Snævarr Guðmundsson, Kristín Hermannsdóttir og Rögnvaldur Ólafsson njóta veitinga fyrir ársfund Náttúrustofu Suðausturlands í febrúar 2018

Minning – Dr. Rögnvaldur Ólafsson

Í dag kveðjum við máttarstólpa í sögu Náttúrustofu Suðausturlands þegar Rögnvaldur Ólafsson verður jarðsunginn frá Neskirkju. Rögnvaldur var hvatamaður að stofnun Náttúrustofunnar og sat hann sem formaður í stjórn hennar allt frá upphafi árið 2013 fram á mitt ár 2022 þegar þrekið var farið að þverra um of. Engu fyrr var hann reiðubúinn að kveðja okkur hér á stofunni. Rögnvaldur hafði alla tíð óbilandi trú á starfi okkar og var ávallt hvetjandi og bjartsýnn. Hann sýndi okkur starfsfólkinu einlægan áhuga og hvatti til dáða, bæði sem vísindamenn en einnig sem manneskjur. Rögnvaldur sinnti formennsku við stjórn stofunnar af elju, var bóngóður og fór gjarnan erinda okkar í borginni þegar á reyndi. Því fór fjarri að Náttúrustofan væri eina stofnunin sem nyti góðs af kröftum hans en Rögnvaldur sat í stjórn fjölda þekkingasetra á landsbyggðinni og stýrði uppbyggingu Rannsóknasetra Háskóla Íslands víða um land. Rögnvaldur hafði skýra sýn á mikilvægi þess að vísindi væru unnin um allt land með afburða vísindafólki og lét verkin tala. Það sést glöggt þegar litið yfir glæstan feril hans.

Ég kynntist fyrst Rögnvaldi sem meistaranemi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi og strax við fyrstu kynni fékk maður að finna fyrir einlægum áhuga hans á störfum manns og hvatningu til góðra verka. Þegar ég kvaddi svo rannsóknasetrið til að koma að vinna við Náttúrustofu Suðausturlands var ég svo ótrúlega lánsöm að fá að njóta nærveru hans áfram. Vil ég fyrir hönd allra starfsmanna stofunnar fyrr og síðar þakka Rögnvaldi fyrir góða fylgd og hans góðu störf. Blessuð sé minning hans.

Lilja Jóhannesdóttir, forstöðumaður

Nýr starfsmaður Náttúrustofu Suðausturlands

Um áramótin tók til starfa nýr starfsmaður hjá Náttúrustofunni, Álfur Birkir Bjarnason. Álfur er með B.Sc. gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands og í tölvunarstærðfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Álfur kemur inn í 50% stöðu til að byrja með en samhliða henni vinnur hann sem verkefnastjóri hjá Vatnajökulsþjóðgarði. Áður hefur Álfur m.a. starfað sem stundakennari hjá Háskólanum í Reykjavík, sem gagnavísindamaður hjá Meniga og sinnt landvörslu fyrir Vatnajökulsþjóðagarð. Álfur er mikill útivistarmaður og náttúrubarn og var kjörinn formaður Samtakanna ‘78 síðasta vor. Rannsóknaráherslur hans snúa helst að plöntuvistfræði og gróðri en auk þeirra mun hann sinna fjölbreyttum verkefnum hjá stofunni. Álfur verður með aðsetur á Kirkjubæjarklaustri og bjóðum við hann hjartanlega velkomin til starfa.

Náttúrustofa Suðausturlands leitar að náttúrufræðingi  

 

Náttúrufræðingur

Náttúrustofa Suðausturlands óskar eftir náttúrufræðing til starfa. Um er að ræða fullt starf sem fer fram bæði í vettvangsrannsóknum og við úrvinnslu gagna og skýrsluskrif. Starfið mótast af sérþekkingu umsækjanda og getur m.a. snúið að þróun nýrra verkefna á sviði náttúrurannsókna. Náttúrustofa Suðausturlands sinnir fjölbreyttum náttúrufarsrannsóknum, t.d. á fuglum, gróðri, kolefnisflæði, jöklum og landformum.

Lesa meira

Myrkvar valinna myrkvastjarna og þvergöngur fjarrreikistjarna – Yfirlit 2020.

 

Út er komin rafræn skýrsla þar sem greint er frá ljósmælingum á völdum myrkvatvístirnum og fjarreikistjörnum, sem flestar voru gerðar frá Hornafirði árið 2020. Höfundur hennar er Snævarr Guðmundsson hjá Náttúrustofu Suðausturlands. Þar er sagt frá myrkvatvístirnunum HX UMa, V 523 Cas, V 477 Peg, V 549 And, V 705 And og V 473 Cam. Eitt markmiða er að tímasetja myrkvana og bera saman við viðurkennda spátíma. Í þéttstæðum kerfum getur lotulengd breyst, m.a. vegna massaflutnings á milli stjarnanna. Athuganirnar nýtast því til að ákvarða stöðugleika myrkvatvístirnanna og gera líkön af þeim. Í tveim tilfellum eru birt líkön af stjörnukerfunum þar sem stærðarsamanburður er gerður við sólina.

Næst er greint frá mælingum á þvergöngum fjarreikistjarnanna WASP 10b, HAT-P-51b, TrES 5b, Qatar 4b, HAT-P-16b, HAT-P-19b, HAT-P-52b, K2-30b, XO-6b, HAT-P-32b, Qatar 1b og WASP 33b. Þær mælingar upplýsa myrkvadýpt, lengd þvergöngu og tímafrávik. Vöktun á þessum stjörnum gerir kleift að meta tímafrávik sem benda til óreglu í umferðartíma eða eru vísbendingar um áhrif óséðra massa á kerfin. Niðurstöður á myrkvastjörnum og þvergöngum fjarreikistjarna eru sendar í alþjóðlegan gagnagrunn stjörnufræðifélags Tékklands þar sem að þau eru aðgengileg stjarnvísindasamfélaginu, ásamt mæligögnum annarra stjörnufræðinga og stjörnuáhugamanna.

Þetta er fimmta skýrslan um stjarnfræðilegar mælingar sem Náttúrustofa Suðausturlands gefur út. Fyrri skýrslur komu út árin 2016, 2018, 2019 og 2020. Þær eru aðgengilegar á https://nattsa.is/utgefid-efni/. Markmið útgáfunnar er að birta stjarnfræðilegar mælingar sem eru að öllu leyti framkvæmdar hér á landi. Hægt er að nálgast skýrsluna á rafrænu formi hér.

Yfirlit um íslenska jökla 2020

Fréttabréf, vegna verkefnisins „Hörfandi jöklar“, er komið út. Það upplýsir um jöklabreytingar og niðurstöður mælinga á stöðu jökulsporða árið 2020. Þar kemur fram að afkoma íslenskra jökla var lítillega neikvæð það ár, og þó að flestir sporðar hafi hopað tugi metra hafi orðið vart við að nokkrir brattir skriðjöklar hafi sigið svolítið fram. Mest hopaði Breiðamerkurjökull um 100-250 metra. „Hörfandi jöklar“ er samvinnuverkefni sem Náttúrustofa Suðausturlands kemur að ásamt Veðurstofu Íslands, Jöklahópi Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands og Vatnajökulsþjóðgarði, og er fjármagnað af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Ýtarlegri fréttaskýringu er að finna á vef Veðurstofunnar og tengill á fréttabréfið er hér. RÚV sagði einnig frá fréttabréfinu, sjá hér.

Merkur fundur í vettvangsferð á Breiðamerkursandi. Mikilvægt innlegg í skráningu jöklabreytinga.

Í vettvangsferð um Breiðamerkursand, fimmtudaginn 3. ágúst 2017,  vísaði Fjölnir Torfason, Þórbergssetri, samferðafólki á athyglisvert grettistak. Aðrir í ferðinni voru Helga Árnadóttir, aðstoðarþjóðgarðsvörður á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs, Rósa Björk Halldórsdóttir, yfirlandvörður við Jökulsárlón og Snævarr Guðmundsson, jöklafræðingur hjá Náttúrustofu Suðausturlands. Steininn hafði Þorsteinn Guðmundsson frá Reynivöllum, notað sem viðmið í jöklamælingum fyrir miðja síðustu öld. Á hann er fest koparplata, sem hann greypti í fjarlægðir að jökulsporði Breiðamerkurjökuls, á árunum 1945 til 1951.

Fjölnir fann steininn fyrir tilviljun við smalamennsku haustið 2005. Hann segir svo frá að „sól hafi  verið lágt á lofti og hann tekið eftir að það glampaði á eitthvað við steininn.“ Fjölnir vissi strax hvað um var að ræða, enda skráði hann sjálfur á þessum tíma sporðastöðu Breiðamerkurjökuls. Saga reglubundinna jöklamælinga í Austur-Skaftafellssýslu nær aftur til 1930. Helgi H. Eiríksson hófst fyrstur handa við það en síðan tók Jón Eyþórsson, veðurfræðingur við og kom á fót skráningu jökulsporða víða. Það voru heimamenn sem sinntu mælingunum lengst af á Breiðamerkurjökli. Fjölnir hafði skráningarbækur forvera sinna undir höndum og vitnesku um að einhvers staðar á þessum slóðum hefði verið steinn með áfastri plötu.

Snævarr Guðmundsson, jöklafræðingur hjá Náttúrustofu Suðausturlands vinnur markvisst að skráningu jöklabreytinga í skriðjöklum Vatnajökuls. Snævarr og Fjölnir höfðu lengi ætlað sér að fara að steininum og náðu loks ferð saman á þessum bjarta fimmtudegi í byrjun ágústmánaðar. Platan er enn áföst steininum og vel má lesa hvað Þorsteinn á Reynivöllum skráði. Þorsteinn notaði lambastimpla, til að hnoða ártal og vegalengd (í metrum) frá steininum að jökulsporði á plötuna. Þessar aðferðir eru ólíkar þeim sem nú tíðkast meðal vísindamanna, sem nota GPS tæki, loftmyndir í  miklum gæðum eða gervihnattamyndir, til að skrá stöðu jökuls hverju sinni. Stimplarnir eru enn vel lesanlegar í dag. Tölurnar veita jöklafræðingum mikilvægar upplýsingar um stöðu jökulsins á þessum tíma, sem er síðan mikilvægt púsl í hopunarsögu Breiðamerkurjökuls.

Þó svo að endurfundur skráningarsteinsins hafi verið skemmtilegt innlegg í þessa vettvangsferð, var þó megin tilgangurinn að fara fyrstu yfirferð yfir þá vegslóða sem myndast hafa á sandinum undanfarin ár. Margir þeirra hafa tilgang en aðrir slóðar enda í vegleysum eða jafnvel hefur akstur valdið gróðurskemmdum og jarðraski. Breiðamerkursandur er nú orðinn friðlýstur innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Svæðið á sér merka sögu jökla- og náttúrufarsbreytinga. Brýnt er að hraða gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Sandinn, þar sem m.a. þarf að taka fyrir landnýtingu. Í ferðinni var nokkrum slóðum lokað, þar sem einsýnt þótti, að þeir voru ekki í gagnagrunnum og höfðu valdið spjöllum.  Á mörgum stöðum voru afar ljót för í landið og bersýnileg merki um utanvegaakstur. Vonir eru bundar við að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið veiti gott utanumhald og fræðslu, þannig að ferðir ökutækja um sandinn verði skipulagðar þannig að náttúra og nýting fari vel saman.

Þessi frétt birtist einnig á heimasíðu Vatnajökulsþjóðgarðs.

Platan sem Þorsteinn Guðmundsson frá Reynivöllum skráði vegalengd að jökulsporði, á árunum 1945-1951. Ljósm. Snævarr Guðmundsson.

Breiðamerkursandur. Ljósm. Náttúrustofa Suðausturlands , 3. mars 2017.

 

Stjörnustöð – heimsóknir á opið hús – póstlisti

Miðvikudaginn 19. febrúar 2014 hélt Náttúrustofa Suðausturlands „opið hús“ í nýju stjörnustöðinni sem sett var upp nærri Fjárhúsavík nú í vetur. Þar gafst bæjarbúum tækifæri til þess að skoða aðstöðuna og sjálft húsið sem er mikil völundarsmíð, með snúanlegu og opnanlegu þaki. Ekki var hægt að skoða stjörnur þetta kvöld því himinn var þungskýjaður. Gestir sem litu við nutu þess í stað leiðsagnar um bygginguna, markmið hennar auk annars spjalls og fengu með heitt kakó og piparkökur. Á staðnum var einnig listi sem fólk gat skráð á nafn, netfang og símanúmer. Ætlunin er að  þegar viðrar til stjörnuskoðunar á næstu vikum verði tilkynning send til þeirra og þeim boðið að kíkja.  Þeir sem ekki sáu sér fært að kíkja við síðastliðinn miðvikudag en vilja vera á slíkum póstlista geta sent póst á starfsmenn Náttúrustofu á info@nattsa.is, eða fyllt út í fyrirspurnar formið sem er neðst á heimasíðunni.
Umfjöllun erlendis
Það er víðar en á Höfn sem stjörnustöðin hefur fengið athygli.  Í  ástralska dagblaðinu Maitland Mercury, sem er gefið út í Maitland í Hunter – dal, Nýju South Wales birtist dálkagrein um stöðina skömmu fyrir áramót. Hér má sjá umfjöllunina:
Dagblaðið heldur úti blaðadálki um vísindi í víðum skilningi. Dálkahöfundurinn Col Maybury hefur nokkrum sinnum ritað um Ísland.
Frétt sem birtist í erlendu tímariti