundarsal Þjóðminjasafnsins. Sjá nánar í frétt um málþingið á vef umhverfisráðuneytisins.  http://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/2490

Greinargerði er gefin út rafrænt og má skoða hana eða sækja hér.

Hér má sjá auglysinguna .

 

 

Myndun jökulrennunnar undir Breiðamerkurjökli

2013-1: MYNDUN JÖKULRENNUNNAR UNDIR BREIÐAMERKURJÖKLI

Hvenær og hvernig myndaðist jökulrennan sem Breiðamerkurjökull hvílir í? Er myndun hennar lokið? Jökulsárlón tók að myndast um 1930 við hop Breiðamerkurjökuls en íssjármælingar á síðasta áratug 20. aldar leiddu í ljós 300 m djúpa og 25 km langa rennu sem nær langleiðina upp í Esjufjöll. Botn Breiðamerkurjökuls hvílir í þessari rennu og við áframhaldandi hop jökulsins mun Jökulsárlón stækka . Tvær hugmyndir eru um myndun rennunnar; a) jökullinn hafi rofið hana á litlu ísöld þegar hann skreið fram eða b) rennan myndaðist að mestu eftir að hlýna tók í lok 19. aldar og leysingarvatn tók að grafa hana út. Unnt er að skera úr um hvor tilgátan stenst með úrvinnslu á mæligögnum um yfirborðshæð Breiðamerkurjökuls, frá fyrsta áratug 20. aldar og samanburði við seinni tíma mælingar. Að þessu verkefni vinna: Snævarr Guðmundsson náttúrulandfræðingur, Helgi Björnsson jöklafræðingur, Náttúrustofa Suðausturlands og Jöklahópur Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Aldursgreining gróðurleifa

2013-2: ALDURSGREINING GRÓÐURLEIFA VIÐ BREIÐAMERKURJÖKUL

Sumarið 2012 fannst setlag með gróðurleifum í jökulaur framan við Breiðamerkurjökul. Setlagaopnan er kominn undan jökli fyrir nokkrum árum og er óhögguð, það er hún situr á sínum upprunalega myndunarstað. Jökullinn skreið yfir þetta svæði fyrir árið 1700 en ofanáliggjandi jökulaur varði setlagið fyrir hnjaski. Í setlaginu fundust rótarbútar og aðrar lífrænar leifar sem gera kleift að aldursgreina myndunartíma setsins. Gróðurleifar og jarðvegshnausar hafa áður borist undan jöklum en sjaldnast fundist á myndunarstað. Þessi einstaki fundur gefur því tækifæri til þess að rannsaka enn frekar og fá skýrari mynd af gróðurfarssögu og loftslagi á Breiðamerkursandi löngu fyrir Litlu ísöld. Það er mikilvægt innlegg í sögu umhverfisbreytinga á Breiðamerkursandi og Vatnajökulsþjóðsgarðs. Að þessu verkefni vinna: Snævarr Guðmundsson náttúrulandfræðingur, Helgi Björnsson jöklafræðingur, Náttúrustofa Suðausturlands og Jöklahópur Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands