Náttúruvernd og efling byggða: Skarðsfjörður og Núpsstaðarskógar.
Náttúrustofa Suðausturlands lauk nú í desember við verkefni sem unnið hefur verið að frá haustinu 2019. Verkefnið snerist um framtíð Skarðsfjarðar og Núpsstaðarskóga. Það var unnið að frumkvæði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og er hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar um sérstakt átak í friðlýsingum en verkefnið er einnig hluti aðgerða byggðaáætlunar (hluti C-9). Óskað var eftir greiningu á tækifærum og mögulegum ávinningi í héraði af þjónustu sem byggist á nýtingu og umsjón friðlýstra svæða, svo sem í náttúrutengdri ferðaþjónustu.
Vorið 2019 gerðu Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) og umhverfis- og auðlindaráðuneytið verksamning um verkefnið og auglýsti SASS eftir þátttakendum og sóttist Náttúrustofan eftir þátttöku og fékk. Síðari hluta sama árs var gerður samningur milli SASS og Náttúrustofu Suðausturlands þar sem úthlutað var styrk til að vinna verkefni um tvö svæði, Skarðsfjörð og Núpsstaðarskóga. Verkefnastjóri beggja verkefna var forstöðumaður Náttúrustofu Suðausturlands en verkið var unnið af sérfræðingum stofunnar á Höfn og á Kirkjubæjarklaustri.
Verkefninu var skipt niður í þrjá hluta; í fyrsta hluta verkefnisins var greint frá þeim náttúruverndarsvæðum tekin voru fyrir, annars vegar Skarðsfjörður sem liggur austan Hafnar í Hornafirði og hins vegar Núpsstaðarskógar í Skaftárhreppi. Í öðrum verkhluta var sjónum beint að því hvaða hagrænu áhrif friðlýst svæði hafa á nærsvæði og birtar mismunandi sviðsmyndir af hvoru svæði, til að leggja mat á möguleg hagræn áhrif ef svæðin eru friðlýst eða verndun þeirra aukin og út frá mismunandi þróun í fjölda ferðamanna. Í þriðja verkhluta voru haldnar vinnustofur þar sem ógnir og tækifærir hvors svæðis fyrir sig voru greindar. Vinnustofurnar voru opnar öllum áhugasömum og í kjölfarið unnin skýrsla út frá því sem fram kom.
Eitt af því sem er áberandi í lok verkefnis er hvernig stofnanir í heimabyggð, eins og til dæmis náttúrustofur, geta þjónað sem hlutlaus tengiliður á milli hagaðila og stjórnsýslunnar. Með slíkum verkefnum færist þátttaka og ábyrgð meira heim í hérað sem við teljum jákvætt. Einnig má velta vöngum um hvort að mögulega séu íbúar svæðisins séu líklegri til að bera traust til stofnunar sem það þekkir betur til heldur en stofunun sem er þeim fjær. Skýrslum úr verkhlutunum þremur var öllum skilað til SASS við lok verkhluta og eru nú aðgengilegar á vef Náttúrustofu Suðausturlands undir útgefið efni.