Myndun jökulrennunnar undir Breiðamerkurjökli
2013-1: MYNDUN JÖKULRENNUNNAR UNDIR BREIÐAMERKURJÖKLI
Hvenær og hvernig myndaðist jökulrennan sem Breiðamerkurjökull hvílir í? Er myndun hennar lokið? Jökulsárlón tók að myndast um 1930 við hop Breiðamerkurjökuls en íssjármælingar á síðasta áratug 20. aldar leiddu í ljós 300 m djúpa og 25 km langa rennu sem nær langleiðina upp í Esjufjöll. Botn Breiðamerkurjökuls hvílir í þessari rennu og við áframhaldandi hop jökulsins mun Jökulsárlón stækka . Tvær hugmyndir eru um myndun rennunnar; a) jökullinn hafi rofið hana á litlu ísöld þegar hann skreið fram eða b) rennan myndaðist að mestu eftir að hlýna tók í lok 19. aldar og leysingarvatn tók að grafa hana út. Unnt er að skera úr um hvor tilgátan stenst með úrvinnslu á mæligögnum um yfirborðshæð Breiðamerkurjökuls, frá fyrsta áratug 20. aldar og samanburði við seinni tíma mælingar. Að þessu verkefni vinna: Snævarr Guðmundsson náttúrulandfræðingur, Helgi Björnsson jöklafræðingur, Náttúrustofa Suðausturlands og Jöklahópur Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.