Merki CLIMATE-verkefnisins

Ráðstefna í Hornafirði um aðlögun að loftslagsbreytingum – CLIMATE

Þann 22. nóvember var haldin lokaráðstefna CLIMATE, verkefnis sem Náttúrustofa Suðausturlands hefur tekið þátt í undanfarin ár sem leitast við að finna lausnir til að takast á við áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum.

CLIMATE leiðir saman ólíka hagsmunaaðila frá átta Evrópulöndum með að sjónarmiði að vinna lausnir fyrir mismunandi svæði. Þátttakendur verkefnisins eru fræðimenn, starfsmenn stofnana og stefnumótendur sveitarfélaga og hefur verkefnið lagt áherslu á að miðla þekkingu á milli landa.

Á ráðstefnunni, sem haldin var í Hoffelli í Hornafirði, var kynnt líkan sem er aðalafurð verkefnisins en líkanið nýtist sem leiðarvísir um hvernig best er aðlaga skipulag og viðbúnað vegna afleiðinga loftslagsbreytinga. Þær breytingar í veðurfari sem hafa átt sér stað og eru yfirvofandi snerta alla heimsbyggðina, t.d. ofsarigningar, þurrkar og hitabylgjur, en breytilegt er á milli svæða hverjar áskoranirnar eru, jafnvel á smáum skala líkt á milli sveitarfélaga á Íslandi. Þó að áskoranirnar séu ólíkar á milli landa og landsvæða þá nýtist líkanið stjórnvöldum alls staðar sem hjálpartæki til að aðlaga skipulag, þol opinberrar þjónustu og viðbrögð við loftslagsbreytingum.


Einfölduð mynd af líkaninu fyrir aðlögun að loftslagsbreytingum. Fyrst þarf að skoða hvað ógnar (hvaða veðurþættir) og hvað er í hættu á hverjum stað. Því næst að leita leiða til að mæta ógninni og forgangsraða mótvægisaðgerðum, framkvæma þær og að síðustu að meta árangur og endurskoða áætlanir. Ferlinu lýkur þó ekki þarna heldur þarf reglulega nota líkanið fyrir alla veðurþætti sem geta haft áhrif á hverjum stað, því slíkt getur breyst með tíma. Á vefsvæði verkefnisins sem verður aðgengilegt snemma árs 2020 verða mun ítarlegri upplýsingar um hvert skref fyrir sig, með gátlistum og aðferðum, aðlagað að mismunandi sviðmyndum.

Á ráðstefnunni var einnig fjallað um staðbundin áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi og hvernig þurfi að bregðast við þeim. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur flutti erindi um loftslagsbreytingar á Íslandi, Snævarr Guðmundsson náttúrulandfræðingur fjallaði um jöklabreytingar og Steinunn Hödd Harðardóttir starfsmaður Vatnajökulsþjóðgarðs sagði frá þjóðgarðinum og áhrifum loftslagsbreytinga á starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs. Fundinum stýrði Helga Árnadóttir, þjóðgarðsvörður á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs, og var mæting góð og var aðstaðan í Hoffelli til fyrirmyndar.   

Vefur verkefnisins er http://climate.interreg-npa.eu/

Ríkisútvarpið fjallaði um ráðstefnuna í hádegisfréttum þann 22.11.2019 og tekið var viðtal við Kristínu Hermannsdóttur, forstöðumann Náttúrustofu Suðausturlands en hún hefur leitt verkefnið fyrir hönd Íslands (viðtalið hefst á elleftu mínútu): RUV-hádegisfréttir.

Í þættinum Samfélagið á Rás 1 þann 25. nóvember var viðtal við Kristínu H. um CLIMATE-verkefnið og fleira tengt Náttúrustofunn (viðtalið hefst á 23 mínútu): RÁS1-Samfélagið.

Fjallað var um ráðstefnuna í Eystrahorni í 42. tölublaði 2019 og á vef blaðsins. 

Ráðstefnugestir í Hoffelli, í baksýn má sjá Hoffellsjökul, en hann hefur minnkað ört síðustu áratugi.  Ljósm. Michelle Coll.
Snævarr Guðmundsson flytur erindi um jöklabreytingar á ráðstefnunni. Ljósm. Kristín Hermannsdóttir.
Ráðstefnugestir hlýða á erindi Jennie Sandström í Hoffelli á CLIMATE ráðstefnu 22. nóvember 2019. Ljósm. Lilja Jóhannesdóttir.
Verkefnahópurinn í heimsókn á Bessastöðum, hjá Hr. Guðna Th. Jóhannessyni forseta. Ljósm. Michelle Coll.