Myrkvar valinna myrkvastjarna og þvergöngur fjarrreikistjarna – Yfirlit 2020.

 

Út er komin rafræn skýrsla þar sem greint er frá ljósmælingum á völdum myrkvatvístirnum og fjarreikistjörnum, sem flestar voru gerðar frá Hornafirði árið 2020. Höfundur hennar er Snævarr Guðmundsson hjá Náttúrustofu Suðausturlands. Þar er sagt frá myrkvatvístirnunum HX UMa, V 523 Cas, V 477 Peg, V 549 And, V 705 And og V 473 Cam. Eitt markmiða er að tímasetja myrkvana og bera saman við viðurkennda spátíma. Í þéttstæðum kerfum getur lotulengd breyst, m.a. vegna massaflutnings á milli stjarnanna. Athuganirnar nýtast því til að ákvarða stöðugleika myrkvatvístirnanna og gera líkön af þeim. Í tveim tilfellum eru birt líkön af stjörnukerfunum þar sem stærðarsamanburður er gerður við sólina.

Næst er greint frá mælingum á þvergöngum fjarreikistjarnanna WASP 10b, HAT-P-51b, TrES 5b, Qatar 4b, HAT-P-16b, HAT-P-19b, HAT-P-52b, K2-30b, XO-6b, HAT-P-32b, Qatar 1b og WASP 33b. Þær mælingar upplýsa myrkvadýpt, lengd þvergöngu og tímafrávik. Vöktun á þessum stjörnum gerir kleift að meta tímafrávik sem benda til óreglu í umferðartíma eða eru vísbendingar um áhrif óséðra massa á kerfin. Niðurstöður á myrkvastjörnum og þvergöngum fjarreikistjarna eru sendar í alþjóðlegan gagnagrunn stjörnufræðifélags Tékklands þar sem að þau eru aðgengileg stjarnvísindasamfélaginu, ásamt mæligögnum annarra stjörnufræðinga og stjörnuáhugamanna.

Þetta er fimmta skýrslan um stjarnfræðilegar mælingar sem Náttúrustofa Suðausturlands gefur út. Fyrri skýrslur komu út árin 2016, 2018, 2019 og 2020. Þær eru aðgengilegar á https://nattsa.is/utgefid-efni/. Markmið útgáfunnar er að birta stjarnfræðilegar mælingar sem eru að öllu leyti framkvæmdar hér á landi. Hægt er að nálgast skýrsluna á rafrænu formi hér.