Þolmarkarannsókn á Breiðamerkursandi
Náttúrustofa Suðausturlands og Nýheimar Þekkingarsetur vinna nú að rannsókn á þolmörkum við Jökulsárlón og á Breiðamerkursandi. Er þetta samstarfsverkefni unnið fyrir Vatnajökulsþjóðgarð með aðkomu Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði, annarra fagstofnana og sérfræðinga Vatnajökulsþjóðgarðs. Verkefnið hófst í ágúst 2021 og hefur verið unnið að gagnaöflum og samráði við sérfræðinga. Áætluð verklok eru lok árs 2022 með skýrsluskrifum og þar verður sett fram aðgerðaráætlun. Verkefnastjóri er Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir.
Markmið verkefnisins er að meta ástand svæðisins og gera áætlun hvernig unnt er að tryggja sjálfbæra þróun þess. Það er gert með því að kanna þolmörk náttúrunnar, ferðamanna og innviða á svæðinu. Er verkefnið liður í Vörðu, sameiginlegu verkefni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Varða byggir á heildstæðri nálgun í stjórnun áfangastaða og er Breiðamerkursandur einn af fjórum fyrstu áfangastöðunum sem unnið er með í verkefninu. Vörður eru merkisstaðir á Íslandi sem teljast einstakir á lands- eða heimsvísu. Meginaðdráttarafl þeirra eru náttúrufyrirbæri og/eða menningarsögulegar minjar sem mynda sérstætt landslag eða landslagsheildir.
Svæðin sem eru einkum til skoðunar eru athafnasvæðin við Fjallsárlón og Jökulsárlón auk svæðanna frá þjóðvegi að jökli austantil á svæðinu (Þröng) og vestantil (Námuvegur/Breiðá) (sjá kort).

Rannsóknarsvæði þolmarkarannsóknar á Breiðamerkursandi. Eru hringir umhverfis þá staði sem flestir gesta heimsækja, vegslóðar sem eru mikið eknir af ferðamönnum eru einnig afmarkaðir. Kort: Snævarr Guðmundsson, 2021.
Snýr aðkoma starfsmanna Náttúrustofu Suðausturlands að þessu verkefni einkum að því að útvega gögn um náttúru og lífríki á svæðinu, vinna kort og meta ástand lands, auk þess að taka þátt í að leggja til möguleg viðbrögð við ágangi eða þoli.
Aðferðir sem eru notaðar eru sambærilegar og í öðru verkefni sem náttúrustofan tekur þátt í og kallast vöktun náttúruverndarsvæða og er það unnið í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands. Í þolmarkarannsókninni taka starfsmenn stofunnar þátt í vinnufundum og reglubundnu samtali við verkefnastjóra og annarra þátttakenda í verkefninu. Á næstu vikum og mánuðum er áhersla á rannsóknir á vettvangi og er gert ráð fyrir að þeirri gagnaöflun ljúki í sumar.